Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1960/ Frá Grafreit hafskipa

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
EINAR SIGURFINNSSON:


Frá grafreit hafskipa


Fyrir tveimur árum flutti þetta blað frásögn af skipreka á söndum Skaftafellssýslu. Nú ætla ég að segja frá öðrum samskonar atburði, það er þegar Ugadale strandaði á Steinsmýrafjöru.
Þann 20. janúar 1911 var bjart veður, vægt frost og spakt. Seint um kveldið heyrðist, að hátt lét í eimskipsflautu og svo sást bál mikið í sömu átt. Þóttust menn þá þegar vita, að skip væri strandað, eða á einhvern hátt í nauðum statt.
Fljótlega voru hestar teknir og menn frá öllum Steinsmýrabæjum og Efri-Fljótum lögðu af stað. Suður á Eldvatnsbakka var stanzað og kallað á „ferju“. Strax heyrðist svarað og áraglam gaf til kynna, að Ásbjörn bóndi á Syðri-Fljótum væri viðbúinn. Hann vissi hvað um var að vera og bjóst við að Steinsmýringar kæmu fljótlega.
Ekki stóð á löngum tíma að koma mönnum og hestum yfir Eldvatnið og strax var lagt á hestana, þótt sundblautir væru, og riðið til strandar.
Mikill hluti leiðarinnar er gljá eða leira með grunnu vatni. Nú var þetta vatn ísi lagt sem þó var ekki hestheldur. Tafði þetta talsvert förina. Innan skamms var komið að hinu strandaða skipi. Það stóð að mestu rétt og snéri stefni að landi. Ekki var langt milli lands og skips. Nokkurt brim var við sandinn eins og oftast er á þessum slóðum. Ekki var mjög dimmt, þótt nótt væri, því heiðskírt var og stjörnubjart. Bátur var rekinn óbrotinn en allslaus. Ekki sáust nein merki þess. að menn hefðu komizt á land, en greina mátti menn úti á skipinu. Einhver hóaði og því var fljótt svarað, svo að greina mátti íslenzk orð: „bíðum fjörunnar“.
Eftir nokkra stund var bjarghring kastað i sjóinn með viðfestri taug. Þetta sást allvel úr landi, því að nú var farið að birta af degi. Brimaldan bar bjarghringinn hægt og hægt nær landi og loks gat vaðbundinn maður náð til hans. Þá var línan dregin á land og með henni allsvert tó sem traustlega var fest í viðarbút, sem grafinn var niður í sandinn. Ekki var hægt að strengja línuna svo, að ekki væri nokkur hluti hennar í sjávarskorpunni.
Þegar búið var að ganga frá þessu, fóru skipsinenn einn eftir annan að fika sig eftir línunni. Þeir héldu sér við hana með báðum höndum. Þetta gekk allvel, en ekki var hægt að sporna við því, að mennirnir lentu í sjó að meira eða minna leyti. Björgunarmenn röðuðu sér á bjarglínuna og reyndu að halda henni upp úr sjónum eftir því sem mögulegt var. Vaðbundnir menn voru og til taks að hjálpa þeim, sem slitnuðu af línunni eða urðu magnþrota að draga sig eftir henni.
