Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1996/ Minning látinna

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
MINNING LÁTINNA


Arnoddur Gunnlaugsson
F. 25. júní 1917 - D. 19. október 1995
Arnoddur Gunnlaugsson var fæddur á Gjábakka í Vestmannaeyjum 25. júní 1917. Foreldrar hans voru Elísabet Arnoddsdóttir og Gunnlaugur Sigurðsson skipstjóri. Í hópi níu systkina var Arnoddur fjórði elstur. Eldri voru Aðalsteinn, sem er nú látinn, Þórarinn, búsettur hér í bæ, og Sigurbjörg sem býr í Reykjavík. Guðbjörg var yngri, einnig hún er látinn fyrir nokkrum árum. Þá koma Jón, Elías og Guðný sem eru lífs og búsett í Vestmannaeyjum, og loks Ingvar, en hann býr ásamt fólki sínu á Selfossi. Hálfbróður áttu þau systkin er Gunnlaugur hét. En hann er látinn.
Aðeins 17 ára að aldri hóf Arnoddur sjósókn á Hilmi VE hjá Haraldi Hannessyni. En rúmlega tvítugur tekur hann við stjórnvelli á Snorra goða. Þá hafði hann tekið hið svonefnda minna fiskimannapróf og hlotið tilskilin skipstjórnarréttindi. Var hann síðan við formennsku á mörgum bátum um nokkurra ára skeið uns hann fór til Reykjavíkur haustið 1947 og settist í Stýrimannaskólann. Þreytti hann þar hið meira fiskimannapróf og kom með það upp á vasann á miðjum vetri 1948. Tók hann nú við skipstjórn á Stjörnunni VE og stýrði henni tvær vertíðir með góðum skilum. Í upphafi árs 1950 festi hann kaup á 85 tonna báti norðan úr Eyjafirði, sem hann nefndi Suðurey, og hans eigin útgerð. Raunar var útgerðin ekki bara hans því að þau unnu að henni sameiginlega hvort á sínu sviði, hann og Anna Pálína. Hún var hingað komin norðan úr Grenivík, dóttir hjónanna Guðnýjar Sigurlaugar Jóhannesdóttur og Halldórs Jónassonar sjómanns. Arnoddur og Anna höfðu gengið í hjónaband á vordögum árið 1942. Heimili þeirra stóð við Bakkastíg, nærri bernskuheimilinu Gjábakka. Og þar fékk dóttir þeirra, Elísabet, fyrst að líta þennan heim, einmitt frá sama sjónarhorninu og faðir hennar þegar hann var barn. En ólánið getur alla slegið og dag einn fékk Arnoddur að reyna það á sjálfum sér. Eldgosið var gengið yfir, Bakkastígurinn kominn undir hraun og þau Anna flutt í hús sitt við Sólhlíðina. Í byrjun árs 1974 var mannlífið sem óðast að falla í skorður sínar og umrót gosársins að lægja. Þá var það í aprílmánuði að verið var að landa úr Suðureynni. Arnoddur stendur uppi á vörubílspalli við verk sitt en fær á sig högg frá einhverju tækinu og kastast við það ofan af pallinum og niður í bátinn. Brotnaði hann afar illa á fæti og varð að liggja á sjúkrastofnun nánast út allt það ár. Náði hann sér allvel eftir slysið, en þó gat hann ekki sinnt skipstjórnarstörfum með þeim hætti sem hann var sáttur við, seldi hann því bát sinn og gekk til starfa með löndunargenginu sem svo er nefnt og hafði með höndum skráningu á afla og aðra eftirlitsþætti. Við þau störf vann hann í rúman áratug, allt til ársins 1987 er hann hætti fyrir aldurssakir.
Arnoddur var alla tíð mikill náttúruunnandi. Naut hann þess síðustu árin að sigla á trillunni sinni, Blika VE, hér umhverfis eyjarnar, gjarnan í föruneyti Þórarins bróður síns.
Arnoddur Gunnlaugsson var félagi í Skipstjóra- og stýrimannafélaginu Verðandi. Hann var einnig, á sínum yngri árum, virkur félagi í knattspyrnufélaginu Tý þar sem hann iðkaði frjálsar íþróttir og fótbolta. Auk þess var hann í Oddfellow-reglunni Herjólfi.
Addi á Suðurey, tengdafaðir minn og vinur, var búinn slíkum mannkostum að ég tel það forréttindi að hafa átt hann að í þrjátíu og tvö ár og notið samvista við hann. Fyrir það verð ég ávallt forsjóninni þakklátur. Fljótlega komst á sú hefð að ég kom við hjá Adda og Önnu á leið heim úr vinnu og þáði kaffi og meðlæti. Bar þá margt á góma þegar rædd voru ýmis mál og skipst á skoðunum. Er ég hræddur um að menn hafi stundum hvikað frá innstu sannfæringu til að koma lífi í umræðuna.
Ég þakka tengdaföður mínum, Arnoddi Gunnlaugssyni, samfylgdina og það sem hann var mér og mínum.
Blessuð sé minning Adda á Suðurey.
Erlendur Pétursson


Sverrir Guðjón Guðjónsson
F. 3. apríl 1965 - D. 13. sept. 1995
Sverrir Guðjón Guðjónsson var fæddur á Norðfirði 3. apríl 1965. Hann var sonur hjónanna Unu Þórðardóttur og Guðjóns Emils Aanes skipstjóra sem nú er látinn.
Sverrir fluttist til Vestmannaeyja með foreldrum sínum á fyrsta ári. Sverrir var yngstur af sex börnum þeirra hjóna. Hann var engin undantekning frá öðrum eyjapeyjum, fór snemma að fara í róður með pabba sínum og seinna varð sjómennskan hans aðalstarf.
Sverrir lærði netagerð hjá Netaverkstæði Ingólfs Theódórssonar hér í bæ. Eftir að hann lauk námi í netagerð lá leið hans á sjóinn með togurum frá Eyjum.
