Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1961/ Koma þarf á fót sjóvinnunámskeiðum

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Koma þarf á fót sjóvinnunámskeiðum


Það hefur mikið verið rætt og skrifað um það, hvernig á því standi, hvað vont sé að fá unglinga til þess að stunda sjóinn. Eftir því sem ég hef kynnt mér þessi mál, þá held ég það sé sama sagan fyrir unglinga að komast nú til sjós og þegar ég var að byrja til sjós, og skal það rakið hér í stórum dráttum.
Ég byrjaði að róa hér um sumartíma á snurvoð á m/b Kap með Guðjóni Valdasyni. Ekki þurfti ég að hafa mikið fyrir því að fá pláss hjá honum, því Guðjón sagði við mig, þegar ég kom til hans og bað um plássið, að það væri sjálfsagt að taka mig með til prufu, því einhvern tíma yrðu menn að fá að reyna sig í fyrsta sinn, en því miður held ég að allt of fáir hugsi svona.
Nú svo var það sumarið eftir, að þá langaði mig norður á síldveiðar, en ekki var það auðsótt fyrir mig, eins og svo marga fleiri unglinga, sem hug hafa á því að fara til sjós.
Ég þurfti að ganga mann fyrir mann til þess að biðja þá um að taka mig á síldveiðar, en alls staðar fékk ég sama svarið. Því miður get ég ekki tekið þig því þú ert svo ungur og alveg óvanur. Loksins kom að því að mér lánaðist að ná mér í pláss. Það var á m/b Gullveigu hjá Kristni Sigurðssyni frá Skjaldbreið, og færi ég honum mínar hjartans þakkir fyrir, því ég er sannfærður um það, að ef ég hefði ekki fengið plássið hjá honum, þá hefði ég aldrei farið nema þetta eina sumar til sjós, sem að framan greinir, því svo var ég orðinn hvekktur á því að ganga fram fyrir þessa góðu menn og fá alltaf sama svarið — of ungur, óvanur. En svo þegar ég var búinn að vera á Gullveigu um sumarið og vertíðina á eftir, þá komu þessir men, sem voru búnir að neita mér um pláss fyrir það að ég væri óvanur, og báðu mig um að róa með sér. Ég hét því þá, að heldur skyldi ég verða atvinnulaus heldur en að fara með þeim til sjós, og það hef ég staðið við og skal gera.
En því miður er ég ekki sá eini, sem hef þessa sögu að segja, heldur eru það allflestir unglingar, sem hug hafa á því að fara til sjós.
En hvað á svo að gera til þess að ekki þurfi að fara svona fyrir unglingum, sem langar til þess að fara til sjós? Ég held að það sé orðið tímabært að athuga, hvort ekki sé hægt að koma hér á sjóvinnunámskeiði fyrir unglinga eins og gert er t. d. í Reykjavík og á Akureyri.
Nú kunna ýmsir að spyrja, hver á að reka slíkt námskeið og hvað á að kenna á því? Það má víst lengi deila um það, hvernig á að haga slíkum námskeiðum, en ég held þeim yrði bezt hagað eitthvað á þessa leið:
Við skulum hugsa okkur að það yrðu 10—15 unglingar á hverju námskeiði, sem stæði frá 20. maí til 20. ágúst, þá fyndist mér það þyrfti að skipta hópnum niður í tvennt, þannig að annar helmingurinn yrði látinn vera á sjónum, en hinn hafður í landi. Ég á ekki við það, að þeir séu hafðir í landi til þess að hvíla sig, heldur til þess að vinna hin ýmsu störf, sem að útgerðinni lúta í landi, svo sem beitningu, splæsningu, bætningu, uppsetningu á netum og hin ýmsu handtök á fiskverkun o. m. fl., sem til greina gæti komið viðvíkjandi útgerðinni. Ég álít að kenna beri unglingunum, sem til sjós eru, að fara með þau veiðarfæri, sem almennt eru notuð hér, svo sem línu, net, handfæri, botnvörpu og ef til vill fleiri veiðarfæri, ef þeim mönnum, sem að slíku námskeiði stæðu, þætti rétt.
Nú svo hverjir ættu að sjá um kostnaðarhliðina, sem yrði af slíku námskeiði, þá finnst mér ekkert úr vegi að bæjarsjóður mundi sjá um hana, því ég tel að bænum sem slíkum beri skylda til að sjá fyrir því, að æskulýður hans verði ekki út undan hafður í þessu, ja mér er óhætt að segja í þessu mikilvæga máli, fremur en í öðru, sem að menningu æskunnar lítur. Því mér er nær óhætt að halda því fram, að ef góðir menn yrðu fengnir til þess að veita slíku námskeiði forstöðu, þá yrði kostnaðarhliðin ekki svo mjög mikil, og á ég þar við, að með unglingum, sem hug hefðu á því að gerast góðir og nýtir sjómenn, þá mætti afla nokkuð upp í kostnað.
Ég vonast svo til, að máli þessu verði hrint sem fyrst í framkvæmd, ef nokkur tök eru á, og unglingum í stærstu verstöð landsins verði gefinn kostur á því að kynnast hinum ýmsu störfum sjómannsins, svo þeir geti orðið þjóð sinni og landi að miklu gagni. Að endingu vil ég svo óska hverju sjómannsheimili á landinu til hamingju með sjómannadaginn 4. júní 1961.

Hrannberg.