Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1960/ Það var annaðhvort að duga eða drepast: Spjallað við Ólaf Bjarnason á Kirkjuhól

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Það var annaðhvort að duga eða drepast


- spjallað við Ólaf Bjarnason á Kirkjuhól


Allir Eyjabúar, sem komnir eru til vits og ára, þekkja Ólaf Bjarnason á Kirkjuhól. Hitt vita kannski ekki allir, að hann hefur nú sótt sjóinn hálfan fimmta tug ára og oftast bæði vetrar- og sumarvertíðir (síldveiðar). Sjómannadagsblaðinu þótti því fara vel á þvi að spjalla svolítið við Ólaf um liðna daga á sjó og landi — þó helzt á sjó.
— Hvaðan ert þú upprunninn, Ólafur?
— Ég er Seyðfirðingur, faðir minn var sjómaður. Foreldrar mínir bjuggu á Vestdalseyrinni. Þar fæddist ég árið 1898. Við fluttumst til Reykjavíkur þegar ég var fjögurra ára og þar ólst ég upp til fermingaraldurs. Á sumrin var ég í sveit austur í Holtum.

Ólafur Bjarnason á Kirkjuhól

Þegar ég var 16 ára gamall sagði ég skilið við höfuðborgina að mestu. Ég fór með föður mínum austur á firði sumarið 1915. Við rérum frá Reyðarfirði á árabát og faðir minn var formaðurinn.
— Þú munt stundum hafa komizt í hann krappan á löngum sjómannsferli?
— Það var nú ekki nema í eitt skipti. Það var veturinn 1916. Ég var þá á „Birninum“ frá Grindavík. „Björninn“ var tíæringur, en við vorum 11 skipverjarnir. Formaðurinn var Guðjón Magnússon í Grindavík, ágætur sjómaður og stjórnari. Ég réðst til hans þessa vertíð fyrir 120 krónur.
Við munum hafa róið klukkan 4 að morgni föstudaginn 24. marz. Það var logn um morguninn, frostlítið og ládauður sjór. Þá réru 24 skip frá Grindavík og lögðu djúpt lóðir sínar, því útlit var fyrir bezta veður. Klukkan hálf ellefu brast á ofsaveður á norðan, næstum því eins og hleypt væri af byssu, og fylgdi þessu veðri hörkufrost. Skipin náðu ekki inn nema litlu af línunni, aflinn var því sáralítill, kjölfesta var því lítil og vont að hemja skipin. Þau þoldu svo til engin segl.

Hvalir reknir á land í Eyjum 6. ágúst 1958.