Sverrir gekk að eiga Magdalenu Ásgeirsdóttur árið 1990. Árið 1991 hóf hann nám í Stýrimannaskólanum í Reykjavík og Iauk þaðan III.-stigi sl. vor.
Sverrir fór strax daginn eftir skólaslit til Namibíu en hann hafði ráðið sig til starfa hjá Seaflower Whitefish sem netagerðarmaður og síðar sem stýrimaður á frystitogara í eigu sama fyrirtækis. Sverri líkaði vistin vel og var búinn að fá eiginkonuna út til sín og gera tveggja ára samning við fyrirtækið. En engin veit sína ævi fyrr en öll er. Að kvöldi þann 13. sept. sl. kom kallið. Sverris var saknað af skipi sínu sem var á veiðum úti fyrir strönd Namibíu. Leit að Sverri bar ekki árangur og var hann talinn af eftir árangurslausa leit.
Þrátt fyrir ungan aldur var Sverrir búinn að ferðast mikið og var þá sjaldnast farið á hefðbundna ferðamannastaði, heldur þangað sem lvar um ferðamenn. Aðaláhugamál hans var að kynnast landi og þjóð.
Þegar Sverrir var við nám í Stýrimannaskólanum í Reykjavík starfaði hann einnig í félagsmiðstöðinni Frostaskjóli við mjög góðan orðstír. Þar var hann tengiliður sjómannsins við borgarbörnin.
Sverrir var mjög sérstakur og góður maður, barngóður og blíður. Ræktarsemi hans við móður sína og fjölskyldu var alveg sérstök.
Minningarathöfn um Sverri fór fram þann 4. október sl.
Þegar ég í gegnum tárin sá allan þann fjölda sem kom til að heiðra minningu kærs mágs varð ég bæði stoltur og glaður. Því þrátt fyrir ungan aldur hafði hann Sverrir gefið svo mörgum svo mikið.
Við sem kynntumst Sverri munum geyma minninguna um hann í hjörtum okkar.
Sveinn Rúnar Valgeirsson


Ögmundur Ólafsson
frá Litla-Landi
F. 6. júní 1894 - D. 29. sept. 1995
Ögmundur Ólafsson, vélstjóri frá Litla-Landi, fæddist í Deildarkoti á Álftanesi 6. júní 1894. Hann lést í Reykjavík 29. september 1995.
Ögmundur hóf sjómennsku ungur að árum, tólf ára gamall var hann við grásleppuveiðar. Fimmtán ára réðst Ögmundur á kútter Sigurfara, árið 1909. Þegar skipið var við veiðar á Selvogsbanka lenti það í ofviðri. Skipstjórann tók fyrir borð og miklar skemmdir urðu á skipinu. Þess má geta að Ögmundur var einn þeirra fjórmenninga er til náðist af fyrrverandi skipverjum á kútter Sigurfara til að vera viðstaddir vígslu hans í byggðasafninu í Görðum á Akranesi 1. júní 1985. Var hann þá frískastur þeirra fjórmenninga og hljóp um allt. Sýndi hann mér koju sína, eftir 76 ára fjarveru.
Árið 1913 flyst Ögmundur til Vestmannaeyja og hóf sjómennsku á Siggu litlu. Vélstjóraréttindi fékk Ögmundur 1917. Hóf hann þá vélstjórn á m/b Hauki. Var hann síðan vélstjóri á fjölda báta. Formaður á m/b Svani, báti er hann átti ásamt þrem öðrum. Var hann formaður í 4 - 5 ár. Eftir að Guðni Grímsson keypti hlut í bátnum varð hann vélstjóri. Þegar Guðni Grímsson varð formaður á m/b Maggy var Ögmundur vélstjóri hjá honum í 15 ár. Með Sigfúsi Guðmundssyni skipstjóra á Ísleifi II. var Ögmundur vélstjóri í sex ár. Um sextugt fór Ögmundur í land og hóf störf í Fiskimjölsverksmiðjunni sem vélstjóri og starfaði þar á annan áratug. Ögmundur fékk viðurkenningu Vélstjórafélagsins fyrir löng og farsæl störf til sjós og lands.
Þegar rætt var um hve gangvissar hinar gömlu vélar voru svaraði hann: „Ég man ekki eftir að það hafi nokkurn tíma fallið úr róður vegna vélbilunar þar sem ég var vélstjóri á minni sjómannsævi.“
Hinn 26. desember 1923 kvæntist Ögmundur Guðrúnu Jónsdóttur (f. 12. maí 1899, d. 16. mars 1992). Þau eignuðust tíu börn og eru átta þeirra á lífi. Frá fyrra hjónabandi átti Ögmundur einn son sem er látinn.
Í gosinu 1973 fluttust Ögmundur og Guðrún til Reykjavíkur. Bjuggu þau fyrst á Sólvallagötu og síðan á Norðurbrún 1. Ögmundur var heilsuhraustur til endadægurs. Góður maður er genginn. Hann lést á 102. aldursári.
Blessuð sé minning hans.
Sigurbjörn G. Guðmundsson


Alexander Örn Jónsson
F. 19. mars 1990 - D. 16. apríl 1994
Alexander Örn var fæddur í Vestmannaeyjum 19. mars 1990, sonur hjónanna Þórdísar Erlingsdóttur og Jóns Valgeirssonar, stýrimanns og skipstjóra.
Mig langar að minnast með nokkrum fátæklegum orðum litla bróðursonar míns. Þessi litli snáði, var alltaf geislandi af gleði þrátt fyrir að hafa gengið í gegnum miklar og erfiðar aðgerðir. Allt virtist vera komið á beinu brautina hjá Alexander litla. Hann tók miklum framförum hjá góðum leiðbeinendum. Langar mig þar að nefna sérstaklega Bjartey Sigurðardóttur talkennara, sem reyndist honum mjög vel, og Eyvind Steinarsson, starfsmann á leikskóla, sem var honum eins og nánasti vinur, Alexander litli hafði mikið dálæti á honum.
