Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1959/ Látum bókvitið í askana

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
BALDUR JOHNSEN, héraðslæknir:


Látum bókvitið í askana


I.


Ekki er um það að villast, að menntun er máttur.
Í gamla daga töldu menn þó lítið upp úr menntun leggjandi í tóma maga, enda yrði bókvitið ekki látið í askana.
Nú er öldin önnur.
Í nútíma þjóðfélagi veltur afkoma og lífshamingja manna mjög mikið á því, hverrar fræðslu þeir hafi notið, eða bóklegs undirbúnings undir lífsstarfið. Þó er skólaganga ef til vill ekki einhlít í þessu efni, en verður þó alltaf talin gott vegarnesti.
Það er, að vísu, hægt að afla sér menntunar á margvíslegan hátt, bæði utan skóla og innan, ef hugur fylgir máli.
Það er ætlazt til þess, að það skólakerfi, sem börn okkar og unglingar búa við hér á landi, fullnægi tilteknum lágmarkskröfum, en margir efast um, að sá grundvöllur sé rétt lagður.

II.


Sjómannabyggðarlög eins og Vestmannaeyjar standa mjög höllum fæti gagnvart skólakerfi okkar, eins og því er fyrir komið og framkvæmt í mörgum atriðum.
Það er hætt við, að hið blómlega atvinnulíf hér á útmánuðum, þegar mest á ríður að stunda námið af kappi, taki alveg hugi margra unglinga.
Börn sjómanna og útgerðarmanna hafa að mörgu leyti erfiða aðstöðu eins og að líkum lætur, en þó smitast allir meira og minna af vertíðinni, þegar seilzt er til starfskrafta inn á hvert heimili og unnið jafnt nótt og dag.
Það er auðvitað ekki nema eðlilegt og sjálfsagt, að slíkt tímabil taki hugina, þegar afkoma hvers einstaklings, bæjarfélagsins og raunar allrar þjóðarinnar veltur á aflabrögðum, veðráttu og heilsufari í einum mánuði, aprílmánuði.
Það er slæmt, að úrslitamánuður skólagöngunnar skuli þurfa að fara saman við úrslitamánuð atvinnulífsins.

III.


Það þarf að breyta skólafyrirkomulaginu, hér í Vestmannaeyjum, og e. t. v. víðar um suðvesturland, ef ekki um allt land. En hvað sem þessu viðvíkur annars staðar á landinu, þá finnum við bezt, hvar skórinn kreppir að hér í Vestmannaeyjum.
Það á að byrja unglingaskólana fyrr að haustinu, t. d. 1. sept.
Nú á tímum eru sveitastörf unglinga ekki lengur til fyrirstöðu í sept., þar sem heyönnum er nú víðasthvar lokið fyrir þann tíma.
Það er aðgætandi, að færri og færri kaupstaðarunglingar fara nú orðið í sveit á sumrin. Á því er orðin gerbreyting á síðustu áratugum.
Nú er einmitt oft og einatt dauður tími í sept., að minnsta kosti hér í Vestmannaeyjum.
Ef unglingaskólarnir byrjuðu almennt 1. september, fengist samfelldur kennslutími á fjórða mánuð, og yrði öllum miðsvetrarprófum lokið fyrir jól. Skólar byrjuðu síðan aftur, að afloknu jólaleyfi, sem ef til vill mætti stytta, og síðan samfelldur skólatími aðra þrjá mánuði, og öllu lokið 1. apríl.
Þetta fyrirkomulag hefur marga kosti:
1. Það gæfi áreiðanlega betri árangur, að skipta skólaárinu í tvo nokkurn veginn jafna áfanga, þar sem jólin mörkuðu eðlileg þáttaskil, en að slíku er stefnt með því nýja fyrirkomulagi, sem hér er haldið fram.
2. Skólarnir munu losna við truflandi áhrif af vinnuleyfinu, og páskaleyfið mun sjaldan lenda inni í skólatímanum, þegar hætt er 1. apríl.
Nemendur hefðu tiltölulega góðan námsfrið síðasta mánuðinn, úrslitamánuðinn, úrslitamánuð skólagöngunnar.
4. Og síðast, en ekki sízt, losna svo af skólaborðum 400 vinnufúsar hendur, eða vel það, sem þá geta tekið fullan þátt í atvinnulífinu, þegar mest á ríður, og auk þess að vinna sér inn drjúgan skilding og geta sparað ríkinu mikinn gjaldeyri, vegna minni innflutnings erlends verkafólks, en eins og kunnugt er mun ákveðinn hluti hins erlenda verkafólks vera fluttur inn til þess að jafna „toppálagið“ í apríl.

IV.


Þessar breytingar ættu að vera auðveldar í framkvæmd, ef vilji og skilningur ráðamanna væri fyrir hendi. En voru samt ekki einhverjir erfiðleikar á veginum? Sumir kunna að spyrja: Hvað þá með landsprófin?
Það er einfaldara en ætla mætti.
Að óbreyttu aðalfyrirkomulagi, yrði sú ein breyting hér, að landsprófsnemendur í Vestmannaeyjum fengju dálítið lengri undirbúningstíma, og mundi það sízt að lasta.
Kennarar væru nú í starfi fram um miðjan apríl, í stað maí áður.
Þeir gætu jafnvel, ef henta þætti, haldið uppi kennslu í landsprófsbekk fram í miðjan apríl, jafnframt því sem þeir ynnu að frágangi prófa, eða þar til formleg skólaslit gætu farið fram.
Síðan fengju þessir nemendur upplestrarleyfi, undir umsjá skólastjóra, og tækju síðan landspróf á tilsettum tíma, einnig undir umsjá skólastjóra og prófdómenda, eða annarra þar til kvaddra manna. Óþarft væri með öllu, að kennarar almennt biðu eftir þessu lokaprófi ekki sízt þegar það er athugað, að endanlegt mat prófverkefna fer fram í Reykjavík hjá landsprófsnefnd, en heimamönnum hvort sem er ekki treyst í þessu efni, eða sem þó mun líklegra, samræmisins vegna, talið nauðsynlegt, að ein og sama prófnefndin gefi fyrir verkefni alls staðar af landinu.

V.


Hér hefur nú verið vakið máls á mikilvægu atriði í sambandi við undirbúningsmenntun unglinga úr sjómanna- og verkamannastétt hér í Eyjum.
Það hefur verið bent á leið til að bæta aðstöðu þessara unglinga til undirbúningsnáms, og um leið fengin nokkur lausn á vandamáli, sem aprílfiskihrotan alltaf skapar hér, og hefur töluvert fjárhagslegt gildi.
Eins og bent hefur verið á, ætti ekki að vera mjög erfitt að leysa þetta mál, að koma á þeim breytingum á fyrirkomulagi við skólahaldið, sem nauðsynlegar eru, ef aðeins er beitt lítilsháttar lipurð og víðsýni.
Og hafi menn ekki verið sannfærðir um þörf breytinga fram að þessu, þá ætti síðasta aprílhrotan að taka af allan vafa.
Það er meira í húfi fyrir unglingana en mislukkuð próf einu sinni eða tvisvar. Það er í húfi almennur áhugi fyrir námi síðar meir og mjög torvelduð þátttaka í framhaldsnámi, bæði sérnámi og almennu námi, og er það mikill skaði, sem ekki verður auðveldlega bættur.