Sjómannadgsblað Vestmannaeyja 1978/ Safnahúsið tekið í notkun

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Safnahúsið tekið í notkun



Hinn 15. apríl s.l. flutti Byggðasafn Vestmannaeyja formlega í hið nýja safnahús, sem reist hefur verið vestan og sunnan við Ráðhúsið. Jafnframt var listasafninu fengin þar staður. Má þar með telja, að langþráðum áfanga sé náð, áfanga, sem hófst með samþykkt Bæjarstjórnar Vestmannaeyja á hátíðarfundi hennar í tilefni af 50 ára afmæli Vestmannaeyjakaupstaðar.
Bókasafnið hefur áður fengið samastað í þessu húsi. Bókasafnið á sér langa og merkilega sögu, er ein elzta stofnun hér í bæ, sem enn er ofan jarðar, orðið yfir 100 ára gamalt. Það var því mál til komið að skjóta yfir það skjólshúsi, svo mikið sem það hefur orðið að hrekjast á liðnum áratugum.
Við vígslu bókasafnsins flutti Haraldur Guðnason, sem verið hefur bókavörður um langt skeið, ágrip af sögu þess. Var ræða hans birt í blöðum á sínum tíma.


Fyrir nokkrum árum ritaði hann ítarlega sögu safnsins, og kom sú ritsmíð út í Bliki, en var einnig sérprentuð.
Haraldur Guðnason mun senn láta af störfum sem bókavörður. Við tekur Helgi Bernódusson, sem verið hefur við nám í bókasafnsfræðum undanfarin ár.
Byggðasafnið getur rakið sinn feril að minnsta kosti 40 ár aftur í tímann, er talið er, að eiginleg munasöfnun hafi hafizt.



Þorsteinn Þ. Víglundsson, fyrrv. skólastjóri, hefur annazt safnið og séð um varðveizlu þess, ýmist í eigin húsum eða annarra, lengi vel á 3. hæð Sparisjóðshússins. Þorsteinn hefur unnið verulega mikið að söfnun muna, og á ótaldar þakkir skilið fyrir elju sína í því efni. En fleiri hafa lagt hönd að því verki, og má vissulega ekki gleyma þeim. Má þar fyrst og fremst tilnefna Eyjólf á Búastöðum Gíslason, sem starfaði lengi með Þorsteini að söfnun muna og greiningu þeirra eða skráningu
Jafnframt vann hann mikið starf viðgreiningu myndasafns þess, er Byggðasafninu áskornaðist eftir lát Kjartans heitins Guðmundssonar, ljósmyndara. Fleiri mætti að sjálfsögðu telja, sem lagt hafa hönd að góðu verki, og er ekki kastað rýrð á hlut Þorsteins Þ. Víglundssonar, þótt þessa sé getið hér.
Ekki kemst Byggðasafnið fyrir allt á einni hæð þessa húss. Það fær einnig til umráða kjallara hússins, bar sem geymdir verða hinir stærri munir, svo sem róðrabáturinn og „Gouldner-“ vélin, sem þar er ætlaður staður, og fleiri hluti fyrirferðamikla mætti nefna.



Safninu hefur verið komið fyrir á smekklegan hátt í hinum nýju húsakynnum. Á vígsludaginn bárust því ýmsar góðar gjafir, m.a. hjálmur sá, er Páll Zophaníasson, núv. bæjarstjóri, notaði á gostímanum, ennfremur gasgríma, sem hér var í notkun á sama tíma. Þá færði Guðlaugur Gíslason, alþingism., safninu segulbandsupptökur af sendingum Ríkisútvarpsins fyrstu tvo dagana, sem eldgosið stóð. Við þetta tækifæri voru þau hjónin, Ingigerður Jóhannsdóttir og Þorsteinn Þ. Víglundsson, gerð að heiðursborgurum í Vestmannaeyjum í þakklætisskyni fyrir vel unnin störf í þessu bæjarfélagi á þeim 50 árum, sem þau hafa verið búsett hér.
Listasafn bæjarins hefur einnig fengið aðsetur í nýja safnahúsinu. Uppistaðan í því er safn það af Kjarvals málverkum, sem bæjarsjóður á sínum tíma keypti af Sigfúsi heitnum Johnsen, fyrrum bæjarfógeta hér, en hann átti mikið safn slíkra mynda. Er vel, að þessi söfn, sem nú hafa verið nefnd. hafa fengið góðan og varanlegan samastað og þess að vænta, að bæjarbúar og aðrir, sem leggja leið sína þangað, fái betur notið þess, sem bar er varðveitt en áður hefur verið. Safnvörður Byggðasafnsins er Ragnar Óskarsson, sem tekur nú við því starfi.