Alexander var einstaklega harður af sér og aldrei var honum t.d. kalt. Það skipti hann litlu máli hvort pollarnir á götunni voru klakabrynjaðir eða ekki, þeir fengu engan grið, það var alltaf hægt að sulla í þeim.
Alexander Örn drukknaði við Ofanleitishamar að morgni 16. apríl sl., páskadag. Veðrið þann dag var stillt og bjart, en kalt.
Ekki veit ég hvort litli frændi hefur ætlað að sulla í þeim stóra polli sem blasti við honum í glampandi morgunsólinni, en ég veit að guð geymir hann og stóra bróðir hans, Agnar Már, sem einnig lést ungur, aðeins þriggja ára.
Við sem stöndum eftir munum ætíð geyma minninguna um þessa litlu snáða.
Sveinn Rúnar Valgeirsson


Bogi Þ. Finnbogason
F. 4. júlí 1920 - D. 13. júlí 1995
Föstudagsmorguninn 14. júlí sl. barst mér sú harmafregn að Bogi vinur minn Finnbogason hefði látist á Borgarspítalanum í Reykjavík kvöldið áður. Nokkrum dögum fyrr var Bogi sendur í rannsókn til Reykjavíkur, en ég held að það hafi ekki hvarflað að neinum að hann kæmi ekki fljótlega heim aftur, hress og kátur. En enginn veit sitt skapadægur.
Bogi Þ. Finnbogason fæddist á Eskifirði 4. júlí 1920, og hafði því nýverið haldið upp á 75 ára afmælið sitt er kallið kom. Foreldrar hans voru hjónin María Þorleifsdóttir og Finnbogi Erlendsson. Börn þeirra voru sjö, sex synir og ein dóttir. Tvö dóu ung og einn sonur um tvítugt, en aðeins tveir bræðranna lifa Boga, þeir Gústaf og Guðmundur.
Frændgarðurinn var mjög stór, bæði á Eskifirði og víðar á Austurlandi. Bogi ólst upp í foreldrahúsum, og eins og þá var títt um unga og tápmikla drengi í sjávarplássum beindist hugurinn fljótlega að bryggjunum og sjónum og var farið að taka til hendi strax og kraftar leyfðu. Hann hóf ungur sjómennsku og hans fyrsta alvöruskipsrúm var á Svaninum, litlum bát, sem faðir hans átti. Bogi var þá 13 ára, en 18 ára er hann orðinn formaður á þeim bát.
Kynni okkar Boga hófust þegar við vorum við nám í Stýrimannaskólanum í Reykjavík veturinn 1948 - 49, en alveg síðan þá höfum við verið kunningjar og vinir. Lífshlaup okkar hefur verið mjög svipað. Þó að annar væri Austfirðingur og hinn að norðan lá leið okkar beggja til Vestmannaeyja þar sem sjómennskan varð lífsstarfið. Við gengum báðir í gegnum allt kerfið, vorum hásetar, stýrimenn, skipstjórar og útgerðarmenn. Það þarf engan að undra að ungir menn, sem áhuga höfðu á sjómennsku og jafnvel lært eitthvað í þeim fræðum, leituðu til Vestmannaeyja þar sem Vestmannaeyjabær var á þeim tíma óumdeilanlega stærsta verstöð landsins og þar var mikil gróska í útgerð og fiskvinnslu. Þangað kom fólk víða að í atvinnuleit.
Bogi var mikill gæfumaður bæði í lífi og starfi. Honum farnaðist vel á sjónum, var aflamaður góður og á allri hans skipstjóratíð, sem var yfir 30 ár, henti aldrei neitt óhapp á sjónum, hvorki á skipi né skipshöfn og má það teljast mikil guðsgjöf. Bogi var einnig mjög mannsæll og voru dæmi þess að sömu menn réru með honum ár eftir ár.
Ekki var hann síður lánsamur í einkalífinu, en eitt sitt stærsta gæfuspor steig hann 29. desember 1956 er hann kvæntist sinni ágætu eiginkonu Dagnýju Þorsteinsdóttur. Bogi hafði dvalist í Eyjum af og til um tíma, en með hjónabandinu innsiglaði hann veru sína hér. Dagný var næstyngst af tólf systkinum, dóttir þeirra sæmdarhjóna Elínborgar Gísladóttur og Þorsteins Jónssonar útvegsbónda og formanns frá Laufási. Dagný bjó manni sínum friðsælt og fallegt heimili, og þangað var gott að koma, enda gestkvæmt alla tíð. Fyrstu sautján búskaparárin, eða fram að gosi, bjuggu þau á ættaróðali Dagnýjar að Laufási og festist þá Laufásnafnið við Boga og ætíð síðan var hann kallaður Bogi í Laufási af vinum og vandamönnum. Hjónaband þeirra var alla tíð mjög hamingjuríkt og farsælt og féll þar aldrei skuggi á. Þeim varð tveggja barna auðið og eru þau Guðný hjúkrunarfræðingur, en hún á eina dóttur, sem að sjálfsögðu heitir Dagný, og Erlend en kona hans er Anna Breiðfjörð Sigurðardóttir og búa þau á Akureyri.
Eldgosið 1973 breytti högum þeirra hjóna eins og annarra Vestmannaeyinga. Þau urðu að yfirgefa Heimaey og dvöldust í Reykjavík og á Selfossi í sautján mánuði, en fluttust aftur heim í júní 1974. Laufás var eitt þeirra húsa sem hraunelfan gleypti en Bogi og Dagný keyptu einbýlishúsið að Höfðavegi 17 og bjuggu þar síðan. Bogi hafði er hér var komið ákveðið að hætta sjómennsku. Fór hann á matsmannanámskeið og réðst síðan í vinnu við ferskfiskmatið hér og starfaði við það þar til það var lagt niður. Eftir það gekk hann í ýmis störf fram að sjötugsaldrinum.
