Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1961/ Árni Pálsson: Minningarorð

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Árni Pálsson


Minningarorð


Það hefur oft orðið mér umhugsunarefni hve skjótt og óvænt dauðinn grípur inn í okkar daglega líf og svo var enn hinn 17. marz síðastliðin, er mér var tilkynnt lát Árna heitins Pálssonar.

Okkur setti hljóða, félaga hans, sem höfðum skilið við hann hressan og kátan að vanda, fyrir aðeins viku síðan, en þá veiktist hann mjög snögglega. Ritstjórn þessa blaðs hefur beðið mig um að skrifa fáein orð til minningar um hann og er mér það bæði ljúft og skylt.
Þegar félagi úr svo fámennum hópi, sem ein skipshöfn er, er kvaddur brott, verður líkt ástatt um hina, sem eftir standa og fjölskyldu, sem sér á bak ástvini. Eftir stendur söknuður og hryggð.
Oft verður fyrir mönnum að glugga í fortíð þess er genginn er, og vega og meta kosti hans og galla, en ei skal slíkt gera hér. Heldur vil ég reyna að minnast Árna heitins eins og hann kom mér fyrir sjónir á þeim tíma, sem ég var honum samferða.
Ég minnist hans, sem manns er ætíð gekk heill að sínu starfi. Ég minnist hans léttu lundar og sífelldu viðleitni við að leita uppi björtu hliðarnar á lífinu. Hann var maður hreinskilinn og kom ætíð til dyranna eins og hann var klæddur og var fyrir þá sök oft misskilinn af sínum samferðamönnum að ósekju. Ég minnist hans sem manns, sem ætíð var sístarfandi og vann störf sín af einstakri alúð og kostgæfni og launin af starfi sínu lagði hann í að búa fjölskyldu sinni sem bezt kjör og aðbúð og var honum það mikill metnaður að það yrði sem bezt af hendi leyst.
Árni var maður vel greindur, ljóðelskur og söngvin mikill. Hann var sérlega orðheppinn og átti til að kasta á menn kviðlingum, ef svo bauð við að horfa. Hann var ætíð hress og hispurslaus í framkomu. Á yngri árum var hann íþróttamaður góður.
Árni var fæddur hinn 16. apríl 1903 að Efra-hvoli í Hvolhreppi í Rangárvallasýslu. Foreldrar hans voru þau hjónin Páll Árnason og kona hans, Sigrún Sveinsdóttir. Börn þeirra hjóna voru níu og er nú aðeins eitt á lífi.
Í foreldrahúsum dvaldist Árni til 16 ára aldurs, en þá réðst hann til sjóróðra á Suðurnesjum, fyrst á opnum skipum, en síðan á togurum og vélbátum þegar þeir komu til sögunnar. Sjómennsku stundaði Árni til dauðadags og var búinn að skila á sjónum mörgu ströngu dagsverki.
Frá veru sinni á Suðurnesjum átti hann margar og bjartar endurminningar; minntist oft á það sem á dagana dreif þar.
Árið 1945 fluttist Árni til Vestmannaeyja og giftist sama ár eftirlifandi konu sinni, Guðmundu Jóhannsdóttur. Þau eignuðust einn son, mannsefni hið mesta, og er hann móður sinni, sem á við mikla vanheilsu að stríða, ómetanleg stoð og mun hann vafalaust taka við þar, sem faðir hans hvarf frá og fullgera það, sem honum vannst ekki tími til að ljúka áður en hann var kallaður inn í þann heim, sem hann hafði vafalaust meiri innsýn í en svo mörg okkar hinna.
Að lokum Árni, þökkum við skipsfélagar þínir þér samverustundirnar. Ég vil ennfremur þakka þér trygglyndi þitt við mig og fylgja þér mínar beztu kveðjur yfir í land ódauðleikans, sem við ræddum svo oft um.

Sigurgeir Ólafsson.