Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1967/Gömlu skjöktbátarnir

From Heimaslóð
Jump to: navigation, search

Efnisyfirlit 1967

Lending við Sandinn.jpg


Lending við SandinnEyjólfur Gíslason skipstjóri
frá Bessastöðum


Gömlu skjöktbátarnir

Eyjólfur Gíslason skipstjóri á Bessastöðum.

Ef til vill þykir það ekki í frásögur færandi eða umtalsvert, þó að ekki finnist nú lengur í Vestmannaeyjum einn einasti skjöktbátur með þessu lagi. Sá síðasti og eini, sem til var, lenti í Þjóðhátíðarbrennunni s.1. sumar, og var þar með saga þeirra öll.
Þessir bátar voru á sinni tíð eitt mikilvægasta atvinnutækið hér í Eyjum og nauðsyn hverjum útvegi að eiga góðan skjöktbát, auk annarra árstíðabundinna nota svo sem við sanda- og úteyjaferðir.
Einnig áttu skjöktbátarnir ekki lítinn þátt í uppeldi og lífi drengja hér, sem tóku stundum bátana traustataki í fyrstu sjóferðina út á Botn eða Vík. Mér þykir því rétt, að atvinnusaga þeirra geymist.
Það munaði litlu, að síðasta skjöktbátnum með „Jens-laginu“ yrði bjargað frá algerri eyðileggingu, og skrái ég þá sögu hér með.
Um miðjan júlímánuð síðast liðið sumar hittumst við Jón Sigurðsson frá Múla og röbbuðum saman að venju. Þar á meðal sagði hann mér frá þessum báti, sem lægi í sýnilegri óhirðu sunnan og austan við Lifrarsamlagshúsin, og myndi þetta vera síðasti skjöktbáturinn í Eyjum með þessu lagi. Reyndist þetta rétt vera.
Gengum við svo saman að skoða bátinn, þar sem hann lá með tvö nýbrotin göt á botninum og keipastokkalaus stjórnborðsmegin, einnig vantaði hluta af hástokknum. Þó að báturinn liti ekki sem bezt út, kom okkur Jóni saman um að reyna að bjarga honum.
Fyrst varð að hafa upp á eigendum bátsins, sem við vissum ekki hverjir voru, og fá þeirra leyfi til að hirða bátinn, síðan að útvega húspláss til að geyma hann í. En eins og öllum Vestmannaeyingum mun vera ljóst, er hér ekkert safnhús til að varðveita og geyma í slíka muni, ásamt fleiru, sem tilheyrt hefur aðalatvinnuvegi Eyjanna, fiskveiðum. Er nú margt merkilegra muna og tækja farið forgörðum, og er það óbætanlegt. Er eins og mörgum gleymist eða vilji ekki við það kannast, „að fyrir fisk, varð þessi garður ull“.
Eigendur bátsins reyndust vera fjáreignarmenn í Álsey og Elliðaey, og hafði báturinn síðast verið notaður við fjárflutninga í þær eyjar.
Leyfi til að hirða bátinn var auðsótt, og var fengin geymsla fyrir hann í Skiphellahúsinu. En allt of langur tími fór í þetta, og þegar allt var komið í kring og hirða skyldi bátinn, var hann horfinn.
Samt fréttist fljótlega, hvar hann var niður kominn, en þá var báturinn svo illa brotinn og sundurliðaður, að ekki voru tiltök að gera við hann.
Nákvæmt mál náðist þó af bátnum og reyndist það vera: lengd milli stafna 6,45 metrar, breidd milli hástokka um miðju 1,80 metrar, dýpt á kjöl frá þóftu 0,50 metrar.
Bátinn smíðaði Ólafur Ástgeirsson haustið 1927 handa m/b Ísleifi VE 63, og var hann skjöktbátur Ísleifs, meðan honum var lagt við festar á Botninum.
Nokkru eftir að Sigurjón Ingvarsson hóf Stokkseyrarferðir, sem hann stundaði sumar og haust um árabil, keypti hann þennan bát til nota við „landferðir“, en jafnhliða fólks-og vöruflutningum til Stokkseyrar flutti Sigurjón iðulega fólk og ýmsan flutning upp að „Söndum“, en sótti þangað hey, kindur, kýr og hesta.
Þegar Sigurjón hætti Stokkseyrarferðum, keyptu fjáreigendur bátinn, og áttu þeir hann upp frá því.

