Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1966/ Vélstjóri meira en hálfa öld

From Heimaslóð
Jump to: navigation, search
HARALDUR GUÐNASON

Vélstjóri meira en hálfa öld

Ágúst Ólafsson vélstjóri.

Vestmannaeyingar hafa veitt því athygli, að undanfarin mörg ár hefur einn og sami maður úr hópi vélstjóra verið heiðraður á Sjómannadaginn: Ágúst Ólafsson, sem býr að Brekastíg 24 hér í bæ.
Ritstjóra þessa blaðs fannst því að vonum fara vel á því að biðja Ágúst að segja lesendum eitthvað frá sínum langa sjómannsferli, og bað mig að sækja Ágúst heim með blýant að vopni. Ég féllst á þetta, enda ekki langt að fara. Hitt var örðugra að fá færi á Ágústi vélstjóra, því hans vettvangur er enn á sjónum, og má ætla að svo verði lengi enn. En ég sat um hann eins og skrattinn um sál manns. Svo er hann kominn heim einn dag í bezta veðri. Það vildi þá svo vel til — nei, illa vildi ég sagt hafa — að spilið í bátnum bilaði. Þá var ekkert undanfæri, en heldur dræmt tók nágranni erindinu í fyrstu, en ég vann á tíma.
— Hvað hefur þú komið oft fram á svalir Samkomuhússins, Ágúst, sem heiðursgestur Sjómannadagsins?
— Það mun hafa verið í tíunda skiptið í fyrra. Ég hef stundað sjó í tæp 55 ár og vélstjóri hef ég verið í 54 ár.
— Þetta er furðulegt með ekki eldri mann. Segðu mér nánar frá þessu, en fyrst vil ég vita örlítið um uppruna þinn.
— Ég er fæddur 14. ágúst árið 1899 í Berufirði í Suður-Múlasýslu. Já, ég tilheyri fyrri öldinni, aldamótamaður að því leyti. Faðir minn var Ólafur Finnbogason, sem bjó í Fáskrúðsfirði góðu búi. Ég ólst upp hjá móður minni á Eskifirði. Í þá daga varð að taka til hendinni eins fljótt og hægt var — stundum kannski fyrr. En ég fór að róa á skektu innfjarðar þegar ég var 12 ára. Við vorum tveir á bátnum. Þetta gekk vel og mér féll fljótt vel sjómennskan.
Þegar ég var 13 ára, varð ég mótoristi á 4ra tonna bát sem hét Eljan og var með fjögra hestafla Dan-vél. Sameinuðu verzlanirnar á Eskifirði áttu þennan bát. Við vorum á fiskiríi á þessum bát á sumrin. Stundum fórum við út fyrir Seley. Á þessum bát var ég tvö ár. Við sóttum fisk og aðrar afurðir til innfjarðabændanna, fluttum fólk út í skip og svo framvegis. Þegar ég var fermdur sótti ég prestinn að Hólmum við Reyðarfjörð. Það var sá mæti klerkur séra Árni Jónsson frá Skútustöðum, sem þá var nýlega fluttur í Hólmasókn og þjónaði í Eskifirði.
— Og fórstu einn að sækja prestinn?
— Já, einn fór ég og þótti engum mikið.
— Næsti kapítuli.
— Já, við verðum víst að gera langa sögu stutta, því of langt yrði að fara út í nákvæma upptalningu. Ég hélt áfram á sjónum fyrir austan sem vélstjóri og var að sjálfsögðu á ýmsum bátum og mörgum.
— Hvenær fluttir þú til Vestmannaeyja?
— Ég flutti til Eyja 1928. Var hér raunar áður þrjár vertíðir, þar af tvær sem vélamaður hjá Guðjóni Tómassyni í Gerði á Ingólfi Arnarsyni.
— Og þú kaupir þér hús í upphafi kreppunnar?
— Já, ég keypti Brekastíg 24 fyrir 6000 krónur. Það var mikill peningur í þá daga og þetta var sannarlega erfitt á þeim tíma.
Ég hafði orð á því, að þetta væri líklega hús upp á milljón nú, en þess er að gæta, að Ágúst hefur stækkað hús sitt um helming.
— Erfitt að lifa hér á kreppuárunum?
— Já, það var mjög erfitt, mikið atvinnuleysi utan vertíðar. Ég þurfti kannski ekki að kvarta, ég var í góðum skiprúmum, en samt var þetta þungur róður. Ef einhver vinna bauðst voru tíu fyrir einn um hvert handtak. Á þessum árum voru menn stundum valdir í vinnu eftir pólitík eða þá, að þeir gengu fyrir sem skulduðu í verzlunum.
— Hafðir þú nokkra reynslu af þessu ástandi?
