Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1965/ Minning mætra manna

From Heimaslóð
Jump to: navigation, search
Minning mætra manna

Þeim fækkar nú óðum þeim mönnum, er sóttu hér sjóinn á fyrstu mótorbátunum og hafa 5 þeirra látizt á þessu síðasta sjómannadagsári og mun þeirra minnzt hér með fáum orðum, þó að um sérhvern þeirra mætti skrifa langt mál. Það er vissulega vert að minnast þeirra manna, er voru hér á fyrstu mótorbátunum og sóttu sjóinn af ótrúlegu kappi, og mættu margir þeirra með sanni kallast hetjur hafsins, því að svo oft sýndu þeir ótrúlega karlmennsku og kjark í sinni hörðu baráttu við hafið.
Samanborið við hina litlu og vanbúnu báta, sem þá voru, að öllum öryggistækjum, var sjórinn sóttur hér af ofurkappi.
Ég læt fylgja hér með stuttan samtalsþátt tveggja harðsækinna formanna frá þeim árum:
Það hafði verið rosatíð og lítið um róðra almennt, en þó einn og einn bátur verið að skælast út og heppnast að ná róðri. Eina nóttina í þessum ótíðarkafla hittust þeir í Hrófunum, Sigurður Ingimundarson frá Skjaldbreið og Stefán í Gerði. Voru þeir komnir þar með sína menn að setja niður skjöktbátinn og fara í róður, aðrir sáust þar ekki á ferð.
Segir þá Stefán: „Hann er Ijótur til loftsins“. En Sigurður svarar: „Það þýðir ekkert að líta í loftið, því að þá reri maður aldrei“.
Flestir þessara manna höfðu byrjað sína sjómennsku á áraskipunum og þar höfðu þeir þjálfazt og fengið sinn skóla. Á áraskipunum urðu vökul augu formannsins að hafa góða gát á hverri báru og stýra hana af sem kallað var, eftir því sem við átti og aðstæður leyfðu, til að sem allra minnst gæfi á bátinn. Höfðu sumir af gömlu áraskipaformönnunum verið sannir listamenn á því sviði og kunnu vel að haga seglum eftir vindi.
Við skulum hugsa okkur þær aðstæður, sem þessir fyrstu vélbáta sjómenn hafa átt við að búa — því að „fast þeir sóttu sjóinn“.
Þessir bátar voru flestir 7 til 8 lestir að stærð og fyrstu árin, sem þeir gengu héðan til fiskveiða (1906—7), voru sumir þeirra þilfarslausir, miðskipa. Einum slíkum róðri hefur Þorsteinn Jónsson Iýst í sinni ágætu bók „Formannsævi í Eyjum“.
Ég ætla að Iáta hér eina sögu fylgja, sem Stefán í Gerði sagði mér:
Það var fyrri hluta vertíðar 1908, að þeir voru að fara fyrir Klettinn á m/b Bergþóru, sem Magnús Þórðarson í Dal var formaður með. Austan stormur var og báturinn hlaðinn og því mikil ágjöf. „Pumpað“ var af kappi á báðum dælum, og valinn þrekmaður við hvora þeirra. Sigurður í Skuld við þá, er var framan við mótorhúsið, en Ólafur Auðunsson við þá, er var til hliðar við mótorhúsið, bakborðsmegin.
Aftan við mótorhúsið var stórt op, sem engin lúga var yfir. Niðri í því stóð formaðurinn, þegar hann stýrði, línulagnarmaðurinn og sá, sem „stoppaði“, þ. e. hélt við línuna, þegar með þurfti og illa gekk að koma henni í sjóinn. Þetta op náði því rétt út að borðstokk stjórnborðsmegin.
Þegar þeir á Bergþóru voru komnir það langt suður með Kletti að fært þótti að halda undan, kom hörð kvika, sem braut yfir bátinn að aftan. Stefán var í gatinu hjá Magnúsi að ausa úr því með fötu, en þegar hann sér ólagið koma, brá hann sér upp úr og lagðist flatur yfir opið og reyndi að breiða sig sem bezt yfir það, svo að furðu lítill sjór fór þar niður.
Þegar komið var inn úr Leiðinni sagði Ólafur við Stefán: „Það er ekki víst hvernig það hefði farið, drengur minn, hefðirðu ekki gert þetta“. Eftir þennan róður var sett lúga yfir opið og sneitt úr, svo að pláss væri fyrir formanninn. Svo var og gert á fleiri bátum.
Algengt var, þegar þessir bátar áttu á móti veðri að sækja, að einn af hásetunum var látinn sitja á afturhorni mótorhússins, til þess að skýla formanninum gegn verstu sjógusunum, svo að hann fengi betur notið augnanna. Formennirnir voru þá oft með rauð og saltbólgin augu og dæmi voru til, er þeir komu að landi úr sínum verstu sjóferðum, að þeir urðu að fara í næstu hús, til að þvo augun úr volgu vatni til að sefa sárasta sviðann, og voru þessir menn þó engir aukvisar.
Þó að margt fleira mætti segja frá fyrstu árum vélbátanna hér, verður hér síðar numið.
Ég mun hugsa til margra þessara manna til minnar hinztu stundar með þökk og virðingu og blessa þeirra minningu.