Jens Andersen skipasmiður frá Friðrikssundi í Danmörku smíðaði hér fyrsta skjöktbátinn með því lagi, sem síðar var við hann kennt. Mun þetta hafa verið sumarið eða haustið 1913, þegar hann var að smíða hér sinn fyrsta mótorbát, m/b Trausta, sem var súðbyrtur, tæplega 9 tonn að stærð og mun enn vera til austur á Seyðisfirði.
Skjöktbát þennan smíðaði Jens handa Pétri bróður sínum á Sólbakka, sem þá var formaður með m/b Lunda VE 141, er var súðbyrtur tvístefnungur, full 7 tonn að stærð.
Pétur átti skjöktbát þennan allt fram til ársins 1940 og notaði hann alltaf við útgerð sína.
Var þetta eini skjöktbáturinn, sem var seglbúinn með mastursgati í miðri fremstu þóftu og stellingu fyrir mastrið í kjölnum. Mastrið var mjög hátt, en ekki var haft nema eitt stórt segl á bátnum, og munu þeir bræður hafa sniðið það eftir dönsku kappsiglingabátunum. Tók báturinn mjóg nærri vindi með þessum seglabúnaði, svo að unun var á að horfa. Í frískum vindi, en þó sléttum sjó, virtist báturinn sigla sem næst beint upp í vindinn. Bátur þessi var alltaf grámálaður ofan sjólínu, en svartur í sjó; bar hann af öðrum skjöktbátum fyrir glæsileik og hirðusemi. Aðrir skjöktbátar voru tjargaðir. Endalok bátsins urðu þau, að hann slitnaði frá bryggju eða tók út úr Hrófunum um nótt í austanroki, rak upp í Bratta og brotnaði þar í spón. Gott stýri á stýrisjárnum var á þessum báti, og mun það enn vera til í eigu þeirra Andersens-bræðra.
Eftir þetta smíðaði Jens nokkra skjöktbáta með sama lagi þau ár, sem hann var hér við mótorbátasmíðar.
Fram til þessa höfðu gömlu vorróðrabátarnir, sem voru með færeysku lagi, verið notaðir sem skjöktbátar á fyrstu árum mótorbátanna. Var mikill fjöldi þessarra báta hér og munu hafa verið nær 40 að tölu, þegar þeir voru flestir á árunum 1903-6.

Bjóð.

Bátar þessir voru fremur ætlaðir til fiskveiða en flutninga, og var því erfitt aó koma fyrir í þeim línubjóðum¹), svo að vel færi. Varð oft háfermi þessum bátum, þó að ekki væru nema 10-12 bjóð um borð. Alltaf var farið með bjóðin í einni ferð út í mótorbátana á nóttunni, og gat það stundum verið aðgæzluvert, þegar ylgja var á höfninni og svartamyrkur.
Bátarnir með „Jens-laginu“ voru aftur á móti mjög rúmgóðír og stöðugir. Þeir voru flatbotna með mikið barkarúm og stóran skut, sem var kringdur og mjög hringlaga við afturstefnið; í þeim voru þrjár þóftur. Ekki var í bátunum skilrúm, nema í austurrúmi, og var aldrei látinn fiskur, bjóð eða annað í það rúm. Skjöktbátar þessir voru fjórrónir, tveir keipar á hvort borð, og fylgdu ætíð fjórar árar og austurfata hverjum skjöktbát. Árar og austurskjóla voru alltaf geymd í beituskúrnum, því að ekki þýddi að skilja þetta eftir í bátnum, ef ganga skyldi að því vísu, þegar menn mættu til skips í Hrófunum á nóttunni. En nokkur erfiðisauki var að því að verða að bera þetta á milli í hverri sjóferð.
¹) bjóð: lág, ílöng trog, sem línan var beitt í.