Loks voru allir strandmennirnir komnir á þurrt land. Alvotir voru þeir, en ómeiddir og furðu hressir. Einn þessara manna mælti á íslenzka tungu, enda var hann íslenzkur. Hann hét Gísli Oddsson og var 2. stýrimaður á þessu skipi.
Skipið hét „Ugadale“, brezkt botnvörpuskip sem hafði verið að koma heiman að.
Báturinn var dreginn upp fyrir flæðarmálið og hvolft. Tafarlaust voru skipsmenn settir á hesta eftir því sem til vannst og haldið til bæja.
Ekki var verið mjög lengi heim að Syðri-Fljótum, sem var næsti bær. Þar voru hús lágreist og þröng, en hjartarúm húsráðenda, Ásbjörns og Sigríðar, var nú eins og jafnan svo, að enginn fann til þrengsla. Strax voru þessir sjóhröktu menn — 12 að tölu — látnir fara úr sínum blautu fötum og allir fengu þeir eitthvað af þurrum flíkum. Sumir fóru í rúmin í baðstofunni.
Strax og búið var að koma strandmönnunum í húsaskjól fóru 2 menn vel ríðandi til hreppstjórans. Heim til hans var alllöng leið. og leið því talsverður tími þar til hann kom á vettvang.
Hreppstjóri Leiðvallarhrepps var um þessar mundir Stefán Ingimundarson og bjó að Rofabæ. Hann var stór maður vexti, vel ritfær. Vatnamaður ágætur og drengur góður. Þegar hann var kominn að Fljótum, tók hann hina venjulegu skýrslu af skipstjóra og gerði þær ráðstafanir, sem þurfa þótti viðvíkjandi verustað mannanna o. s. frv.
Meðal annarra ráðstafana var það, að hann sendi tvo menn á strandstaðinn, er skyldu vera þar um nóttina, líta eftir skipinu og bjarga undan sjó, ef eitthvað kynni að reka. sem því tilheyrði.
Þessir menn voru Loftur hreppsnefndaroddviti Guðmundsson á Strönd og ég, sem þessar línur rita. Átti ég þá heima á Syðri-Steinsmýri.
Það var orðið aldimmt þegar við Loftur lögðum af stað frá Fljótum. Okkur gekk vel að komast suður leirurnar, þó að ísinn væri ótraustur, og ekki vorum við lengi að hinu strandaða skipi. Við gengum austur og vestur með flæðarmálinu, en ekki sást neitt rekið. Nú var helzt að nota bátinn til íbúðar, gátum við rótað sandi upp að borðstokknuni öðrumegin og að nokkru leyti hinumegin. Svo skriðum við inn í þetta skýli og bjuggumst um eftir því, sem föng voru til. Matarbita höfðum við, kertisstubb og eldspýtur. Við höfðum einnig 2 stóra strigapoka, sem við smeygðum okkur ofan í.

