Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1960/ Úr gömlum dagbókum úr Eyjum 1914

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Úr gömlum dagbókum úr Eyjum 1914


2. janúar. Gott sjóveður, nokkrir bátar réru og fiskuðu sumir vel, t. d. Immanúel 400 af þorski.
5. janúar. Norðan strekkingur, 40 bátar á sjó og fiskur tregur. Baldur fékk 230 af þorski og löngu, Ceres 200 og Olga 130.
6. janúar. Vestanstormur, gekk til hafs um miðjan dag, bylur og dimmt veður. Bátar róa og fiska dálítið.
8. janúar. Austanbræla, rokhvessti þegar á daginn leið. Vont sjóveður. Margir bátar á sjó, fiska mjög lítið, en lítið tapaðist af línu. Olga fiskaði 80 af þorski og löngu, Ceres 80 og Baldur 40.
3. febrúar. Austan andvari fyrri partinn. Rokhvessti um miðjan dag. Margir bátar réru og fiskuðu dálítið. Mb. Ísak fór að leita að línu fyrir Geysi, en hann er ókominn og telja menn hann af, 5 menn fórust. Gekk í hægan landsunnan vind um kl. 6.

11. marz. Austanrok. Einn bátur á sjó, Trausti.
12. marz. Austan rok. Lygndi um miðjan dag og gekk í suður með miklu brimi. Bb. Trausti lá fyrir innan Eiði í nótt, kom þegar lygndi austur fyrir.
15. marz. Norðan andvari. Hvessti á vestan með éljagangi. Nokkrir bátar réru í morgun, en komu að um hádegi hlaðnir fiski, mest á færi. Réru þá margir bátar með færi og fiska mæta vel.
16. marz. Austan með slyddubyl seinni partinn. Margir réru, en fiska mjög lítið.
18. marz. Austan rok. Mb. Agða, eign Gunnars Ólafssonar & Co., réri í gær og nú kom togari með hana á slefi upp undir Eiðið. Var allt brotið ofan af henni, þ. e. mótorhús, mastur og masturstunnan dregin upp og línuspilið horfið. Togarinn fann hana þannig á sig komna 14 sjómílur útsuður af Einidrang. Líklegast er að mennirnir hafi bjargazt í skútu eða togara.
19. marz. Fínasta veður. Enskur togari kom með skipshöfnina af Ögðu heila á húfi. Hafði hann tekið Ögðu á slef, en þrisvar losnaði hún frá togaranum. Að síðustu settu þeir fast um mótorhúsið og spilið og tók allt ofan af. Ekkert fiskirí á mótorbáta, en talsverður reytingur á smábáta.
22. marz. Fínasta veður. Margir togarar voru að veiðum í landhelgi inni á Ál. Tveir mótorbátar fóru inn eftir með marga menn. Komu þeir að þýzkum togara, lögðu að honum og hljóp þá skipshöfnin upp. Varð talsverður bardagi um borð, en Íslendingar höfðu yfirhendina.

Þeir eru snemma vandir við í Eyjum.- Ljósm.: Sigurgeir Jónasson.
Þrjár fegurðardísir við fiskpökkunarvél.

23. marz. Austan stormur. Nokkrir bátar á sjó og fiska lítið. Hinn seki togari kom í nótt og var farið með skipstjórann í land. Rétturinn settur kl. 1.
26. marz. Austan andvari. Fálkinn kom með 2 togara, þýzkan og franskan. Bv. Bragi kom frá Reykjavík, því hér á að dæma hann. Hann var að veiðum inni á Ál um daginn. Var þá tekið númerið af honum.
28. marz. Austan rok. Afli franska togarans var metinn í dag á 8 þús. og 4 hundruð krónur, en þýzka togarans var metinn á 2 þús. kr.
Var matsmönnnm haldin veizla um borð í franska togaranum, sú fínasta, sem menn muna hér um slóðir, 5 réttir.
31. marz. Gott veður, er talsvert austan brim. Snorri goði kom í dag, var það einn af þeim, sem var í landhelgi inni á Ál um daginn.
Var rétturinn þegar settur og stóð yfir þangað til í nótt. Skipstjórinn lætur illa yfir framkomu sýslumanns við sig í þessu máli.

3. apríl. Austan andvari. Mb. Frí rak upp í Bratta. Togari kom með mb. Hlíf á slefi. Fann hann bátinn stopp suður í sjó.
7. apríl. Vestan rok. Fjöldi af togurum liggja hér á Víkinni og líka bæði spítalaskipin frönsku.
16. apríl. Vestan, gekk í suður síðdegis, hægur. Íslands Falk liggur á Víkinni ásamt mörgum togurum.
23. apríl. Vestan stormur. Sólskin. Slys vildi til hér á Víkinni í nótt. Fyllti bát við togara, einn maður drukknaði. Það var Englendingur, en þeir sem björguðust voru Kjartan og Friðrik á Tanganum o. fl.
28. apríl. Vestan rok. Sjór úti fyrir. Mjög kalt veður. Yfir 150 togarar liggja hér í skjóli við Eyjarnar, frá KlettsnefiStórhöfða.
30. apríl. Austan andi. Bezta veður. Íslands Falk kom með togara.

1. maí. Vestan kaldi. Íslands Falk kom með þýzkan togara. Yfirleitt gott fiskirí í dag.
2. maí. Togari kom hingað inn fyrir Leið. Varpan var í skrúfunni, svo þeir urðu að fá sér kafara.
Íslands Falk kom með þýzkan togara, en missti tvo.
11. maí. Vetrarvertíðarlok. Vestan andi. Rigning og þoka um kvöldið. Mb. Olga hefur fiskað 14461 stk. af ýsu, þorski og löngu í 60 róðrum, mb. Ceres 12986 stk. af þorski, ýsu og löngu í 58 róðrum og mb. Baldur 11164 stk. af þorski, ýsu og löngu í 56 róðrum.