EYVINDUR ÞÓRARINSSON

Eyvindur Þórarinsson.

Hann var fæddur að Fossi í Mýrdal 13. apríl 1892 og lézt 25. ágúst 1964. Hann kom fyrst til Eyja 1908 og réðist beitningardrengur hjá Árna Ingimundarsyni á Brekku, sem formaður með m/b Ástríði.
Næsta vetur mun Eyvindur hafa róið hér á m/b Hrólfi. — Þá fór hann vélamaður á m/b Hansínu til Magnúsar Guðmundssonar á Vesturhúsum og var vélamaður hjá honum á vetrarvertíðum, þar til hann tók við bátnum af Magnúsi og byrjaði hann sína formennsku með Hansínu 1913 og heppnaðist vel. Hann lét af formennsku eftir 17 ár og gerðist þá skipaafgreiðslumaður hjá Gunnari Ólafsson & Co. Við það starf reyndi ekki síður á sjómannshæfileika, kjark og þrek. En oft á tíðum varð að fara út í skip á Víkinni og inn fyrir Eiði á nóttu sem degi, hvernig sem viðraði. Þetta starf hafði Eyvindur í 10 ár. Um 1940 varð hann hafnsögumaður með Árna bróður sínum og gegndi því starfi í allmörg ár, varð síðan verkstjóri við Vestmannaeyjahöfn. — Hann lét af því starfi árið 1958 og varð síðan húsvörður við Útvegsbankann hér.
Eyvindur var hér meðal fremstu formanna, athugull og aflasæll, og hafði mannahylli svo að af bar. Sumir af fyrstu hásetum hans voru með honum nær alla hans formannstíð, svo sem Guðmundur í Málmey.
Einn af þeim, sem byrjaði sjómennsku með Eyvindi skrifaði mér við lát hans:
„Þar fór góður og prúður maður og á ég honum mikið að þakka, því að enginn nema hann hefði tekið mig fyrir háseta, þegar ég byrjaði sjómennsku. Það var mikið lán fyrir mig, að fyrstu kynni mín af sjónum skyldu verða undir hans handleiðslu. Hann var myndar sjómaður, hafði alla kosti sjómannsins, var ágætur stjórnari, sérstaklega aðgætinn og veður-glöggur“. Eyvindur var ekki allra, en góður vinur vina sinna.

JÓN MAGNÚSSON
VALLARTÚNI

Jón Magnússon.

Hann var fæddur að Kirkjubæ í Vestmannaeyjum 10. október 1889 og lézt á Húsavík 3. desember 1964.
Til Húsavíkur var hann fyrir stuttu fluttur til einkadóttur sinnar, Sigrúnar, er þar býr.
Jón ólst upp hjá foreldrum sínum á Kirkjubæ og tók snemma þátt í þeim störfum, sem börnum og unglingum var þá ætlað að vinna hér, en þau störf voru æði margþætt.
Jón byrjaði að róa á árabát með Ísleifi á Kirkjubæ og síðar Gísla á Búastöðum. Árið 1910 byrjaði Jón formennsku með m/b Ísak og var með þann bát þar til hann eignaðist fjórða part í nýjum báti, „Braga“, og var Jón formaður með Braga í 11 vertíðir. Mun Jón hafa verið hér formaður nær hálfan þriðja áratug. Hann var góður og kjarkmikill formaður.
Jón var afburða góður fjallamaður og var forystumaður Kirkjubæjarmanna í öllum úteyja- og fjallaferðum um tugi ára. Hann var sannur Eyjamaður, góður félagi og hinn bezti drengur.

STEFÁN GUÐLAUGSSON
GERÐI

Stefán Guðlaugsson.

