Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1964/ Ásmundur Friðriksson, skipstjóri frá Löndum

From Heimaslóð
Jump to: navigation, search
Ásmundur Friðriksson

skipstjóri frá Löndum

Fæddur 31. ágúst 1909. Dáinn 18. nóvember 1963

Ásmundur Friðriksson.png

Ásmundur Friðriksson skipstjóri varð bráðkvaddur að heimili sínu. Faxabraut 2 í Keflavík, þann 18. nóvember s.l. aðeins 54 ára gamall.
Ásmundur var sonur hins þekkta skipstjóra og aflamanns, Friðriks Svipmundssonar, og konu hans, Elínar Þorsteinsdóttur frá Dyrhólum í Mýrdal. Þau bjuggu nær allan sinn búskap að Löndum í Vestmannaeyjum. Vart er hægt að hugsa sér sannari fulltrúa aldamótakynslóðarinnar en þau Friðrik og Elínu, þeirrar kynslóðar, sem lyfti því grettistaki að flytja þjóðina úr lífskjörum miðaldanna til þeirrar velmegunar, sem við eigum nú við að búa. Heimilið að Löndum var mannmargt, eins og tíðkaðist í þá daga og annálað fyrir myndarskap. Þessi stóru útvegsbændaheimili eru nú orðið næsta óþekkt, en margar ljúfar endurminningar eru við þau tengd. Þarna ólst Ásmundur upp í glöðum systkinahópi, undir styrkri handleiðslu sinna mætu foreldra. Að loknu barnaskólanámi fór Ásmundur í Menntaskólann á Akureyri og lauk þar gagnfræðaprófi með góðri einkunn, en hugurinn stóð til hafsins, en ekki langskólanáms. Var hann næstu árin á ýmsum skipum, þar á meðal hjá hinum þekkta enska togaraskipstjóra Edward Little. Árið 1933 lauk Ásmundur hinu meira fiskimannaprófi úr Stýrimannaskóla Íslands, og var eftir það nær óslitið skipstjóri næstu 20 árin. Fyrst með m/b Friðþjóf, þá m/s Helga og síðan m/b Sjöstjörnuna, sem hann keypti í félagi við Tómas heitinn Guðjónsson. Þegar nýsköpunartogararnir komu árið 1947, tók Ásmundur við skipstjórn á b/v Elliðaey og var með hana í nokkur ár, en tók þá við b/v Elliða og því næst b/v Keflvíking.
Ásmundur var ágætur aflamaður og stjórnari og fórst honum skipstjórnin giftusamlega svo að af bar. Ávallt skilaði hann skipi sínu heilu í höfn og aldrei mun hafa orðið tjón á mönnum undir hans stjórn. Slík gæfa er fáum léð, en nokkru mun þar hafa um ráðið meðfædd sjómennska, frábær þekking og stjórnsemi.
Eftir að Ásmundur hætti til sjós, gerðist hann forstjóri fyrir Hraðfrystistöð Keflavíkur, en stofnaði fáum árum siðar fyrirtækið Söltun hf. ásamt nokkrum vinum sínum. Þetta fyrirtæki seldu þeir svo fyrir 1—2 árum, en hann starfaði áfram við það hjá hinum nýju eigendum til dauðadags.
Arið 1934 giftist Ásmundur fyrri konu sinni, Elísu Pálsdóttur, en missti hana 7. nóvember 1945. Þau eignuðust tvö börn, Friðrik, skipstjóra í Vestmannaeyjum, sem nú er formaður Skipstjóra- og stýrimannafélagsins Verðandi og Elínu Hólmfríði, sem búsett er í Svíþjóð. Seinni kona hans er Þórhalla Friðriksdóttir og eignuðust þau tvö börn, Ásu og Árna, sem dveljast með móður sinni. Frú Þórhalla bjó manni sínum og börnum yndislegt heimili og kunni Ásmundur vel að meta það, því að hann var umhyggjusamur heimilisfaðir, svo af bar og gilti það jafnt um eldri börnin, sem eru uppkomin og löngu flogin úr hreiðrinu. Til dæmis var hann vanur að tala við Friðrik son sinn á hverjum sunnudegi í símann frá Keflavík. Ásmundur var drengur góður, vinfastur og og hann átti ætt til. Hann var bókamaður og las mikið, bæði íslenzkar og enskar bækur, en í ensku var hann ágætlega fær.
Ásmundur var drengur góður, vinfastur og traustur. Hann var gæddur miklum persónutöfrum og var hvers manns hugljúfi; framkoman var alltaf háttvís og örugg. Hann var traustur fulltrúi hinnar íslenzku sjómannastéttar, hvort sem hann sigldi skipi sínu í höfn heima eða erlendis. Á þessum sjómannadegi munu margir minnast þessa góða drengs. Það er ávallt erfitt að sætta sig við ástvinamissi, en erfiðast er að taka því þegar það ber snöggt að og án þess að gera boð á undan sér. Er mikill harmur kveðinn að fjölskyldu Ásmundar og þá sérstaklega konu hans, börnum og aldraðri móður.

G. S.