Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1974/ Heimsigling frá Danmörku til Vestmannaeyja haustið 1924

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Eyólfur Gíslason
Heimsigling frá Danmörku til Vestm.eyja haustið 1924



~ Í síðasta Sjómannadagsblaði var grein um heimsiglingu vélbáta til Vestmannaeyja frá Norðurlöndunum.
~ Hér á eftir fer saga heimsiglingar eins þessara báta, rituð af einum skipverja, Eyjólfi Gíslasyni fyrrv. skipstjóra, Bessastöðum.


HAUSTIÐ 1924 var siglt híngað tíl Vestmannaeyja tveimur bátum frá Danmörku. Bátarnir voru rúma 11 sólarhringa á leiðinni frá Frederikssundi á Sjálandi, þar sem þeir voru smíðaðir. Þetta voru vélbátarnir Soffí VE 266, sem var 13,88 rúmtonn að stærð með 36 hestafla Danvél, tveggja strokka, og Sísi VE 265, sem var 13,17 rúmlestir að stærð, sömuleiðis með tveggja strokka 36 ha. Dan-vél.
Á bátunum voru þessir skipverjar: Á Soffí voru: Jóhann Jónsson Suðurgarði, skipstjóri, Andrés Einarsson Kirkjubæ (síðar Baldurshaga) vélstjóri, Finnbogi Finnbogason Bræðraborg (síðar Vallartúni) og Guðjón Tómasson Gerði.

Firth of Fourth Brúin.

Á Sísí voru: Lúðvík N. Lúðvíksson skipstjóri, Pétur Andersen Sólbakka vélstjóri, Eyjólfur Gíslason Búastöðum (síðar Bessastöðum) og Einar Jónsson Háagarði. (Einar fórst með allri sinni áhöfn á m/b Mínervu VE 241, í austan fárviðri 24. janúar 1927. Hann var góður sjómaður, mikill fiskimaður og ógleymanlega góður félagi).

Gísli J. Johnsen átti báða þessa báta og allir vorum við ráðnir upp á fast kaup, skyldi það vera óbreytt hvort sem ferðin tæki langan eða skamman tíma. Skipstjórar höfðu kr. 500 í kaup, vélstjórar kr. 400 og og hásetar kr. 200; vorum við þó skráðir á bátana sem stýrimenn og annar vélstjóri. Mjög var eftirsótt að komast í þessar ferðir, og fengu færri en vildu. Að sjálfsögðu höfðum við fría ferð út og allt uppihald, fæði og húsnæði var frítt meðan beðið var eftir að lagt yrði af stað heimleiðis. Það fylgdi okkar kaupsamningum að mega dvelja tvo daga í Kaupmannahöfn, áður en farið yrði til Frederikssund.

E.s. Gullfoss - á Ytri-Höfninni í Vestmannaeyjum 15. apríl 1915. Fyrsti viðkomustaður. Koma skipsins boðaði nýja tíma í siglingamálum Íslendinga. „Streymdu vélbátar Vestmannaeyinga út fánum skreyttir til þess að bjóða hann velkominn,“ segir í samtíma frásögn um komu skipsins.

Farið var héðan með e/s Gullfossi að morgni dags 29. ágúst í blíðuveðri. Við vorum 7, sem héldum hópinn, því að Pétur Andersen var farinn nokkru fyrr út til Frederikssund og dvaldi hann þar hjá foreldrum sínum, fimm bræðrum og fleira ættfólki, er hann átti þar.

Það hafði verið pantað pláss fyrir okkur á öðru farrými Gullfoss, en það var allt upptekið strax í Reykjavík, svo að okkur var vísað til svefns og veru í reykinga- og setusal annars farrýmis, sem var aftur á skipinu, ofan þilfars. Úr setubekkjum salarins voru gerðir 8 svefnbekkir yfir nóttina. Svefnfélagi okkar varð Jón Guðmundsson frá Stóra-Hofi á Rangárvöllum, en hann var þá að fara í verzlunarskóla í Danmörku. Jón hafði í nokkurn tíma unnið við skrifstofustörf hér á Tanganum hjá Gunnari Ólafssyni & Co., svo að hann var okkur flestum kunnugur. Þarna leið okkur prýðilega. Mikið var spilað brids (bridge) og fleira sér til gamans gert á útleiðinni.