BREYTT BÁTALAGFljótlega eftir að Jens hafði smíðað þessa fyrstu skjöktbáta, fór Ólafur Ástgeirsson að smíða báta með sama lagi, og smíðaði hann tugi báta af þessari gerð. Um 1930 breytti Ólafur lagi skjöktbátanna og gerði þá léttari til róðurs og setnings, en nokkru minni, enda höfðu aðstæður breytzt nokkuð á þessum árum. Línurennan var almennt tekin í notkun vertíðina 1928, og tóku menn þá einnig að nota stampa í stað bjóða undir línuna. Lengdist nú línan að mun, og beitti hver bátur 100-150 strengi í 20-30 stampa, en áður en línurennan var tekin upp, var venjuleg línulengd 72-96 strengir, sem beittir voru í 12-16 bjóð.
Var nú lítið gert að því að flytja stampa á skjöktbátunum út í mótorbátana, nema á stórstraumsfjöru, þegar þeir flutu ekki að bryggju; varð þá oft að fara tvær ferðir með stampana.
Annars var alltaf reynt að raða stömpunum sem fremst á bryggjubrúnirnar, eða þar, sem mótorbáturinn flaut að. Oftast var einn maður af skipshöfninni skilinn eftir til að gæta stampanna, meðan hinir fóru út á Botn til að sækja bátinn. En á bryggjunum voru mikil þrengsli og troðningur, þegar 60-70 bátar, eins og oftast var, þurftu að ná í stampana á sama hálftímanum fyrir „blússið“.
Á þessum skjöktbátum Ólafs var þreyttur kappróður á sjómannadaginn, þar til sjómannafélögin fengu hann til að smíða kappróðrabáta þá, sem nú er róið á. Ennþá mun vera til einn bátur af þessari gerð. Er hann í eigu fjáreigenda í Yztakletti. Sennilega fer hann sömu leið og bátarnir með „Jens-laginu“, í glötun og gleymsku.

UPPSÁTUR

Hrófin og Lækurinn..jpg


Hrófin og Lækurinn

Myndin mun vera tekin um 1931. Á miðri myndinni sést vel skjöktbátur með „Jens-laginu“.


Reglugerð um uppsátur

Í uppsátrinu milli Bæjarbryggju og Edinborgarbryggju hefir mótorbátunum veriö úthlutað uppsátur, eins og hér segir, talið frá vestri til austurs, og skipað þannig í raðir, hver niður af öðrum.

1 Neptúnus 2 Faxi 3 Sigríður 4 Olga
Ari Guðrún Garðar VE 243 Valdimar
Tjaldur Ófeigur Haukur Glaður
5 Hansína 6 Svanur 7 Skuld VE 263 8 Kári
Kap Stakkárfoss Gúlla Haffrú
Gullfoss Elliði Bragi Mars
9 Unnur 10 Kristbjörg 11 Hekla 12 Gammur
Skallagrímur Njörður Atlantis Lundi
Hjálpari Lagarfoss þór
13 Bliki 14 Höfrungur VE 238 15 Halkion
Helga Austri Friðþjófur
Sísí Sæborg
16 Maí 17 Kári
Sölmundarson
18 Soff?
Gunnar
Hámundarson
Baldur

Í uppsátrinu austan viö Íshúsið hefir einnig veriö úthlutað uppsátri og skipað í raöir eins og hér segir, talið frá vestri til austurs:

1 Happasæll 2 Kópur 3 Gamli Enok
Mýrdælingur Ingólfur
Arnarson
Nýi Enok
Gylfi
4 Ester 5 Örn 6 Karl 7 Gideon
Ása Gústaf Soffía

Þeir bátar, sem eiga að vera saman í röð, skulu setjast þannig, að sá sem fyrst kemur, setji bát sinn alveg upo að vegi, sá sem næst kemur setji upp að hinum, og verður í miöjunni, og sá sem síðast kemur verður neðstur i röðinni. Komi þeir jafnt ræður ofangreind niðurskipun. Enginn má setja bát, nema í þá röð sem honum er ætlað að vera. Þegar bátarnir standa uppi eiga þeir að liggja vestur. Allar frekari upplýsingar þessu viðvíkjandi gefur hafnarvörður, herra Geir Guðmundsson, Geirlandi.
Þeir, sem eigi hlýða ofanrituðum fyrirskipunum, verður tafarlaust vísað burt úr uppsátrinu, með báta sína, og látnir sæta ábyrgð ef tjón hlýtst af.

Bæjarstjórinn í Vestmannaeyjum, 24. febrúar 1925.
Undirskrift.jpgÍ uppsátrinu austan við Íshúsið vantar Víking í röð 7 eftir Gideon.

SANDAFERÐIR


Lending við Sandinn.jpg
Lending við Sandinn.
Skjöktbáturinn dreginn á milli.
Ýting frá Sandinum.
Við steðjan í útey. Pokaður lundi í skutnum. Í stafni sést greinilega í festarklampana.
Skjöktbátur í eftirdragi.


