Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1956/ Sóðaskapurinn í höfninni

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit


BALDUR JOHNSEN HÉRAÐSLÆKNIR


Sóðaskapurinn við höfnina


I


Vestmannaeyjahöfn er nú að verða ein myndarlegasta höfn í landinu, hvað ytri aðbúnað snertir, því hörmulegra er til þess að vita, að hún skuli vera orðin hálfgerður forarpollur.
Vestmannaeyingar eru áreiðanlega mestu matvælaframleiðendur í heimi, en hitt er jafnvíst, að sóðaskapur og matvælaframleiðsla geta ekki lengi átt samleið.
Það kemur þeim í koll að morgni, sem pissar í skóinn sinn að kvöldi.
Hvað er maðurinn að fara? Er ástandið þá svona slæmt í hreinlætismálunum hér við höfnina? spyrja menn.

II


Við skulum athuga þetta betur. Við skulum ganga með höfninni innan úr Friðarhöfn og austur eftir.
Fyrst verður fyrir okkur Vinnslustöðin. Frá því mikla iðjuveri fer allt afrennsli og blóðvatn í höfnina, að vísu kemst mest af því strax í sjó undir bryggjunni og er það nokkur bót í máli.
Nokkuð af blóðvatninu fer þá í fjöruna fyrir innan slippinn og úldnar þar og rotnar, einkum eftir að hlýna tekur í veðri á vorin, og leggur síðan fýluna úr fjörunni og litar brennisteinsvetnið, sem þarna myndast, allt sem málað er með zinc- eða blýhvítu svart eða grátt.
Sama máli gegnir um afrennslið frá beinaþró fiskimjölsverksmiðju Á. M., en sumt af blóðvatninu þaðan rennur beint ofan í slippinn þar sem menn eru að vinna við bátaviðgerðir o.fl.
Í eystri slippin og fjöruna þar rennur svo blóðvatnið og annað frárennsli hinna nýbyggðu fiskverkunarhúsa H.B. Þarna rotnar blóðvatnið einnig eins og vestan við slippinn með sömu afleiðingum, og að lokum berst allt í höfnina.
Þegar kemur austur í fjöruna fyrir neðan Fiskiðjuna verður sama uppi á teningnum, fjaran er full af óþverra, þar er auk þess slorið í hrúgum og þar rennur skólpið úr bæjarkerfinu í fjöruna. Annars hafa fiskiðjumenn undanfarin ár sýnt virðingarverða viðleitni til að hreinsa vel í kringum verksmiðju sína.
Í kvínni austan við bæjarbryggjuna gömlu verður alveg sama sjón fyrir okkur. Skólpleiðslan, sem Hafnarnefnd lofaði að taka niður og austur úr nýju Naustabryggjunni komst aldrei lengra en þetta. Og svo var bætt í krikann afrennsli frá Hraðfrystistöð E.S.. Hins vegar má segja þeim hraðfrystistöðvarmönnum til lofs, að nú í vor hefur mikil viðleitni verið höfð í frammi til að hreinsa og prýða í kringum verksmiðjuna.

ctr


Reiptog kvenna.



III


Enn er ótalin reykjar- og gufusvæla, sem ýmist leggur inn yfir bæinn eða niður yfir höfnina frá fiskimjölsverksmiðjunum. Þegar nýja fiskimjölsverksmiðjan var byggð var sú bygging af hálfu heilbrigðisnefndar því aðeins leyfð, að upp yrðu sett reykhreinsunartæki, og var því lofað, en enn hefur það loforð ekki verið efnt, en lögreglustjóri hefur ekki treyst sér til að loka verksmiðjunni, eins og þó var rétt og skylt vegna vanefnda á loforðum.
Þegar gamla fiskimjölsverksmiðjan var reist á sínum tíma var henni valinn staður langt fyrir vestan byggðina og aðalathafnasvæði hafnarinnar, og þó voru farartækin þá aðallega handvagnar og hestvagnar. Það væri ekkert meira þrekvirki með bifreiðatækninni í dag að aka beinunum út í Sæfjall, heldur en þá var að aka inn í „Gúanó“. Auk þessa var reistur geysihár reykháfur við verksmiðjuna, til þess að forða því, að reyk legði með jörð. Og var þannig alveg fyrirbyggt að reyk og svælu legði í íbúðarhverfin, enda var þá Heiðarvegurinn ekki til og engin byggð þar fyrir innan. Þeir menn sem byggðu upp gömlu verksmiðjuna þekktu heilbrigðis- og hreinlætismenningu, sem ekki lét sig dreyma um að ausa fýlu og ódaun yfir almenning, ekki einu sinni brezkt verksmiðjufólk, sem þó var ekki alltaf mikils metið af verksmiðjueigendum. Nú er öldin önnur. Þessi verksmiðja er nú orðin plága fyrir fólk, sem býr í vesturbænum, því að þegar veðrið er bezt á vorin og sumrin í hægri norðanátt með sólskini er ekki komandi út fyrir dyr, né hægt að opna glugga fyrir „Gúanó“-svælu. Fólkið sem vinnur í H-30 hefur líka sína sögu að segja.
Hér má mikið lagfæra ef vilji er fyrir hendi. Lögreglustjórinn hefur enn ekki beitt valdi sínu og heilbrigðisnefndar í baráttunni við þennan ófögnuð, en að því kann að koma að það verði gert.

