Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1961/ Sigurjón Sigurðsson, skipstjóri frá Brekkuhúsi

From Heimaslóð
Jump to: navigation, search
Sigurjón Sigurðsson

skipstjóri frá Brekkuhúsi

F. 6. marz 1890. – D. 8. júní 1959.

Segja má, að það hafi verið mikið lán fyrir Vestmannaeyinga í upphafi vélbátaaldarinnar, hve margir afburðamenn komu hér fram, fyrst og fremst innan sjómannastéttarinnar, því hér var og er lífsbaráttan hörð, enda aðalatvinnuvegurinn að sækja lífsbjörgina út á hið ólgandi og mislynda haf, auk þess sem sótt var þá í björgin til fanga af miklu kappi. Það var hlutskipti Sigurjóns Sigurðssonar að stunda þessar höfuðatvinnugreinar Eyjanna fram á síðustu æviár sín af mikilli giftu. Með honum er genginn svipmikill og traustur athafnamaður sem athygli vakti hvar sem hann fór og verður lengi minnisstæður öllum sem honum kynntust.

Sigurjón Sigurðsson, Bekkuhúsi.png

Hann var stór vexti og glæsilelegur og mesta karlmenni að burðum og svo mikill atgervismaður um margt að fátítt var.
Sem Vestmannaeyingur fékk Sigurjón snemma að reyna hæfni sína á sjó og landi og vakti þegar sem unglingur athygli fyrir dugnað, snarræði og útsjónarsemi. Hann var gæddur þeim kostum, sem Eyjamönnnum hafa komið bezt fyrr og síðar. Veiðimaður var Sigurjón í þess orðs fyllstu merkingu, og sjómaður svo að af bar, enda gerðist hann skipstjórnarmaður um tvítugt og gegndi því starfi um áratuga skeið. Var hann um fjölda ára einn af fengsælustu skipstjórnarmönnum hér og fylgdi honum sú gifta, að hann sigldi ætíð skipi sínu og skipshöfn heilu í höfn.
Í fuglabjörgum Eyjanna var hann manna kunnugastur og sem sigamaður átti hann fáa jafningja, enda oft fenginn til að síga í Molda og Fiskhellum á þjóðhátíðum, en til þess veljast jafnan þeir beztu úr hópnum. Sem veiðimaður með háf og í því sem að ofan getur var hann hvort tveggja af sannri íþrótt. Og þurfti þó mikið til, því á þessum árum voru hér margir afburðamenn i þessum greinum.
Eins og fyrr greinir byrjaði Sigurjón for mennsku um tvítugt á m.b. Blíðu VE-119 6.3 smál. Síðar keypti hann í félagi við aðra m.b. Þór VE-153 10.4 mál. og var með hann í nokkur ár. Eftir það var hann í mörg ár formaður bæði fyrir sjálfan sig og aðra. Hafði Sigurjón mikla mannhylli og sömu mennina árum saman. Hann var mjög sjálfstæður í öllum athöfnum sinum. Í öllum fjallaferðum, sem hann tók þátt í, var hann hinn sjálfkjörni foringi og hélt ætíð hinum forna sið að lesa bæn í upphafi fjallaferðar og sama mun hafa verið um hverja sjóferð.
Sigurjón reisti húsið Mosfell hér í bæ, ræktaði hann túnið umhverfis það, og hafði þar nokkurn búskap um árabil. Hann var einn sá mesti dýravinur sem ég hef þekkt og lét ekkert til sparað að skepnum sínum liði sem bezt.
Eftir að Sigurjón hætti sjómennsku setti hann upp fiskbúð, þá fyrstu hér í bæ, fórst honum það með ágætum, enda naut sín þar vel hin meðfædda snyrtimennska hans. Síðar var hann skipaður yfirfiskimatsmaður hér og gegndi því starfi um nokkur ár, en síðustu æviárin var hann skreiðarmatsmaður. Þessi störf leysti Sigurjón vel af hendi eins og öll þau störf sem hann lagði að hug og hönd.
Með sinni kynslóð lifði Sigurjón tvenna tímana eða frá því að eingöngu var sóttur sjórinn á áraskipum og handfærið eina veiðarfærið. Fiskurinn borinn á krókum úr fjöru til aðgerðar. Engir vegir húsa á milli, aðeins götutroðningar og hýbýli manna lélegir moldarbæir. Og segja má að öll sú mikla uppbygging sem hér hefur farið fram sé líkari ævintýri en raunveruleika.
Okkur hættir oft til að gera lítið úr fortíðinni af því að hún er horfin í móðu liðinna ára, en því skulum við aldrei gleyma að nútíðin er á henni byggð og fyrir þrotlaust starf þeirrar kynslóðar sem nú er að hverfa heim til feðra sinna og mæðra, stöndum við í okkar sporum í dag.
Foreldrar Sigurjóns voru hjónin í Brekkuhúsi, Sigurbjörg Sigurðardóttir og Sigurður Sveinbjörnsson, þekkt dugnaðar- og heiðurshjón, sem honum svipaði mjög til að öllu atgervi, dugnaði og manndómi.
Sigurjón var tvígiftur. Fyrri kona hans var Kristín Óladóttir ættuð af Austurlandi. Eignuðust þau átta börn. Síðari kona hans var Ingibjörg Högnadóttir frá Baldurshaga hér. Þau eignuðust tvö börn.
Að leiðarlokum minnist ég Sigurjóns uppeldisbróður míns fyrir allar ánægjustundir, sem við áttum saman frá fyrstu bernsku, bæði á sjó og landi. Nú hefur hann lagt upp í siglinguna yfir hið mikla haf, sem okkur er öllum fyrirhugað og er það mín síðasta ósk til hans, að handan þess hafs ljómi honum birta þess dags, sem aldrei líður að kvöldi.

Friðfinnur Finnsson.