Ekki get ég lokið minningum um Boga án þess að nefna eitt af áhugamálum hans, en það var veiðimennskan. Hann hafði gaman af að renna fyrir silung eða lax í vatni eða læk, en þó var byssan hans uppáhaldsveiðitæki. Honum fannst árið mislukkað kæmist hann ekki á haustdögum á gæsaskytterí, enda fór hann nær alltaf í eina eða fleiri ferðir með veiðifélögunum. Síðustu árin fóru þeir feðgar saman og komu þá stundum með góðan feng. Þá var oft æði glatt á hjalla þegar veiðifélagarnir og jafnvel fleiri hittust í kjallaranum á Höfðavegi 17 til þess að undirbúa jólasteikina. Þar var haustveiðin reytt og sviðin og fylgdi því oftast meiriháttar gleðskapur. Þá mun einnig hafa verið kátt í koti þegar Dagný hélt sína árlegu gæsaveislu fyrir Laufásfjölskylduna.
Ég votta Dagnýju, börnum þeirra og öðrum nánum mína dýpstu samúð og bið þeim guðs blessunar. Ég veit að þau geyma minningu um góðan eiginmann. föður og umfram allt góðan dreng.
Ég kveð kæran vin. Hafi hann þökk fyrir allt og allt.
Hilmar Rósmundsson


Gísli R. Sigurðsson
F. 16. september 1916 - D. 17. maí 1995
Áfram rennur tímans elfur og vinirnir kveðja. Þetta er gangur lífsins.
Ágæti vinur, Gísli Ragnar Sigurðsson, kvaddi 17. maí sl. á mildum sumardegi. Gísli R., eins og við kölluðum hann, hafði átt við nokkra vanheilsu að stríða upp á síðkastið svo að kallið kom ekki svo mjög á óvart.
Gísli R. var einn af fimm börnum Vilborgar og Sigurðar er lengst bjuggu á Herjólfsgötu 12, fæddur 16. sept. 1916.
Kreppuárin eftir 1930 og fram að styrjaldarárunum voru erfið alþýðufólki. Húsakostur var vel nýttur og nú er okkur hulin ráðgáta hvað fólkið bjó þröngt og varð að gera sér að góðu. Nýtni og sparsemi í fyrirrúmi, nokkuð sem við því miður teljum ekki til dygða lengur, eða að minnsta kosti telst til undantekninga.
Gísli R. var eðlisgreindur en naut lítillar skólagöngu. Hann hafði alltaf áhuga á alþýðufróðleik og gaf út með Friðþjófi G. Johnsen á Ásbyrgi eyjaritið Heimaklett á sínum tíma.
Eins og aðrir eyjapeyjar tók Gísli R. fljótlega til hendinni við fiskivinnu og sjósókn, en hugur hans stefndi til að bjarga sér ögn betur. Hann hóf ungur þátttöku í útgerð, fyrst með Einari Sigurðssyni og síðar einn um langt árabil. Er Gísli R. hætti útgerðinni gerðist hann framkvæmdastjóri Útvegsbændafélagsins enda öllum hnútum kunnugur. Á þeim árum kynntist ég Gísla R. og varð úr gjöful vinátta, ekki síst eftir að ég fór að verða heimagangur á fallegu heimili hans á Faxastíg 41 og kynntist tryggum lífsförunauti hans, Sigríði Haraldsdóttur, er hann gekk að eiga 1942.
Þau nutu samvistanna í meira en hálfa öld, Sigríður er jafnan kennd við föður sinn, Harald beyki á Ingólfshvoli. Hún er mikilvirk listakona sem hefur prýtt heimilið mörgum snilldarverkum með hannyrðum sínum. Þá var kjólsaumur hennar löngum viðurkenndur og bar af flestu sem hér var völ á um áratugaskeið.
Þeim hjónum varð ekki barna auðið en yngsti bróðir Gísla R., Benedikt, var lengi til húsa hjá þeim eftir foreldramissi í æsku.
Þá tóku þau hálfbróður Sigríðar, Jón Kristinn, fárra vikna og ólu upp sem sitt barn með miklum sóma.
Meðan heilsan leyfði þráðu hjónin að njóta lífsins á sólarströndum og ferðuðust oft. Nú er það liðin tíð.
Ég óska Gísla R. góðrar heimkomu á sólarströndum eilífðarinnar og bið Sigríðar og fjölskyldu allri blessunar Guðs.
Jóhann Friðfinnsson


Sigfús Guðmundsson
F. 28. júní 1912 - D. 10. nóv. 1995
Sigfús Guðmundsson fæddist í Hólakoti undir Austur-Eyjafjöllum 28. júní 1912. Hann lést á Sjúkrahúsi Vestmannaeyja föstudaginn 10. nóvember 1995. Foreldrar hans voru Guðmundur Einarsson bóndi í Hólakoti og Þuríður Vigfúsdóttir. Sigfús átti einn bróður, Sigurjón Gunnar, sem er látinn.
Hinn 22. sept. 1934 kvæntist Sigfús Auróru Öldu Jóhannsdóttir sem lést 11. maí 1995. Sigfús og Alda eignuðust tvo syni. Þeir eru: Jóhann G. Sigfússon, kvæntur Gunnvöru Valdimarsdóttur og eiga þau fjögur börn og tvö barnabörn, og Guðmundur Þ. Sigfússon, kvæntur Jónu Ósk Gunnarsdóttur og eiga þau tvo syni.
Lífsbaráttan hófst snemma hjá Sigfúsi eins og hjá mörgum ungum mönnum á þessum árum. Ungur fór hann til sjós og var nokkrar vetrarvertíðir í Eyjum. Fyrstu vertíð sína réri hann með Þórði frá Sléttabóli. Einn vetur brá hann sér þó í íþróttaskóla hjá Sigurði Greipssyni í Haukadal og átti þar góða daga. Árið 1930, þegar Sigfús var 19 ára og Sigurjón bróðir hans 11 ára, dóu foreldrar þeirra báðir með stuttu millibili.
