Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1959/ Karl Sigurðsson, skipstjóri frá Litlalandi

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Karl Sigurðsson


skipstjóri frá Litlalandi


Hann andaðist í Reykjavík 5. maí s.l.
Karl var fæddur hér í Eyjum 16. nóvember 1905. Foreldrar hans voru Halldóra Hjörleifsdóttir og Sigurður Hróbjartsson, er lengst af bjuggu hér á Litlalandi og kennd voru við það hús.
Þau voru tiltekin dugnaðarhjón. Bæði voru þau aðflutt hingað undan Eyjafjöllum.
Karl átti því ekki langt að sækja dugnað og kapp, og ungur var hann vaninn við að vinna.
Hann byrjaði að stunda hér sjóinn um fermingaraldur. Fljótt fékk hann orð á sig fyrir hörkudugnað og kappgirni. Þótti því snemma álitlegt formannsefni.
Tvítugur að aldri tók hann að sér skipsstjórn. Fyrst á mb. Auði, því næst mb. Þristi, mb. Gunnari Hámundarsyni, mb. Ágústu og mb. Þorgeiri goða.
Alls mun hann hafa verið hér skipstjóri 12 — 15 ár, eða þar til hann fluttist alfarinn til Reykjavíkur 1939.
Karl varð fljótt mikill aflamaður. Mun hafa orðið hér aflakóngur tvær eða þrjár vertíðar. Enda þá með stærstu bátana í höfn.
Mörg sumur var Karl skipstjóri með síldveiðibáta, fyrir norðurlandi, og heppnaðist honum síldveiðin afburða vel. Enda hafði hann þá oftast með sér úrvalslið. Unga og hrausta Eyjamenn.
Þeir, sem kynntust Kalla á Litlalandi hér á hans sjómannsárum, muna hann vel og lengi.

Vinur.