Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1968/Skipstjóra- og stýrimannafélagið Verðandi 30 ára

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Skipstjóra- og stýrimannafélagið VERÐANDI 30 ára


Í tilefni þess, að Skipstjóra- og stýrimannafélagið Verðandi verður 30 ára 27. nóvember n.k., er sögð hér saga félagsins í stórum dráttum.
Undanfari stofnunar félagsins var, að um þetta leyti var bygging vita á Þrídröngum mikið baráttumál sjómanna. Höfðu formenn í Vestmannaeyjum stofnað til fundahalda til að fylgja þessu nauðsynjamáli eftir, og mun á fundum þessum hafa komið til tals, að nauðsynlegt væri að stofna hér sérstakt stéttarfélag skipstjórnarmanna.

Áhugi Vestmannaeyinga fyrir vita á Þrídröngum var almennur, en nokkurt þóf var um byggingu vitans, þar eð Krabbe vitamálastjóri hélt því fram, að engin leið væri að hafa vita á Þrídröngum, þar sem ókleift væri að hirða brennarann á slíkum eyðiskerjum. Aftur á móti höfðu 2 Vestmannaeyingar, þeir Jóhann Gunnar Ólafsson (nú bæjarfógeti á Ísafirði) og Kjartan Jónsson frá Búastöðum, gert tilraunir með gaslogann á hafnargarðsvitanum og sannað, að brennarinn hélzt sæmilega hreinn í heilt ár. Skrifaði Jóhann Gunnar m.a. grein um þetta mál í Víði 15. janúar 1938.
Stofnfundur Verðanda var í húsi K.F.U.M. og K. hinn 27. nóv. 1938 og var félagið í fyrstu nefnt Skipstjóra- og stýrimannafélag Vestmannaeyja. Voru stofnendur 38 skipstjórar og stýrimenn úr Vestmannaeyjum.
Fyrstu stjórn félagsins skipuðu: Árni Þórarinsson formaður, Sighvatur Bjarnason varaformaður, Sigfús Scheving ritari, Ármann Friðriksson vararitari, Karl Guðmundsson frá Reykholti gjaldkeri, Jónas Bjarnason varagjaldkeri.
Í stofnlögum félagsins er sett fram markmið og ætlunarverk félagsins:
„Tilgangur félagsins er að vinna að hagsmuna- og launamálum skipstjóra og stýrimanna, efla samvinnu og viðkynningu þeirra á meðal og vernda rétt þeirra. Einnig vill félagið láta til sín taka hvers konar endurbætur, er snerta sjávarútveg og siglingar“.
Hefur félagið dyggilega fylgt þessari stefnuyfirlýsingu og lét strax til sín taka vegna byggingar Þrídrangavita. Gekk formaður félagsins ötullega fram í því máli. (Sjá Sjóm.blað 1966).
Mörg hagsmuna- og öryggismál sjómanna, sem nú fyrst hafa náð fram að ganga, voru reifuð og samþykkt á fyrstu árum félagsins.
Má þar nefna, að á 2. fundi félagsins var samþykkt, að sjómenn skyldu tryggðir allt árið. Hinn 3. júní 1942 var samþykkt að róa ekki á sunnudögum yfir sumarmánuðina, og skyldu sjómenn hafa frí á sunnudögum eins og aðrar stéttir, nema á tímabilinu frá 15. marz til 15. maí. Gekk þessi samþykkt í gildi vertíðina 1943 og hefur haldizt að mestu síðan á línuvertíð. Þá beitti félagið sér fyrir tilkynningarskyldu báta um líkt leyti og gerði mikla gangskör að því, að talstöðvar báta væru í góðu lagi og Landssíminn veitti fullkomna viðgerðarþjónustu. Einnig var félagið málsvari félagsmanna við samningagerðir og kom á ýmsum umbótum í róðrasamþykkt Eyjabáta og gleggri merkingu veiðarfæra en verið hafði.
Að tillögu Þorsteins Jónssonar í Laufási, sem ávallt var tillögugóður á fundum félagsins, var nafni félagsins breytt árið 1942 í Skipstjóra- og stýrimannafélagið Verðandi. Á sama aðalfundi, hinn 3. janúar 1942, var styrktarsjóður félagsins stofnaður. Tilgangur sjóðsins er að styrkja ekkjur félagsmanna og félaga sína vegna slysa, sjúkdóma og elli. Félagsmenn hafa oft heitið á sjóðinn til afla og hefur þótt gefast vel. Sjóðurinn er nú 252.000 kr., og má veita úr honum vöxtum og helmingi tekna. Var fyrst veitt úr sjóðnum fyrir jólin 1954, og hefur ávallt síðan verið veittur jólaglaðningur úr sjóðnum.
Merkast öryggismála, sem Verðandi hefur beitt sér fyrir, er notkun gúmmíbjörgunarbáta í skipum. Flutti Sighvatur Bjarnason tillögu um það mál á fundi félagsins 9. janúar 1945. Stjórn félagsins var í tillögu þessari falið að leitast fyrir um, hvort ekki væri hægt að fá gúmmíbáta, sem hver mótorbátur hefði meðferðis til öryggis.
Það er öllum kunnugt, hve heillavænleg þessi samþykkt varð. Er þarna að finna fyrstu tillögu um notkun þessara björgunartækja hér á landi. Nokkrar deilur urðu um gildi gúmmíbáta sem öryggistækja, en þeir sönnuðu fyrst gildi sitt við björgun áhafnar Vestmannaeyjabáts. Varð þetta framtak Verðanda til þess, að Íslendingar eru taldir brautryðjendur á þessu sviði björgunar- og öryggismála.
Af yngri samþykktum félagsins má nefna tillögu um gerð sérstakra fiskikorta, sem sýni botnlag greinilega. Mun þannig sjókort nú í gerð, og í fyrrasumar var allt svæðið milli Vestmannaeyja og Selvogs rækilega mælt í þessum tilgangi.
Skólamál sjómanna hafa alltaf verið ofarlega á baugi, og þegar árið 1943 er stofnun stýrimannaskóla til umræðu á fundum félagsins. Hefur félagið stutt Stýrimannaskólann hér með ráð og dáð.
Það varð félaginu mikið happ og aflgjafi, þegar frú Bjarngerður Ólafsdóttir, ekkja Guðjóns Jónssonar á Heiði, gaf Verðanda árið 1964 neðstu hæð hússins Heiði til minningar um mann sinn. Hefur Verðandi nú aðsetur sitt þar í stórglæsilegu húsnæði. Hefur aðstaða félagsins batnað mjög við þetta, og er húseignin félaginu ómetanlegur styrkur.
Félagsmenn eru nú um 160 talsins, og eru í félaginu flestir starfandi skipstjórar og stýrimenn í Vestmannaeyjum, svo og aukafélagar, sem hafa hætt sjómennsku.
Stjórn Verðanda skipa nú: Sigurður Gunnarsson formaður, Hilmar Rósmundsson varaformaður, Einar Guðmundsson gjaldkeri, Hannes Haraldsson varagjaldkeri, Gísli Eyjólfsson ritari, Eyjólfur Gíslason vararitari, sem hefur verið í stjórn félagsins, formaður, ritari og í varastjórn samfleytt síðan árið 1944.
Þessara tímamóta í sögu Verðandi mun verða minnzt að verðleikum í haust. Sjómenn í Vestmannaeyjum senda félaginu beztu kveðjur og árnaðaróskir í tilefni 30 ára afmælisins og þakka heillavænleg störf í þágu sjómannastéttarinnar s.l. 30 ár.