Ári eftir að Sigfús og Alda giftu sig, 1935, fluttust þau til Eyja og bjuggu fyrst í Hjálmholti þar sem Jóhann Guðbrandur fæddist 15. okt 1936. Sigfús fékk brátt bæði vél- og skipstjórnarréttindi. Starfaði hann um tíma sem mótoristi á Ver VE og á fimmta áratugnum var hann stýrimaður á Skaftfellingi sem flutti vörur á milli lands og Eyja og var í eigu Helga Benediktssonar. Formennska hans hófst á Vini VE á útvegi Árna í Hvammi.
Um haustið 1948 flutti fjölskyldan í nýtt hús sem þau höfðu byggt að Brimhólabraut 10 þar sem yngri sonur þeirra, Guðmundur Þór, fæddist.
Þá var Sigfús um langt árabil skipstjóri hjáÁrsæli Sveinssyni, bæði á Ísleifi gamla og Ísleifi II.
Fljótlega réðst Sigfús ásamt tveimur öðrum í eigin útgerð og keyptu þeir bátinn Sævar VE 19. Gekk það allt ágætlega. Þegar gosið kom upp 1973 flutti Sigfús ásamt meðeiganda sínum, Sigþóri Sigurðssyni, útgerð og búsetu tímabundið til Stykkishólms en þaðan gerðu þeir félagar út á skelfisk.
Síðasti báturinn, sem Sigfús réri á, eftir að hann hætti eigin útgerð, var Sjöfn VE í eigu Hauks Jóhannssonar.
Í byrjun níunda áratugarins, þegar Sigfús var um sjötugt, lét hann af allri sjósókn, kom í land og hóf störf í Fiskiðjunni. En þá hafði hann verið rúm 50 ár til sjós. Má því segja að hann hafi verið vel kominn að heiðursskjali sjómannadagsráðs sem honum var afhent á Sjómannadaginn 1983.
Um vorið 1990 seldu Alda og Sigfús hús sitt að Brimhólabraut 10 þar sem þau höfðu búið í rúm 40 ár og fluttust í þjónustuíbúð aldraðra að Eyjahrauni 9. Á Sjómannadaginn 1994 fluttist Sigfús svo að Hraunbúðum, að eigin ósk, þar sem heilsu hans hafði hrakað. En þrátt fyrir heilsubrest og að hann ætti erfitt um gang lét hann sig þó hafa það, nær daglega, að ganga yfir í þjónustuíbúðirnar til þess að heimsækja Öldu. Alda lést svo 11. maí 1995 og var hún jarðsungin 18. maí 1995. Sex mánuðum síðar, eða 18. nóv. 1995, var Sigfús jarðsettur við hlið Öldu í kirkjugarði Vestmannaeyja.
Jóna Ósk Gunnarsdóttir


Ólafur Edvinsson
F. 17. sept. 1934 - D. 10. des. 1995
Ólafur Edvinsson var fæddur á Sandi í Sandey í Færeyjum 17. sept. 1934. Foreldrar hans voru Súsanna Katarína Olsen húsmóðir og Edvin Sigmund Olsen sjómaður. Hann var yngstur fjögurra systkina en þau hétu Högni, Alfreð og Alfrida sem er nú ein á lífi.
Ólafur hóf snemma að stunda sjóinn, eða aðeins 13 ára gamall. Hann missti föður sinn þegar hann var á fyrsta ári og þegar eldri systkinin fóru að heiman var hann stoð og stytta móður sinnar sem var honum afar kær. Hann reri við Færeyjar, Grænland og Ísland. Til Vestmannaeyja kom hann árið 1964 og reri þá á Faxa. Þá kynntist hann Guðrúnu Lísu, dóttur Óskars Jónssonar útgerðarmanns og konu hans Ástu Jónsdóttur frá Hlíð. Heimili þeirra var að Hásteinsvegi 64. Ól hann upp son Guðrúnar Lísu, Óskar Þór Sigurðsson.
Ólafur var á mörgum úrvalsbátum hjá góðum skipstjórum. t.d. Páli á Reyni, Óskari á Leó, Rafni á Gjafar, Binna á Gullborgu, Jóni Valgarð á Gunnari Jónssyni og Guðjóni á Gullbergi. Síðustu tólf árin var hann með Erlingi Péturssyni á Freyju RE. Var hann mjög vel liðinn af skipsfélögum sínum og hörkuduglegur sjómaður.
Hann var heiðraður af sjómannadagsráði í Þorlákshöfn á Sjómannadaginn fyrir tveimur árum.
Þegar eldgosið hófst 1973 fluttist Ólafur ásamt fjölskyldu sinni til Þorlákshafnar þar sem hann byggði sér hús að Setbergi 31.
Ólafur var mikill dýravinur og hafði mikla unun af fuglalífi. Þekkti hann flesta fugla og hljóð þeirra. Oftast átti hann kindur, þó ekki í Vestmannaeyjum. Það má segja að þó hann hafi lagt sjómennsku fyrir sig hafi hann verið bóndi í eðli sínu. Frístundirnar voru ekki margar á árum áður því fast var sótt á öllum þeim bátum sem hann var á.
Hann hafði ungur lært að spila á harmonikku og hafði mjög gaman af því ef tækifæri gafst, einnig að tefla, en það var áhugamál hans, og að fylgjast með knattspyrnunni.
Ólafur og Guðrún Lísa slitu samvistum 1981. Hann kvæntist aftur árið 1989 Monsu Edvinsson frá Færeyjum.
Fyrir tveimur árum greindist sá sjúkdómur hjá Ólafi sem lagði hann að velli í lok síðasta árs. Baráttan var hörð, en hann var alltaf bjartsýnn og bjóst við að komast bráðlega heim af sjúkrahúsinu.
Nú er hljóðnað skóhljóð heiðursmanns og biðjum við guð að blessa minningu hans.
Súsanna og Andri.