Við rérum með línu eins og hinir og áttuni net í sjó. Við vorum að byrja að draga línuni þegar veðurofsinn skall á. Náðum ekki inn nema einu bjóði, sem var dregið fram á hnýfil, en við vorum tíu undir árum. Svo voru sett upp einhver lítilsháttar segl, en mastrið brotnaði niður við stellingu. Þá var afturmastrið fært fram og enn reynt að sigla, en við náðum ekki nær en undir Skarfasetur undan Reykjanesi. Formaðurinn spurði, hvort við héldum ráðlegt að freista lendingar í Blásíðubás, sáum að eitt skip hafði lent þar, en brotnað í lendingu, þó án slysa á mönnum. Ekki þótti nú fýsilegt að lenda þarna, en til þess kom ekki, því okkur hrakti nú undan.
En nú vildi svo vel til, að við sáum til skips ekki langt undan og var haldið í áttina að því. Þurfti hvorki að sigla né róa, straumurinn og veðrið sá fyrir því. Þetta reyndist vera kútterinn „Esther“ frá Reykjavík. Skipstjórinn var Guðbjartur Ólafsson, síðar hafnsögumaður og forseti Slysavarnafélags Íslands.
„Esther“ var að koma austan af Selvogsbanka og var á leið til Reykjavíkur með fullfermi af fiski. En þegar komið var móts við Stafnes, varð „Esther“ að snúa við sökum veðurs og leita skjóls í Grindavíkursjó. Það er lítill vafi á því, að þetta varð okkur og mörgum öðrum til lífs.
Þegar við komum að „Esther“ var búið að bjarga þrem skipshöfnum frá Grindavík um borð. Það var mikið vandaverk að ná svo mörgum mönnum um borð í stórsjó, ofsaveðri og hörkufrosti, en kútterinn lá undir áföllum. Skipunum var lagt að kútternum, að miðri skipshlið á kulborða. Skipverjar skipuðu sér við borðstokkinn og sættu lagi að kippa okkur upp, þegar sjórinn lyfti skipunum á hæð við borðstokk kúttersins. Þetta tókst allt giftusamlega og 38 manns bjargaði Guðbjartur og menn hans á stuttum tíma. Klukkan hefur líklega verið 4 eða eitthvað að ganga 5 þegar við vorum komnir um borð.
— Þið munuð hafa hlotið góðar viðtökur hjá Guðbjarti og hans mönnum?
— Já, það er óhætt um það. Það varð ekki á betra kosið eins og aðstæður voru. Allir voru látnir fara niður, því ekki var viðlit að vera uppi því sjóirnir gengu yfir dekkið jafnt og þétt. En það var þröngt á þingi, þegar 38 manns bættust við 27 manna skipshöfn. Okkur var borinn heitur matur og drykkur, allt gert fyrir okkur sem hægt var að gera.
— Og hve lengi voruð þið svo um borð í „Esther“?
— Fram á miðjan dag á mánudag. Veðrið versnaði enn þegar leið á kvöldið. Það var því lagt til drifs og látið hala austur á við. Um nóttina varð að ryðja út nokkru af barlestinni. sem var járnstykki, nokkuð þung, til þess að létta skipið. Þá var líka látin lifur í poka, sem voru hengdir út með síðunum, til þess að lægja brotsjóina. Við urðum að vera niðri allan laugardaginn og sunnudagsnóttina, en á sunnudagsmorgun fór veðrinu að slota og þá fóru sumir upp á þilfar. Þá var skipið komið langt út í haf, suður og vestur af Vestmannaeyjum.
— Það mun hafa verið daufleg vistin niðri allan þennan tíma?
— Ó, já, þetta var náttúruega ekkert lúxusskip á nútímavísu, en þröngt mega sáttir sitja og mest um vert, að allir björguðust. En ekki var loftið gott þar sem svo margir voru undir þiljum og svo blaut sjóklæðin þar að auki. Hvað varð svo um skipin ykkar og hin skipin tuttugu frá Grindavík?
— Skipin voru öll fest aftan í „Esther“, en þegar veðrið fór versnandi var ekki viðlit að bjarga þeim, þau slitnuðu aftan úr eða voru höggvin frá. Hin skipin náðu landi hingað og þangað um ströndina. Ein fjögur náðu landi í Grindavík, en það voru þau, sem fyrst héldu að landi. Tvö skip brotnuðu í lendingu undir Hrafnkelsstaðabergi. Eitt skipið hleypti upp í bás vestan við Skarfasetur, upp á líf og dauða. Þegar skipið var að taka niðri skall á ólag og átta mönnum skolaði út. Þeim skolaði upp, en skipið brotnaði í spón.
— Hvenær komust þið svo á land?
— Á sunnudagsmorguninn klukkan 8 var hafin sigling og um kvöldið náðum við undir Revkjanesið, ekki langt frá þeim stað sem skipið bjargaði okkur. Svo var haldið undir Krísuvíkurberg og legið þar um nóttina. Á mánudagsmorgun var sjór farinn að kyrrast og öllum skipað upp á dekk og skipið ræstað. Eftir hádegið var skipinu lagt til siglingar inn á Grindavík og okkur skilað á land eftir þriggja sólarhringa vist í „Esther“.
— Og Grindvíkingum þótt, sem þið væruð heimtir úr helju?
— Já, menn hafa víst ekki átt von á því, að sjá allar skipshafnirnar fjórar aftur heilar á húfi. Annars sá vitavörðurinn á Reykjanesi, að einhver skip héldu út að „Esther“ og lét þegar vita af því, en hitt vissu menn ekki, hvort öllum hefði verið bjargað.
— Það hefur verið mikið áfall fyrir Grindvíkinga að missa svo mörg skip, þó hitt væri fyrir mestu, að allir björguðust. Hvað varð ykkur svo til um farkost?
— Við fengum skip í Höfnunum, áttæring, sem við vorum níu á til loka. — Guðjón formaður minn þessa vertíð, fórst á Járngerðarstaðasundi mörgum árum seinna, aðeins einn maður bjargaðist.

Einar J. Gíslason frá Arnarhóli að yfirfara gúmmíbát, en Einar yfirfer alla gúmmíbáta hér fyrir vertíðar.- Ljósmynd Sigurgeir Jónasson.

