Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1976/ Þorsteinn Kr. Þórðarson, stýrimannaskólakennari

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Þorsteinn Kr. Þórðarson

Stýrimannaskólakennari

Þótt mörg ár séu liðin síðan móðurbróðir minn, Þorsteinn Kristján Þórðarson, lést hefur nú þótt tilhlýða að Sjómannadagsblað Vestmannaeyja geymdi nokkur minningabrot um hann.
Þorsteinn var fæddur í Reykjavík 18. mars 1917 og þar lést hann snöggt 30. maí 1960. Foreldrar hans voru Gestheiður Árnadóttir og Þórður Aðsteinn Þórsteinsson, skipstjóri. Árið 1939 fluttist hann til Vestmannaeyja og hóf sjóróðra hjá föður mínum, en í þessari byggð starfaði hann sem sjómaður við mjög góðan orðstír til ársins 1946, er hann fluttist til Reykjavíkur og gerðist kennari við Stýrimannaskólann í Reykjavík. Og þar starfaði hann til dauðadags.

Fyrst hér í Eyjum var Þorsteinn háseti, en eftir að hann lauk hinu minna fiskimannaprófi á námskeiði hér í ársbyrjun 1943, gerðist hann stýrimaður á Metu VE 236 hjá Willum Andersen. Hann var síðan stýrimaður og skipstjóri á ýmsum skipum, m. a. hvalbátum öll sumur meðan hann starfaði sem kennari.
Sem stýrimaður þótti öllum, sem með honum voru hann vera afburðarmaður sem stjórnari á allri vinnu og fyrir áhuga á öllu, sem var að ske. Annars er best að heyra, hvað þeir sem með honum voru hafa um það að segja.

Óskar Gíslason frá Skálholti, fyrrum skipstjóri á Álsey, en hjá honum var Þorsteinn mörg sumur stýrimaður á síldveiðum fyrir Norðurlandi hefur sagt mér: — Hann var sérstakur að skipuleggja og stjórna allri vinnu. Ég man sérstaklega í því sambandi að hífa upp og fíra nótabátum. Hann var líka sérstakur ferðamaður á sjó.
Það var þægilegt fyrir mig eftir langar vökur við veiðiskapinn, að trúa honum fyrir drekkhlöðnu skipinu hvenær sem var á landstímum.

Hermann Pálsson, bílstjóri, Vallargötu 16, var háseti á Álsey, segir: — Hann var afburða stýrimaður, svo var hann svo skynsamur, hann vissi bókstaflega allt.
Á þessum árum var Álsey ávallt með aflahæstu skipum íslenska flotans á síldveiðum.
Eins og sumra athugulla og greinargóðra manna er háttur, hélt Þorsteinn dagbók um sjómennsku sína. Enda var það með eindæmum hvað hann mundi, en við færslu greinargóðrar dagbókar hafa atburðir fest enn betur í þessum gáfaða manni. Það var ekki nóg með að hann lýsti atburðum á eigin skipi heldur á aflabrögðum almennt. Sjóslysum segir hann frá eins og sá einn getur, sem gott hjartalag hefur.
Ég ætla að gefa lesendum smá sýnishorn af dagbókarhaldi Þorsteins frá vetrarvertíðinni 1943, en þá var hann stýrimaður hjá Willum á Metu:
— Þriðjud. 23. febr. Enn er landlega. Vestan rok með byl. Það er farið að kvisast að Belgum hafi strandað undir Svörtuloftum. Vonandi er þetta skröksaga og Belgum að bera björg í bú íslendinga.
— Föstudagur 26. febr. m. a.: Belgummálið er nú leyst öllum í hag, því hann siglir enn um höfin heill á húfi. Lifi hann sem lengst.
Sunnud. 7. mars: Það hefur verið siður undanfarið að róa ekki á sunnudögum. Þetta hafa flestir haldið. Það viðrar eins og vant er, ruddi úr hafi, slæmt sjóveður. Ég veit ekki svei mér hvað um mann verður, ef tíðin fer ekki að batna og fiskur að koma. Við, sem erum á togbátum erum búnir að hafa í mesta lagi fjögur hundruð krónur í hlut og þykja það litlir peningar nú til dags. Það er betra hjá línubátunum, því þeir eru búnir að hafa 1000—3500 kr. hlut og er það síðasta dágott. Batni tíðin efast ég ekki um að togbátarnir hafa sig upp og segja mætti mér, að þeir bæru hæstan hlut frá borði, sem á þeim eru.
Laugard. 3 apr. m. a.: Nú er þó aðeins kominn vottur af fiski. Við fengum fyrst fisk undir Sandi, síðan vestur með Mel, en best hefur það orðið hjá okkur við Sandahraunið. Nú hefur borið að sama brunni með veðrið; SV óveður.

Á vetrarvertíðinni 1944 var Þorsteinn stýrimaður hjá Knud Andersen á Metu.
— 7. mars m. a.: Það hefur fiskast meira á línuna undanfarið, en nokkru sinni fyrr. Sumir bátar hafa komist í 20 tonn í róðri. Það hæsta, sem ég hef heyrt er 22 tonn af óhausuðum en slægðum fiski og fékk Friðrik Jónsson það. Þá fékk Freyja 20 tonn á 28 stampa. Undanfarið hefur gengið óvanalega vel hjá trollbátunum, þó það sé eins og mýfluga hjá fíl í samanburði við línuna. Við á Metu erum búnir að fá 54 tonn og megum við vel við una í samanburði við marga aðra.
— 12. apríl m. a.: Við vorum undir Sandi í gær og fiskuðum vel. Þá fengum við okkar stærsta hal, það voru 16 pokar, þeir voru allir stórir, en ég hugsa að það hafi verið um 6½ tonn. Þetta var úti af strandinu. Við toguðum í austur, en næsta hal toguðum við í vestur, þá fengum við aðeins 2 poka og næst fengum við 6 poka. Það fór að bræla þegar leið á daginn og tók af allt sjóveður. Hann var V og svo NV. Nú þegar þetta er skrifað er kominn N-garri og kvíði ég kuldanum, því þetta er versta veður, sem fæst á sjó. Það eina sem getur bjargað er gott fiskirí og ég vona að það verði.