— Ekki fer nú mikið fyrir því, en ég gæti kannski sagt þér smásögu af þessu til gamans. Það var um 1930 að kolaskip kom til Ólafs Auðunssonar. Eg keypti alltaf kol hjá Ólafi og skuldaði ekkert. En nú var fátt um lausaféð og mér fannst ekki nema sanngjarnt að ég fengi að vinna fyrir mínum kolum eins og aðrir. Ólafur útdeildi hverjum og einum vinnunni og menn tryggðu sér hana fyrirfram. Nú fór ég heim til Ólafs kvöldið áður en skipið kom. Mér var vel tekið í Þinghól og Margrét gaf mér kaffi. En Ólafur tók erindi minu þunglega, þegir fyrst um stund en segir svo: „Nei, ég held ég geri þetta ekki. Þú borgar alltaf.“ Fór ég við svo búið. Næsta morgun fer ég niður á bryggju löngu áður en vinna byrjaði. Svo kom Kjartan, sonur Ólafs, með vörubíl og á honum mikla hrúgu af skóflum. Á bryggjunni var mikill fjöldi manna, sem vildi fá vinnu. Ég hafði mig lítt í frammi, en gekk að bílnum og tók eina skóflunasteinþegjandi. Fór svo niður í lest að moka kolum í mál. Líður nú fram að morgunkaffi. Þá birtist Ólafur við lestaropið og horfir á liðið. Kemur auga á mig og kallar á mig að korna og tala við sig: „Hver sagði þér að fara að vinna hér?“ Ég svaraði strax: „Ég sagði mér það bara sjálfur.“ Ólafur sagði ekki eitt einasta orð, en hvarf á brott hið bráðasta. Ég fékk svo kol mín eins og hinir og borgaði þau með vinnu minni. En aldrei lék ég svona bragð aftur.
— Þú gerðist útgerðarmaður á tímabili?
— Já, við keyptum þrír vélbátinn Blátind árið 1947 og áttum allir jafnan hlut. Síðustu árin átti ég bátinn hálfan. Ég átti í Blátindi um 11 ár eða til ársins 1958.
— Var Blátindur gott skip?
— Já, sérstaklega góður bátur. Blátindur var 45 tonn og Gunnar Marel smíðaði hann á sínum tíma. Það var Alfa-vél í honum og þær tel ég allra véla beztar. Ég var vélamaður á Blátindi allan þann tíma sem ég átti í honum og líkaði hann framúrskarandi vel.
— Hvernig gekk útgerðin?
— Útgerðin gekk vel, einkum síðari árin. Við vorum líka tvö sumur í landhelgisgæzlunni, aðallega á Faxaflóa. Vorum alltaf úti en fórum inn vikulega til að sækja kost og olíu.
— Hverjir voru skipherrar á Blátindi?
— Þorvaldur Jakobsson fyrra sumarið, en Garðar Pálsson það síðara. Báðir ágætismenn.
— Skeði ekki sitthvað skemmtilegt í landhelgisgæzlunni?
— Það er kannski ekki örgrannt. En er ekki varasamt að fara mikið út í þá sálma? Við tókum nokkra íslenzka fiskibáta og rússnesk skip. Fórum venjulega með bátana til Keflavíkur en Rússana til Reykjavíkur. Íslendingarnir rifu oft kjaft eins og þeir eru vanir og voru viðskotaillir, en Rússarnir tóku öllu vel og voru hinir kurteisustu. Það mega þeir eiga, að þeir voru mjög prúðir í framkomu.
— Ég hef heyrt, Ágúst, að þú hafir oftar en einu sinni lent í háskasamlegum sjóferðum.
— Jæja, það kann að vera, en ætli það sé ekki bezt að sleppa því. Ég hef auðvitað verið oft á sjó í vondum veðrum, til dæmis einu sinni þegar tveir bátar fórust. En ég vil ekki segja frá þeim atburðum. Það getur rifjað upp raunasögu í hugum ættingja. Annars hef ég verið svo heppinn, að það hefur aldrei drukknað maður af bát, sem ég hef verið á. Einu sinni féll út maður af bát hjá okkur austur af Urðunum. Það var bræla, slampandi. Þessi maður var ágætlega syndur og hraustmenni. Við lögðum að honum og náðum honum inn. Ég veit ekki betur en hann lifi enn góðu lífi.
— Það er sagt að þér hafi tekizt að brjótast upp úr sökkvandi bát á síðustu stundu?
— Jæja, ég get þá svo sem sagt frá því í stuttu máli. Þetta var 1947 í marz og báturinn var Hrafnkell goði, formaðurinn Júlíus Sigurðsson. Við höfðum verið á trolli vestan við Eyjar. Komum úr róðri um morgun og gert að aflanum. Að því búnu tókum við olíu og aðrar nauðsynjar og fórum að því loknu út seinni part dags.
Blíðuveður var þennan dag, norðan andvari. Austan við Klettinn mættum við vélbátnum Jökli (síðar „Guðrún“) sem var að koma úr róðri. Ég var niðri í mótorhúsi, var að dæla upp á hæðarbox vélarinnar, en hinni hendi hélt ég um skiptistöng vélarinnar. Ég var sem sagt með báðar hendur fastar.
