Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1967/Drengurinn við hafið

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
DRENGURINN VIÐ HAFIÐ


EFTIR BJÖRK


Það var skemmtileg tilviljun, þegar kvæði fyrrverandi sjómannskonu hér í Eyjum rak á fjörur Sjómannadagsblaðs Vestmannaeyja.
Birtum við hér ljóð eftir frú Margréti Guðmundsdóttur, eiginkonu Guðsteins Þorbjörnssonar frá Reynifelli, sem stundaði hér sjóinn í yfir 30 ár.
Frú Margrét hefur fengizt nokkuð við að yrkja og notar skáldanafnið Björk. Hún er fædd í Reykjavík 20. júní 1909, dóttir hjónanna Guðrúnar Jónsdóttur og Guðmundar Kristjánssonar, sem var hér gúmmílímari í fjöldamörg ár og var vel þekktur meðal sjómanna í því starfi. Margrét fluttist til Vestmannaeyja árið 1930 og giftist Guðsteini Þorbjörnssyni 1931. Hefur hún því verið sjómannskona mestan hluta sambúðar þeirra, og einn sona þeirra er sjómaður.
Við þökkum frú Margréti þetta fallega ljóð og óskum þeim hjónum alls velfarnaðar á komandi árum.

Ljósm. Sigurgeir Jónasson.

Hann krýpur í fjörunni, drengurinn, sjómannsins sonur
og setur fram lítinn bát
með drifhvítum seglum og skoðar báruna bláu,
sem byltir sér æskukát.
Hún leikur við bátinn hans, faðminn sinn réttir og fellur
fellur og ris á ný.
Sem bergnuminn starir á hafflötinn heillandi bjartan.
Hvergi virðist til ský.

Svo rís hann á fætur og horfir með undrun í augum
á allt það, er sjónum nær.
Himinninn allur er glóandi gullrúnum vafinn,
og gulli er dreifður sær.
Við sjóndeildarbringinn er bláminn í fjarskanum fagur,
þar fjall er með hvítan tind.
Hvert sem hann lítur þá mætir augunum aðeins
unaðartöframynd.

Hann vaknar um síðir af vökunnar viðkvæma svefni —
vaknar og ræðir hljótt
við bátinn og síkvika litlu báruna bláu,
sem bátnum vaggar rótt:
Hann pabbi er sjómaður, afi og frændi minn einnig,
ég ætla þá sömu slóð,
með skip mitt á hafið ég fer, þegar fjölgað hef árum,
þar finna mun dýran sjóð.

Því hafið er gjöfult, það heyrði ég mömmu segja,
en hún var að tala um sár,
er einnig það veitti, og hættur sem steðjuðu að stöðugt,
þá strauk hún á burtu tár,
en brosti svo aftur og sagði: „En Guð er góður,
hann gleymir ei manni í neyð.
Við skiljum það einnig, að eitt sinn við eigum að deyja,
það er okkar mannanna leið.“

Hún sagði líka: „Já, hafið á fólgna þá fegurð,
sem farmannsins hjarta nær.
Hver sjóferð er samtvinnuð heillandi draumsýn og hættum
sem hreysti og þroska ljær.
Hafið, það leikur á hörpunnar hljómríku strengi
— sú harpa í öldunum býr,
með fyllingu hljómsins og fegurð í sérhverju stefi,
hún farmanni að Guði snýr.“

Björk.

Hún sagði mér fleira hún mamma, ég má því ei gleyma,
ég muna vil hennar orð:
„Mundu það“. sagði hún „að öldurnar þarf ei óttast,
ef eigum við Jesúm um borð,
því hann er sá vörður, sem vakir jafnt nætur og daga,
hann verndar á landi og sjó.
Og þegar í hjartanu brimsjóir harmanna brotna
hann býður: Hér verði ró.“

Hann krýpur í fjörunni, tekur af bárunum bláu
burtu sitt litla skip.
Léttur í spori á heimleið til mömmu sér hraðar,
með hetjunnar djarfa svip.
Með brosi á vanga hann sögu dagsins þá segir
um sjómannsins ötula starf.
Og mamma skilur, að sonurinn fríði' hefur fengið
farmannsins blóð í arf.

Hún veit af reynslu, að svefninn oft neitar að nálgast,
ef nóttin er köld og myrk.
En Drottin þekkir hún einnig og veit, að hann vakir
og voldugan gefur styrk.
— Svo krjúpa þau saman þá kvöldið er farið
kyrrðina að breiða um storð.
Þau biðja Jesúm að vaka og veita þeim aðstoð
og vera hjá pabba um borð.