Að lokum nokkur orð úr dagbók Þorsteins eftir mikil sjóslys:
„Nú hefur geisað hið versta veður og ekkert útlit fyrir sjóveður í nótt. Það er stórt skarð, sem höggvið hefur verið í íslenska sjómannastétt nú. Þetta er með mestu sjóslysum, sem orðið hafa hér við land. Það er því margur, sem hefur um sárt að binda. Sumar konur hafa misst menn sína, aðrar unnustann eða soninn. Börnin hafa orðið föðurlaus og er það sorglegast af öllu. Ekki af því að barnið finni eins mikið til við fráfallið, þegar það verður, eins og móðir, kona eða unnusta, heldur af því, að þau börn, sem missa fyrirvinnuna í þessu þjóðfélagi eru dæmd þeim dómi, sem er þyngstur allra dóma. Þau eru dæmd til þess að hefja lífsbaráttuna áður en þau eru fær um það. Þegar þau eru stálpuð eru þau látin fara að vinna og púla til að aura saman handa fátækri móður og sér. Þau veiku verða undir í þessari baráttu, þau verða þrælar annarra alla tíð, enda þótt þau hefðu getað orðið sínir eigin herrar. Þau sterku geta orðið ofan á og þá verða þau oftast vel ofan á. Ég vona því, að þau börn, sem misst hafa feður sína í þessu óveðri eigi góðar mæður, sem varðveita þau frá því skaðlega að hefja lífsbaráttuna mörgum árum áður en þau geta. Annars ættu þjóðfélögin, sem byggja þennan heim að vera komin svo langt 1944 árum eftir Kristburð, að þau sæju fyrir föðurlausum börnum og það er von mín að það verði fyrr en seinna, sem það verður kallað skylda að styrkja þau, en ekki kallaður sveitarstyrkur með niðrandi hljómi hjá þeim, sem mega sín betur þá stundina. Guð blessi minningu þeirra drukknuðu og varðveiti þá, sem eftir lifa."

Já, svona skrifaði þessi íslenski sjómaður í dagbók sína. Lýsir þetta vel hugarfari hans og lífsviðhorfi.
Fátækleg orð mín bæta þar ekki um.

Þorsteinn lauk prófi frá héraðsskólanum á Laugarvatni 1933 og Hinu minna fiskimannaprófi hér í Eyjum 1943, eins og áður segir. Próf úr fiskimannadeild Stýrimannaskólans í Reykjavík 1945 og úr farmannadeild 1946.

Eftir frábæran námsárangur úr báðum þessum deildum, þar sem hann varð hæstur, bauðst honum kennarastaða við Stýrimannaskólann veturinn 1946 — 1947. Og eftir þann vetur bauðst honum styrkur til þess að auka við þekkingu sína í skipstjóradeild Köbenhavn Navigationsskole 1947 — 1948.
Það fór eins í Kaupmannahöfn og í Reykjavík, að hann varð hæstur á lokaprófi og til gamans má geta þess, að þrátt fyrir að stærðfræði, siglingafræði og þá einkum stjörnufræði væru hans uppáhalds fög, þá varð hann hæstur í danskri málfræði þarna með dönum. Að sjálfsögðu tók hann námið eins föstum tökum og annað, sem hann tók sér fyrir hendur. Fremst í eina af reikningsbókum sínum, sem ég hef undir höndum, hefur hann skrifað: „Það sem í mig er skrifað er ekki til að gleymast, heldur til að hjálpa til við að muna."

Haustið 1947 byrjaði hann svo fyrir fullt og fast sem kennari við Stýrimannaskólann í Reykjavík. Fyrir störf sín í skólanum mun hans lengst verða minnst. Nemendum sínum verður hann ógleymanlegur fyrir miklar og skemmtilegar gáfur og afburðamanns sem kennari. Það voru áreiðanlega ekki margir, sem komu oftar en einu sinni ólesnir í tíma til hans.
Íslenskir sjómenn, sem höfðu hann fyrir kennara, bera allir mikinn hlýhug til hans.
Ég vil í lokin geta þess í Sjómannadagsblaði Vestmannaeyja, hversu nemendur, sérstaklega úr Vestmannaeyjum, áttu ávallt góðan aðgang að heimili þeirra Stellu í Reykjavík, ef þeir þurftu á aukatíma að halda.

Þorsteinn kvæntist 31. maí 1941 Guðfinnu Sigurlilju (Stellu) Eyvindsdóttur Þórarinssonar (skipstjóra og hafnsögumanns) og konu hans Sigurlilju Sigurðardóttur. Hún er nú aftur búsett hér í bæ. Þau eignuðust 4 dætur, Lilju, Aðalheiði, Elísu og Eygló, sem allar eru giftar og Lilja sú elsta, er búsett hér, gift Gylfa Sigurjónssyni, bankamanni.

Friðrik Ásmundsson