Ólafur Þórðarson
í Suðurgarði
F. 30. jan. 1911 - D. 1. janúar 1996.
Ólafur í Suðurgarði var magnaður persónuleiki. Hann hafði mikla reynslu í skóla lífsins, hafði siglt um öll heimsins höf á sínum yngri árum. var rafvirki, vélstjóri, bóndi, veiðimaður og sjómaður. Óli var víðlesinn og hikaði aldrei þegar menn skiptust á skoðunum. Hann talaði þá tæpitungulaust og aldrei brást það að hann tók málstað lítilmagnans. Hann var eldhugi þegar lífsins gagn og nauðsynjar voru til umræðu og oft voru skemmtilegar sviptingar við eldhúsborðið í Suðurgarði, eldhúsborð sem stundum minnti frekar á umsvif járnbrautarstöðvar en eldhús á sveitabæ.
Ólafur Þórðarson var fæddur í hjarta Reykjavíkur, Skuggahverfinu. Á æskuárum missti Óli föður sinn í hafið, en móðir hans, Þuríður, var mikill harðjaxl og hélt heimilinu uppi með reisn þrátt fyrir hið mikla áfall. Ungur fór Óli í siglingar og sigldi meðal annars á stríðsárunum við erfiðar aðstæður, en upp úr því settist Óli að Suðurgarði, heimahöfn hans. Áður hafði Óli eignast þrjár dætur með fyrri konu sinni, Jónu Pálsdóttur frá Eyrarbakka, en þau slitu samvistum. Elstu dótturina misstu þau kornunga, en eftirlifandi dætur þeirra eru Þuríður og Ásta. Með seinni konu sinni, Önnu Svölu Árnadóttur Johnsen frá Suðurgarði, eignaðist Óli, Árna Óla, Jónu og Margréti Mörtu. Þau ólust öll upp í Suðurgarði, en þegar Jóna Pálsdóttir féll frá langt fyrir aldur fram um þrítugt bað hún Svölu fyrir Þuríði, en Ásta fór austur á Eyrarbakka og ólst þar upp.
Suðurgarðsheimilið var um margt sérstakt, sveita- og sjávarplássheimili, með kindum, kúm, hestum, hænsnum, gróðurhúsi, bjargfuglaverkun, netaafskurði, heyskap, flatkökubakstri, fiðursængurgerð og fleira og fleira. Svala í Suðurgarði var einstakur persónuleiki, stórveldi á sinn hátt, og mat Óli hana mikils, enda var mikið jafnræði með þeim þótt um margt væru þau ólík. Óli var mjög félagslega sinnaður og mikill keppnismaður. Hann var snjall bridgespilari og seinni hluta ævinnar var hann harðskeyttur liðsmaður AA-samtakanna og vann þar mikið og gott starf eftir að hann hafði sjálfur sigrað í harðri baráttu við Bakkus konung um langt árabil. Óli var góður félagi, hreinskiptinn og drengskaparmaður mikill. Hann ýmist hossaði okkur krökkunum í Suðurgarði eða flengdi eftir því sem þörf var á, því þar var ræktaður agi og krafist árangurs í daglegum verkum og jafnvel draumunum einnig.
Óli var fæddur 30. janúar 1911. Hann vann allt fram til þess síðasta, var í góðu formi, líkamlega og andlega, allt fram á síðasta árið, en eftir að Svala féll frá naut hann sín ekki til fulls, svo það varð ekki langt á milli þessara eftirminnilegu hjóna. Þeirra er nú svo sárt saknað af þeim sem áttu þau að í sorg og gleði í lífsleiknum. Óli í Suðurgarði átti svo auðvelt með að fá fólk til að brjóta hugann, leita fleiri sjónarhorna en kannski var nærtækast í leit að sannleikanum. Í honum bjuggu bæði uppreisnarmaðurinn og bróðurkærleikurinn, og brjóstvitið vann svo vel úr því.
Megi minningin um Óla í Suðurgarði vera hvatning um sjálfstæðan lífsstíl og heilindi gagnvart náunganum.
Árni Johnsen.


Samúel Friðriksson
F. 25. júní 1941. - D. 4. sept. 1995.
Samúel Maríus, eins og hann hét fullu nafni, var fæddur að Skálum á Langanesi 25. júní 1941. Foreldrar hans voru hjónin Friðrik Jóhannsson, f. 1. febr. 1917. d. 17. febr. 1948, og Jóhanna Hansen, f. 26. maí 1921, d. 5. apríl 1992, sem þá bjuggu á Skálum. Samúel ólst upp að Skálum fram til 14 ára aldurs, en þá fluttist fjölskyldan til Þórshafnar á Langanesi.
Samúel var næstelstur í hópi fjögurra systkina. Elstur er Jóhann Friðriksson, f. 29. sept. 1939, þá kom Samúel og síðan María Friðriksdóttir, f. 1. mars 1943. Jóhanna giftist síðar Lúðvíki Jóhannssyni, en með honum eignaðist hún dótturina Ásdísi. Lúðvík gekk þeim systkinum öllum í föðurstað.
Samúel var tvíkvæntur. Fyrri kona hans var Dagbjört Flórentsdóttir: þau slitu samvistum. Síðari kona hans var Jóhanna Alfreðsdóttir, f. 7. apríl 1945. Jóhanna átti son af fyrra hjónabandi, Guðna Bragason. Samúel og Jóhanna eignuðust ekki barn saman, en ættleiddu son árið 1979 sem skírður var Alfreð Hjörtur. Foreldrar Jóhönnu voru Alfreð Hjartarson, f. 9. nóv. 1918, og Jóna Friðriksdóttir, f. 4. okt. 1922, frá Siglufirði.
Jóhanna og Samúel bjuggu sín fyrstu búskaparár í Vestmannaeyjum, en árið 1981 fluttust þau til Grindavíkur þar sem þau bjuggu síðan.
Samúel andaðist á Sjúkrahúsi Suðurnesja 4. sept. s.l. Jarðarförin fór fram laugardaginn 16. sept. frá Grindavíkurkirkju.
