Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1962/ Gísli Magnússon, skipstjóri frá Skálholti

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Gísli Magnússon


skipstjóri frá Skálholti


F. 24. júní 1885. – D. 2. maí 1962.


Hann var fæddur í Ásahreppi, Rangárvallasýslu, en fluttist hingað til Vestmannaeyja árið 1897, tólf ára gamall, og átti hér heima upp frá því.

Að minnast Gísla Magnússonar sem skyldi væri nóg efni í stóra bók, því að svo mikill athafna- og atorkumaður var hann alla sína ævi. En þess er ekki kostur hér, og verða þetta því aðeins nokkur orð og stiklað á því stærsta, svo að mynd hans og minning geymist í Sjómannadagsblaðinu okkar.
Áður en Gísli flutti hingað til Eyja, átti hann við mjög slæm kjör að búa, klæðleysi og oft sára svengd eða hungur. Hann kom því hingað örsnauður af veraldarauði. En samt var hann ekki allslaus, því hann átti óbilandi kjark og framúrskarandi athafnaþrá, sem átti eftir að sýna sig í verki og framkvæmdum, er honum óx fiskur um hrygg.
Er Gísli hafði verið hér í 5 ár sem vikadrengur og vinnumaður, gerðist hann lausamaður, eins og það var þá kallað. Réðst hann þá matsveinn á fiskiskútuna „Svift“ með Hjalta Jónssyni skipstjóra (Eldeyjar-Hjalta).
Ekki mun það hafa verið eftirsóknarvert starf að vera „kokkur“ á handfæraskútunum, þó fæðið væri þar ekki margbrotið. Á þeim voru 20 til 30 manns og þeir áttu sjálfir að leggja sér til soðningu. Voru það því oft ólíkustu fisktegundir, er í pottinn voru látnar. En er fært var upp úr pottinum, heimtaði hver sitt soðningarstykki, sem matsveinninn varð að standa skil á. En sennilega hefur það ekki alltaf verið orða- eða hávaðalaust.
Oftast voru valdir unglingar í kokksstöðuna. Eitthvað lítils háttar kaup mun þeim hafa verið goldið, en ef þeir renndu færi, áttu þeir allt er þeir drógu.
Er Gísli var kominn til sjós, komu fljótt fram eiginleikar hans, hið mikla kapp og atorka, því að færið sitt stundaði hann af miklum krafti og varð þá þegar góður fiskimaður og því drjúgt til fanga.
Um og upp úr síðustu aldamótum fóru margir Vestmannaeyingar austur á firði til sjóróðra. Var Gísli einn í þeirra hóp.
Þar gerðist hann fljótt formaður með árabát og síðar vélbáta. Formennskan heppnaðist honum strax mjög vel. Varð hann mikill fiskimaður, sem orð fór af, og úr því var honum borgið og flestir vegir færir. Gísli byrjaði að róa hér á áraskipunum, en á öðru ári (1907) eftir að vélbátaútgerð hófst, keypti hann 1/6 hlut í m/b Geysi, sem var tæp 8 tonn að stærð. Á Geysi var hann vélamaður í 2 ár, og þótti þá einn með beztu vélamönnum flotans.
Vertíðina 1909 byrjaði Gísli sína formennsku í Eyjum. Keypti hann þá 2/5 hluta í m/b Ísak, sem var um 7 tonn að stærð. Hann var formaður með þann bát í 2 ár.
Veturinn 1911 var Gísli formaður með m/b Frí, sem var um 7 1/2 tonn, og hann átti hluta í. Ekki var Gísli nema eina vertíð með þennan bát, en keypti um haustið 1911 m/b Hlíðdal, og átti hann einn, sem þótti þá mikið í ráðizt.
Hlíðdal var rúm 9 tonn, með 10 hestafla Danvél. Gísli sigldi þessum bát hingað heim frá Seyðisfirði í svartasta skammdeginu. Hreppti hann austanrok og stórsjó á leiðinni hingað.
Á Hlíðdal mun Gísli hafa farið sína verstu og hættumestu sjóferð, þó oft hafi hann komið út í hann krappan.
