Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1969/ Þáttaskil

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
SÉRA
ÞORSTEINN L. JÓNSSON


Þáttaskil


I.
Á skautum hafs og hauðurs
hillir uppi daga,
þegar fyrst í fornöld,
er fæddist íslenzk saga.
Aldir spegla sporin,
er spunnust, sögnum vakin
örlaga og erfða,
þótt aldrei verði rakin.

Bóndann sé ég bisa
og bogna fyrir aldur.
Hans sviti er dögg, sem drýpur.
hver dropi gróskuvaldur,
lúin höndin hnýtta
hlýtt um vanga strýkur
barns og konu kinnar,
af kostum eðlisríkur.

Standa menn í stafni,
stýra dýrum knerri.
Fast þeir sækja sjóinn,
sigla vindum snerri.
Afla gefur Ægir,
einnig bárufalda.
Sökkva oft hetjur horskar
hafs í djúpið kalda.

II.
Farsæld sé ég fylgja
frónskum, traustum þegni.
Sterkur er í starfi,
ströngu þótt hann gegni.
Bök þótt bogni og striti,
brotsjór á oss vinni,
hann, sem vökvar voðir,
vekur kjark í sinni.

Þjóð er skylt að þakka
þeim, sem ærlegt vinna,
mikils skulu metnir
meðal landa sinna.
Vinnan göfgar, gefur
gnægðir, sæld og blóma.
Enn mun landsins lýður
lifa hér við sóma.

Traust til guðs er gæfa,
glæðir þjóðaranda,
samfélags og sifja,
en seigum rótum standa
drengskapur og dirfska,
duga vel og lengi,
megin máttarstoðir,
mannfélagsins gengi.

Að því kom við áttum
okkar þegnrétt sjálfir,
mikils okkar máttum
meira að verða en hálfir
blómann byggða og fjalla
borgir starfs og miða,
þrymur fossa-falla,
framkvæmd eigin siða.

Rætur fýsir festa
í frjálsu ættarlandi
eining alls hins bezta,
ekkert mein svo grandi.
Hátún helgilundar
hjartans vaxtasjóður
er til efstu stundar
okkar sálargróður.

Þar á vor hugur heima,
hollur feðramoldu,
og dátt sig lætur dreyma
að duga Ísafoldu:
Stórt að stíga sporið,
stefnt til eigin búða.
Í sólbráð siglir vorið,
til sóknar þjóðin prúða.

Þorsteinn L. Jónsson