Það er alltaf erfitt að sætta sig við þegar menn á besta aldri falla frá. Sammi var aðeins rúmlega fimmtugur þegar hann lést og hefði því átt mörg ár eftir ef sá sjúkdómur, sem hann fékk fyrir skömmu, hefði ekki komið til. Kynni okkar hófust skömmu eftir að við María systir hans byrjuðum búskap. Hann hafði ungur farið að heiman og m.a. dvaldist hann tvö ár í Noregi. Hann var sjómaður alla tíð, og saman vorum við á sjónum í fimm ár. Ég held að á engan sé hallað þegar ég segi að hann hafi verið einn allra besti maður sem ég hef verið með til sjós. Bæði var hann afskaplega duglegur til allra verka en ekki síður var hann mikill listamaður í trollum.
Það var með ólíkindum hve auðvelt hann átti með að átta sig á hengilrifnu og margsnúnu trollinu. Hann virtist hafa það í fingrunum hvernig hlutarnir áttu að vera. Þá var hann afar góður í öllum trollviðgerðum og virtist ekkert hafa fyrir því að sauma trollið saman þegar það komið rifið og tætt úr sjó. Svona maður var algjör gullmoli á sjó.
Sammi var lundgóður að eðlisfari og oft var stutt í prakkaraskapinn í honum. Hann hafði gaman af ýmiss konar sprelli og var ótrúlega uppfinningasamur á þeim vettvangi. Lúlli stjúpi hans skaut talsvert af fugli til matar og átti því byssur og ávallt talsvert af skotum sem hann geymdi í kofforti. Einhverju sinni er þeir bræður voru einir heima fóru þeir í skotfærageymsluna hjá Lúlla og tóku skot úr tveim kössum og fóru á skyttirí. Þetta komst ekki upp fyrr en löngu seinna því að þeir settu vitaskuld tómu kassana neðst í koffortið og það var ekki fyrr en Lúlli ætlaði að grípa til síðustu skotkassanna að allt komst upp.
Einhverju sinni var hann sendur í læri til sóknarprestsins í sveitinni og þar átti hann að nema ýmsan fróðleik. Það var með Samma eins og marga unga menn að námið var ekki alltaf efst á vinsældarlistanum og því var áhuginn kannski takmarkaður. Eitt sinn, er prestsfrúnni fannst hann slá slöku við námið og fann að því við hann, hugsaði hann henni þegjandi þörfina. Tækifærið kom þegar frúin þurfti að sækja eitthvað inn í miðstöðvarkompuna. Þá skellti hann hurðinni í lás og forðaði sér síðan út. Þarna fékk prestsfrúin að dúsa nokkra stund en Sammi forðaði sér heim í snatri og fór ekki alfaraleið heldur laumaði sér með fjöllum inn á Þórshöfn. Þar með lauk skólagöngu hans.
Þá hafði hann oftast ákveðnar skoðanir á hlutunum og það var ekki auðvelt að fá hann ofan af þeim því að hann var afar fastur á sínu. Ég sagði oft við hann, þegar mér ofbauð þráinn í honum, að það hlyti að vera einhver Skálastúfur í honum.
Sammi var afskaplega rólegur og umgengisgóður maður. Hann tók því sem að höndum bar með mikilli ró og sá eiginleiki hans kom glöggt í ljós í veikindum hans. Þó að flestir hafi séð undir það síðasta að hverju stefndi var eins og hann vildi ekki sjálfur viðurkenna það sem virtist óumflýjanlegt.
Hann var alltaf mikill og góður vinur minn og minnar fjölskyldu og því munum við ávallt minnast hans með mikilli hlýju. Með honum fór góður drengur langt fyrir aldur fram.
Við sendum Jóhönnu og strákunum innilegustu samúðarkveðjur. Við erum þess fullviss að minningin um góðan dreng mun lifa.
Bergvin Oddsson.


Eyjólfur Gíslason
F. 22. maí 1897. D. 7. júní 1995
Eyjólfur Gíslason var fæddur að Búastöðum í Vestmannaeyjum 22. maí 1897. Hann andaðist að Hrafnistu í Reykjavík 7. júní 1995.
Foreldrar Eyjólfs voru útvegsbóndinn Gísli Eyjólfsson frá Kirkjubæ í Vestmannaeyjum, f. 1867, d. 1914, og kona hans Guðrún Magnúsdóttir frá Berjanesi í Landeyjum, f. 1865, d. 1936. Þau hjón Gísli og Guðrún eignuðust fimm börn, tvö þeirra dóu í frumbernsku, en þrjú komust á legg: Jórunn, sem andaðist 16 ára gömul, og Lovísa, sem var elst þeirra systkina, gift Bryngeiri Torfasyni formanni frá Stokkseyri, og var húsmóðir að Búastöðum. d. 1978.
Með fyrri konu sinni, Margréti Runólfsdóttur, eignaðist Eyjólfur, Erlend, f. 1919, en með seinni konu sinni, Guðrúnu Brandsdóttur, eignaðist hann þrjú börn; Sigurlínu, f. 1928, sem dó í frumbernsku, Gísla, f. 1929 og Guðjón Ármann, f. 1935.
Þegar ég minnist Eyjólfs frænda, eins og mér var tamast að kalla hann, koma fram í hugann myndir og minningar frá veröld sem var og kemur ekki aftur vegna einstæðra náttúruhamfara og jarðelda í Vestmannaeyjum. Eyjólfur ólst upp á útvegsjörð þar sem aldagamlar hefðir voru í heiðri hafðar við að nytja jarðirnar. En fiskveiðar, landbúnaður, fuglaveiði, á súlu, svartfugli, lunda, fýlsunga, ásamt eggjatöku í björgum Eyjanna, var aðallífsbjörg fólks. Faðir Eyjólfs, Gísli, var mikill bjargveiðimaður og bræður hans, þeir Guðjón og Jóel, annálaðir léttleikamenn í fjöllum. Hann lá við til lundaveiða í Ellirey á hverju sumri og fór í fýlaferðir að þeim loknum, bæði í leigumála Ellireyjarjarða og víðar í Eyjum, eins og á Fjallið sem tilheyrði Álseyjarjörðum. Færði hann mikla björg í bú, en fuglinn, sem kom í hans hlut, var allur nýttur til matar, saltaður og reyktur til vetrarforða. Á vetrarvertíðum stundaði Gísli sjó og var formaður, t.d. með áttæringinn Frið, Elliða og fleiri skip.
