Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1962/ Minningarorð: Ingi Þorgrímur Pétursson, skipstjóri

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
MINNINGARORÐ


Ingi Þorgrímur Pétursson


Skipstjóri


Sem einn hinna mörgu vina Inga Þorgríms Péturssonar, vildi ég senda mínar hinztu kveðjur og þakkir fyrir ánægjuríkar samverustundir, ásamt kveðju til syrgjandi ástvina hans.
Ingi Þorgrímur Pétursson var fæddur í Reykjavík 22. nóvember 1932. Var yngri sonur Ísafoldar Björnsdóttur og Péturs Þorgrímssonar framkvæmdarstjóra. Í foreldrahúsum dvaldi Ingi skamma hríð. Tæplega eins árs veiktist hann alvarlega og var vart hugað Iíf. Tók þá frú Unnur Guðjónsdóttir hann að sér og gekk honum í móðurstað og annaðist hann æ síðan.
Til Vestmannaeyja fluttist Ingi 9 ára gamall og bjó hjá henni og Sigfúsi Sveinssyni við ást og hlýju þeirra hjóna. Árið 1947 lauk Ingi gagnfræðaskólaprófi, en þaðan lá leið hans eins og svo margra ungra manna á sjóinn. En Inga langaði að kanna ókunna stigu því útþráin var alltaf sterk hjá honum og réðst hann til utanferðar ásamt einum félaga sinna og lá leið þeirra til Noregs, komast þeir þar á skip og sigldu vítt um höf, en leiðir þeirra skildu og kom Ingi heim aftur eftir hálft annað ár og stundaði hér sjó þar til hann fer á Sjómannaskólann í Reykjavík og lýkur prófi þaðan frá farmannadeild árið 1958. Er stýrimaður á bátum hér til ársins 1960. Ræðst þá aftur til utanferðar, en nú var takmarkið að komast til Suður-Ameríku.
Var Ingi víðlesinn og taldi að þar væru möguleikar miklir, sem og kom á daginn. Eftir að hafa siglt á norskum og sænskum skipum fer hann síðan til Columbíu og gerðist þar skipstjóri á stórum fiskibát, May Flower frá Buena Ventura og virtist una hag sínum vel þar syðra og hafa fundið það, sem hann leitaði að, en vegir Guðs eru órannsakanlegir. Því þegar bezt gegndi, skeður sá hörmulegi atbutður að hann fellur fyrir borð er sviptivindur reið yfir skip hans og drukknar. Var okkur mikill harmur sem þekktum Inga, er sú frétt barst okkur.
Ingi var geðþekkur og góður vinur, dulur í skapi og skemmtilegur í vinahópi, hjálpsamur með afbrigðum.
Þessi minningarorð eru aðeins fáorð kveðja og tjáning þakklætis fyrir þann spöl, sem leiðir okkar lágu saman hér í heimi. Þeir eru fáir sem ekki trúa á samfundi ástvina bak við landamæri lífs og dauða. Það er huggun harmi gegn. Vertu sæll vinur.

Kristleifur Magnússon.