Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1955/ Úr sögu línunnar

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Þorsteinn Þ. Víglundsson


Úr sögu línunnar.


LENGI minnist ég þeirrar setningar. Hún hefur iðulega orðið mér umhugsunarefni. — Setninguna sagði mér einn af kunnustu og merkustu skipstjórum í bænum, fæddur Vestmannaeyingur. Hún er á þessa leið:
„Þegar við Eyjabúar tókum til að nota línuna, hvarf loksins sulturinn úr búum okkar.“
Það mun hafa verið hinn nýlátni sæmdarmaður og gamli sjógarpur, — Magnús Guðmundsson frá Vesturhúsum, sem fyrstur Eyjamanna lagði hér línu í sjó fyrir aldamót. Það mun hafa verið árið 1897.
Grunur leikur á, að Eyjasjómenn hafi þegar á 16. öld vitað deili á þessu veiðarfæri. Þá stunduðu Englendingar og Hollendingar línuveiðar hér við land. — Línan virðist síðan hafa gleymzt hér gjörsamlega, enda stöðugur skortur á snæri allt einokunartímabilið.
Hvar lærði svo Magnús Guðmundsson að nota línu?
Þá list lærði hann á Austfjörðum, en þar stundaði hann sjó á sínum yngri manndómsárum og var þar farsæll formaður.

* *


Okkar nánasta frændþjóð Norðmenn, hefur um langan aldur verið forustuþjóð um margskonar veiðitækni við þorskveiðar, síldveiðar og hvalveiðar.
Norðmenn hafa jafnan sótt víða til fanga, m.a. til Austfjarða á síðustu öld, og bera sumir staðir þar enn menjar þess um síldveiðar Norðmanna.
Austfirðingar lærðu línuveiðar af Norðmönnum.
En hvar lærðu svo Norðmenn að nota línu til fiskveiða? Fyrir því eru til nokkrar sundurlausar en þó óyggjandi heimildir að talið er.
Norðmenn eiga bréf í fórum sínum skrifað árið 1584. Það er merkileg heimild, svo langt sem það nær. Bréfritarinn er sjómaður búsettur norður á Hálogalandi.
Í bréfinu bendir hann á það, hversu fiskveiðimenn á Hálogalandi og yfirleitt um allan Norður-Noreg séu langt á eftir löndum sínum sunnar í landinu um alla tækni til þorskveiða.
Bréfhöfundurinn fullyrðir, að fiskiveiðimenn á Norður- og Suðurmæri og í Fjörðum hafa þá þegar tekið í notkun veiðitækni Englendinga og Hollendinga við þorskveiðar. Þar noti þeir langt snæri, sem þeir leggi í sjóinn. Á því séu 3000-3500 önglar, sem þeir beiti. Fiskurinn bíti síðan á öngulinn og festist þar. Höfundur bréfsins tekur það fram, að þessi veiðiaðferð sé ensk og hollenzk. Þetta kemur heim við heimildir okkar um fiskveiðar Englendinga og Hollendinga hér við land á 16.-17. öld.
Höfundur bréfsins, sem ég gat um, kvartar yfir því, að fiskibátar Hálogalendinga séu of litlir og þeim þurfi að andæfa undir færum, ef kaldi er eða straumur. Andófið veldur því, segir hann, að andófsmennirnir eða — maðurinn dragi ekkert, geti ekki notað handfærið (juksa).
Um það bil 35 árum síðar (1620) en bréf þetta var skrifað, er línan orðin algengt veiðarfæri við allar strendur Noregs.
Í heimildum frá þessu tímaskeiði metast Svíar við Englendinga um notkun línunnar á miðunum við Noregsstrendur. Svíar segja frá því og kvarta yfir því, að Englendingar fái að nota línu með fleiri þúsund önglum á við strendur Finnmerkur, og aflinn sé svo gífurlegur, að til þurrðar horfi um fiskinn í sjónum. Sú þurrð hljóti síðan að leiða til sultar í búum Finnlendinga, þar sem þeir hafi engin efni á því sjálfir að afla sér þessara veiðarfæra, línunnar.
Hræðslan við fiskþurrð af völdum línuveiðanna tók nú fyrir alvöru að bæra á sér og leiddi til þrálátra kærumála.

ctr
Þessir ungu menn urðu hlutskarpastir í kappróðri við jafnaldra sína á Sjómannadaginn 1954, en fyrirliði þeirra var Björn Bergmundsson.


