Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1956/ Ný viðhorf: Fiskifræðingur í Vestmannaeyjum

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit


BALDUR JOHNSEN HÉRAÐSLÆKNIR:


NÝ VIÐHORF


Fiskifræðingur í Vestmannaeyjum


Flestar menningarþjóðir nota nú vísindin meira og meira í þjónustu sína og aukin tækni hjálpar mannshöndinni í æ ríkari mæli. Hvergi hafa þessi nýju viðhorf haft djúptækari áhrif heldur en á sviði framleiðslunnar, sérstaklega í iðnaði og landbúnaði. Við sjávarsíðuna hafa vísindin og hin nýja tækni einnig haldið innreið sína, hin síðari ár.
Flugvélar hafa um árabil verið notaðar við síldarleit og Norðmenn halda úti fiskirannsóknarskipi, sem leitar uppi síldartorfurnar, þegar þær eru á leið upp að landinu og leiðbeinir síðan skipunum á miðin, nákvæmlega, svo að segja beint í torfuna. Augljóst er að þetta hefur gjörbreytt afkomu síldarútvegsins í Noregi, og hefur þó síldin alltaf verið álitin kenjóttur fiskur, og óútreiknanlegur. Það er því ekki að undra þótt menn spyrji, hvort ekki væri hægt að koma neinum slíkum aðgerðum við á vertíð í Vestmannaeyjum, jafnvel þótt þar sé við þorskinn að eiga, sem álitinn hefur verið mun stöðugri í rásinni en síldin, en mun þó, á þeirri vertíð, sem nú var að enda, hafa komið mönnum á óvart að ýmsu leyti með hegðun sinni, svo að veiði varð rýrari en oftast áður í apríl.
Fiskifræðinganna bíður áreiðanlega mikið starf í framtíðinni. Ekki virðist það nokkrum vafa undirorpið, að staðsetning fiskifræðings í Vestmannaeyjum, myndi mikið auðvelda rannsóknarstarfið við suðurströnd Íslands, allt frá Reykjanesi til Ingólfshöfða eða Hornafjarðar. Slíkur fiskifræðingur myndi styðjast við rannsóknarskip og raunar allan fiskiflotann, sem siglir og sækir á mið austur og vestur frá Eyjum. Þá fengist lifandi samband við sjómennina, og yrði það áreiðanlega mikill styrkur fyrir rannsóknirnar og myndi flýta fyrir árangri og ég er viss um, að sjómenn myndu ekki telja eftir sér dálitla aukafyrirhöfn í sambandi við söfnun sýnishorna, ef þeir hefðu í landi daglegt samband við fiskifræðing, sem leiðbeindi þeim og hvetti til þátttöku í vísindastarfi. Og raunar má segja, að aflinn í hverjum róðri, geti með nokkrum hætti verið rannsóknarefni, þegar svo ber undir.
Ekki virðist fjarri lagi, að hægt væri smám saman að hyggja á slíku rannsóknarstarfi nokkuð nákvæmar leiðbeiningar, um, hvenær rétt væri að hefja veiðar á hverri vertíð, á hvaða veiðisvæði að sækja og með hvaða veiðitæki.
Þú væri máske hægt að spara eitthvað aukinn kostnað og fyrirhöfn, sem útgerðin verður fyrir, þegar hver einstaklingur verður að prófa sig áfram með veiðitæki og veiðisvæði.
Þá væri máske hægt að fá svör við ýmsum spurningum, t.d. hvort um ofveiði kunni að vera að ræða á veiðisvæðum bátaflotans, eða hvort breyta þurfi um veiðiaðferðir. Máske er líka hægt að veiða síld, eða annan smáfisk, engu síður en þorskinn, það myndu auknar rannsóknir leiða í ljós.
Loks yrðu þessar rannsóknir svo liður í heildarrannsóknum á fiskigöngum við Ísland og norðanvert Atlantshaf, sem síðar gerðu mögulegar víðtækar áætlanir og aðgerðir í sambandi við aukna skipulagningu veiðanna, svæðafriðun og væntanlega útfærslu landhelginnar.
Hvað sem þessum framtíðaráætlunum líður þá vita Vestmannaeyingar bezt sjálfir hvar skórinn kreppir að á líðandi stund. Þeir vita, að það er mikið í húfi í stærstu veiðistöð landsins, með 100 báta, og dýrari útgerðartæki en nokkru sinni fyrr, og svo eru þúsundir sjómanna og verkamanna, sem beinlínis eiga afkomu sína undir fiskveiðum hér.
Þessum málum þurfa sjómenn og útgerðarmenn að gefa gaum og beita áhrifum sínum til að hrinda í framkvæmd.