Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1963/ Svipmyndir úr lífi sjómannskonu

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
GUÐMUNDA GUNNARSDÓTTIR:


Svipmyndir úr lífi sjómannskonu


Saga Vestmannaeyja er frá upphafi tengd sjósókn og aflabrögðum, enda liggja Eyjarnar við ein auðugustu fiskimið við Íslandsstrendur. Fyrr á tímum var þó rekinn hér töluverður landbúskapur, því að þá voru Íslendingar fremur bænda- en fiskveiðiþjóð. Annálar þeirra tíma segja þó sína sögu um mikilvægi fiskveiðanna fyrir afkomu fólksins hér í Eyjum, ásamt þeim feng, er sóttur var í björgin.
Skilyrði hér til landbúnðar hafa líka verið mjög erfið. Hagur fólksins fer fyrst að rétta við, er aðstaðan batnar til aukinnar sjósóknar með tilkomu vélbátanna. Þá var grundvöllurinn lagður að því athafnalífi, sem varð lyftistöng þessa bæjarfélags. En hvernig var aðbúð sjómanna og hvert var hlutskipti sjómannskonunnar á tímum róðrarskipanna? Við eigum víst erfitt með að gera okkur það i hugarlund.
Litlum, opnum bátum var ýtt úr vör. Sundin geta verið spegilslétt á góðviðrismorgni, en skjótt skipast veður í lofti. Þá höfðu menn engar vísindalegar veðurspár að styðjast við. Úfinn öldufaldur gat risið fyrr en varði og ógnað þessum opnu fleytum. Konurnar, sem áttu ástvini sína á sjónum, gátu aðeins beðið og vonað, að þeir kæmust heilir í höfn. Sú bið varð oft milli vonar og ótta og margur harmleikurinn gerðist. En minningin geymir einnig margar óskráðar hetjusögur um sjómannskonuna frá liðnum tímum, er æðrulaust tók því sem að höndum bar. Þróunin var hægfara. Þjóðin laut erlendum yfirráðum, sem skáru athafnalífi hennar stakk. Þó tekur að rofa til um og eftir síðustu aldamót. Sjálfstæðisbaráttan harðnar og menn fara að öðlast trú á möguleikum framfara og batnandi lífskjara á Íslandi. Hugsjónir forystumannanna rætast, þjóðin öðlast fullveldi og tekur til óspilltra málanna um uppbyggingu í landinu.
Við sem nú erum að ná miðjum aldri, höfum lifað framkvæmdatímabil, sem trúlega má teljast einsdæmi í sögu fátækrar smáþjóðar. Atvinnuhættir verða fjölbreyttari. Íslendingar eignast eigin flutningaskip, innlend verzlun blómgast, fiskiskipastóllinn stækkar og fiskveiðar verða undirstöðuatvinnuvegur þjóðarinnar. Síðustu áratugina hafa framfarirnar orðið hvað mestar, og þá sér í lagi hvað snertir sjávarútveginn.
Við skulum staldra við og minnast þess, hvernig umhorfs var hér í Eyjum á okkar bernskudögum. Þá var hér orðin mikil verstöð. Feður okkar réru ekki lengur á opnum skipum. Að vísu voru vélbátarnir þá litlir og ófullkomnir móts við hin stóru og vel búnu fiskiskip í dag og mæður okkar bjuggu ekki við það félagslega öryggi sem okkur þykir sjálfsagt nú, slysavarnir voru þá á byrjunarstigi.

Kappróður á Sjómannadaginn.