Hann var fæddur í Gerði 6. desember 1888 og lézt 13. febrúar 1965.
Stefán var hér sjómaður í rúma hálfa öld og lengst af þeim tíma farsæll og mikils metinn formaður.
Máríufiskinu dró hann á litlu juli hraustur af Urðum; var hann þá 11 ára. Það var stútungur, gulur á roðið. Fiskinn gaf hann Eyflalíu Nikulásdóttur, er bjó í litlum kotbæ, Móhúsum, syðst í Kirkjubæjartúninu.
Gamla konan þakkaði honum gjöfina með því að biðja honum Guðs blessunar og að hann yrði mikill fiskimaður — sannarlega var hún bænheyrð.
Hjá Stefáni kom snemma í ljós áræði og kjarkur við sjóinn, og er þessi saga sem dæmi um það:
Þeir bræður Jón og Guðlaugur í Gerði áttu lítinn bát, sem þeir reru á yfir vorið, er löngufiskiríið var hér mest, um og upp úr síðustu aldamótum. Létu þeir syni sína róa með sér, Björn og Stefán, og fengu drengirnir að stýra, sinn daginn hvor, þegar lítill kaldi var og hægt var að sigla.
Umræddan dag voru þeir feðgar suður í Þríhamradjúpi, var ör fiskur, en kominn austan strekkings stormur. Það var Björns dagur að stýra, en báðir voru þeir í andófi, miðskipa. Þegar endastjórinn kom inn, segir Stefán: „Settu á stýrið, Björn“, en hann svarar: „Nú stýri ég ekki“. „Má ég þá stýra?“ segir Stefán, og fór aftur í og setti á stýrið, en þá kom Jón frændi hans og sagði: „Ætli það sé ekki bezt að ég stýri núna“, og það hélt Stefán að hefði ekki verið verra.
Stefán í Gerði var mætur maður og sómi sinnar stéttar.

ÞORSTEINN JÓNSSON
LAUFÁSI

Þorsteinn Jónsson.

Hann var fæddur 14. október 1880 og lézt 25. marz 1965. Á meðan fiskveiðisaga Eyjamanna geymist mun Þorsteins í Laufási minnzt fyrir hans brautryðjandastarf, sem gjörbreytti hér öllu til hagsældar og batnandi lífsafkomu.
Þorsteinn var yfirburðamaður á mörgum sviðum og hinn mesti þrekmaður. Hann var hér sjómaður nær hálfa öld og lengst af formaður, farsæll og mikill fiskimaður. Hann unni Vestmannaeyjum og vildi veg þeirra sem mestan.
Með ritstörfum sínum hefur Þorsteinn reist sér veglegan minnisvarða.GUNNLAUGUR SIGURÐSSON
GJÁBAKKA

Gunnlaugur Sigurðsson.

Hann var fæddur í Rangárvallasýslu 28. september 1883 og lézt 20. apríl 1965.
Gunnlaugur fluttist til Vestmannaeyja um síðustu aldamót og byrjaði sína sjómennsku hér með Þorsteini bróður sínum. Gunnlaugur mun fljótt hafa verið þroskamikill, því að árið 1902 rær hann á tólfæringnum Ísafold hjá Friðriki Svipmundssyni og með honum reri hann í margar vertíðir, á áraskipum og mótorbátum.
Mörg sumur reri hann á Austfjörðum og var þar formaður. Hér stundaði hann sjóinn yfir 40 ár, var hann formaður með sama bátinn, Skuld, í 13 ár, en hann átti part í þeim báti. Gunnlaugur var orðlagður sjómaður fyrir dugnað og hreysli. E. G.ÁGÚST INGVARSSON
Fæddur 27. júní 1890. Dáinn 25. nóvember 1963

Ágúst Ingvarsson.

Ágúst Ingvarsson var fæddur að Hellnahóli, Vestur-Eyjafjallahreppi, 27. júní 1890. Hann var sonur Ingvars Einarssonar, bónda þar, og konu hans, Ástríðar Sigurðardóttur, og var hann elztur sex systkina.
Ingvar flutti með fjölskyldu sína hingað til Vestmannaeyja árið 1909. En hann hafði aðeins verið búsettur hér í eitt ár, er hann lézt, og tók þá Ágúst við, sem fyrirvinna móður sinnar og þeirra systkina sinna, sem enn voru á barnsaldri.
Fermingarárið sitt byrjaði Ágúst sjóróðra héðan úr Eyjum og þá fyrst með Magnúsi á Felli. Þá atvinnu stundaði hann, ýmist sem formaður, vélstjóri eða háseti, allt til ársins 1930, er hann flutti búferlum til Reykjavíkur, með fjölskyldu sína. Lengst af var Ágúst þó vélstjóri og þekktastur var hann á þeim árum fyrir þau störf.
Eftir að Ágúst flutti til Reykjavikur, starfaði hann aðallega við atvinnurekstur Ragnars Jónssonar og þá fyrst og fremst við smíðavinnu, viðhald húsa o. þ. h., því að hann var hagur maður að eðlisfari og trésmiður góður, þótt aldrei hefði hann lært þá iðn.
Árið 1954 flytur Ágúst aftur til Eyja og starfaði hér síðan við trésmíðar, meðan heilsan leyfði. Ágúst Ingvarsson lézt, sem fyrr segir, 20. nóvember 1963 og er jarðsettur hér í Landakirkjugarði.

S.A.