Árið 1625 er sent kærubréf frá Suðurmæri til stjórnarvaldanna. Þar er kært yfir notkun línunnar. Í kærubréfinu er fullyrt, að línan hræði fiskinn frá ströndum Noregs. Jafnframt er staðhæft, að ekkert bíði fólksins annað en sárasta fátækt og volæði, verði línuveiðarnar ekki afnumdar með lögum. Þá er og fullyrt í bréfinu, að aukin handalögmál með sjómönnum, þegar í land er komið, bölv og ragn og aðrar Guðsfyrirdæmingar, sé allt afleiðingar línuveiðanna.
Alla 17. öldina skjóta þessi klögumál upp kollinum suður frá Ögðum norður til Hálogalands og Finnmerkur.
Fátæki fiskimaðurinn, sem átti aðeins litlu bátsskelina sína, skinnbrókina og handfærið, leit öfundaraugum til hinna, sem höfðu tök á að notfæra sér hina nýju veiðitækni, línuna, og öfluðu, mjög mikið.


HANN MÓTMÆLTI OG KÆRÐI.

Árið 1627 bannar lénsmaðurinn í Norður-Noregi með öllu notkun línu við fiskveiðar. Árið 1643 var línan dæmd ólöglegt veiðarfæri. Árið eftir (1644), sendi sjálfur konungurinn (danski konungurinn) bréf til Norðmanna í Norður-Noregi. Þar var þeim stranglega bönnuð öll not línu við fiskveiðar.
Um tíma létu fiskimenn undan boði þessu og banni. Þorðu ekki annað. En vitundin um aukna hagsæld með aukinni veiðitækni var áleitin.
Sjálf konungsboðin voru því brotin, þegar tök þóttu á. Þó má segja, að konungsbann þetta væri í gildi í Norður-Noregi næstu 100 árin eða rúmlega það. Árið 1768 varð valdsmaðurinn í Norður-Noregi að láta undan síga í „línumálinu“ og ganga til samninga við fiskimenn, sem stunduðu veiðar við Lófótinn. Þar skyldu þeir hafa leyfi til að nota línu eftir Gregoríumessu, 12. marz, en þó aðeins á vesturmiðum Lófótins. Á austurmiðunum var línan bönnuð sem fyrr.
Um 1770 komu mikil aflaleysisár á handfæri við Lófótinn þá gripu fiskimenn þar til línunnar og veiddu vel. Hinir löghlýðnustu vildu þó heldur svelta sig og sína en brjóta bannboðin um notkun línunnar. Svo kærðu þeir hina, sem línuna notuðu. Ekki færri en 115 formenn í Lófótinum voru dæmdir í sektir fyrir boða- og lagabrot um notkun línunnar.
Hinum seku var skipt í þrjá flokka. Tuttugu formenn lentu í 1. flokki „afbrotamanna.“ Þeir voru dæmdir til að missa bát, veiðarfæri og afla. Í 2. flokki urðu 50 formenn. Af hverjum þeirra var dæmdur hálfur bátur, hálfur afli og helmingur veiðarfæra.
Í 3. flokki sökudólganna voru 75 formenn. Þeir höfðu ekki lagt línu sína fyrr en 12. marz, sem sé á löglegum tíma, en ekki á umsömdum miðum. Fyrir það urðu þeir að greiða sektir sem námu einum fjórða þeirra sekta, sem „afbrotamennirnir“ í 1. flokki urðu að greiða eða af þeim skyldi tekið. Mestu hegninguna fékk þó lensmaðurinn í Vogum í Lófótinum. Hann hafði sjálfur róið á bát sínum með línu. Hann sat í fangelsi í tvö ár eða meðan þetta mál hans var fyrir dómstólunum. Þetta línumál, eins og það var kallað, var annars fyrir dómstólunum í 10 ár og vakti feikna úlfúð og viðsjár í Norður-Noregi. Talið er, að hæstiréttur hafi veigrað sér við að fella dóm í máli þessu vegna afleiðinganna. Það er vitað, að á þessum árum gerðu tveir Norðmenn sér ferð á hendur á konungsfund til að biðja um leyfi til að mega nota línu. Að lokum lét konungur undan í málinu. Hann gaf loks út bréf 4. febr. 1784, þar sem sakborningunum öllum voru gefnar upp allar sakir.
Um langt skeið brann það við í Noregi, að línunni var um kennt, brygðust þorskveiðarnar eitthvert árið. Sú saga endurtók sig svo síðar, þegar vélbátarnir komu til sögunnar og ýmis stórvirk veiðitæki, svo sem botnvarpan og herpinótin. Nú skulu nylonnetin leiða til aflaþurrðar.


ctr


Frá kappróðri á Sjómannadaginn 1954.


ctr


Frá hátíðarhöldum 1954. - Ársæll Sveinss., forseti bæjarstjórnar flytur ræðu.