Sjómannskonan bjó við erfiðar aðstæður, ef eitthvað bar út af. Þó var samhjálp fólksins vís þá sem nú, er vanda bar að höndum, en slíkt hlaut þó að hrökkva skammt, ef konan stóð ein uppi með barnahópinn. Atvinna í landi var hér fábreytt. fiskvinnslustöðvarnar voru ekki risnar af grunni. Gömlu krærnar á pöllunum voru enn við lýði.
Ég minnist þess, þegar fiskinum var ekið á handvögnum af litlu bæjarbryggjunni inn á pallana og í krærnar. Vinnuskilyrði öll voru frumstæð og erfið, en þó byggðist afkoma íbúanna hér í heild á sjávaraflanum og verkun hans.
Leikir okkar barnanna urðu spegilmynd af störfum fullorðna fólksins. Hugur drengjanna hneigðist meira að sjónum þá en nú virðist vera. Þeir smíðuðu sína fiskibáta úr trékubbum. Þeir vönduðustu voru holir innan og báru mikinn „afla“, þegar þeir voru fullir af þorskakvörnum, en kvarnirnar höfðu drengirnir fyrir fisk. Þeirra var auðvelt að afla, því að mikið var þurrkað af fiskbeinum á þessum árum, og kvarnirnar losnuðu, þegar hausarnir voru þurrir. Drengirnir komu sér upp veiðarfærum úr gömlum, afskornum netjum. Þeir hæluðu stubbana sína niður úti á túnum og dreifðu kvörnunum yfir þá og eftir nokkra stund var farið að draga netin. Við telpurnar höfðum búið okkur bæjarleik undir húsveggnum og okkar hlutverk var að spyrja fullorðinslega. hvort þeir væru að fiska. Þannig spurði fólkið alltaf sjómennina. Ekki þurfti að óttast hætturnar í þessum „sjóferðum“ drengjanna, en stundum gat orðið hávaði, ef einhver dró meira en sínar eigin kvarnir.
Inni í Botni, þar sem Friðarhöfnin er nú, var oft leikvangur okkar krakkanna. Þar var friðsælt og gaman að tína skeljar og bobba, og horfa á léttar öldurnar brotna á sandinum.
Gömul mylla var þar uppi á hól og þaðan var gott útsýni yfir „þanghafið“, en svo nefndum við bátalægið. Hver bátur átti sitt ból, og við þekktum þá flesta með nöfnum og númerum. Þeir höfðu líka margir verið í slippnum og þar höfðum við séð þá, og okkur fannst þeir hafa hver sinn sérstaka svip, sumir glaðlegan, aðrir raunamæddan. Þannig var hugmyndaflug okkar, og dagarnir liðu áhyggjulausir. Alvara lífsins var enn í fjarlægð.
En börnin uxu upp og sjóndeildarhringur þeirra stækkaði. Við heyrðum talað um alvarlega hluti og skynjuðum, að lífið er ekki alltaf leikur. Við heyrðum konur sjómannanna minnast liðinna atburða. „Þeim degi gleymi ég aldrei“, sögðu þær. Þvílíkt voðaveður, sem skall á. Það ríkti kvíði í hugum margra. Það vantaði þrjá báta. Einn kom ekki aftur að landi, hinir skiluðu sér, er veðrinu slotaði. Þeir höfðu legið úti og getað varizt áföllum. Já, margt þessu líkt var reynsla þeirra. Við heyrðum talað um erlenda togara, er leituðu hér vars í óveðrum og urðu þá oft bjargvættir fiskimannanna. Þeir aðstoðuðu bátana og tóku þá í var við sig, ef þeir höfðu orðið fyrir áföllum. Stundum var þessi aðstoð eina vonin þeirra, er í landi biðu, þegar báta var saknað. Fögnuður og þakklæti fyllir hugi fólksins, þegar eitt af þessum útlendu skipum kemur hér á Víkina, þegar ofviðri slotar, og skilar heilum i höfn sjómönnum, er mjög hafði verið óttazt um. Báti þeirra höfðu togaramenn einnig reynt að bjarga, en ekki tekizt. Einn af þessum skipbrotsmönnum var faðir minn. Því veit ég um atburð þennan. þótt hann skeði fyrir minn dag.
