Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1966/ Fiskikóngur og aflakóngur

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Fiskikóngur og aflakóngur


Þegar afkomendur Hannesar lóðs gáfu víkingaskip til verðlauna aflakóngi á vetrarvertíð, segir í bók, sem fylgdi gjöfinni:
„Verðlaunagripurinn heitir „Fiskikóngur Vestmannaeyja“.“ Þegar verðlaunin voru gefin var ekki um annan afla að ræða en þorskafla, svo að aflakóngur og fiskikóngur var eitt og hið sama. Á silfurplötu, sem fylgir skipinu, er enda grafið „Aflakóngur Vestmannaeyja“, þó að í gjafabréfinu sé heitið „Fiskikóngur Vestmannaeyja“. Fyrstu árin er líka notað heitið „Fiskikóngur“ og í Sjómannadagsblaði frá árinu 1954 er skrifað um Binna í Gröf og hann kallaður „Fiskikóngur Eyjanna“.
Þegar Ingólfsstöngin var gefin árið 1963 fyrir mesta aflaverðmæti undangengins árs, eins og um er getið annars staðar í blaðinu, voru aflakóngarnir orðnir tveir, en þó talsverður munur á.
Önnur skipshöfnin fær verðlaun fyrir mesta bolfiskafla á vetrarvertíð, en hin fær verðlaun fyrir aflaverðmæti allt árið, og hefur meginundirstaða aflaverðlauna Ingólfsstangar verið síldarafli.
Fer því vel á því að taka upp hið upphaflega heiti á verðlaunahafa Víkingaskipsins: „Fiskikóngur Vestmannaeyja“, en verðlaunahafi Ingólfsstangar heiti „Aflakóngur Vestmannaeyja“.

Hvort tveggja eru mikil sæmdarheiti frábærum fiskimönnum og ekki heiglum hent að hlotnast.