Á fyrsta farrými skipsins var einnig fullsetinn bekkurinn. Þar var Gísli Magnússon í Skálholti, sem þá var að láta smíða fyrir sig bát í Danmörku. Var það m/b Haraldur VE 246, sem var 25 tonn að stærð. Ferðalag Gísla og félaga hans hingað til Eyja frá Danmörku var allsögulegt, en þeir hrepptu vond og hörð veður og fóru nær alla leið á seglum, en fyrsta landsýn þeirra var Snæfellsjökull. Gísli hafði þá sem oftar sýnt mikla sjómennsku og hugrekki, því að oft hafði hann tekið við allri stjórn, þegar verst leit út.

Eyjasjómenn í Kaupmannahöfn árið 1924. Talið frá vinstri: Jóhann Jónsson, Guðjón Tómasson, Eyjólfur Gíslason, Finnbogi Finnbogason, Lúðvík N. Lúðvíksson, Andrés Einarsson, Einar Jónsson.


Gísli var tíður gestur í okkar híbýlum, ásamt fleirum af fyrsta farrými, svo sem Sveinbirni Högnasyni, er síðar varð prestur og prófastur á Breiðabólstað í Fljótshlíð. Hann var þá að fara út til frekara náms, ásamt fleiri stúdentum og lærdómsmönnum. (Séra Sveinbjörn varð síðar tengdasonur þeirra mætu hjóna, Elínborgar og Þorsteins í Laufási).
Sjóferðin yfir hafið á gamla Gullfossi gekk vel, og leið okkur þar ágætlega um borð, fengum við gott veður alla leiðina. Fyrsti viðkomustaðurstaður skipsins var hafnarborgin Leith í Skotlandi og var dvalið þar á annan sólarhring.
Með þessari ferð Gullfoss voru fluttir út 20 til 30 ungir hestar, tveggja til fimm vetra. Margir þessara hesta voru mjög fjörlegir og vel vaxnir.
Hestarnir voru afbásaðir í efri framlest og val þeirra mjög vel gætt og vel um þá hugsað, en mörgum hestanna leið illa af sjóveiki. Öllum var þeim skipað upp í Leith og var sagt, að þeir ættu að fara niður í ensku kolanámurnar og draga þar kolavagna.
Á meðan dvalið var í Leith, notuðum við tímann og fórum til Edinborgar, sem er nokkru ofar og lengra frá sjó. Skoðuðum við okkur þar um og víðar í nágrenni þessarar fallegu höfuðborgar Skota.
Það fyrsta, er okkur var starsýnt á, þegar Gullfoss hafði lagst að bryggju í Leith, voru hinir stóru skosku hestar, er voru þar á hafnarbakkanum. Hestarnir voru notaðir til að draga stóra vagna, sem hafðir voru til vöruflutninga að og frá skipunum við fermingu og losun. Mikil og þung hlöss voru látin á vagnana.
Uppi í Edinborg var margt nýstárlegt og merkilegt að skoða, enda er borgin rómuð fyrir fegurð og margir frægir sögustaðir. Má hér nefna rústir Holyroodkastalans, minnismerki Sir Walter Scott og hinn undurfagra garð við aðalgötuna Princess Street; en þar í einu horni garðsins var og er víst enn hin sérstæða blómaklukka. Öðrum megin lystigarðsins gnæfir hinn víðfrægi Edinborgarkastali á háum, grasi grónum hamri. Við fórum upp í kastalann og skoðuðum þar hin gömlu hernaðar- og vopnasöfn, skoska konungsskrúðann, ásamt fleiru. Einnig fórum við að Firth of Forthbrúnni og skoðuðum það mikla mannvirki og furðuverk þátímans.
Frá Leith til Kaupmannahafnar fengum við dásamlega gott veður. Síðasta kvöldið um borð í skipinu var góður sameiginlegur gleðskapur hjá öllum farþegunum, sem haldinn var í salarkynnum fyrsta farrýmis.
Næsta dag var siglt inn Eyrarsund í sólskini og blíðu með hrífandi fögru útsýni á bæði borð til tveggja landa; Danmerkur og Svíþjóðar.
Í Kaupmannahöfn gistum við á stóru og góðu hóteli, hótel Danía. Þá tvo daga, sem við dvöldum í borginni, fórum við í Carlsbergsafnið, Dýragarðinn, Tívolí og á sirkussýningu. Höfðum við ógleymanlega ánægju af að koma á alla þessa staði. Annað kvöldið, sem við vorum í Kaupmannahöfn fórum við í Nýhöfnina til að skoða lífið á ölknæpunum þar, en ekki urðum við hrifnir af því, sem við sáum. Ávallt héldum við allir hópinn og enginn okkar bragðaði sterk vín á meðan við dvöldum í Danmörku. Má það ef til vill sérstakt kalla, því að enginn okkar var þó „gútemplar“, en Gamla Carlsberg og Túborg brögðuðum við stöku sinnum.
Frá Kaupmannahöfn til Frederikssund fórum við í járnbrautarlest og var það ánægjuleg ferð, því að á allri þeirri leið var fallegt um að litast; hvergi var að sjá óræktaðan blett, en víða var farið fram hjá skógarbeltum og reisulegum búgörðum og bændabýlum.
Þegar við komum til Frederikssund vantaði mikið á, að bátarnir væru fullbúnir til heimferðar og urðum við að dvelja þar á þriðju viku þar til bátarnir yrðu ferðbúnir til siglingar heim. Okkur leið vel í Frederikssundi og héldum við til á gistihúsi járnbrautarstöðvarinnar, en fæði höfðum við hjá gamalli konu, sem bjó í húsi þar skammt frá; mátti með sanni segja, að hún kleip ekki úr okkur beinin.
Vélarnar í bátunum voru fjórgengisvélar, mjög þungbyggðar, hávaðasamar og fyrirferðarmiklar. Til þess að deyfa þennan mikla hávaða var sú nýbreytni gerð á vélunum, að þær áttu að „pústa“ upp um afturmastrið, sem var 4ra tommu járnrör og var útblásturinn frá vélunum leiddur í járnrörum í mastursrörið neðan þilfars. Í þeim rörum var komið fyrir einhvers konar hljóðdeyfum, en sá útbúnaður bilaði algjörlega, þegar farið var að reyna vélarnar áður en átti að leggja af stað heimleiðis og tafði þetta okkur í tvo daga. Venjan var að smíða svonefnda hljóðdúnka með þessum vélum. Hljóðdúnkarnir voru mjög þungir og fyrirferðarmiklir og voru festir við útblástursholin á strokkum vélanna til bakborða. Ofan á hljóðdúnkunum var og með kraga (flans), þar sem púströrinu var fest við.

