Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1969/ Fiskikóngur Íslands 1969. — Aflakóngur Vestmannaeyja 1968

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Fiskikóngur Íslands vetrarvertíðina 1969


AFLAKÓNGUR VESTMANNAEYJA 1968


Hilmars ei dáð má dylja,
djarfur sá Rósmunds arfi,
gnoð rœr í hríðar hroða
hraustur með sjómenn trausta.
Hleður Sæbjörgu séður,
sjólinn afla, þótt gjóli.
Fiski sló met án miska
meiður snillingur veiða.
Vm. 8. maí 1969
Ó. Kárason.

Sem segir í dýrt kveðinni formannsvísu Óskars Kárasonar og sem sjá má af fyrirsögnum, sló Hilmar Rósmundsson skipstjóri á Sæbjörgu met.
Aflaskipið Sœbjörg flutti 1655 tonn að landi vetrarvertíðina 1969.
án miska sl. vetrarvertíð og tók ekki aðeins tvo titla við vertíðarlok 1969, heldur þrjá eins og að verður vikið.
Ofangreindum heiðurstitlum ná engir aukvisar, og er þetta þriðja vertíðin í röð, sem Hilmar er fiskikóngur. Aflaði hann á liðinni vertíð svo að með ólíkindum var. Hefur bolfiskafli báts á vetrarvertíð hér við land aldrei fyrr né síðar verið svo mikill. Mesti bolfiskafli báts í Vestmannaeyjum fram til þessa var 1291 tonn, sem Binni í Gröf fékk vertíðina 1958, en hann varð sem kunnugt er fiskikóngur Vestmannaeyja sjö sinnum, þar af sex sinnum í röð og oftast langhæstur. Mesti vertíðarafli á landinu var áður 1470 tonn; var það landsmet sett 1965. Hilmar fór langt fram úr öllum þessum fallegu tölum og skilaði á land til 14. maí s.l., en þá tók hann upp, 1655 tonnum í 74 sjóferðum á Sæbjörgu, sem er aðeins 67 tonn að stærð. Eru þetta að meðaltali rúmlega 22 tonn í sjóferð. Í sambandi við þennan firnaafla má áreiðanlega tala um heimsmet á þessa stærð fiskiskipa.
Það er því vandaverk að skrá þetta afrek í annála, eins og vert og skylt er. Afli Sæbjargar er tvöfaldur afli báta, sem eru í betri röð með afla vertíðina 1969. Sæbjörg byrjaði róðra 2. janúar og reri með línu fram að verkfalli vélbátaflotans, sem skall á 19. janúar og stóð í mánaðartíma. Aflaði Hilmar 60 tonn á línuna. Netin tók Hilmar 26. febrúar og var með þau út vertíðina.
í byrjun netavertíðar var Hilmar við Eyjólfsklöpp og fékk þar ca. 400 tonn, mest ufsa. Var hann þar að veiðum fram í miðjan marz, en flutti þá inn á Þjórsárhraun og var þar og vestan Þjórsárósa að mestu til loka. Vertíðina enduðu þeir á Jónshrygg, sem er í norðvestur frá Þrídröngum.
Þennan mikla afla í net, um 1600 tonn, fékk Sæbjörg í átta 15 neta trossur, og tókst hinni vösku skipshöfn oftast nær að hreinsa úr netunum, og fengu þeir gott mat á fiskinn.
Það er vissulega forvitnilegt að kynnast nokkru nánar þessum afburðafiskimanni, sem er frumhvöt þessa mikla afla. Ritstj. blaðsins gekk því á fund hans eitt kvöldið, er leið að vertíðarlokum.
Mér var vel tekið á hlýlegu og fallegu heimili þeirra hjóna, en kona Hilmars er Rósa Snorradóttir, stjúpdóttir Ólafs Vestmanns, sem er þekktur sjómaður hér í bæ. Theódór vélstjóri og meðeigandi Hilmars er sonur Ólafs, og voru þeir 4 synir Ólafs Vestmanns með Hilmari í vetur, allt hörkusjómenn. Hilmar og Rósa búa ásamt tveim dætrum sínum í snotru húsi við Brimhólabraut.
Fyrir framan mig sat hógvær maður, gæðalegur og hlýr í viðmóti, og þegar í stað finnur maður reynslu hans, skapfestu og greind, þegar við hann er rætt. Þessi hógværð Hilmars er aðalsmerki hans. Það er eftirtektarvert, að alltaf er honum efst í huga, hve góð skipshöfn er hverjum aflamanni mikils virði. Hilmar segir, að skipshöfn sín á Sæbjörgu sé svo samæfð, að þeir séu allir sem hugur manns og breyti engu hvort í trossunni séu 50 eða 1000 fiskar.
Undirmenn Hilmars bera honum þá sögu, að honum sé einkar umhugað um menn sína. Gætir hann þess, að vinnan komi sem léttast niður á mannskapnum. Hilmar vandar sig vel við hverja lögn, og verða því aldrei ógreið veiðarfæri, vegna þess að illa sé staðið að hlutunum. „Það er einkum þrennt“, segir Hilmar, „sem er forsenda þess, að góður afli fáist. Það er góður bátur, góður mannskapur og góð veiðarfæri, sem eru rétt og vel unnin, og skiptir þá ekki litlu máli að hafa góðan netamann“. Netamaður hjá Hilmari er gamall sjósóknari og glöggur formaður, Guðni Grímsson, og fellir hann netin. Honum til aðstoðar eru Ólafur Vestmann og Ketill Brandsson, gamalreyndur netamaður.
„Við vorum oft alveg undrandi á þessu mikla fiskiríi“, segir einn skipverja Hilmars. Og satt er það. Á einni viku, frá 11. til 17. apríl, fékk Sæbjörg um 300 tonn í 7 róðrum, eða að meðaltali tæp 43 tonn í róðri. Iðulega brast Sæbjörgu borð fyrir allan aflann í vetur og setti Hilmar því af sér einhvern fisk. Má nærri geta hvort stundum reynir ekki á góða sjómennsku og skipstjórn að koma drekkhlöðnum báti til hafnar í misjöfnum vetrarveðrum. Hilmar lætur alltaf skálka lúgur, og eitt sinn í austan sjó og stormi voru þeir rúmar 7 klst. 25 sjómílna leið til hafnar. Þrisvar á vertíðinni var Sæbjörg með fullfermi: 6. marz 66 tonn, 25. marz 67 tonn og 12. apríl 65 tonn.
Hilmar segir, að margir róðrar hafi verið skemmtilegir á liðinni vertíð. Einu sinni voru þeir grunnt í Eyrarbakkabugt og fengu netin ótrúlega bunkuð af einnar nætur fiski. í 4 trossur fengust 10.000 (tíu þúsund) fiskar. Var þetta fremur smár fiskur, og vigtaði aflinn 60 tonn.
Í sama máli hefur verið reynt að bregða upp mynd af fiskikónginum 1969 og eftirminnilegri og frækilegri vertíð Hilmars. Hann varð fljótlega öruggur aflakóngur Vestmannaeyja á vetrarvertíðinni, en hörðust varð keppnin um landsmetið við hina harðskeyttu aflamenn Grindvíkinga, sem af gömlum vana láta ekki sinn hlut fyrr en í fulla hnefana. Var þessi keppni spennandi, en svo fór samt, að Hilmar var örugglega og með yfirburðum hærri. Aflaði Albert (150 tonna bátur) 1530 tonn, en skipstjóri á honum er Þórarinn Ólafsson, kunnur aflamaður Grindvíkinga.