Sem fyrr segir, voru skjöktbátarnir mikið notaðir í landferðir og við úteyjar, hvort sem var við fugla- og eggjatöku eða fjárflutninga. Þóttu þeir hreinasta afbragð við brimlendingar í ferðum þessum, sem voru oft vondar og slarksamar og útheimtu hörku og dugnað. Fékk margur kalt bað við sandana, og voru menn oft blautir upp í mitti eða meira meðan á upp- og útskipun stóð.
Á árunum 1910-30 voru fluttir hingað til Eyja frá Landeyja- og Eyjafjallasöndum mörg hundruð hestburðir af heyi á hverju sumri og fjöldi sauðfjár, sem ýmist var keypt til slátrunar eða til ásetnings í úteyjum eða á heimalandi.
Skjöktbátarnir tóku 12-15 heybagga eða 15-20 kindur. Gekk því oft furðu vel að skipa út fullfermi í mótorbátana, sem lágu fyrir föstu eins nærri söndunum og aðstæður leyfðu hverju sinni. Skjöktbátarnir voru alltaf dregnir á milli mótorbáts og sands með línubólfæri, sem var hnýtt í báða enda skjöktbátsins, svo að ekki þyrftu menn að fara á milli í þeim hverju sinni. Í sandferðum gerðust oft sögulegir atburðir, og voru þetta stundum svaðilfarir, sem verða sennilega aldrei skráðar, enda fáir nú til frásagnar, sem í þeim lentu.

Skjöktbátur að róa inn Lækinn 1924..jpg


Skjöktbátur að róa inn Lækinn 1924.


Skal nú vikið að aðalhlutverki skjöktbátanna, sem þeir gegndu um nær hálfrar aldar skeið, meðan öllum vélbátum var lagt við festar úti á Botni. Var það flutningur á skipshöfn að og frá borði og uppskipun aflans, þegar mótorbáturinn flaut ekki að bryggju.
Skjöktbátarnir voru geymdir í Hrófunum, og hafði hver bátur sinn stað, eins og sjá má af reglugerð, sem hér birtist (bls. 11).
Var reglugerð þessi gefin út, eftir að Hrófin voru lagfærð árið 1924, en þá voru steyptar setningsbrautir og garðar kringum þau og sléttað undir bátana innan garðanna og lagt með hleðslugrjóti.
Voru Hrófin óbreytt upp frá því, unz merkileg og aldagömul saga þeirra var öll, þegar Lækurinn var að mestu fylltur upp og Nausthamarsbryggjan byggð árið 1956.
Auk báta þeirra, sem eru taldir upp í reglugerðinni, höfðu Tangabátarnir, sem oftast voru 3-6, uppsátur í Tangavikinu, sem var upp með Tangabryggjunni að vestan.
Þá voru bátar þeir, sem höfðu athafnasvæði upp af Skildingafjöru og Máfaeyri, við Gíslabryggju, sem var timburbryggja á steinstöplum, kennd við Gísla Magnússon í Skálholti. Settu bátarnir við Gíslabryggju skjöktbáta sína upp, ýmist austast í Skildingafjöru, þar sem nú er dráttarbraut Gunnars Marels, eða í sandvik vestan við Sjóbúðarhólinn, þar sem nú er efsti hluti Básaskersbryggju.
Flestir formenn og bátaeigendur reyndu að gæta vel að bátum sínum og verja þá tjóni. Gat það valdið mönnum stórvandræðum og aflatjóni að missa skjöktbátinn eða fá hann brotinn. Það var því föst venja flestra og jafnvel allra formanna í ofviðrum að fara niður í Hrófin á öllum tímum sólarhringsins og hyggja að skjöktbátnum. Voru þá bátarnir bundnir hver í annan og sumir þeirra bundnir niður í klapparaugu og járnaugabolta, sem voru víða um Hrófin frá tímum gömlu áraskipanna.
Þegar farið var í róður, var mikið líf og hreyfing í Hrófunum, einkum á línuvertíð, þegar þar mættust á sama tíma tugir sjómanna af bátum þeim, sem áttu uppsátur þarna. Var stundum nokkur háreysti og köll, því að allir voru að flýta sér.
Er þéttast var sett í Hrófin, voru bátarnir svo náið, að ekki var gangfært á milli þeirra. Gat orðið erfitt um setning fyrir þá, sem ætluðu sér að verða fyrstir að ná bryggjuplássi til að taka bjóðin um borð, áður en farið var í róður. Ef fáir réru, voru einnig miklir erfiðleikar hjá þeim, sem áttu báta sína í efstu röð upp við Strandstíginn. Varð oft að setja niður eða bera til 3 eða 4 báta og jafnvel stundum að setja þá upp í næstu báta til að koma eigin báti úr Hrófunum. Þegar sjósetja varð annarra báta við þannig aðstæður, var alltaf reynt að tylla þeim í næstu báta eða Hrófagarðana, eftir að þeir voru steyptir.
Neglan var venjulega góður korktappi með bandi í, og var hennar gætt vel, enda mjög mikilvægt. Oftast var neglan vandlega falin, og sumir formenn geymdu hana í vasa sínum, en frá gamalli tíð var það verk formannsins að setja negluna í skipið.
Það kom því iðulega fyrir, að menn vantaði eitthvað nærtækt til að setja í neglugat annarra báta eða þá það gleymdist, og var því oft komið að skjöktbátum, sem höfðu verið settir utan og neðan við Hrófin, hálffullum af sjó. Jók þetta allt á erfiðið, áður en komizt var af stað.
Ef mikla snjókomu gerði, fyllti bátana af snjó og hjálpuðust þá oft tvær skipshafnir við að hvolfa bátunum til þess að losa úr þeim snjóinn, áður en þeir voru sjósettir. Ef pláss var til, hvolfdu sumir bátum sínum, þegar mikillar snjókomu var von.