Þar sem dregist hafði í tímann að búa bátana út og farið að líða á haustið var ákveðið að hafa vélarnar hljóðdúnkslausar, þó að illt væri. En hávaðinn af vélinni var svo mikill á keyrslu, að við urðum að troða vélartvisti í eyrun til að þola hávaðann alla heimleiðina.

Dan-vélarnar eyddu mjög mikilli olíu. Tveir olíugeymar voru í hvorum bát og munu hafa tekið samtals 400-500 lítra. Til heimferðarsiglingar upp til Íslands voru teknar 25 eða 30 steinolíutunnur um borð. Þetta voru eikartunnur, sem tóku hver um 200 lítra. Tunnurnar voru látnar í lestina, en 8 til 10 voru hafðar ofan þilja. Þær voru súrraðar við lunninguna og látnar þar aftur, þegar úr þeim hafði verið losað á geymana. Þegar heim kom voru þessar tunnur eftirsóttar í línustampa.
Á þessum tíma var ekki farið að raflýsa báta; voru því siglingaljósin steinolíulugtir, sem ljósin drápust oft á, þegar kominn var stormur.
Þriðjudaginn 23. september klukkan hálf tvö eftir hádegi lögðu báðir bátarnir af stað heimleiðis. Fyrir höndum lá rúml. 1100 sjóm. leið frá Frederikssundi til Vestmannaeyja. Komið var við í Hundested, sem er utar í Ísafirðinum. Þar var réttur af áttavitinn og tók það ekki langan tíma. Klukkan hálf sex síðar um daginn var komið út úr Ísafirðinum. Við ystu baujuna þar var stefnan sett á eyjuna Hlésey (Læsö), sem er í Kattegat, innan Jótlandsskaga og var stýrt NV YA V. Vegmælir var settur út og skipt var vöktum. Á Sísí voru tvískiptar vaktir og voru vaktfélagar Lúðvík og Einar og svo Pétur og Eyjólfur. Voru hafðar hinar svokölluðu skútuvaktir, og ætla ég að segja frá þeim hér, því að fáir sjómenn munu nú þekkja til þeirra eða vita hvernig þeim var tilhagað.
Vaktirnar voru fimm á sólarhring. Þær höfðu eftirtalin nöfn og var skipt þannig frá miðnætti:
Hundavakt frá miðnætti til kl. 4.
Stutta vakt frá kl. 4 til kl. 7.
Morgunvakt frá kl. 7 til hádegis.
Langavakt frá hádegi til kl. 7.
Kvöldvakt frá kl. 7 til miðnættis.
Lúðvík mun oftast eða ætíð hafa haft skútuvaktir á þeim bátum, sem hann sigldi hingað upp frá Danmörku.
Á Soffí voru hafðar fjögurra stunda vaktir, tvískiptar. Voru þeir vaktarfélagar Jóhann og Guðjón og svo Andrés og Bogi.
Það hafði verið um það talað og fastmælum bundið, að bátarnir yrðu samferða alla leiðina og hefðu samflot eins og aðstæður leyfðu. En margt fer öðruvísi en ætlað er og sú varð raunin á hjá okkur í þessari ferð. Á þessum árum voru ekki komin loftskeytatæki í fiskibáta. Þau mikilsverðu öryggis- og hjálpartæki komu fyrst í vélbát í Vestmannaeyjum árið 1927, í m/b Heimaey. Voru það fyrstu loftskeytatæki í íslenzkan fiskibát og var algjör nýlunda, þó að víðar værí leitað. Það var því reynt að útvega merkjatæki og var keypt eitt vasaljós í hvorn bát, og átti m. a. að nota vasaljósin til morse-merkjasendinga á milli bátanna. Oft var spjallað um þetta í léttum dúr, áður en lagt var af stað heim. Viss táknmerki áttu að tilkynna eitt og annað, svo sem matarræði o. fl. Ef bakaðar voru pönnukökur átti að bregða upp ljóshring, en senda átti bókstafinn F, ef borðað var steikt flesk. Fleiri voru ljósmerkin, en ég læt þetta nægja.

