Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1967/„Hvert mannsbarn er áfangi mannkyns á jörð.“

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Séra Þorsteinn L. Jónsson.


„HVERT MANNSBARN ER ÁFANGI MANNKYNS Á JÖRГ


Flestir þekkja söguna af Robinson Crusoe. Hann varð skipreika á eyðiey. Einum og allslausum skolaði sjórinn honum upp á land, langt frá alfaraleið.
Ekkert, ekki einu sinni hnífsblað, hafði hann til að létta sér lífsbaráttuna með.
Nú varð hann að duga, ef hann vildi ekki deyja, enda lét hann sínar tvær tómu hendur standa fram úr ermum.

Þegar þetta henti, var hann unglingur, sem alinn hafði verið upp í allsnægtum.
Í iðu stórborgarlífsins hafði hann kynnzt þægindum og tækni umheimsins. Þarna á útskerinu hafði hann samt engin tök á að færa sér þekkingu sína í nyt, nema að mjög litlu Ieyti, því að til þess vantaði hann verkfæri og vélar. — Hann hafði lesið af bókum, hvernig kveikja mætti eld, en honum entust ekki handtökin.
Eftir margra ára einveru eignaðist Robinson félaga og vin. Þetta var villimaður, sem stóð Robinson að baki í mörgum greinum. Í því skaraði hann þó fram úr: að nýta hið frumstæða á réttan hátt. Í þeim efnum dugðu vel hans tómu hendur.
Það var honum leikur einn að kveikja þann eld, sem „beztur hefur reynzt með ýta kindum“. Það gerði hann með tveim spýtukubbum.
En svo henti það eina óveðursnótt, að heilan skipsfarm rak upp að ströndinni með alls konar varning, verkfæri, fatnað og matvæli.
Þá tengdist Robinson heimahögum sínum á ný, en í augum náttúrubarnsins, eða villimannsins, var það allt framandi, einungis gagnslítið glys.
Hvað kennir þetta mér?
Það kennir mér það, að líf hvers manns, á hvaða tíma sem er, byggist á starfi og starfstækni undangenginna kynslóða, sem hugvísindi reynslunnar hafa gjört sér tiltæk í lífsbaráttunni, allt frá dögum okkar fyrstu foreldra.
Sagan af Robinson leiðir þannig ósjálfrátt huga minn að starfi allra jarðarbarna. Það knýr mig til þakklætiskenndar við liðna tíma og treystir tengslin við forfeðurna. Ég fyllist lotningu frammi fyrir sigggrónum og vinnulúnum höndum erfiðismannsins, sem bar hita og þunga dagsins á þægindasnauðum tímum. — Ég finn til þakklætiskenndar gagnvart hinum vinnulúna erfiðismanni fyrri tíma, sem galt lífinu alla sína líkams- og sálarkrafta, svo að mér tæmdist arfur eftir þeirra dag. Sá arfur felst í nýjum áfanga í þróunarsögu menningarinnar og gerir mér fært að lifa við margbreytilegri og fullkomnari þægindi. Það gefur hverri nýrri kynslóð fleiri kosta völ til að beita hæfni sinni í lífsbaráttunni í sem nánustu samræmi við upplag hvers og eins og hæfni.
Þegar ég virði fyrir mér húsagerðarlist nútímans, verður mér ósjálfrátt hugsað til hellisbúanna gömlu og fyrstu tiltektanna í að breyta híbýlum sínum til aukinna þæginda og fegrunar. Og þegar ég sé risaskipin kljúfa öldur úthafanna, verður mér hugsað til frumstæða timburflekans, sem var fyrsta fleytan, sem gjörði mönnunum fært að nýta fiskimiðin og fá útþrá sinni svalað.

Ungur sjómaður horfir til hafs. Myndin tój Ingólfur Guðjónsson Oddsstöðum.