Stórhöfðaviti í Vestmannaeyjum. Ljósm.: Sigurgeir Jónasson

Ekki varð okkur svefnsamt þessa nótt. „Húsið“ var fremur kalt og svo var eitthvað annað, sem truflaði svefnfrið, og var sumt af því eitthvað skrítið.
Næsta dag kom hreppstjóri og nokkrir menn með honum, þ. á. m. yfirmenn skipshafnarinnar. Um fjöruna tókst að komast út á skipið og var þá tekið á land fatnaður skipverja, eitthvað af matvælum o. fl. Svo var öllu vandlega lokað og vel frá öllu gengið. Áður en heim var farið, var bætt við tveimur varðmönnum, svo að nú vorum við 4, sem áttum að halda til í fjörunni og hafa gát á skipinu og því sem því tilheyrði. Ekki höfðum við annað skýli en áðurnefndan bát, lagfærðum við þessa vistarveru sem tök voru á, svo heldur væri hærra til lofts og sæmilega vindþétt. Við höfðum olíuvél, svo að hægt var að hita vatn til kaffigjörðar, að öðru leyti höfðum við pokakost.
Ekki var neitt hreyft við skipinu né munum þess. Það stóð á réttum kyli að heita mátti. Sandur safnaðist að því, svo að næstum var þurrt að því um fjöruna. Skipstjóri, stýrimenn og 1. vélstjóri komu daglega ásamt fyigdarmanni. Þeir sáu um að vélar og annað væri hreint og fágað. Aðrir skipverjar voru fluttir á hestum til Reykjavíkur svo fljótt sem við varð komið.
Gísli Oddsson var — eins og getið var — 2. stýrimaður, mjög ötull og dugnaðarlegur maður. Hann virtist ráða mestu um meðferð skipsins og undirbúning að björgun þess. — Síðar var hann skipstjóri á togaranum „Leifi heppna“ og fórst með honum á Halamiðum í mannskaðaveðrinu veturinn 1926.
Veður var oftast stillt og því lítið brim. „Ugadale“ stóð eins og áður, hallaðist þó dálítið, sandur safnaðist að honum, einkum bakborðsmegin. Einn daginn kom björgunarskipið „Geir“ að athuga björgunarmöguleika, en hefur víst ekki litizt á, því að hann fór samdægurs og sást ekki meir.
Með stækkandi straum rótaðist sandurinn aftur frá. Og loks var ákveðið að gera tilraun til að koma skipinu á flot. Nokkrum mönnum var safnað til hjálpar. Talsverðu af kolum var varpað fyrir borð, vélin hituð og allt fágað og hreinsað eftir föngum. Akkeri var flutt á bátnum út fyrir næstu eyrar og togvírarnir festir í það.
Þegar háflóð var komið, var sett á „fulla ferð“ aftur á bak, og jafnframt fór spilið að snúast og togaði í með heljarafli. Skrúfan rótaði upp sandinum og „Ugadale“ mjakaðist hægt og hægt, og brátt flaut hann. Nokkru utar var grunnt á eyri, svo ekkert gekk um stund svo séð yrði. En einnig sú þraut vannst með því að leggja fyllsta kraft á vélina og nú flaut skipið á fríum sjó.
Báturinn kom að landi með menn, sem voru um borð og til að sækja eitthvað, sem enn var í landi. Að því búnu var akkeri uppdregið og togarinn kvaddi með flautunni og fjarlægðist ströndina.
Menn samfögnuðu giftu skipsmanna, að þetta skyldi heppnast svona vel. Hitt var venjulegt, að þau skip, sem landföst urðu á þessum slóðum, voru sokkin í sand og sjó eða brotin — meir eða minna — eftir stuttan tíma.
Mestan og beztan þátt í því, að þessi björgun heppnaðist, átti án efa Gísli Oddsson. Hann var frá upphafi svo ákveðinn og óþreytandi í starfi þessu viðkomandi. Það hjálpaði og, að hann talaði mál landsmanna og gat þess vegna betur sett sig inn í aðstæður allar. Og svo var veður svo óvenjulega hagstætt. Ein óveðursnótt hefði vel getað eyðilagt allar áætlanir.
Eins og getið var, voru það aðeins yfirmenn skipsins 4, sem héldu til í námunda við það. Þeir óskuðu eftir að fá 2 góða menn til hjálpar, ef skipið kæmist út. Til þess gáfu sig fram Steindór Sigurbergsson, Háu-Kotey, og Sigurður Sigurðsson, Lágu-Kotey, báðir ungir og röskir menn.
Þessir 6 menn voru nú innanborðs þessa brezka skips, þegar það sigldi frá landi undan Steinsmýrafjöru í 3. viku þorra 1911 eftir 18 daga dvöl.
En ekki voru allar raunir á enda, þótt þetta fallega skip kæmist á rúmsjó. Veður versnaði mjög, þegar að kveldi leið. Fljótt kom í ljós, að talsverður leki var kominn til sögunnar og ágerðist við áreynsluna, þegar veðrið versnaði. Dælur urðu óvirkar vegna kolasalla, sem einhvern veginn hindraði starf þeirra. Vélin gekk illa. Þar af leiddi, að skipið hrakti stjórnlaust, jafnvel þótt akkeri væri úti og munaði minnstu, að það strandaði aftur, og þá á miklu hættulegri stað.
Eftir um tveggja sólarhringa þrotlaust strit tókst að hreinsa svo til, að dælur komust í lag og vélar fóru að ganga sæmilega. Um sama leyti var veðri slotað og nú gekk siglingin tafalitið. Í Vestmannaeyjum fengu þeir vatn og vistir, sem hvort tveggja var þrotið.
Gerðist nú fátt sögulegt. Heilu og höldnu komust þeir inn á Reykjavíkurhöfn. Eftir að hafa þó villzt inn á Skerjafjörð, sem þó ekki sakaði.