Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1964/ Aflakóngur Vestmannaeyja 1964

From Heimaslóð
Jump to: navigation, search
Aflakóngur Vestmannaeyja 1964

Aflakóngur Vestmannaeyja vertíðina 1964 varð að þessu sinni Ólafur Sigurðsson frá Skuld, skipstjóri á Ófeigi II VE 324.
Það kom engum á óvart, að Óli í Skuld yrði einhverntíma aflakóngur, því að alla sína formannstíð hefur hann verið í fremstu röð aflamanna og er Ólafur mjóg vel að titlinum kominn. Hann hefur oft verið annar og þriðji með afla á vetrarvertíð og þarf þar snerpu til í harðskeyttum hópi aflamanna í stærstu verstöð landsins.
Ólafur Sigurðsson er borinn og barnfæddur Vestmannaeyingur, og standa að honum styrkir stofnar. Hann er fæddur 14. október 1915 og voru foreldrar hans hjónin Ingunn Jónasdóttir og Sigurður Oddsson í Skuld.
Ólafur hóf sjómennsku 15 ára gamall á mb. Maggý með Guðna Grímssyni og sýndi hann þá strax óvenju kapp og dugnað.
Aðeins 19 ára gamall byrjaði Ólafur formennsku með mb. Skallagrím, 15 smálesta bát, Ólafur heldur því hressilega upp á þrítugsafmælið sem formaður.
Árið 1941 lauk Ólafur hinu meira fiskimannaprófi frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík með góðri 1. einkunn.

Ólafur Sigurðsson, form. mb. Ófeigi II. VE 324.

Vertíðina 1942 var hann formaður með mb. Freyju, fór síðan í siglingar sem stýrimaður á ms. Helga og es. Sæfelli í 2 ár.
Stuttu síðar gerðist Ólafur meðeigandi og skipstjóri á mb. Ófeigi II, eldra, sem var um 30 tonn að stærð. Skip aflakóngsins, Ófeigur II VE 324 er þriðji báturinn í eigu Ólafs með heitinu Ófeigur og þeirra stærstur, stálbátur, 94 tonn að stærð.
Af mörgum glæsilegum vertíðum í Vestmannaeyjum ber síðastliðin vertíð af um aflabrögð. Til gamans má bregða upp samanburði á vertíðum fyrir rúmum 20 árum og liðinni vertið. Sá samanburður sýnir glögglega hvað afli hefur aukizt með nýrri veiðitækni og betri búnaði skipa.
Vetrarvertíð í Vestmannaeyjum 1939 var að sögn í lakara lagi, en heildaraflinn þá vertíð til 30. apríl var 5.376 tonn. Afli 5 hæstu nótabátanna (Ófeigur II, Bergur, Reynir, Kristbjörg, Halkion) sl. vertíð var 5.776 tonn bolfiskur, en að auki fengu þessir bátar ca. 70 þús. tunnum af síld og loðnu, þannig að heildarafli þeirra í tonnum er ca. 12.300 tonn. Vertíðina 1945 var heildarafli Vestmannaeyjabáta 12.062 tonn. Afli 10 hæstu báta í Vestmannaeyjum 1964 var auk síldarafla 12.324 tonn bolfiskur.
Aflaskipið Ófeigur II stundaði eingöngu veiðar með nót (síldar- og þorsknót) og var aflinn sem hér segir frá 1. janúar til 9. maí:

1.283 tonn af fiski upp úr sjó
4.700 tunnur af loðnu
10.270 tunnur af síld.
Jóhann Pálsson afhendir Helga Bergvinssyni, aflakóngi Vestmannaeyja 1963, víkingaskipið.

Í heild eru þetta 2.780 tonn og aflaverðmæti 5—6 milljónir króna. Er þetta furðumikið magn á ekki lengri tíma og á ekki stærri bát. Heildaraflinn er um 30 fullfermi Ófeigs eða 21,5 tonn á hvern úthaldsdag (129 daga). Þorskaflinn veiddist í 49 sjóferðum og er meðalaflinn 26 lestir í róðri.
Ólafur var því oft stórtækur í vetur og 4. apríl kom Ófeigur II með 94 tonn af stórþorski — samtals 7.800 fiska.
Þetta er aflamet sem mesti þorskafli, sem komið hefur á land úr róðri í Vestmannaeyjum. Mesti afli í kasti með þorsknótina var 57 tonn.
Hér hefur nú verið stiklað á stóru á glæsilegum sjómannsferli og brugðið upp lítilli mynd af aflakló, en auk þess að vera snjall aflamaður hefur Ólafur oft sannað áþreifanIega hvað hann er mikill sjómaður. Í siglingum stríðsáranna yfir hættusvæði reyndi oft á karlmennsku og þrek. Mörgum er enn í fersku minni atburðir þeiria ára, t. d. er Sæfellið komst hér til hafnar á síðustu kolaskóflunum í aftaka austan veðri og eftir harða útivist í hafi.
Ólafur var þá stýrimaður þar um borð.
Í mannskaðaveðrinu 2. marz 1942, er 3 bátar fórust héðan, var Ólafur skipstjóri á mb. Freyju. Þessa dimmu og löngu óveðursnótt var Freyja með mb. Öldu vélbilaða í eftirdragi þar til hún slitnaði aftan úr og hvarf í sortann. Að allra áliti bjargaði þetta Öldunni, þó að hún færi að vísu á land við Grindavík, en mannbjörg varð og síðar náðist báturinn út.
Freyja komst að landi seinni hluta næsta dags og voru þá olíubirgðir þeirra á þrotum.
Næstu vertíð, 27. janúar 1943, kom óstöðvandi leki að mb. Geir goða og sökk hann norðvestur af Þrídröngum, en Ólafur og skipshöfn hans bjargaði áhöfninni.
Í félagahóp er Ólafur hrókur alls fagnaðar — nýtur hann mannahylli og hefur ávallt haft með sér einvalalið, enda leggur Ólafur ríka áherzlu á hvað hann eigi góðri skipshöfn að þakka.
Á 30 ára formannsafmæli getur Ólafur litið með ánægju yfir farinn veg. Hann hefur ávallt fylgzt manna bezt með tækni og nýj ungum og má hann muna tvenna tímana um sjósókn og veiðitækni.
Ég á þá ósk helzta, að við njótum sem lengst krafta Ólafs, færandi björg í bú.
Kannske heldur hann jafn veglega upp á næsta stórafmæli á nýjum Ófeigi — Ófeigi hinum fjórða.
Að síðustu óska ég Ólafi og skipshöfn hans til hamingju með verðskuldaðan titil Aflakóngs Vestmannaeyja.

G. Á. E.