Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1969/ Revía Lofts Guðmundssonar á árshátíð Verðanda í nóvember 1943

From Heimaslóð
Jump to: navigation, search
Revía Lofts Guðmundssonar á árshátíð Verðanda í nóv. 1943

Hér fer á eftir frásögn eins leikarans (Eyjólfs Gíslasonar) af þessum eftirminnilega gamanþætti og skemmtun:
Leikþáttinn og vísurnar samdi Loftur, ásamt sumum „leikaranna", sem lögðu til efnið og alla „brandara".
Á leiksviðinu var gert líkan af mótorbát, og var það allsæmilegt, þó að klætt væri það utan með pappa og auðvitað málað. Stýrishúsið bar þó af.

Þessir léku:
Skipstjóri: Ólafur Sigurðsson frá Skuld.
Vélstjóri: Guðleifur Ólafsson, Laufási.
Matsveinn: Gestur Auðunsson, Sólheimum.
Hásetar: Kristinn Ástgeirsson, Miðhúsum.
Guðmundur Guðjónsson, Presthúsum.
Eyjólfur Gíslason, Bessastöðum.

Báturinn var á netaveiðum. Fengum vélarbilun á landleið, og á meðan beðið var eftir viðgerð, sem fór fram um borð, renndi Kristinn handfæri (færi með gamla laginu - „ballans"). Eftir stuttan tíma og mjög eðlilegar hreyfingar við að keipa, varð hann var og brá við hart, enda dró hann upp tvo fiska, háf og karfa - og þá glumdi nú „Höllin" af hlátri. En Kristinn sýndi áfram sitt snilldar sjómannseðli, tók upp vasahnífinn og skar laglega teningsbeitu af karfanum og beitti annan krókinn, enda dró hann nú laglega smálúðu og stútung - og ætlaði þá fögnuði áhorfenda aldrei að linna. Er svo ekki að orðlengja það, að þarna dró Kristinn til viðbótar, ýsu, keilu, þorsk og löngu. Þessu til skýringar verð ég að geta þess, að þetta haust stundaði ég línuróðra á Emmu litlu. Var ég á sjó daginn áður og tók fulla körfu af þessum fiski og lét bera upp í hús. Undir leiksviðinu voru þeir Gaui Valdason og Júlli á Skjaldbreið og kræktu á krókana. Þennan róður á Emmu hafði ég „rulluna" sem ég átti að flytja, með á sjóinn, til að liðka mig í henni og bauðst því til að hafa baujuvaktina.
Lagið við vísurnar var „Nú er glatt í hverjum hól". Söng Kristinn allar vísurnar einsöng (sóló), en við hinir sungum viðlagið af miklum krafti og var síðasta hendingin tvítekin.

Nú er að duga eða drepast og koma öllu á flot, sem flýtur og auka aflann sem mest! Eftir verkfallið vertíðina 1969.
Ekki vitum við, hvort þetta er eini tannlæknirinn, sem er í Vestmannaeyjum. En hann er sjóstangaveiðimaður.

Hér koma svo nokkur sýnishorn.
1. Skothríð heyrðist hörð að von
af hræðslu var Bretinn frá sér.
Á Fógetanum Fúsason
fiktar við nefið á sér.
Hrannirnar rísa við hamra og klettarið. „Kalt er tundum körlum, sem keppa á yztu mið".
2. Guðjón Valda græjar Kap
gustmikill í bjórnum.
Komi þar fyrir kojuhrap
kúra þeir bara á flórnum.
Hrannirnar rísa.
3. Kvenfólkið og Klakksvíkin
kynnist með fljótum hraða.
Þar kalla þær ennþá: - „Öyvi minn! Öyvi Búastaða!"
Hrannirnar rísa.
4. Röskur á Erling riddarinn
ránar siglir vengi.
Bæjarstjórn og bíóin
bera hans merki lengi.
Hrannirnar rísa.
5. Ármann Látrum ýtir frá„
er það alkunn saga,
að „Friðrik" megi sífeilt sjá
á sjónum alla daga.
Hrannirnar rísa.
6. Á Sigga á Kára sveitt varð kinn,
sauð um stefnið rokan.
Er trollið slóst í túngarðinn
og tryppið kom í pokann.
Hrannirnar rísa.
7. Möndulvelda maktin stór
mola vill allt og bramla.
En illa Hitlers flotinn fór
fyrir Skafta gamla.
Hrannirnar rísa.
8. Heim nú skulum halda hér,
en hafa allt í standi,
því sunnudaginn sjálfsagt er
að sitja bara í landi.
Hrannirnar rísa.

Stuttar skýringar
1. Ólafur Vigfússon í Gíslholti var með Skúla fógeta, og þegar Skúli kom að landi eftir mikið foraðsveður og útilegu, svo að hann var talinn af, bjuggust Bretar ekki frekar við skipinu i Vestmannaeyjahöfn en svo, að varðmenn á Skansinum munduðu byssur sínar, er Skúli fógeti tók höfn um miðja nótt.
2. Hann hefur verið brælinn hjá Guðjóni Valdasyni á Kap, og virðast kojur hafa brotnað.
3. Eyjólfur Gíslason, ýmist kenndur við Búastaði eða Bessastaði, hafði verið fiskilóðs með Færeyingum fyrir stríð.
4. Sighvatur í Ási var með Erling og var í bæjarstjórn. Hann hafði verið gerður að riddara fálkaorðunnar fyrir frækilega björgun.
5. Ármann Friðriksson, nú „Ármann á Helgu RE", sótti sjóinn af miklu kappi á „Friðrik" og var andvígur afnámi sunnudagaróðra.
6. Það voru væringar í landhelginni þá eins og núna. Sigurður Bjarnason, sú trausta kempa og aflakló, var þá með Kára.
7. Það má sjá að það voru stríðstímar. Hér mun átt við, þegar Páll Þorbjörnsson og skipshöfn hans á Skaftfellingi björguðu 53 Þjóðverjum, sem frægt varð í stríðsfréttum.
8. Það gægist fram áróður fyrir afnámi sunnudagaróðra á línunni, en það var þá baráttumál sjómanna.