Það mun hafa verið í vertíðarbyrjun 1913, að hann reri einskipa. Mikið brim var. Byrjað var að leggja línuna NV frá Geirfuglaskeri. Áður en þeir höfðu lokið við að leggja, brast á í einni svipan fárveður af SSV (hafveður). Ekki treysti Gísli á að snúa bátnum undan veðurofsanum fyrr en dagsbirtunnar naut. Tók hann það til bragðs að halda bátnum upp í veðrið eftir aðstæðum, en láta hann þó reka í áttina til Eyja. Er liðið var á morguninn, sást báturinn koma fyrir Eiðið. Þótti slíkt með ólíkindum, að báturinn skyldi vera ofan á í þeim voða veðurofsa.
Eftir að Gísli keypti Hlíðdal, átti hann sína báta einn, að undanteknum m/b Ægi, sem var um 12 tonn. Gísli J. Johnsen átti hann að hálfu.
Á Ægi byrjaði Gísli Magnússon fyrstur manna hér dragnótaveiðar árið 1921. Gísli var stórhuga og framsækinn maður, svo að af bar. Lýsti það sér bezt í því, að oftast voru þeir bátar, sem hann lét smíða fyrir sig eða keypti að, of stórir fyrir höfnina. En fram undir 1940 urðu allir bátar að liggja við festar. Þá var höfnin það grunn, að fjöldi 10—20 tonna bátar stóðu á stórstraumsfjörum um allan Botninn. Gísli mun hafa átt 19 vélbáta og skip alls. 15 er hann átti einn og 4 er hann átti hluti í.
Fimm báta lét hann smíða fyrir sig að nýju. Þrjá af þeim hér heima: Óskar 1914, hann var 16 tonn, með 24 hestafla vél. Þessi bátur þótti óhæfur á bátakeðjunum. Var því látinn liggja (súrraður) á stórskipalegunni. Að vertíð lokinni 1915 varð Gísli að selja hann fyrir stærðar sakir.
Þá lét Gísli smíða sér annan bát hér 1916. Óskar II, sem var um 12 tonn að stærð með 22 hestafla vél. Gísli var formaður með þennan bát 4 fyrstu vertíðarnar, sem hann gekk. Varð aflakóngur á honum 1917 og 1919.
Árið 1917 lét Gísli smíða sér bát í Danmörku, sem hann skírði Harald, mun hafa verið um 32 tonn að stærð.
Þessum bát varð að sigla hingað alfarið á seglum, því þetta var í fyrri heimsstyrjöldinni og ekki hægt að fá olíu til heimferðarinnar, utan eina tunnu, er ekki kom þeim að notum. Þessi heimsigling þeirra um haustið var að mörgu leyti söguleg. Þeir höfðu langa og harða útivist. Fyrsta landkenning þeirra var Snæfellsjökull. Skipstjórinn var úr Reykjavík, en Gísli var einn skipverjanna. Þennan bát varð Gísli að selja frá sér eftir 2 ár vegna slæmra hafnarskilyrða.
Þriðji báturinn, sem Gísli lét smíða hér, var Aldan, um 18 tonn að stærð, með 50 hestafla vél. Hún var seld héðan árið 1923 eftir tveggja ára úthald.
Árið 1924 lét Gísli smíða sér 25 tonna bát í Danmörku, Harald II. Hann gekk hér í 2-3 vertíðir, en var þá seldur burt.
Árin 1924-6 byggði Gísli sér hið stóra íbúðarhús Skálholt, sem nú er eilliheimili Vestmannaeyja.
Árið 1929 keypti hann sænskan gufubát (línuveiðara), sem var 150 tonn. Hann hét Óskar. Þetta skip gerði Gísli út tvær vertíðir hér með þorskanet og tvö sumur á síldveiðar með snurpunót við Norðurland.
Haustið 1931 strandaði Óskar á Skagafirði og ónýttist með öllu.
Af þessu yfirliti sést, þó enn sé margt óupptalið, að Gísli var meira en meðalmaður. Ein hans mesta lífshamingja var að eignast góða og mikilhæfa konu, Sigríði Einarsdóttur.
Þau bjuggu saman í ástríku hjónabandi 51 ár og eignuðust sex efnileg börn.
Með Gísla Magnússyni er fallinn frá einn allra mesti athafnamaður, sem starfaði hér af framúrskarandi dugnaði rúma hálfa öld.
Hann hefur því lagt stóran skerf til uppbyggingar og lífsþæginda í þessum bæ.
Allir þeir, er þekktu lífsferil hans og unna Vestmannaeyjum, blessa minningu hans.

E.G.