IV


Af því sem hér hefur verið sagt um ástandið við höfnina má mönnum vera ljóst orðið, að fyrirsögn greinarinnar á fullan rétt á sér. En menn kunna að spyrja, hvers vegna ástandið sé svo sérstaklega slæmt núna. Jú, því er fljótsvarað: Í fyrsta lagi hefur fiskimagnið, sem um höfnina fer, margfaldazt á síðari árum og þar með allur úrgangur og skólp einnig aukizt vegna fólksfjölgunar. Í öðru lagi hefur vatnsmagn hafnarinnar raunverulega minnkað með byggingu stórra hafnarbakka, og bryggjurnar draga úr hreinsunarmöguleikum sjávarfallastrauma og vinda.
Hér ber því allt að sama brunni. Höfnin mengast meira og meira af úrgangsefnum og sóttkveikjum, og er svo komið nú, að hún hreinsar sig ekki, og er full ástæða til að ætla, að sjóveitubrunnurinn kunni að minnsta kosti við og við að mengast sóttkveikjum af þessum orsökum. Hvar stöndum við þá ef þvottavatnið, sem á að hreinsa með er sjálft mengað sóttkveikjum? Þá er hringrásin fullkomnuð. Þá er uppskorið eins og sáð var til.

Ásta Kristinsdóttir, metsölukona Sjómannadagsblaðsins 1954 og 1955.
V


Hér er mikið alvörumál á ferðinni fyrir matvælaframleiðendur. Sóttkveikjur, sem komast í fiskinn, lifa á honum og í, þótt hann sé hraðfrystur. Það er áreiðanlega hagkvæmast fyrir framleiðandann að ástunda sem mest hreinlæti, en það getur enginn stundað hreinlæti í sóðalegu umhverfi; þetta vita fiskkaupendur í menningarlöndum, og einn góðan veðurdag senda þeir mann út af örkinni til þess að skoða allar aðstæður betur en áður, af því að grunur hafði komið upp um sýkingarhættu.
Fiskurinn er orðin dýr vara þegar hann er kominn á borð neytandans, og því eru gerðar kröfur til vöruvöndunar.
Fiskurinn er líka viðurkenndur sem holl og góð fæða, og að því rekur, að til vöruvöndunar verða gerðar sömu kröfur og til kjöt- og mjólkurafurða.
Og þá standa þeir illa að vígi, sem hafa vanið sig á sóðaskap.
Heilbrigðisnefnd hefur sagt sóðaskapnum stríð á hendur, en baráttan er erfið, þar sem meðal annars er við gamlar venjur að glíma, þar sem það þótti sjálfsagt að skítur og for fylgdi fiskverkun. Það mátti enginn vera að því að hugsa um hreinlæti í önnum vertíðarinnar. Að því mun þó brátt reka, að hreinlæti verður að viðhafa fyrst og síðast, ef varan á að seljast.

VI


Verkamaðurinn, sjómaðurinn, útgerðarmaðurinn og verksmiðjueigandinn verða að gera hreint fyrir sínum dyrum, hver á sínum stað, og bærinn að gera skyldu sína. Þá fáum við hreinlæti, heilbrigði og fegurð, og það jafnvel í fiskibæ. Með því tryggjum við einnig bezt hagsmunina, jafnvel þeirra, sem aðeins hugsa um „business“.