Það er einmitt sagan af Robinson Crusoe, sem leitt hefur huga minn nú að þessum samanburði. Og þegar ég sé hlið við hlið frumstæðan helli eða jarðholu og íbúðarhús almennings í dag, eða stórskip nútímans ösla stefnufast fram hjá óásjálegum fleka eða eintrjáningi, sem á allan sinn fararbeina undir Guði og lukkunni, þá fer ekki hjá því, að ég sjái hinn stórkostlega mismun. En þessi mismunur byggist einmitt á starfi hugar og handa, svo langt aftur í forneskju, sem maðurinn steig fyrst fæti sínum á þessa jörð. Skref fyrir skref þróuðust handtök og hugvit — dag eftir dag og öld eftir öld. Og það væri sannarlega mikill ljóður á okkar ráði, ef okkur fyndist ekki mikið til um þetta né fyndum til þakklætisskuldar og ábyrgðar á að skila næstu kynslóðinni arfinum, sem henni ber, í réttu hlutfalli við það, sem feður okkar og mæður færðu okkur.
Smámunir daglegs lífs þykja vissulega engan veginn mikils virði, enda segir margur maðurinn: „Hvað munar um mig?“ En þetta, sem við köllum smámuni, og hver maður veldur auðveldlega, byggist einmitt á hinu hversdagslega fábreytta starfi. Lífið krefst þess, að þetta daglega starf sé unnið af trúmennsku. Þá sést bezt, að þetta eru engir smámunir, því að þetta bindur saman í eina heild þann samhug og samstarf, sem fullkomnar grundvöllinn að líkamlegri og andlegri vellíðan okkar og öryggi. Lífið krefst fórna. Fyrst og fremst þeirra fórna að hafa valinn mann í hverju rúmi, sem vinni sín daglegu störf af svo mikilli trúmennsku og af svo mikilli hógværð og í svo mikilli kyrrð, að öðrum fari jafnvel að finnast eins og þeirra framkvæmdir komi af sjálfu sér. Því að þegar svo er unnið eru hlekkir mannfélagskeðjunnar traustir og farsælir. Það getur verið og verður víst oftast svo, að þvílíkir úrvals lífsþegnar gleymast umheiminum, enda kveðja flestir þessara þögulu bakvarða þetta líf án þess að sjá þakklætisvott eða fá viðurkenningarorð. Og hversu sárt sem við kunnum að finna til þessa fálætis, þegar við hugsum um það, er það engu að síður starf þessa fólks, sem undirbyggir alla okkar framtíð um farsæla afkomu.
Ég er ekki að mæla því bót, að við gleymum þannig okkar beztu mönnum, sem eru vissulega í öllum stéttum þjóðfélagsins. Það er aðalsmark á hverjum manni að kunna að meta það, sem honum er vel gjört og þakka það á verðugan hátt. Þar á hvorki við skrum eða tildur. Fyrstu og beztu launin er hinn hlýi, hæverski hugarilmur viðurkenningarinnar, sem andar til mín þeirri orðvana yfirlýsingu, að starf mitt sé metið. Þá finn ég, að til einhvers er að vinna. Eg finn til innri gleði yfir því, að mér er ekki ofaukið og heilbrigður metnaður kyndir undir athafnir mínar, að ég skipi mitt rúm sómasamlega. Þessar línur mínar um trúa þjónustu eru tileinkaðar sjómannadeginum. Sjómenn fá e. t. v. ekki ávallt orð fyrir að tilheyra þeim kyrrlátu í landinu, en störf þeirra eru engu að síður hin kyrrlátu störf. Þau eru að vísu unnin við ókyrrð síkvikrar öldu úthafsins og hættur, þegar minnst varir, og einnig traustari fyrir það.
En hvað er yfirlætislausara og kyrrlátara en það að koma með hlaðinn bát að landi? Það þykja ekki fréttir og ekki neitt sérstaklega í frásögur færandi. Það fara heldur ekki miklar sögur af hverjum einstökum manni innan borðs, eða handtökum hans, sem færði þennan feng í land. Engu að síður eru hinar vinnandi hendur hins nafnlausa sjómanns það sem skapar grundvöllinn að lifandi starfi í landi, áframhaldi og þróun og arfi komandi kynslóðar.

Þorsteinn L. Jónsson