Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1975/Slysavarnadeildin Eykyndill

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Slysavarnadeildin Eykyndill


Slysavarnadeildin Eykyndill var stofnuð 25. marz 1934, og hefur því um þessar mundir gengið rúmlega eitt ár inn á fimmta áratuginn. Eykyndill er, eins og aðrar slysavarnadeildir kringum allt land, partur stærri heildar, sem er Slysavarnafélag Íslands.
Slysavarnafélag Íslands er sá grundvöllur, sem öll björgunarstarfsemi við strendur landsins hvílir á, og þannig hefur það verið um áraraðir. Þeir eru ekki fáir sjómennirnir, innlendir og útlendir, sem eiga líf sitt að launa einhverju því, sem rekja má til starfsemi Slysavarnafélags Íslands.
Starfsemi félagsins hefur í gegnum árin kostað mikið fé. Aðal tekjulindin hefur frá upphafi verið fjáröflunarstarfsemi slysavarnadeildanna víðs vegar um landið, enda hafa þeir fjármunir, sem deildirnar hafa safnað, mestan partinn gengið til sameiginlegra þarfa. Án þessa samstarfs og samhjálpar hefði Slysavarnafélag Íslands að líkindum aldrei orðið annað og meira en orðin tóm.

Stjórn Slysavarnardeildarinnar Eykyndils. Fremri röð frá vinstri- Gerður Sigurðardóttir, Anna Halldórsdóttir formaður, Sigríður Björnsdóttir. Aftari röð fá vinstri: Gyða Steingrímsdóttir, Lára Þorgeirsdóttir, Rósa Magnúsdóttir, Eygló Einarsdóttir.

Slysavarnadeildin Eykyndill hefur frá upphafi verið ein af styrkustu stoðum Slysavarnafélags Íslands. Þannig hafa um það bil þrír fjórðu hlutar hins mikla fjár, sem deildin hefur safnað, gengið til Slysavarnafélagsins. Þeim hluta tekna sinna sem ekki hefur runnið í þessa sameiginlega sjóð, hefur Eykyndill varið til margra góðra hluta hér heima fyrir. Sem dæmi mætti nefna margskonar björgunarbúnað, sem deildin hefur fært um borð í björgunar- og hafnsögubátinn Lóðsinn, og nú seinast fullkomið fluglínutæki af nýjustu gerð.
Eykyndilskonur hafa birgt upp skipsbrotsmannaskýlið í Faxaskeri af skjólfatnaði. Þær hafa lagt stórfé til reksturs sjómannastofu í Eyjum. Þær hafa keypt og útbýtt vönduðum öndunartækjum um borð í hvern einasta fiskibát í Eyjum og í Stýrimannaskólann og Vélskólann, til Skátafélagsins Faxa og í sjúkrabílinn. Þær hafa lagt fram fé til reksturs á sjúkrabíl. Þær hafa gefið útvarpstæki í elliheimilið Hraunbúðir, o.s.frv. Þannig mætti áfram lengi telja. Og nú seinast gáfu þær þrjár mjög fullkomnar sjúkratöskur í nýja sjúkrahúsið. Töskur þessar innihalda öll nauðsynleg tæki til notkunar, ef slys ber að höndum á sjó eða landi. Þær eru staðsettar í sjúkrahúsinu, innsiglaðar og alltaf tilbúnar.
Að lokum mætti svo nefna sundlaugarsjóð deildarinnar, sem er nú u.þ.b. 700.000 kr.
Þá er ótalinn sá þáttur í starfsemi Slysavarnadeildarinnar Eykyndils, sem væntanlega verður ekki talinn ómerkastur, en það eru afskipti deildarinnar í sambandi við framkvæmdir og tilhögun ýmiss konar á almannafæri, með tilliti til slysahættu og slysavarna. Deildin hefur oftsinnis staðið í bréfaskriftum til viðkomandi aðila og venjulega orðið allvel ágengt.
Til að varpa sem skýrustu ljósi á þennan þátt í starfseminni birtist hér eitt ábendingarbréf, sem deildin sendi nýlega frá sér.

“Vestmannaeyjum, 29. marz 1975.

TIL HAFNARNEFNDAR VESTMANNAEYJAKAUPSTAÐAR.

Fjölmennur fundur Slysavarnadeildarinnar Eykyndils, haldinn 19. marz 1975, beinir þeim tilmælum til hafnarnefndar, að kanturinn norðan við Fiskiðjuna verði girtur.
Þetta svæði er sérstaklega hættulegt börnum, sem ekki gera sér alltaf grein fyrir hættunum. Enda hafa þarna orðið slys. Við væntum þess vinsamlegast, að úr þessu verði bætt hið bráðasta.
Þá leyfir deildin sér að benda á hve hættuleg hornin í Friðarhafnardokkinni eru allri umferð, og þá sérstaklega vesturhornið í suðurdokkinni. Nauðsynlegt er að setja einhvers konar hlífar á hornin og mála þær gular. Sömuleiðis má benda á hornið austaná Básaskersbryggju, þar sem Lóðsinn liggur. Það horn var áður varið, en er það ekki lengur. Ennfremur vill deildin vinsamlegast mælast til þess að allir festipollar á bryggjunum verði málaðir gulir, svo og ljósastaurarnir að neðan. Þeir hafa að vísu áður verið málaðir gulir. En sú málning má nú heita öll farin af þeim. Þetta er sjálfsögð vartíðarráðstöfun fyrir alla umferð um bryggjurnar. Þess er vænst, að ábendingar þessar verði teknar til greina.

Virðingarfyllst,
F.h. Slysavarnad. „Eykyndill“
Anna Halldórsdóttir
formaður“

Frú Elínborg Gísladóttir í Laufási sat lengst allra í stjórn Eykyndils. Hún var kjörin í fyrstu stjórnina og sat í stjórn óslitið í 30 ár. Margar aðrar konur hafa einnig lagt virka hönd á plóginn um árabil, í stjórn og við önnur nauðsynleg störf, þótt engin hafi enn skilað jafnlöngu óslitnu starfi. Og margar konur eiga vonandi ennþá eftir að koma eftirminnilega við sögu Eykyndils, um mörg ókomin ár, sjómannastéttinni, byggðarlaginu og þjóðinni til blessunar.
Sjómannadagsblaðið þekkir ekki aðra ósk meira áríðandi til handa sjómannastéttinni á sjómannadaginn, en að blessun Guðs megi fylgja óeigingjörnum störfum slysavarnafólks á Íslandi, framvegis sem hingað til.
Z.