Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1975/Hrakningar og sjóslys við Vestmannaeyjar

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Hrakningar og sjóslys við Vestmannaeyjar


Jón Sigurðsson

Höfundur þessara þriggja frásagna, Jón Sigurðsson Vestmannabraut 73, er lesendum þessa blaðs svo að góðu kunnur á liðnum árum, að vart er þörf á að kynna hann frekar. Jón hefur ósleitilega lagt til efni í blaðið og hefur einkum rakið hina miklu slysasögu á fyrstu árum vélbátanna í Vestmannaeyjum og langt fram eftir öldinni. Hafa greinar þessar vakið verðskuldaða athygli.

Í tilefni 75 ára afmælis Jóns, sem var á liðnum vetri, er þó rétt að kynna Jón nokkru frekar og þakka honum allt gamalt og gott, elju og áhuga við blaðið. Jón Sigurðsson fæddist að Miklaholti á Snæfellsnesi 12. febrúar árið 1900. Foreldrar hans voru Sigurður Jónsson frá Syðstu-Mörk undir Eyjallöllum og Margrét Gísladóttir frá Saurum í Helgafellssveit.

Jón ólst í fyrstu upp hjá föður sínum, og síðar nafna sínum og afa, Jóni Sigurðssyni bónda og hreppstjóra á Syðstu-Mörk og síðari konu hans Sigríði Jónsdóttur frá Vestur-Holtum, en foreldrar Jóns fluttust rétt eftir aldamótin til Bandaríkjanna og settust að í Norður Dakóta, árið 1901 í sveit er nefnist Riverdal eða Árdalur, skammt frá borginni Minot, cisamt tveimur börnum sínum, sem þar ílentust.

Við Beituskúra niður á pöllum. Talið frá vinstri: Sigurður Bjarnason Búlandi, Jón Sigurðsson Múla (nú Vestmannabraut 73), Sigurður Sigurðsson Melstap, Jónatan Snorrason Breiðholti.

Á æskuárum dvaldist Jón einnig á Fit og hjá föðurbróður sínum Jóni Jónssyni bónda að Sauðhúsvelli. Honum leið vel hjá nafna sínum, sem var ókvæntur og mállaus. En Jón á Sauðhúsvelli var á vertíðum hér í Eyjum og reri m.a. á Frið með Gísla Eyjólfssyni á Búastöðum, og var vel látinn af öllum fyrir dugnað og glaðlyndi.

Hingað út til Vestmannaeyja kom Jón Sigurðsson á æskuárum og gekk í barnaskóla hér, og hefur hann dvalizt í Eyjum síðan. Hann átti heimili hjá föðursystur sinni Kristínu Jónsdóttur og manni hennar Jónasi Jónssyni að Múla, en þau voru þekkt sæmdarhjón á sinni tíð; foreldrar Bergsteins fyrrum hafnarvarðar.

Jón stundaði sjómennsku frá 18 ára aldri, þar til hann var 37 ára gamall, en stundaði síðan ýms verkamannastörf jafnframt búskap og hefur oft haft á hendi verkstjórn og fiskmatsstörf.
Á styrjaldarárunum síðari, er höfnin hér var alltaf full af skipum, sem lestuðu ísvarinn fisk á markað í Bretlandi, var Jón einatt lestarstjóri og fórst það sem annað vel úr hendi.

Á sjómannsárum sínum reri Jón mörg sumur frá Austfjörðum og í tæpt ár var hann á togaranum Snorra goða frá Reykjavík. Jón var einnig í útgerð á þessum árum og átti mótorbátinn Gamm ásamt öðrum í 14 ár. Voru meðeigendur hans Ágúst á Aðalbóli, Torfi í Áshól o.fl.
Jón kvæntist árið 1922 Karólínu Sigurðardóttir, sem ættuð er undan Eyjafjöllum, og hafa þau eignast fjögur börn.

Jóni Sigurðssyni er í blóð borin fróðleiksfýsn og fræðagrúsk. Hann er maður vel greindur, stálminnugur og lesinn. Getur Þorsteinn Jónsson í Laufási þess sérstaklega í inngangi að ágripi af útgerðarsögu Vestmannaeyja 1890-1930, Aldarhvörf í Eyjum, að Jón hafi veitt sér ómetanlega aðstoð og látið í té margháttaðar upplýsingar munnlega auk skrifaðra gagna.
Jón hefur talið upp formenn á vélbátum í Vestmannaeyjum og birt stutt árgrip af sögu þeirra. Birtust greinar þessar ásamt myndum af formönnum og teikningum hans af bátunum í Sjómannablaðinu Víkingi.

Jón er traustur maður, grandvar og vandvirkur í heimildasöfnun. Ritstjóri blaðsins þakkar Jóni gott framlag hans til blaðsins og ánægjuleg kynni. Við þökkum honum varðveizIu liðinna atburða og sagna og óskum honum alls hins bezta með hækkandi sól.