Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1964/ Þakklæti

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Séra JÓHANN S. HLÍÐAR:


Þakklæti


Þegar sjómannadagurinn rennur upp að þessu sinni 1961, hvað er þá ofar í hug okkar hér í Vestmannaeyjum en þakklæti. Þakklæti fyrir árið, sem er liðið frá síðasta sjómannadegi, sem hefur verið fengsælla, sér í lagi vetrarvertíðin, en dæmi eru til áður. Þakklæti fyrir margvíslega vernd og hagsæld bæði til lands og sjávar, svo seint mun gleymast.
En hvert beinist þakklætið? Það kann að virðast heimskulegt að spurja svo. Ef við segðum, auðvitað til Guðs, er það auðvitað.
Erum við Íslendingar ekki þar á vegi staddir í dag. að ungum og gömlum finnst allt vera sjálfsagt, án þess að blanda þurfi Guði í spilið eða reikna þurfi með honum?
Efnishyggja er lífsafstaða, sem reiknar aðeins með getu hugar og handa og tilbiður kraft mannsins, hugsmíðar og handaverk hans, og stoði það ekki, þá er maðurinn afskrifaður, líkt og alkunn aflakló, sem hætt er að krækja í fisk.

Séra Jóhann Hlíðar.

Efnishyggjan er köld og miskunnarlaus ófreskja, sem biður ekki um þakklæti, hún krefst þrældóms og aftur þrældóms og undirokar menn undir þjónkun efnisins, þar sem allt er miðað við efnalega og tímanlega velgengni. Og að lokum skilur hún sig við þræl sinn sem innantóma skel, sem finnur of seint í eymd sinni, að allt er valt.
Ég veit ekki, hverjum vestmanneyskir sjómenn og þeir, sem í landi starfa að fiskvinnslu lúta, hvort Guði föður eða efnishyggjunni. Eitt veit ég, að allur þorri fólks er eins og barinn áfram, líkt og þrælar áður fyrr þar sem þeir voru verst leiknir. Og hvers vegna lætur fjöldinn þeita viðgangast? Hvort, vegna þess, að baráttan sé svo hörð að afla fæðis og skæðis? Nei, það væri sjálfsblekking. Sönnu nær væri að segja, að tíðarandinn hrópaði á brauð og leiki, það hróp, sem varð rómverska heimsveldinu að falli hér fyrr á öldum. Og því miður er óendanlega miklu af kröftum og tíma fórnað til þess síðan að sjá uppskeru erfiðis síns glitra á botni drekkingarhyls tíðarandans.
Þakklæti er tjáning jákvæðrar stefnu. Það er þakkað fyrir það, sem vel er gert, fyrir gjafir, sem mönnum eru gefnar. Þakklæti, sem er beint til Guðs er tjáning trúar og trausts, það er jákvæð lífsstefna, játning þess, að frá honum kemur öll góð gjöf. Það er hann, sem upplýkur hendi sinni og seður allt, sem lifir, blessun. Þess vegna hvetur Guðs orð og segir: „Þakkið Guði, því að hann er góður, því að miskunn hans varir að eilífu.“
Þakklæti til Guðs er vissulega trúarjátning. Þar sem hana vantar þar er hætta á ferðum. Fyrst og fremst vegna þess, að hið rétta mat á því, hvaðan sönn lífsverðmæti koma, vantar. En það er líka hætta á ferðum, þar sem þakklæti til Guðs vantar, vegna þess, að þar er stoðunum kippt undan ábyrgðinni, sem allri velgengni og öllum góðum gjöfum fylgir.
