Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1955/ Landhelgismálin

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit


Páll Þorbjörnsson:


Landhelgismálin.


Þegar reglugerðin um verndun fiskimiða umhverfis Ísland var gefin út hinn 19. marz 1952 var því fagnað af miklum þorra þjóðarinnar og því spáð að í kjölfar hennar mundi fara aukin fiskigengd á grunnmiðum. Sú hefir og raunin orðið svo ekki verður í efa dregið. Hitt er svo annað mál, að þegar í upphafi voru menn misjafnlega ánægðir með það hvernig grunnlínan var dregin og engu líkara en farið væri eftir misjöfnum reglum eftir því hvar við landið línan var dregin.
1. grein reglugerðarinnar byrjar þannig:
— Allar botnvörpu- og dragnótaveiðar skulu bannaðar umhverfis ÍsIand innan línu, sem dregin er 4 sjómílur frá yztu annesjum, eyjum eða skerjum og þvert fyrir mynni flóa og fjarða. Markalínan skal dregin þannig, að fyrst skulu dregnar beinar grunnlínur milli eftirfarandi staða og síðan línan sjálf samhliða þeim, en 4 sjómílum utar. —
Síðan kemur upptalning á grunnlínustöðunum. — Grunnlínustaður nr. 39 er Eldeyjardrangur og nr. 40 er Gáluvíkurtangi. — Þessir staðir ráða því hversu friðunarlínan er dregin fyrir Faxaflóa. Höldum við hinsvegar frá Eldeyjartanga austur á bóginn, er næsti staður Hópsnes, þaðan er svo haldið í Selvogsbanka og frá Selvogi í Einidrang og loks úr Einidrang í Geirfuglasker. Nú er það svo að lengri er leið úr Eldeyjardrang í Gáluvíkurtanga heldur en úr Eldeyjardrang í Geirfuglasker, en þrátt fyrir það er krækt með línuna austur með landi milli þriggja aukastaða og þannig verður verulegur hluti af auðugustu fiskimiðunum fyrir sunnan land, utan friðunarlínunnar.
Uppi hafa verið all háværar raddir bæði á Alþingi og utan þess, um að færa fiskveiðitakmörkin úti fyrir vestur-, norður- og austurlandi. Hinsvegar hefir verið furðu hljótt um lagfæringu og útfærslu á línunni hér sunnanlands.
Áður en hin nýju fiskveiðitakmörk gengu í gildi, höfðu Vestmannaeyingar haslað sér völl með þorskanet sín utan landhelgi og var það svæði varið af varðskipum íslenzka ríkisins. Nú er það hinsvegar svo eftir að fiskveiðitakmörkin komu til sögunnar, að varðskipin vilja ekki eða telja sér ekki fært að verja þorskanetin utan fiskveiðitakmarkanna. Reynslan frá s.l. vertíð sýnir okkur, að við þetta verður ekki unað. Netavertíðin í vetur varð endaslepp og má þar óefað, að verulegu leyti kenna því um, að ekki var hægt að fylgja fiskinum eftir út fyrir friðunarlínuna. Hefði hinsvegar friðunarlínan verið dregin miðað við línu milli grunnlínustaðanna: Eldeyjardrangur - Geirluglasker, væri allt öðru að gegna og það er þetta, sem verður að verða skilyrðislaus krafa Vestmannaeyinga. Ekkert, sem enn hefir komið fram, mælir gegn því, að línan sé dregin milli framangreindra staða og fiskveiðitakmörkin á þann hátt stórlega færð út hér sunnanlands. Sjómannastéttin í heild sinni er afl, sem taka verður tillit til og ef saman er staðað vinnst sigur.
Það er ósk mín til sjómanna í Vestmannaeyjum á sjómannadaginn, að þeir megi bera gæfu til að standa einhuga um þetta hagsmunamál og færa það fram til sigurs.