Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1958/ Frá tímum opnu skipanna: Sigling „Gæfu” árið 1901

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit


GíSLI JÓNSSON FRÁ ARNARHÓLI:


Frá tímum opnu skipanna


Sigling „GÆFU“ árið 1901


Í þessari grein verður leitazt við að segja frá Sandaferð héðan úr Vestmannaeyjum árið 1901, sem mikið var um talað á sínum tíma og sýnir uppvaxandi kynslóð muninn í dag eða þá. Þegar flogið er til næstu flugstaða á landi á 10—15 mínútum og ekki þörf á að spyrja um dauðan sjó eða brim undir flestum kringumstæðum.
12 manneskjur tóku þátt í þessari ferð. 10 karlmenn og 2 konur, farþegar. Af þessum hópi eru mér vitanlega tveir á lífi, sá er hér greinir frá og Jón Tómasson í Hvítanesi, Vestur-Landeyjum. Jón er háaldraður maður í dag, albróðir Snorra á Hlíðarenda hér í bæ og þeirra systkina, hálfbróðir konu minnar sálugu Guðnýjar Einarsdóttur frá Arnarhóli.
Formaður í þessari ferð var Einar Þorsteinsson frá Akurey í Vestur-Landeyjum, þáverandi bóndi í vesturbænum að Arnarhóli, sömu sveit. Einar var formaður 33 vetrarvertíðir, bæði hér í Vestmannaeyjum og úr Landeyjasandi. Hár og þrekmikill maður, hagur á tré og járn, stálminnugur og fróður. Einar var kominn í beinan karllegg frá Fjalla-Eyvindi. Faðir hans Þorsteinn Jónsson, Eyvindssonar, er Eyvindur eignaðist með ekkjunni í Traðarkoti, áður en hann lagðist út. Í móðurætt var Einar sonur Margrétar (eldri?) systur Sigríðar Einarsdóttur, ömmu Guðjóns á Oddsstöðum og þeirra systkina, er Þorsteinn Þ. Víglundsson skrifar um í „Bliki“ 1958.
„Gæfa“ var þríróið jul, sex menn undir árum. Smíðað af Tómasi Jónssyni um eða upp úr miðri öldinni er leið. „Gæfa“ hefur verið til fram undir þetta, að Hvítanesi í Landeyjum, og átti Byggðasafn Vestmannaeyja kost á að eignast skipið, en þótti þá ekki fært til flutnings, er til átti að taka. Tómas sá er smíðaði „Gæfu“ var faðir þess manns, er fyrstur fékk iðnbréf í Vestmannaeyjum. Það var Snorri skósmiður á Hlíðarenda.
Nú hefst ferðasagan. Farið var úr Kotasandi til Vestmannaeyja í blíðuveðri og ládauðum sjó. Róðurinn til Eyja tók um þrjár klukkustundir. Stoppað var í Vestmannaeyjum sólarhring, sinnt erindum með verzlun, vinir og kunningjar hittir, spurt um fréttir og sagðar fréttir. Á skipið var lagt sem forsvaranlegt þótti, hlaðið eins og títt var í slíkum ferðum. Mörg heimili áttu hér hlut að máli.
Um hádegi næsta dag var lagt af stað. Vindur var þá orðinn ANA og sjór að kvikna. Róið var út víkina og innfyrir Klett. Er Faxi var opinn voru sett upp segl: stórsegl, fokka og klífir. Siglt var innúr. Það hélzt í hendur, að vindur og sjór fór vaxandi eftir því sem innar dró, en áfram var haldið. Er komið var undir sand SV af Kirkjulandi, reyndist sjór skarpófær, hornriði. Nú voru góð ráð dýr. Tiltökulaust var að berja til Eyja í þeim vindi og sjó, er var kominn. Einar formaður, er nú var 49 ára og upp á sitt bezta, mælti ekki orð, en sigldi áfram út úr, vestur.
Síðar kom í ljós að Einar ætlaði sér að sigla alla leið til Þorlákshafnar. Jón í Hvítanesi hafði róið þar og var staðháttum kunnugur.
Er komið var vestur undir Kross, sjást þrír menn koma ríðandi í sandinn, fram undan Hallgeirsey. Reyndust það vera Jón Guðjónsson, Guðlaugur Nikulásson og Sigfús Guðlaugsson, allir í Hallgeirsey. Menn þessir voru kunnir dugnaðar sjómenn og allir formenn. Er komið var móts við þá, stigu þeir af baki og gengu niður að sjó. Stoppuðu þar ekkert, því sjór var kolófær.
Stigu þeir að nýju á hesta sína og riðu vestur fjörur, alla leið í Kotasand. Þar stigu þeir af baki og hófust ekkert að. Veifuðu hvorki að eða frá. Einari formanni jókst hugur við að vita í sandi af þremur duglegum og vönum sjómönnum. En úrræði virtust engin, því jafnjaðra brim virtist með öllum sandi frá okkur úr bátnum séð. Eins var það úr landi. Hvergi hlið eða lög. Heimabæir voru á næstu grösum, en vonleysi áhafnar „Gæfu“ tók nú að segja til sín með, að heim yrði náð að kvöldi. Allt í einu hljómar hvell rödd formannsins til Jóns Tómassonar. „Berðu skautið yfir og hafðu það laust.“ Engin ár var úti. Hiklaust venti formaður bátnum og sigldi beint upp í sand. Lendingin tókst svo vel að ekki kom dropi í bátinn og seglin ekki felld fyrr en uppi í sandi.
Spurnir bárust víða af ferð þessari og lendingu, og þótti mikið til koma. Elztu formenn vissu ekki til hliðstæðrar lendingar. Margir dáðu heppni, kjark og áræðni Einars formanns. Þótti lendingin meistaraverk í austanstormi og brimi, og það tiltökumál að fella seglin ekki fyrr en í fjöru.
Einar var lengi formaður eftir þetta og sama lánið fylgdi honum, þótt ekki tæki hann aðra lendingu, hliðstæða þessari er hér hefur verið skrifað um.
29. janúar 1941 var Einar 87 ára gamall, þá andaðist hann. Nokkrum dögum áður missti hann ráð og rænu og var því verið yfir honum nótt og dag. Eitt sinn virtist brá af honum og mælti hann þá skýrt: „Heyrið þið, piltar, verið tilbúnir, bráðum kemur lagið.“ Skömmu síðar andaðist hann saddur lífdaga. En sannfæring mín er sú, að gott lag hafi hann fengið inn á land eilífðarinnar, því hann trúði á þann sem er vegurinn sannleikurinn og lífið, Drottin Jesúm Krist.

Einar J. Gíslason skráði.