Þegar við höfðum „stímað“ í rúman klukkutíma eftir að loggið hafði verið sett út sprakk „dekksel-pakkning“ á aftari strokknum (mótornum) í Sísí, svo að það varð um tveggja klst. stans hjá okkur. Meðan við lágum ferðlausir kom Soffí til okkar og buðust þeir til þess að bíða eftir okkur, en svo talaðist til, að þeir héldu áfram, því að gott veður var; hægur suðvestan vindur. En þar með skildi með bátunum, svo að hvorugur sá til annars þessa löngu leið heim til Eyja.
Klukkan 5 um miðvikudagsmorguninn vorum við þvert af vitaskipinu Læsö Rende (í álnum milli Hléseyjar og Jótlands) og var haldið þaðan laust fyrir ysta odda Jótlands, Skagen. Vorum við þvert af baujunni við Skagen klukkan um 9 sama morgun.
Frá Jótlandsskaga var stefnan sett að Líðandisnesi, syðsta odda Noregs. Á fimmtudagsmorguninn kl. 08:15 vorum við þvert af Líðandisnesi. Þaðan var stefnan sett á Sumborough vita, sem er syðst á Hjaltlandi. Laugardagsnóttina kl. 03:15 höfðum við vitann þvert og kl. 07:30 var eyjan Foula þvert. Stefna var nú sett á Suðurey, sem er syðst Færeyja.
Við fengum logn og rjómablíðu yfir Norðursjóinn og oftast bjart veður. Nú var kominn norðvestan strekkingsstormur, sem snerist í sunnan storm um nóttina með regnþykkni. Siglt var með öllum seglum, einrifuðum og var siglingin orðin allsóðaleg, því að lunningin og öldustokkur til hléborða var oftast á kafi í sjó.
Klukkan 11 f. h., sunnudaginn 2S. sept., höfðum við landkenningu af Munken og Suðurey og komum upp undir Akraberg. Bátnum var þá hleypt upp í til að ná niður seglunum og man ég, að við urðum sumir klofblautir við það verk. Að því loknu var haldið norður með Suðurey að austan. Þegar komið var norður fyrir eyjuna var sléttur sjór, en skafningsrok. Annar mótor vélarinnar var þá stopp, en siglt var með rifaðri stagfokku og átti að leggjast á lítinn vog, sem heitir Sandvík og er fyrir norðan Hvalböfjörð. Þar átti að setja olíu á geymana, en þegar komið var inn á voginn reyndist ófært að leggjast þar vegna veðurofsans, svo að snúa varð við í áttina til Hvalbö, sem er fiskimannaþorp, við samnefndan fjörð norðan til á Suðurey. En á móti veðri var að sækja og svo miklum vestur straumi, að ekki steinmarkaði hjá okkur áfram, fyrr en farið var hart upp undir bergið. Loks var svo komið inn á Hvalböfjörð kl. 5 síðdegis og var þar lagst fyrir akkeri og voru olíugeymarnir fylltir. Var þá stórviðri. Nokkru eftir, að við vorum lagstir út af Hvalbö, komu um borð til okkar 6 Færeyingar á sexæringi og buðu þeir okkur að leggjast á mótorbátsfesti, sem var þarna skammt frá og var það þakksamlega þegið. Þeir hjálpuðu okkur að létta akkeri og að festa bátnum á þeirra keðjur. Að því loknu var tekinn tappi úr koníaksflösku, til að þakka þeim veittar velgerðir, ásamt 10 krónum dönskum, sem Lúðvík rétti formanni bátsins.
Þá var svo um talað, að þeir kæmu út til okkar klukkan átta til níu næsta morgun og færðu okkur veðurspá næsta dægurs. Þar með kvöddu þeir mjög ánægðir og reru í land. En við rauðkyntum kabyssuna og settum á hana stóra vatnsfötu, sem fyllt var af kjöti, sem soðið var til kvöldverðar, því að ekki höfðum við getað hitað kaffi eða soðið okkur matarbita síðasta sólarhring. Einnig höfðum við fataskipti og fórum í þurr föt í stað þeirra blautu, sem við þurrkuðum. Sváfum við svo vel um nóttina og undir morgun lægði veðrið.
