Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1964/ 25. Sjómannadagurinn í Vestmannaeyjum

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
25. Sjómannadagurinn í Vestmannaeyjum


Það er oft um það talað í ræðu og riti að mikið sé af tylli- og helgidögum á Íslandi, og sýnist um það sitt hverjum.
Hinn 1. október 1939 var um það rætt á fundi í Sjómannafélaginu Jötunn, að ekki væri vansalaust að sjómenn í Vestmannaeyjum ættu ekki einn ákveðinn dag á ári til þess að koma saman og gleðjast með glöðum, kasta frá sér önn dagsins og setja fram sínar skoðanir og kröfur í ræðu og riti. Á fundinum var samþykkt að sjómannafélagið tæki sig fram um að skrifa hinum sjómannafélögunum, sem væru Skipstjóra- og stýrimannafélagið Verðandi og Vélstjórafélag Vestmannaeyja, og fara þess á leit við þau að kosnir yrðu fimm menn frá hverju þessara þriggja félaga í Sjómannadagsráð, sem sjá skyldi um undirbúning og framkvæmd á frídegi sjómanna. Tilmælin voru samþykkt í öllum félögunum og hlutu þessir menn kosningu í fyrsta Sjómannadagsráðið:

Frá skipstjóra- og stýrimannafélaginu Verðandi:
Ársæll Sveinsson
Alexander Gíslason
Guðmundur Vigfússon
Ármann Friðriksson
Óskar Gíslason

Frá Vélstjórafélagi Vetamannaeyja:
Páll Gehring
Guðmundir Ketilsson
Vilhjálmur Jónsson
Helgi Guðlaugsson
Guðjón Karlsson

Frá Sjómannafélaginu Jötunn:
Sighvatur Bjarnason
Guðni Jóhannsson
Sigurjón Ingvarsson
Jón Sigurðsson
Vigfús Guðmundsson

Vorið 1940, fyrsta sunnudag í júní, var svo hátíðlegur haldinn fyrsti Sjómannadagurinn hér í Vestmannaeyjum og hefir verið svo síðan og nú höldum við hátíðlegan þann 25. í röðinni. Við skulum nú aðeins staldra við og reyna að setja okkur í spor þessara manna, sem undirbjuggu og sáu um þennan fyrsta Sjómannadag. Við skulum reyna að gera okkur ljósa aðstöðu þeirra. Við ekkert var að miða. Þeir urðu að varða veginn fyrir framtíðina, ekkert mátti fara úrhendis, vinna varð deginum það orð að öllum fyndist hann hafa á sér fyllsta rétt. Ég fullyrði að þetta tókst og það svo vel, að í dag finnst öllum Sjómannadagurinn jafn sjálfsagður og það er sjálfsagt að nótt kemur á eftir degi, þrátt fyrir það að hann bættist ofan á allt tyllidagastandið, og óskum við þessum fimmtán heiðursmönnum, sem ýttu þessum hátíðisdegi okkar sjómanna úr vör 1940 til hamingju með árangurinn.

Sýning á neyðarblysum á sjómannadaginn.

Skemmtanir Sjómannadagsins hafa frá byrjun verið mjög fjölbreyttar og hafa sjómenn sjálfir lagt þar til stærstan skerf, með þátttöku sinni í íþróttum dagsins, kappróðri, sundi, reiptogi o. fl. o .fl. Kappróðurinn hefir alla tíð átt einna mestum vinsældum að fagna. Í honum keppa skipshafnir, stéttarfélög sjómanna og nú seinni ár sveitir frá fiskvinnslustöðvunum. Fyrstu árin var róið á skjöktbátum, sem fengnir voru að láni hjá útgerðarmönnum. Heldur þótti sá leikur ójafn. Bátarnir misþungir og mismunandi vel lagaðir til róðurs, og olli þetta stundum lítilsháttar óánægju, þegar kapp var í mönnum og enginn vildi gefa sinn hlut. Árið 1945 fékk því Sjómannadagsráð hinn kunna hagleiksmann Ólaf Ástgeirsson í til þess að smíða sérstaka kappróðrarbáta. Í fyrstu stóð til að smíða aðeins tvo báta, en þar sem efniskaup höfðu verið rífleg þótti sýnt að nást myndi í þriðja bátinn með lítilsháttar viðbót, og var í það ráðizt. Á Sjómannadaginn 1946 var svo bátunum í fyrsta sinn róið og hafa vélstjórar unnið á þeim flesta sigra.