ctr
Aflaskipið Sæbjörg flutti 1655 tonn að landi vetrarvertíðina 1969.

Var þetta að sjálfsögðu mikið ánægjuefni og metnaðarmál okkur Vestmannaeyingum, og gerir Hilmar og skipshöfn hans byggðarlagi sínu mikinn sóma.

Skipshöfn á Sæbjörgu vertíðina 1969: Frá vinstri: Theodór Ólafsson vélstjóri, Snorri Ólafsson, Þór Ólafsson, Hilmar Rósmundsson skipstjóri (á peysu), Ingi Steinn Ólafsson, Stefán Friðriksson stýrimaður, Már Guðmundsson, Varnik Jensson, Björn Friðriksson, Atli Einarsson og Marinó Sigurbjörnsson.

Eins og sagði í upphafi, tók Hilmar þrjá titla, efrirsóknarverða og mikils metna, við þessi vertíðarlok. Aldrei er nákvæmlega kunnugt um mest aflaverðmæti báta undangengins árs, fyrr en um mánaðamót apríl/maí. Þegar betur var að gáð, hafði aflaklóin Hilmar Rósmundsson á Sæbjörgu mest aflaverðmæti Vestmannaeyjaskipstjóra árið 1968 og hlýtur því Ingólfsstöngina og titilinn Aflakóngur Vestmannaeyja 1968. Skilaði Sæbjörg samtals á land afla fyrir kr. 6.978.047 kr. árið 1968. Í fyrsta skipti síðan verðlaun þessi voru veitt árið 1963 er einn og sami maður aflakóngur og fiskikóngur.
Hilmar hefur gert garðinn frægan. Hann er glæsilegur fulltrúi íslenzkrar sjómannastéttar og hefur í starfi notið dugnaðar síns og greindar. Hann er maður, sem tekið er eftir í röðum sjómanna. Til að ná í fremstu röð íslenzkra fiskimanna, þarf í senn feikilegan dugnað og elju, árvekni, athygli og reglusemi í starfi. Þetta eru þeir höfuðkostir, sem prýða góðan fiskimann eins og Hilmar Rósmundsson.
Hefur hann vakið athygli bæði hér heima og erlendis fyrir aflasæld sína. Það var á síðastliðnu sumri, að Hilmar var með lúðulínu nokkurn tíma. Gerði hann þá 10 daga túr austur í bugtir og sigldi með 19 tonn af lúðu (mest stórlúðu) til Grimsby. Seldu þeir farminn fyrir 3.800£ eða 520 þús. kr. eftir þáverandi gengi. Vakti þessi afli og sala mikla athygli í Bretlandi og enskum fiskveiðiblöðum. Birtust myndir og lofsamleg ummæli um Hilmar á Sæbjörgu í blöðum þar, Íslendingum til hins mesta sóma.
Hilmar og meðeigandi hans, Theódór Ólafsson, eru samhentir menn og eiga í sér þann menningaranda, sem stundum hefur skort á hér í bæ.
Við skólaslit Stýrimannaskólans hér 11. maí s.l. gáfu þeir skólanum og vélskólanum hér stórgjöf, Kelvin Hughes ratsjá, sem var í Sæbjörgu og er tugþúsunda virði.
Sú þjóð er ekki fátæk, sem á menn eins og Hilmar Rósmundsson og skipshöfn hans á Sæbjörgu.

Á hátíðisdegi sjómanna senda allir Vestmannaeyingar Hilmari og mönnum hans og fjölskyldum þeirra heilla- og hamingjuóskir. Það er hverju byggðarlagi sönn ánægja og blessun að eiga slíka menn á hverri tíð.