LAGZT ÚT Á BÓL

Bátar á bólum innan við Löngunef um 1925. Myndina tók Kjartan Guðmundsson..jpg


Bátar á bólum innan við Löngunef um 1925. Myndina tók Kjartan Guðmundsson.


Oft og tíðum beið mesta erfiðið sjómannsins og það hættumesta, eftir að komið var að landi, en það var að leggja mótorbátnum við festar úti á Botni, þegar komið var rok og svartamyrkur, en allir bátar og hafnarsvæðið óupplýst.
Hafnarfestarnar lágu á botni Hafnarinnar, og lágu mótorbátarnir fyrir keðjum, sem fest var með vissu millibili á hafnarfestarnar. Voru ból mótorbátanna keðja (botntaumur), sem fest var með sigurnagla í hafnarfestina, sem lá svo upp í mun stærri sigurnagla, þar sem fest var tveim keðjum, stjórnborðs- og bakborðshálsi (eða taumi), sem mótorbáturinn lá fyrir. Í endann á hálsunum var splæst 2ja til 3ja faðma tói. Var endi stjórnborðstaums bundinn í bólið eða uppihaldið, sem kallað var, og hélt það uppi botntauminum. Stjórnborðskeðjan var ætíð nokkru sverari en bakborðskeðjan. Þegar farið var frá bólinu, var uppihaldinu kastað lausu ofan í skjöktbátinn. Skjöktbáturinn lá fyrir bakborðsstraumi, og var bakborðshálsi brugðið um fremstu þóftu bátsins. Áður var hann dreginn gegnum fangalínuklampann, sem var svert tré frammi í stafni milli hástokka. Þess var alltaf gætt, að keðjan væri komin inn úr klampagatinu og vel inn í skjöktbátinn, áður en bundið var um þóftuna. Venjulega voru árarnar bundnar niður með taumendanum.
Áður en hafnargarðarnir voru fullgerðir, og aðrar hafnarbætur, eins og nýjar bryggjur og dýpkun hafnarinnar, var óunnið verk, þurfti bæði útsjón og fyrirhyggju hjá formanninum að leggja rétt að bólinu í sjógangi og svartamyrkri, því að oft vildi skjöktbátana fylla, þegar veður versnaði, og möruðu þeir þá í kafi á festunum. Þurfti samstillt átak og örugg handtök allra skipverja til að ná uppihaldinu (belg eða spýtu), um leið og mótorbátnum var lagt að bólinu.
Um leið og uppihaldinu var náð, var reynt að ná upp fanglínu skjöktarans, og var hún sett föst, því að annars gat skjöktbáturinn lent undir mótorbátinn, og var það ekkert spaug.
Alltaf var stjórnborðstaumurinn dreginn fyrst, og ef aðstæður leyfðu ekki stoppað fyrr en sigurnaglinn var kominn að stefni bátsins eða vel upp úr sjó. Þá var bakborðshálsinn leystur úr skjöktbátnum, dreginn upp í bakborðskifann og settur fastur á pallstyttuna. Þess var gætt, að bakborðsháls væri aldrei stífari en stjórnborðsháls.
Það kom fyrir, að báðir taumar voru snún-ir saman, og stundum var annar vafinn niður á botntauminn. Festarnar voru dregnar upp á handafli, og þótti í misjöfnum veðrum alversta sjóverkið og reyndi á kraftana, þegar mótorbáturinn rykkti í keðjuna. Um 1920 fóru svo að koma lítil handsnúin spil, sem sett voru í nokkra stærstu bátana. Var spilunum komið fyrir aftan við pallstyttuna frammá og aðallega notuð við að festa bátana á bólin, en þungt var að snúa þeim, og ekki voru þau fljótvirk.
Þegar mótorbátnum hafði verið lagt örugglega við festar, var eftir róðurinn til lands og setning í Hrófin. Var þetta oft erfitt verk örþreyttum og uppgefnum mönnum, kannski eftir að hafa hent nokkrum hundruðum af fiski með berum höndum seilingarhæð sína upp á bryggju. Varð stundum að beita fyllstu orku og mestu skaphörku við þennan síðasta áfanga sjóferðarinnar, enda menn fáliðaðir.
Á línuvertíð settu aðeins 4 menn bátinn úr Hrófunum, en einn skipverja gætti bjóðanna, oftast formaðurinn, og iðulega voru það heldur ekki nema 4 menn, sem lögðu mótorbátnum á bólið.
Komið gat það fyrir, að ekki var drægt á 4 árum upp í Lækinn, eða þá, að þótti of áhættusamt vegna sjólagsins, þegar verstu austan veðrin gengu yfir. Var þá hleypt undan veðrinu upp í Botninn eða inn í Skildingafjöru. Eitt sinn var ég með í því að vera um klukkustund að berja upp í Læk utan af Botni. Munaði minnstu, að við lentum upp í Tangaklöppunum, og höfðum við þó 30 fiska í bátnum sem stöðvun. Vorum við aðeins 4 á bátnum, en nokkrum sinnum varð að leggja upp eina árina til að ausa.
Þetta var á línuvertíð árið 1922.