Nei, það var víst ekki eftirsóknarvert hlutskipti að verða sjómannskona, og ég minnist frá unglingsárunum margra óveðursdaganna. Ég minnist kvöldanna, þegar myrkrið var skollið á og enn æddi stormurinn. Einhverjir bátar voru ókomnir að landi. Fólkið var kvíðafullt. Brimið var orðið mikið og óvíst, að bátarnir næðu höfn. Karlmennirnir fóru niður að sjó, þar biðu menn átekta. Á slíkum stundum er engum óviðkomandi, hvað verða muni. Þegar síðasti báturinn hafði brotizt gegnum brimið og komizt heill í höfn. létti yfir öllum. Hættan var liðin hjá í þetta sinn.
En ekki varð alltaf hrósað sigri, og ég minnist dapurlegra daga, þegar fánar voru dregnir í hálfa stöng, er óveðri slotaði. Hafið hafði sýnt okkur mátt sinn.
Nei, ég ætlaði ekki að verða sjómannskona. En sagan endurtekur sig, og einn fagran vordag var ég orðin ein í þeirra hópi. Eiginmaðurinn fer á sjóinn, veðrið versnar, bátarnir skila sér að landi, allir nema bátur hans, hann kemur ekki. Nú varð það mitt hlutskipti að vona og bíða, en allt fór vel. Þeir höfðu orðið að halda undan og ná annarri höfn.
Vertíðin gengur í garð. Það aflast sæmilega og allt gengur slysalaust. Það er stór floti fiskiskipa, sem lætur hér úr höfn á nóttu hverri. Víkin er eitt iðandi ljósahaf. Svo er haldið á miðin og ljósin fjarlægjast. Við horfum á eftir þeim. Þá læðist í hugann þessi áleitna spurning: Koma þeir allir aftur?
Næsti dagur líður að kvöldi. Þessi efi vill ekki víkja, fyrr en við heyrum fótatakið, sem við bíðum eftir. Þá er allt gott.
Árin líða, ár aflaleysis á síldveiðunum, þegar sjómennirnir koma tómhentir heim, árin þegar siglt er á vélbátunum um hávetur yfir hafið til að selja aflann í erlendum höfnum og við fáum að vita, þegar þeir koma aftur, að þeir voru hætt komnir í fárviðri á hafinu. En stundum gekk slík ferð mjög að óskum og við fáum nákvæmar fregnir um komu bátsins heim. Ég hafði lofað drengnum mínum því, að hann fengi að taka á móti pabba. Við bíðum á bryggjunni, tíminn líður, en báturinn kemur ekki í augsýn. Ég geng inn í skýlið og ætla að biða þar með drenginn. Þá heyrist í hátalara, að kallað er án afláts á bátinn og skip við Portland eru beðin að athuga, hvort þau verði hans vör og láta þá þegar vita. Ég spyr, hvað um sé að vera. Mér er ráðlagt að fara heim með drenginn. Ég verði látin vita, þegar fregnir komi af bátnum. Það hafi ekki heyrzt í honum í nokkurn tíma og eitthvað mun tefja þá, en allt geti þó verið með felldu. Ég reyni að taka þessar skýringar gildar og held heim. Drengurinn er vonsvikinn. Af hverju kom pabbi ekki, eins og ég hafði sagt honum? Ég segi eitthvað við hann, en þessi sama spurning ásækir mig. Það líða nokkrar klukkustundir. Þá kom gleðifregnin. Báturinn yrði kominn í höfn innan stundar. Tilgátur manna um tafir hans höfðu reynzt réttar.

Já, þannig er sjómennskan. Henni fylgir óvissan og áhættan, en aflavonin gerir hana tilvinnandi, og enga menn veit ég betur komna að hlut sínum en þá sem sjóinn stunda. Þeir bera oft lítið úr býtum fyrir erfiði sitt. Enginn ætti því að sjá ofsjónum yfir hlut þeirra, þegar vel aflast.
Heldur skulum við gleðjast með þeim yfir framþróun og aukinni tækni, sem á að geta skapað þeim meiri hagsæld. Þótt við vitum, að engin mannanna verk eru fullkomin og hættunum verði ekki með öllu bægt frá, þá getum við í dag fagnað með sjómönnunum yfir stórum og vel búnum fiskiskipum, sem skapa þeim betri aðbúnað og bætt vinnuskilyrði.
Við fögnum yfir nýjum björgunartækjum, sem stórauka öryggi þeirra og við vonum, að vaxandi tækni tryggi áframhaldandi framþróun þessara mála.
Svo óskum við sjómönnunum til hamingju með hátíðisdag sinn og væntum þess, að hvern sjómannadag megi þeir gleðjast yfir unnum sigrum og aukinni velgengni í starfi sínu, sjálfum sér og þjóðinni allri til heilla.