Klukkan 09:15 næsta dag, mánudaginn 29. september, var festum sleppt og haldið út frá Hvalbö, því að ekkert bólaði á Færeyingunum, sem ætluðu að flytja okkur veðurfréttirnar og þótti ekki vert að bíða lengur eftir þeim. Við vorum út af norðurenda Suðureyjar kl. 10 og var þá loggið sett út og stefnan tekin NV, var þá strekkingsstormur og þungur sjór, svo að hægt gekk, því að á öðrum sólarhringi heimferðarinnar frá Frederikssundi kom fram ólag á mótornum, svo að ekki var hægt að láta hann ganga, nema hálfa eða „treikvart“ (3/4) ferð og var það svo alla leið heim til Eyja. Höfuðlegur vélarinnar ofhitnuðu, þó aðallega sú fremsta. Allar legur í þessum vélum voru samt úr kopar og þoldu því mikinn hita.
Um tveggja metra löng gúmmíslanga var tiltæk í mótorhúsinu og var hún nú sett við sjódælukrana vélarinnar og síðan var kaldur sjórinn látinn buna á legurnar eftir þörfum til að kæla þær. Með þessu móti mjakaðist áfram, oftast 4 til 6 sjómílur á klukkustund í logni. En það mátti með sanni segja, að þeir Pétur og Einar, sem gættu vélarinnar, hvor á sinni vakt, hafi helst aldrei mátt frá henni víkja eða líta af vélinni alla leiðina.
Þriðjudaginn 30. september var SV-kaldi og þungur sjór.
Klukkan um átta, miðvikudagsmorguninn 1. október, áttum við skv. leiðarreikningi okkar eftir 85 sjómílur til Vestmannaeyja. Var þá skollið á hvínandi VSV-rok og setti fljótlega í stórsjó. Stuttu eftir að veðrið brast á varð olíulaust á geymunum, svo að bæta varð á þá úr tunnunum. Var þá bátnum „lagt til“ á seglunum og ætla ég að lýsa því eftir því, sem ég man best. Legið var til með bakborðshálsi. Byrjað var á því að tvírifa stórseglið og var skaut þess súrrað niður á seglbómuna fram að efri rifkósa, sem var á afturlíi (jaðri) seglsins. Síðan var seglið híft upp („heist“) og seglbóman hert á stuðtalíunni á bakborðslunningu, hart út til bakborða. Stagfokkan var einrifuð og hún hífð upp „bakk“; þ. e. skaut hennar var hert á kulborða, mitt á milli frammasturs og hliðarstags, þó heldur nær staginu. Afturseglið („messinn“) á þessum bátum var svo lítið, að engin rifbönd voru í því. Aftursegl var því híft upp órifað og strekkt þvert eða því sem næst þvert út til stjórnborða.
Með þessum seglaumbúnaði varði báturinn sig undra vel fyrir sjóum, svo að unun var að. Þegar stórsjóir nálguðust bátinn byrjaði hann að hífa sig hægt og rólega upp í öldufaldana og þegar hann horfði orðið með hnífil beint upp í sjóina og virtist ætla að fara yfir vind (þ. e. fá vindinn á gagnstæðan kinnung; hér stjórnborðskinnung) þá tók vindurinn í messann þannig, að bátnum sló mjúklega frá brotsjónum, á að giska 40 til 50 gráður. Þetta endurtók sig svo allan tímann meðan legið var til. Þetta þótti okkur Einari í Hágarði, sem aldrei fyrr höfðum verið með í því að leggja skipi til á seglum, aðdáunarvert.