Þeirri ábyrgð, að gæta aflaðs eyris. Sá maður, sem gerir sér ljóst, hve dýru verði jarðnesk gæði eru keypt, og eignast þau, vegna ytri aðstæðna, sem eru ekki sjálfsögð, heldur eru miklu fremur tilkomin sakir sérstakrar verndar og guðlegrar handleiðslu, sá maður kastar ekki verðmætum, sem hann aflar í sveita síns andlits, á glæ, í gálausum leik eða stundargamni. Þar sem þakklæti býr, þar verður sérhver gjöf velgengni, heilagur hlutur.
Mér finnst, þegar ég hugsa um hið gífurlega fjármagn, sem allur þorrinn ber úr býtum á þessum góðæristímum, sem yfir þjóð okkar ganga, þá séu þeir alltof margir, sem fara gálauslega með fjármuni, og alltof margir, sem stöðugt berja lóminn, eins og þeim hafi engin blessun fallið í skaut, heldur borið skarðan hlut frá borði, enda þótt sannreyndir segi allt aðra sögu. Þetta tel ég eitt alvarlegasta sjúkdómseinkenni okkar þjóðar í dag. Og sjúkdómsgreiningin ber aðeins eitt nafn: þ. e. vanþakklæti. Þar er ekki reiknað með Guði og þess vegna vantar allt - gleði, frið, þolinmæði, traust, ábyrgð og þakklæti.
En er við hugleiðum þakkarefnin fjölmörgu, sem blasa við augum hvarvetna, þá eru það ekki aðeins góðæri og velgengni, sem eru þakkarverð — ég mundi segja að það væri að byrja á öfugum enda.
Starfið, hvert sem það er, er óendanlegt þakkarefni. Og svo er um margbreytnina í starfinu. Menn eru kallaðir til þess að leysa hin ólíkustu störf af hendi. En á sjómannadegi er okkur fyrst og fremst hugsað til starfs sjómannsins. Einn hefur skipstjórn með höndum, annar vélstjórn, þriðji er stýrimaður, fjórði sér um matseldun, 5., 6., o. s. frv. eru hásetar, en allir skipa þeir eina heild — skipshöfn — og enda þótt ábyrgðin sé misjöfn — þá ber heildin ábyrgð, er samábyrg um velgengni og samvinnu. Í dag hyllum við þessar mikilvægu smáheildir, sem heill og gæfa þessarar þjóðar á svo mikið undir. Við þökkum Guði fyrir þær og biðjum þeim allrar Guðsblessunar í bráð og lengd. Ég veit af eigin reynd, að mörgum þessara smáheilda er tamt og ljúft að tjá þakklæti sitt til Guðs og fyrirverða sig ekki fyrir að játa þá trú, að þær reikni með Guði og gjaldi honum þökk fyrir vernd og hjástoð í blíðu sem stríðu. Og engin dæmi veit ég þess, að sú lífsafstaða hafi gert neinn fátækari, heldur öfugt. Ég veit, að mikill er þungi þeirrar ábyrgðar, sem á samvizkusömum skipstjórnarmönnum sem samstilltri skipshöfn hvílir, og mætti þjóðin okkar og sjómannastéttin eiga sem allra flesta þeim dyggðum gædda.
En ég vildi að lokum minna á eitt dæmi úr hinni helgu bók, sem mér er hugstætt og ég bið að mætti fylgja öllum, sem til ábyrgðar finna til eftirbreytni og blessunar, en dæmið er um þjón Abrahams, sem falið var ábyrgðarmikið starf. Sagan segir svo fallega frá því, að áður en þjónninn hóf starf sitt, gerði hann bæn sína og sagði: Drottinn, lát mér heppnast erindi mitt í dag. — Og að heppnuðu erindi — þá segir, að hann hafi lotið höfði, beðið til Drottins og mælt: Lofaður sé Drottinn, sem hefir ekki dregið í hlé miskunn sína og trúfestu.
Sjómenn! Látið þetta dæmi lýsa ykkur. Hefjið störf ykkar með bæn og ljúkið þeim með þakkargjörð og Guð mun leiða ykkur og blessa.
Lofum Drottinn á þessum degi, sem hefir ekki dregið í hlé miskunn sína og trúfesti við okkur.
Þökkum Drottni, því að hann er góður, miskunn hans varir að eilífu.