Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1962/ Til sjómanna

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Til sjómanna


Kæru sjómenn!
Ég vil byrja með því að óska ykkur allrar Guðs blessunar.
Ég hef á liðnum árum beðið Guð fyrir ykkur í Jesú nafni að varðveita líf ykkar og ég trúi því að margir ykkar og aðstandenda ykkar geri það líka, og ég vil lofa Drottinn fyrir að hann hefur varðveitt líf ykkar á undanförnum árum.

Sigurður Guðmundsson, núpi Fljótshlíð

Ég ber þá ósk í brjósti að geta orðið ykkur til blessunar og því datt mér í hug að koma því hér á framfæri, hvort skipstjórar hér í Vestmannaeyjum vildu ekki taka upp þann góða og gamla sið að biðja bæn með skipshöfninni áður en lagt væri upp í fyrsta róður á vetrarvertíð.
Bænin gæti verið svona:
Góði Guð, blessa mig og skipshöfn mína, bát og veiðarfæri, gef oss góðan afla og varðveit líf okkar á þessari vertíð, í Jesú nafni. Amen.
Ég var að lesa í barnabók fyrir telpuna mína fyrir nokkru síðan og þar stóð þetta:
- Septembermánuður rann upp, kornið var slegið, eplin tínd og garðávextirnir teknir upp og uppskeruhátíð haldin í kirkjunni. Hvers vegna höldum við uppskeruhátíð? spurði telpan móður sína.
Við þökkum Guði fyrir gott veður og góða og ríkulega uppskeru. -
Þetta finnst mér vera vanrækt um of hér. Eftir góða vertíð ættum við að bera þakklæti í huga til gjafara allra góðra hluta Guðs og sýna það í framkvæmd með því að fara að eins og sagt er hér að framan. Það er ekki samboðið kristnum mönnum að halda kveðjustund í lok góðrar og farsællar vertíðar með því að drekka Bakkusi til. Ef til vill hefur einhver saklaus unglingur drukkið sinn fyrsta sopa einmitt í slíkum „selskap“.

Kæru sjómenn!
Leitið hjálpar Guðs og þakkið honum, þá mun ykkur vel farnast.
Svo óska ég ykkur til hamingu með daginn ykkar, megi hann verða ykkur til sóma.
Sjómannsekkja.