Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1954/ Fiskikóngur Eyjanna 1954

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit


Fiskikóngur Eyjanna 1954.


Það mun fáum hafa komið á óvart, að okkar landskunni formaður og aflakló, Benoný Friðriksson, skyldi verða aflahæstur hér í vetur vegna þess, að snemma vertíðar tók hann forustuna og hélt henni óslitið til vertíðarloka, þrátt fyrir dugmikla sókn og keppni annarra fiskisælla og afburða formanna, sem bæði hafa setið í fiskikonungsstólnum undanfarin ár og ritað nöfn sín óafmáanlega í fiskiveiðisögu Vestmannaeyja. Hefur undanfarið oft verið harðvítug barátta um tignarsessinn og titilinn og nokkuð tvísýn allt til síðustu daga vertíðarinnar, sbr. 1953 — þar eð þá mátti vart á milli sjá, hver sigra mundi.

Benóný Friðriksson, skiptjóri

Allir hafa fullan hug á að verða hæstir og bera sæmdarheitið fiskikóngur Eyjanna. Verður keppnin því allhörð er að leikslokum líður, ef um nokkuð jafnt aflamagn er að ræða hjá „þeim stóru“. — Í ár sigraði sem sagt Benóný Frðriksson á aðkomubátnum Gullborgu. Fiskaði 893 smálestir og hlaut þann veglega sess að verða fiskikóngur Vestmannaeyja 1954.
Benóný Friðriksson er fæddur 7. jan. 1904, sonur hinna góðkunnu Grafarhjóna, Oddnýjar Benediktsdóttur frá Syðstu-Grund og Friðriks formanns og dýralæknis Benonýssonar frá Núpi undir Eyjafjöllum. Fluttu þau hjónin til Eyja árið 1902 og reistu bú að Nöjsomhed þá um haustið. Friðrik var formaður um mörg ár bæði við Sandinn og í Eyjum, harðduglegur maður og fiskisæll, fyrst á opnu skipunum og síðar á vélbátunum. Var hann t.d. með v.b. Portland VE 97 og v.b. Nansen VE 102 og gat sér hinn bezta orðstír sem vélbátaformaður. Binna frá Gröf er því í blóð borin góð formennska og aflasæld, enda vandist hann sjómannsstörfum allt frá barnæsku. Hóf hann þá þegar róðra á smábátum með Þorgeir Jóelssyni og Magnúsi Ísleifssyni í Nýja-húsi. Voru þeir Þorgeir þá „skipstjórar“ til skiptis og þóttu heldur djarfir og ófyrirleitnir í öllum leik við dætur Ránar.
Þegar vélbátarnir komu til sögunnar þótti a.m.k. unglingum sem þar væri um konunglegar fleytur að ræða og draumsýn þeirra að komast þar um borð. Sá draumur rættist hjá Benoný, þegar hann gerðist vélstjóri á v.b. Nansen, sem faðir hans átti, og formaður í forföllum hins reglulega formanns bátsins Jóhanns á Brekku Jónssonar. Fórust Benoný formannsstörfin vel úr hendi. Var honum síðar boðin formennska á v.b. Gullu, og var hann með þann bát 3 vertíðir. Þá var hann með enskan bát, Newcastle, sem Árni Böðvarsson hafði, síðan með Gulltopp, Stjörnuna, Andvara o.fl. og svo nú síðast með Gullborgina. Telur Benoný það tvímælalaust bezta bátinn, sem hann hefur verið formaður með. Er sá bátur eign h.f. Keflvíkings í Keflavík, rúmlega 80 smálestir að stærð.
Á þessum bát tókst svo Benoný að hnekkja glæsilegum aflametum fyrri ára með því að fiska í vetur 893 smálestir, miðað við slægðan fisk. Gefur sá afli 40 þúsund krónur í hásetahlut. — „Konunglegar gerðir og kaup“. — Benoný hefur ávallt haft duglegri skipshöfn að stjórna og er grunur minn sá, að betra sé að láta hendur standa fram úr ermum og láta ekki allt fyrir brjósti brenna svo vel líki. Hverskonar seinagangur og stirðleiki mun vissulega ekki sannýmast skapi skipstjórans.
Margt mætti um fiskikónginn segja. Hann á mikla starfsævi að baki, þó hann sé aðeins rúmlega fimmtugur að aldri, en hér skal staðar numið. Ég vil að endingu flytja honum og fjölskyldu hans bezu hamingjuóskir sjómannastéttarinnar, bæði með fimmtugsafmælið og hinn virðulega sess, sem hann nú skipar meðal hennar — Fiskikóngur Vestmannaeyja 1954 —. Finnst mér manninum bezt lýst með eftirfarandi línum, sagðar um sjógarp og fiskijöfur:

„Hranna mál gaf hreystisál,
herti lund á reynslustund,
lýsa bál þín sjómannssál,
sýður blóð af iðjuglóð.
Þitt er hafið ljóma vafið
ógnum fyllt og boða-beltað
bylja tryllt með fiskahyljum.
— Heilsa jöfur veiða viljum. —
Vestmannaeyjum, 23. maí 1954.
Á.Á.