Skyndilega kom geysimikið högg á bátinn. Við það missti ég haldið á pumpunni og stönginni og kastaðist af miklu afli út í síðu bátsins bakborðsmegin. Það varð mér áreiðanlega til happs, að ég hafði báðar hendur fastar á þessum hlutum þegar áreksturinn varð, annars hefði kastið orðið meira.
Ég stóð nú upp og sá, að báturinn var mikið brotinn og sjór fossar inn í vélarrúmið. Stefni Jökuls hafði gengið inn í bátinn aftur um bóginn og lenti á smurolíutanknum. Ég sá auðvitað strax, að hér var ekki eftir neinu að bíða.
Í Hrafnkeli hagaði svo til, að hægt var að ganga úr vélarúmi í afturkáetu og var allsterk hurð milli káetu og vélarrúms. Líka var stigi úr vélarrúmi upp í stýrishús og lúga yfir uppgöngu. Ég ætla nú fyrst aftur í káetu og þar upp, en hurðin var svo föst að mér tókst ekki að opna hana, en hinsvegar stóð ég eftir með snerilinn í hendinni. Ég beið þá ekki boðanna, en fer upp stigann og ætla að opna hlerann. En þar fer allt á sömu leið, ég næ hleranum ekki upp. Það sem skeð hafði var það, að dyra- og hleraumbúnaðurinn hafði skekkzt svo mikið við áreksturinn, að hvort tveggja sat fast í körmunum.
Ég fór þá niður aftur. Þá var sjór á lægri pöllum hnédjúpur. Á þilinu við háetuhurðina voru verkfæri, hengd á þar til gerða nagla. Þar á meðal var stór og þung rörtöng. Ég þríf töngina, fer upp aftur og læt hana vaða á hlerann, en hann lét sig ekki. Fór ég svo niður aftur við svo búið.
Í skáp bakborðsmegin var slaghamar eða kannski mætti segja að það væri lítil sleggja. Þá var sjór orðinn það mikill, að það var með herkjubrögðum að mér tókst að ná sleggjunni. En með henni heppnaðist mér að brjóta upp lúguna. Þegar ég yfirgaf vélarrúmið var sjórinn um það bil í mitt læri. En vélin var enn í gangi og öll ljós loguðu. Það vildi til, að bjart var alltaf niðri og hægt að átta sig á hlutunum. Annars væri meira en vafasamt, að ég væri til frásagnar um þetta.
Nú, þegar ég kem upp í stýrishús eru skipverjar komnir um borð í Jökul. Þá var Hrafnkell í þann veginn að síga niður að aftan. Nokkuð bil hafði myndazt milli bátanna. Jökull hafði sigið frá, en renndi nú að aftur. Ég kastaði mér í sjóinn, náði strax í spotta sem var varpað til mín og dreginn inn á stundinni.
Svo að segja í sama bili og ég kom um borð í Jökul seig Hrafnkell goði í djúpið. Þetta skeði á örfáum mínútum. Stefnið reis hátt upp úr sjó, en að sama skapi seig skuturinn. Svo stakkst Hrafnkell í djúpið.
Þetta þótti sem von var undarlegt slys. Við vorum nær Klettinum, þegar bátarnir mættust. Formaðurinn ætlar á réttan bóg við Jökul og fara austur fyrir hann. En Jökull stímir þá í sömu átt, með þeim óhjákvæmilegu afleiðingum að bátarnir renna saman. Virðist hér allt hafa lent í miklu fumi.
- - -
Hér lýkur frásögn Ágústar vélstjóra. Ég fletti upp í blaði frá 1947 og þar segir svo um þennan atburð m. a.: „Klukkan nálægt 5 síðdegis s.l. þriðjudag (4. marz) lagði vélbáturinn Hrafnkell goði af stað í fiskiróður, og er hann sigldi meðfram Yztakletti, nálægt svokölluðum „Drengjum“ mætti hann vélbátnum Jökli, er þá var að koma úr róðri.
Svo sviplega og ótrúlega vildi til, að bátarnir rákust svo hastarlega á, að Hrafnkell goði brotnaði mikið og sökk á 5 - 10 mínútum . . .
Jökull laskaðist ekkert við áreksturinn. — Hrafnkell goði var 53 smálestir, byggður í Karlskrona árið 1930 og var keyptur til Eyja árið 1939. Ný vel var sett í hann s.l. vor. Hann var eign Tangabátanna h.f. og einn af beztu bátum hér í Eyjum“.
Að lokum ein spurning enn, sem ég legg fyrir Ágúst Ólafsson:
— Hvert er æðsta boðorð góðs vélstjóra?
— Gott eftirlit. Ofkeyra ekki vélina. Hreinlæti.