Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1960/ Þegar mb. Ásdís var í vöruflutningum sumarið 1917

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Þegar mb. Ásdís var í vöruflutningum sumarið 1917


Við hittum að máli Svein Sigurhansson, Bakkastíg 11. Foreldrar Sveins og þeirra systkina bjuggu að Stóru-Mörk undir Eyjafjöllum. Sveinn fluttist hingað til Eyja árið 1911 og hóf þegar sjómennsku, eins og háttur var ungra manna á fyrstu árum vélbátaaldarinnar; var háseti í fyrstu, en gerðist svo vélstjóri. Hafði Sveinn vélgæzlu á hendi nokkuð á þriðja tug ára. Vann Sveinn oftast að múraraiðn á sumrum, en sjósókn að vetrinum. Nú um nokkurt árabil hefur Sveinn starfað í Hraðfrystistöð Vestmannaeyja.
Við spyrjum Svein, hvort hann kunni ekki frá ýmsu að segja frá sínum sjómannsferli, t. d. í sambandi við vélgæzluna, þegar bátarnir voru litlir og vélarnar ógangvissari en nú.
Sveinn segir að fátt hafi gerzt frásagnarvert. Þó má skjóta því inn í, sem Sveinn minnist þó ekki á, að hann var einn þeirra, sem fóru með m.b. Farsæl undir Fjallasand í desember 1911. Það var síðasta ferð Farsæls og er frásögn af þeim atburði á öðrum stað í blaðinu.
— Jæja, segir Sveinn, það væri þá helzt ef ég segði ykkur frá því þegar við urðum stopp á Ádísi fyrir vestan Dranga hérna um árið.
— Já, blessaður segðu okkur frá því.
— Þetta mun hafa verið sumarið 1917, líklega í júlímánuði. Við vorum þá í vöruflutningum, aðallega milli Vestinannaeyja og Víkur i Mýrdal. Fórum víst einar tuttugu ferðir þangað um sumarið og tvær til Reykjavíkur. Líka fórum við stöku sinnum í Landeyjarnar og undir Fjöllin, t. d. fluttum við allt sement í stórhýsi Ólafs bónda Pálssonar að Þorvaldseyri.
Vörurnar komu hingað með millilandaskipum og átti mest af þeim að fara til Halldórsverzlunar í Vík, en eitthvað til Þorsteins kaupmanns þar.
Ásdís var góður bátur á þeirrar tíðar vísu, tæp 14 tonn með 14 hestafla Dan-vél, súðbyrðingur og smíðuð í Danmörku. Báturinn kom hingað til lands árið 1908, en þótti þá allt of stór til þess að stunda á honum fiskveiðar. Það var ekki farið að hefja sjóróðra á bátnum af þessum sökum fyrr en vertíðina 1911. Þorsteinn í Laufási segir frá því i sinni merku bók Aldahvörf í Eyjum, að Ásdís hafi gengið til róðra 36 vertíðir héðan úr Eyjum. Þá höfðu verið með hana á fiskveiðum héðan 18 formenn. Aldrei varð neitt teljandi óhapp á Ásdísi. Hún var happa- og gæðaskip alla tíð.

Á síldveiðum við Eyjar.
Síld fiskuð í Vestmannaeyjahöfn. Ljósm.: Sigurgeir Jónasson

Jæja, það er þá rétt að byrja á því að kynna skipverja á Ásdísi þetta sumar. Formaðurinn var Finnbogi Björnsson frá Norðurgarði, mætur borgari og traustur sjómaður, hásetar voru Friðrik Benónýsson, Gröf, og Helgi í Dalbæ og ég sá fjórði, var mótoristinn, sem þá var kallað.
Við vorum að koma frá Reykjavík og farmurinn mun hafa verið kornvara að mestu leyti. Farþegar voru engir með okkur i þessari ferð. Veður var ágætt, hægur austan kaldi. Þegar við áttum eftir sem næst þriggja klukkustunda ferð að Dröngum losnaði svokölluð olíurúlla af vélinni, en hún er yfir krúmtappaskálinni. Þá stöðvast olíudælan og við stórastopp. Þetta mun hafa skeð um hádegisbilið. — Og ekki hægt að gera við þetta úti í sjó?
— Nei. það var ekki hægt, og ekkert skip sjáanlegt, sem gæti veitt okkur aðstoð. Finnbogi var nú að hugsa um að setja upp segl og sigla fyrir Reykjanesið. Ég bað hann að bíða með það, datt í hug að reyna að pumpa olíunni af handafli. — Ég held, að þú hafir það ekki, sagði Finnbogi.
Nú, svo bað ég Helga að setja í gang, en ég tók til að pumpa. En það fór sem Finnboga grunaði, ég varð að gefast upp við þetta. Þá datt mér í hug að binda snæri sitt hvoru megin í pumpuna, svo settumst við tveir á bekk hvor á móti öðrum og kipptum í snærið á víxl. Reyndum við að pumpa sem jafnast, en dálítið mun gangurinn hafa verið skrykkjóttur öðru hvoru. Ég held, að báturinn hafi annars gengið svona yfirleitt svipað og hann átti vanda til. Við þreyttumst ekki svo mikið, þegar við pumpuðum tveir. Finnbogi var einn uppi, við hinir niðri, tveir alltaf að pumpa, en sá þriðji hvíldist. Svona var haldið áfram sleitulaust, rótgekk Asdís öðru hvoru, en annað veifið dró úr ferðinni. Eftir á að gizka fimm klukkutíma náðum við til Eyja. Þegar við fórum fyrir Klettinn var farið að glæða kaldann og um kvöldið var komið austanrok.
Gísli Johnsen, eigandi Ásdísar, var á bryggjunni þegar við komum. Þótti honum hafa vel til tekizt og var okkur þakklátur fyrir að hafa komið bátnum til hafnar.
Það var svo sem ekkert sögulegt við þessa ferð, segir Sveinn að lokum, við vorum ekki í neinum háska; þetta var ekki nein svaðilför. En það hygg ég sjaldgæft eða jafnvel einsdæmi, að vélbát hafi verið komið í höfn á þenna hátt, þó þetta langa leið.
— Voru ekki stundum farþegar á Ásdísi í þessum ferðum? — Jú, í hinni Reykjavíkurferðinni voru tveir farþegar, annar þeirra kona. Þá vorum við 24 klukkutíma á leiðinni. Í Víkurferðunum voru stundum farþegar, í einni ferðinni voru þeir 17 héðan úr Eyjum til Víkur. Ég hafði þann starfa að innheimta fargjaldið, sem mig minnir að hafi verið 4 eða 5 krónur. Nú skeður það í þessari ferð, að gömul kona, sem með okkur var, hafði enga peninga til að borga fyrir sig. Ég sagði henni, að við því væri ekkert að gera, hún fengi þá frítt far og var hún þeim málalokum fegin. Nú komum við heim og ég afhendi Gísla fargjöld 16 farþega.
— Voru farþegarnir ekki 17? spyr Gísli.
— Jú. þeir voru 17, en ein gömul kona átti enga peninga og þú mátt skrifa þetta hjá mér ef þú vilt.
— Nei, það geri ég ekki, svaraði Gísli, þú gerðir það eitt sem rétt var og þú hefur heimild til að gefa eftir fargjald, ef einhverntíma skyldi standa eins á.

Síld úr Vestmannaeyjahöfn.

um haustið hættum við vöruflutningum á Ásdísi. Næsta sumar leysti Skaftfellingur okkur af hólmi. Hann þótti mikið skip og glæsilegt í þá daga, Skaftfellingur.