LÖNDUN

Fisklöndun. Báturinn hefur tekið niðri á sandleirunni fyrir framan Bæjarbryggjuna. ─ Reyna mennirnir að stjaka bátnum að bryggju.

Að lokum ætla ég svo að minnast nokkuð á löndun aflans, eins og hún var, þegar skjöktbátarnir voru notaðir við hana.
Allur fiskur var tíndur með berum höndum, því að stingir komu ekki til notkunar hér fyrr en um og eftir 1930. Ef báturinn flaut ekki að bryggju, Iá hann úti á og var aflanum komið að bryggju með skjöktbátnum. Sést þetta glögglega á hinni frægu Vestmannaeyjamynd, sem víða er til og m. a. var á 50 króna seðlum. Uppi á bryggjunni var formaðurinn og tók með línugogginum fisk, sem lenti tæpast á bryggjubrúninni, og henti honum ofar. Það var verk formannsins að skipta aflanum sem jafnast að stærð og tali milli bátseigenda, sem iðulega voru 3—6, svo og sínum formannsparti og hluta vélamanns, en hann var oftast ráðinn upp á 5 strengi á línuvertíðinni, en 20. part af netafiski. Línu og beitu skyldi hann leggja sér til sjálfur.
Ef um meiri fisk var að ræða en komst í einni ferð skjöktbátsins, gætti formaður þess vel að skipta ekki öllu upp, heldur geymdi hann 20—30 fiska og breiddi sem bezt úr þeim til þess að helga sér bryggjuplássið, sem hann var kominn í. Kom það fyrir, og kannski ekki óeðlilegt í þrengslunum, að sá næsti, sem kom að bryggjunni, vildi ágirnast plássið og jafnvel róta saman þessum fáu fiskum, sem þar lágu. En sjaldan gekk það orðalaust af, og komið gat það fyrir, að fiskigoggum var brugðið á loft orðunum til áherzlu, því að þarna áttust við skapharðir menn, sem ekki vildu láta á sig ganga. Þess konar erjur jöfnuðust fljótt og gleymdust, því að flestir voru þeir gæðadrengir, hertir í volki harðrar lífsbaráttu.

Þegar ég lít yfir Vestmannaeyjahöfn í dag með fríðan flota í öruggri skipakví, leita stundum á hugann minningar um erfiðið við sjósóknina á fyrri tíð hér í Vestmannaeyjum. En í þeirri þróun frá harðræðum til hagsældar, sem orðið hefur góðu heilli, eiga skjöktbátarnir gömlu sinn góða þátt.

E.G.