Kappglíma á sjómannadaginn.

Ýmsir sakna reiptogsins, sem ekki hefir verið á skemmtiskrá dagsins nú í nokkur ár. Á fyrstu árum Sjómannadagsins var reiptogið vafalaust það númer, sem hvað mesta kátínu vakti. Þá var togazt á milli Edinborgarbryggju og Bæjarbryggju og var sú sveit, sem lægri hlut teið dregin í sjóinn. Mátti þá oft sjá knáleg átök og voru menn óspart hvattir til dáða, var það oft spaugileg sjón að sjá það liðið, sem var að tapa, tínast í sjóinn, mann fyrir mann, með tilheyrandi misfallegum tilburðum. Ýmis önnur skemmtiatriði voru við höfnina og fóru þau fram fyrri part dags á Sjómannadaginn. En aðrar skemmtanir voru síðdegis og um kvöldið.
Hátíðahöld dagsins hafa alla tíð verið með svipuðu sniði, nema með árunum hafa þau vaxið mjög og ná skemmtiatriði Sjómannadagsins nú yfir fulla tvo daga, frá því um hádegi og fram á nótt og á Sjómannadagurinn sívaxandi vinsældum að fagna. Framkvæmd hátíðahaldanna er óþarft að rekja frekar hér, enda öllum vel kunn.
Árið 1952 gaf Sjómannadagsráð Vestmannaeyja í fyrsta sinn út blað í tilefni dagsins og hefir það dafnað og vaxið svo, að til stórsóma er fyrir daginn. Efni blaðsins hefir oftast verið byggt upp, að meiru eða minna leyti, á greinum og frásögnum, sem ritaðar eru af sjómönnum og er gott til þess að vita, enda er blaðið fyrst og fremst til þess að sjómönnum gefist kostur á að koma þar fram með sín sjónarmið, auk þess sem það er til skemmtunar og fróðleiks. Blaðið hefir vaxið mjög frá fyrstu útgáfu og þolir það nú fyllilega samanburð við blað það, sem Sjómannadagsráð Reykjavíkur gefur út og er ætlað fyrir allt landið, og er ekki laust við að þeir sunnanmenn líti það hálfgerðu hornauga. Þessi blaðaútgáfa hefir alla tíð verið Sjómannadagsráði Vestmannaeyja metnaðarmál og er alveg stórmerkilegt hvað vel hefir tekizt, þegar miðað er við þann tíma, sem til undirbúnings er hverju sinni, en hann er um tvær vikur, eða frá vertíðarlokum og til 24.—26. maí, að blaðið þarf að vera fullbúið til prentunar. Allt efnisval og auglýsingasöfnun er innt af hendi á kvöldin af sjómönnum, sem hafa nýlokið erfiðri vetrarvertíð og hafa flestir í mörg horn að líta við sín daglegu störf þessa fáu daga, sem stoppað er í landi til þess að skipta um veiðarfæri. Vil ég nota tækifærið og þakka þeim, sem lagt hafa þessu metnaðarmáli sjómanna í Vestmannaeyjum lið. Sama er að segja um allt starf Sjómannadagsráðs við undirbúning og framkvæmd Sjómannadagsins, það er allt unnið í frítímum og bætist algerlega ofan á önnur dagleg störf og veit enginn nema sá sem í hefir staðið, hversu geysimikil vinna liggur í að undirbúa og halda Sjómannadag. Vil ég þakka þeim sem hafa fyrr og nú lagt deginum lið sitt. Vil ég enda þessar línur með þeirri ósk Sjómannadeginum til handa að hann megi en vaxa, sjómannastéttinni til sóma.
Sjómenn! Sláum skjaldborg um daginn okkar og hefjum hann til enn meiri virðingar, stétt okkar til sóma.
Góða skemmtun.

S. Ó. V.

Þær gerðu karlmönnum skömm til. Kvennareiptog á sjómannadaginn.
Sveit vélstjóra varð sigurvegari í kappróðri á sjómannadaginn 1963.