Sísí kemur heim eftir siglingu frá Danmörku, 2. október 1924. Ljósm. Lárus Árnason Búastöðum.
Soffí siglir inn Víkina 2. okt. 1924. Að baki er 11 sólahringa sigling frá Frederikssundi.


Var nú snúið sér að því að láta olíu á geymana og var það ekkert áhlaupaverk. Það varð að byrja á því að opna lestina og brjóta botna úr olíutunnum með skerstokknum af lestarlúgunni og kolaexi, en tunnurnar stóðu upp á endann í lúgukarminum. Olíunni var ausið upp úr runnunum með vatnsfötu og síðan hellt á geymana í stórri olíutrekt. Til varnar því að mikill sjó færi niður með olíunni var skýlt að trektinni með strigapoka og legið á öðrum poka á dekkinu framan við trektina. Verkið gekk furðanlega vel, enda hraði og aðgætni höfð á, eftir því sem aðstæður leyfðu, en nokkrum sinnum varð að kippa trektinni upp úr og skella tappanum í gatið, þegar gaf á bátinn og stórar skvettur komu. Þegar þessu verki var lokið og gengið hafði verið vel frá öllu ofan þilja voru seglin felld og gert að þeim. Vélin var sett í gang og farið að brölta í áttina heim. Klukkan var þá 11 f. h., miðvikudaginn 1. október. Satt að segja var þetta óskemmtilegt ferðalag þar til veðrið fór að dúra, er leið á daginn, klukkan um 3 e. h. Þá var lesið á loggið og sýndi það, að frá því kl. 11 f. h. að byrjað var að „stíma“ og loggið var látið út, höfðu verið farnar 4 sjómílur. Veður hélt svo áfram að lægja og kl. um hálf fimm um daginn mátti heita að væri orðið aðgæslulítið veður og vel skipgengur sjór.
Ég hafði þá aldrei reynt og séð svo svo stórhrikalegt sjólag sem þennan morgun á úthafinu. Hafði ég þó róið héðan frá Eyjum 9 vetrarvertíðir og oft horft á úfið hafið úr landi í vetrarofveðrum.

Í birtingu um morguninn, fimmtudaginn 2. október, sáust Vestmannaeyjar og komum við hér í höfn kl. um hálfeitt eftir hádegi. Við höfðum þá verið á fjórða sólarhring frá Færeyjum og „loggað“ á vegmælinn um 400 sjómílur frá því að hann var settur út við Suðurey. Þegar síðast var skráður aflestur á vegmælinn, aðfaranótt fimmtudagsins klukkan 4, var vegmælisvegalengd frá Færeyjum 358 sjómílur. Ellefu sólarhringa höfðum við verið frá Frederikssundi.
Frá ferðalagi Soffí er það að segja, að hún kom hér í höfn kl. 3 e. h. sama dag, 2. október. Nóttina, sem við lágum í Hvalbö, fóru þeir seint um kvöldið áfram, sunnan við Færeyjar í roki og stórsjó, en höfðu ekki landsýn af eyjunum vegna dimmveðurs og roks.
Það fór fyrir þeim á Soffí eins og okkur, að þeir fengu vélarbilun á öðrum sólarhringi heimferðarinnar. Þá brotnaði önnur olíurúllan í gangráðnum („regulatornum“), svo að vélin gaf ekki nema hálfan kraft og var svo alla leiðina, þar til á síðasta sólarhringi ferðarinnar, að þeim hafði tekist að sverfa til ró, sem var notuð sem olíurúlla, og var þá hægt að keyra fulla ferð. Þegar þeir á Soffí fengu á sig útsynningsveðrið, lögðu þeir bátnum til á seglunum og lágu til í tólf klukkustundir og sögðust hafa haft það gott og rólegt.
Ég hefi við samantekt þessa þáttar stuðst við eigið dagbókarkrot og skipsdagbók Lúðvíks skipstjóra. Af félögunum úr þessari skemmtilegu ferð eru enn á lífi auk mín, Jóhann Jónsson frá Suðurgarði, Finnbogi Finnbogason og Guðjón Tómasson.