Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1961/ Torfi Einarsson, Áshól

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Torfi Einarsson


ÁSHÓL


F. 17. janúar 1889 – D. 30. október 1960.


Sjómannadagsblaði Vestmannaeyja finnst þess vert að minnast Torfa í Áshól, nú þegar hann er allur. Vagga hans stóð í Varmahlíð undir Eyjafjöllum, þar sleit hann og barnsskónum. Manndóms- og þroskaárum sínum varði hann hér í þágu Eyjanna. Flutti héðan fyrir fáum árum síðan, og banabeður hans varð að Sólvangi í Hafnarfirði. Hann hvílir nú í kirkjugarðinum hér. Var jarðsettur frá Landakirkju nóvember s. l. Þannig er í fáum dráttum ytri saga Torfa í Áshól, frá vöggu til grafar. En hann átti langtum meiri sögu en greint verður frá með ytri ramma. Torfi var af merkum ættum í báða liðu héðan af Suðurlandi. Kunnastur forfeðra hans var Jón Steingrímsson prestur. Torfi naut þess ekki að alast upp með föður sínum, þvi þegar hann var nokkurra mánaða gamall, þá var faðir hans kvaddur héðan af heimi. Hann ólst upp hjá móður sinni og föðurbróður, Sigurði, stjúpa sínum.

15 ára gamall hefur Torfi sjómennskuferil sinn á áraskipi, sem réri frá Eyjafjallasandi. Stundaði hann róðra á áraskipi í tvær vertíðir. Þar fékk Torfi sinn reynsluskóla í baráttu við Ægisdætur, sem hvað ófrýnilegastar geta orðið við hafnlausa suðurströnd Íslands. 17 ára leggur hann í ver hingað til Eyja og áfram hélt hann á sjónum, nú á skútu frá Reykjavík og einnig togurum. Eftir það kemur hann aftur til Eyja og frá þrítugsaldri er hann orðinn heimilisfastur hér. Var hann nú um áratugi bundinn vélbátum, fyrst sem háseti, síðar formaður og útgerðarmaður. Torfi þótti dugmikill og áræðinn sjómaður og formennskan féll honum vel úr hendi, enda líkamlega hraustbyggður og hugaður. Eftir að hann hætti sjómennsku vann hann í mörg ár við fiskvinnslu við frystihúsin hér í bæ. Lagði hann þá oft nótt við dag við vinnslu aflans. Dugnaðurinn og ósérhlífnin var honum í blóð borin, enda kunnur striti og erfiði frá unglingsárum.
Þeim er þetta ritar verður Torfi minnisstæðastur sem heimilisfaðir. Eftir einungis 10 ára hjónaband með Katrínu Ólafsdóttur frá Lækjarbakka í Mýrdal, sviptir dauðinn hana lífi, á bezta aldri. Torfi stendur nú uppi ekkjumaður með fjögur ung börn. Mun þá ekki hafa reynt mest á karlmennsku hans? Þrátt fyrir harm og sorg, stendur Torfi óbugaður af andstreymi lífsins, tekur á herðar sínar tvöfaldar skyldur gagnvart börnum sínum og bregður ekki af, fyrr en hann sér börn sín öll kominn til manns. Reglu- og myndarfólk öll sömul. Í föður- og móðurskyldum sínum var Torfi einstakur maður gagnvart börnum sínum. Að vísu naut hann góðrar aðstoðar Kristjönu Þorsteinsdóttur og Þorbjargar Sigurðardóttur, sem báðar voru heimilisaðstoð hjá honum um nokkur ár. Svo og hjá Ásu dóttur sinni, þegar hún hafði aldur og krafta til. En vandinn og ábyrgðin, úrræði og góð forsjá hvíldi allt á Torfa. Á þeim árum var árferði erfitt, nýafstaðin heimskreppa og kyrrstaða. Þar sem Torfi var jafnvígur til sjós og lands, þá var hann aldrei þurfamaður, en miðlaði miklu frekar öðrum. Hann braut land til ræktunar suður við Sæfjall, annaðist heyöflun á sumrum og hafði styrk af kúm og kindum í mörg ár. Fór í fjöll og úteyjar til lífsbjarga.
Torfi var vinur vina sinna, tryggur og hrekkjalaus. Bókamaður og skýr í hugsun. Að loknu dagsverki gat Torfi litið glaður yfir farinn veg. Hann skilaði sínu. Börn hans, sem eru lifandi eftirmynd föður síns, eru Ása, Einar og Björgvin, öll búsett í Reykjavík og svo Þórarinn nú í Miðgarði hér. Við, sem kynntumst Torfa og lifðum með honum í þessari byggð, þökkum honum samfylgd og blessum minningu hans.

Einar J. Gíslason