— Hvert lá svo leiðin eftir þessa sögulegu vertíð í Grindavík?
— Austur á firði um sumarið. Næsta vetur, 1917, fer ég svo hingað til Eyja, ráðinn hjá Guðjóni Eyjólfssyni á Kirkjubæ, sem átti hlut í bátnum. Formaður var Magnús á Vesturhúsum Guðmundsson. Þetta var fyrsta vertíðin hans með Hansínu II, VE 200. Ástgeir í Litlabæ smíðaði Hansínu undir Skiphellum, næstsíðasti báturinn hans. Ég beitti á línunni, en reri á netin. Það var einstaklega gott að vera með Magnúsi. Þó hann virtist mikill alvörumaður, var hann léttur í skapi, skemmtilegur og uppörvandi.
— Mér er sagt, Ólafur, að þú hafir verið aldarfjórðung með einum og sama formanni, honum Boga í Vallatúni; hvenær byrjaðir þú hjá honum?
— Vertíðina 1918 var ég hjá Vigfúsi í [[Holt|Holti] á mb. „Sigríði“, svo fór ég til Finnboga. Jú, það mun vera rétt, ég damlaði víst hjá honum í 25 vertíðir. Ég byrjaði hjá honum veturinn 1919, fyrst á „Þór“, svo á „Ara“. „Tjaldinum“ og síðast á „Veigu“ margar vertíðir. Síðasta vertíðin mín með Boga var 1943.
— Það lítur út fyrir, að ykkur Boga hafi samið allsæmilega eftir þessu að dæma. Þess eru líklega ekki mörg dæmi, að háseti hafi verið hjá sama formanni aldarfjórðung samfleytt, skjótum við inní.
— Já, það mun rétt vera, segir Ólafur og brósir við. Það var gott að vera með Boga, og sama er raunar að segja um alla þá formenn, sem ég hef verið hjá. — Veiga þótti nú mikill bátur þegar hún bættist í flotann og Bogi sótti fast sjóinn. Og þó ótrúlegt sé, þá fannst mér hann jafnvel harðna í sókninni síðustu vertíðirnar sem ég var hjá honum, en þá gekk hann aldrei heill til skógar. En það var eins og hann yrði annar maður, bara um leið og hann kom út í bátinn. Sjórinn virtist vera hans líf.
— Jæja, hvaða fjölum hefur þú svo fylgt eftir að Bogi hætti?
— Næstu vertíðirnar var ég áfram á „Veigu“, hjá Guðna í Norðurgarði veturinn 1944. Þá lenti ég í einu útilegunni á ævinni. Það var í janúar, skall á vitlaust veður af austri og níu bátar lágu úti um nóttina. Við andæfðum við ljósbauju út og suður af Smáeyjum alla nóttina, en komumst í land undir kvöld næsta dag.
— Nú, síðan hef ég verið með ýmsum formönnum, t. d. tvær vertíðir með Sigurjóni Auðunssyni, tvær með Steina í Görðum og síðast fimm vertíðir með Elíasi Sveinssyni á „Sjöstjörnunni“. Ég réri svo ekki í vetur leið, var í seglasaumi hjá Jóni Bjarnasyni, en hjá honum hef ég unnið síðustu árin þegar ég hef ekki verið á sjónum, helzt á haustin. Ég byrjaði í þessu 1928 hjá Guðmundi Gunnarssyni. Hann kunni margar sögur, en þær voru nú kannske ekki allar alveg heilagur sannleikur!
— Þú hefur stundað síldveiðarnar á sumrin, Ólafur?
— Já, ég hef farið norður á síldina. Það er skemmtileg veiði; líf og fjör þegar mikil síld er. Það er alveg steindauður maður sem hrífst þá ekki með. En síldin hefur breytt háttum sínum. Það er miklu meiri vandi að ná síldinni nú en áður. Það var enginn vandi að veiða síldina hér áður, ekkert annað en keyra að torfunum. Í fyrra var hún næstum öll tekin neðansjávar, fundin með mælitækjum. En aðstaðan við síldveiðarnar hefur stórbatnað, bátarnir stærri og þeir búnir fullkomnum tækjum og löndunin er leikur einn hjá því, sem áður var.
— Þú hefur lifað tímana tvenna á vélbátunum, því mikill er munurinn á Hansínu litlu og Sjöstjörnunni, svo við tökum eitthvað til samanburðar; hvað finnst þér nú mest um vert af öllum þeim miklu framförum, sem orðið hafa síðan þú byrjaðir sjósókn á vélbátum 1917?
— Aðbúnaðurinn á bátunum þá og nú er eins og dagur og nótt, eins og gefur að skilja, því þá voru bátarnir þetta 8—12 tonn. Lúkarinn var ekki nema lítið afdrep. Maður var kannski að basla við að hita kaffisopa á prímusskrifli og gekk misjafnlega. Já, það er mikill munur að vinna á þessum stóru bátum. Áður var það svo, að þá var annaðhvort að duga eða drepast. En þó aðbúðin að mannskapnum sé öll önnur, finnst mér þó mest um vert, hversu öll vinnuskilyrði hafa breytzt til batnaðar, t. d. aðstaðan við höfnina. Oft varð að landa aflanum á skjögtbátnum eða bíða klukkutímum saman eftir bryggjuplássi og þá kannski að kasta fiskinum upp fyrir sig eina til tvær mannhæðir. Nú er löndunin, sem áður var eitt versta verkið, ekki neitt hjá því sem áður var. Eða þá bjóðaflutningarnir; nú eru bjóðin flutt til okkar niður í bát, áður urðum við að kjótla þeim á handvagni ofan úr beituskúr áður en farið var í róður, og svo mætti lengi telja. —

Ólafur kvæntist árið 1926 Dagmeyju Einarsdóttur, ættaðri af Álftanesi, dugnaðar- og myndarkonu. Húsið Kirkjuhól við Bessastíg keyptu þau árið 1935 og hafa búið þar síðan. Þrjú börn eiga þau uppkomin, öll hin mannvænlegustu.

H.G.