Eyjólfur var ekki gamall þegar faðir hans fór að lofa honum að koma með í útey til þess að læra handtökin við lundaveiðar og eggjatöku. Fór hann á hverju sumri frá fjögurra ára aldri í Ellirey og dvaldist þar yfir lundatímann til 15 ára aldurs er hann fór í kaupmennsku til Mjóafjarðar. Þegar Eyjófur var fulltíða maður var hann með allra bestu bjargveiðimönnum í Vestmannaeyjum, léttleikamaður og snar í hreyfingum. Var hann iðulega forystumaður þegar farið var í Helliseyjarleigumála, en Búastaðir áttu þar hlunnindi ásamt fleiri Ellireyjarjörðum. Þá seig hann oft Sám í Hellisey sem er erfiðasta bjargsig í Vestmannaeyjum. Þegar skemmtiferðaskipin, sem flest voru þýsk og voru kölluð lystiskip, komu til Eyja fyrir stríð sýndi Eyjólfur og félagar hans bjargsig af Molda og Fiskhellanefi fyrir ferðamennina sem gerðu góðan róm að fífldirfsku Eyjamanna og fimi.
Systkinin Eyjólfur og Lovísa voru ekki gömul þegar þau fóru að hjálpa til við búskapinn, svo sem fiskaðgerð niðri í króm, hirða um sauðfé sem var í bóli undir Skiphellum og annast aðdrætti til og frá heimilinu sem þau réðu við, svo sem fugl er kom úr úteyjum, því að allir aðdrættir voru bornir á höndum eða baki á þessum tímum. Eyjólfur var aðeins 11 ára þegar hann fór að beita línu og þá jafnhliða barnaskólanum þar sem hann skaraði fram úr. Það þótti mannsbragur að því í þá daga að fara að heiman og draga sig til bjargar og 15 ára gamall fór Eyjólfur austur á Brekku í Mjóafirði. Hann dvaldist í þrjú sumur hjá þeim heiðurshjónum Stefaníu Sigurðardóttur og Hjálmari Vilhjálmssyni, foreldrum Vilhjálms ráðherra, sem þar bjuggu rausnarbúi og vann hann þar bæði á sjó og við landbúnaðarstörf eftir því sem til féll og bar mikið lof á húsbændur.
Eyjólfur hóf sinn frægðarferil sem formaður í Vestmannaeyjum árið 1919 með m.b. Unni frá Stokkseyri, þá í forföllum fyrir mág sinn, Bryngeir Torfason. Vertíðina 1922 réðst Eyjólfur formaður fyrir bát sem hét Svanur og var hann upp frá því formaður samtals í 40 vetrarvertíðir en 48 vertíðir var hann á sjó.
Sína löngu formannstíð var hann með marga báta; t.d. sjö vertíðir með Hansínu sem hann var meðeigandi að og sjö vertíðir með Glað, en lengst var hann formaður með Emmu VE 219 eða í níu vertíðir. Stuttu fyrir stríð var Eyjólfur í þrjár vertíðir, 1938 - 1940, fiskilóðs á færeyskum skútum. Þetta þóttu stór skip í þá daga, þrímastraðar skonnortur, sem hétu Atlantsfarið og Polo og líkaði honum vel sjómennskan á þessum skipum og fiskaði ágætlega. Eyjólfur endaði sína formennsku með Ísleif gamla, VE 63, sem hann var með i fimm vertíðir og var síðast formaður vetrarvertíðina 1962. Síðustu árin, sem Eyjólfur var í Vestmannaeyjum, vann hann við veiðarfæri hjá Ársæli Sveinssyni sem átti þann bát. Þar vann hann allt fram að eldgosinu 1973 þegar hann eins og fleiri varð að flýja Eyjarnar.
Eyjólfur var félagslyndur og stéttvís. Hann var einn af stofnendum skipstjóra- og stýrimannafélagsins Verðandi árið 1938 og heiðursfélagi Verðandi í fjöldamörg ár. Hann var einnig heiðursfélagi í Félagi Vestmannaeyinga á Suðurnesjum og í Bjargveiðimannafélagi Vestmannaeyja. Eyjólfur sat í stjórn og varastjórn Verðandi samfleytt í aldarfjórðung, oftast sem ritari, en hann skrifaði sérstaklega fallega rithönd, var prýðilega ritfær og hafði gaman af að skrifa og grúska. Hann var sérstakur áhugamaður um Sjómannadagsblað Vestmannaeyja og ritaði í blaðið frá fyrstu tíð fjölda greina um margvísleg efni auk þess sem hann sá í mörg ár um minningarþátt blaðsins um látna sjómenn. Árið 1981 birtist þáttur um ævi Eyjólfs í safnriti Guðmundar Jakobssonar, Fleytan í nausti.
Eyjólfur hafði sérstakan áhuga á sögu Vestmannaeyja, söfnun og varðveislu sögulegra minja í Eyjum og öðrum menningarmálum eins og gerð sérstakrar kvikmyndar um Vestmannaeyjar. Hann var einn af stofnendum Vestmanneyingafélagsins Heimakletts og sat í fyrstu byggðasafnsnefnd Vesmannaeyja sem starfaði í 20 ár og lagði grunn að Byggðasafni Vestmanneyja. Um þann þátt skrifaði Jóhann Friðfinnsson safnvörður Byggðasafnsins í minningargein um Eyjólf:
„Byggðasafnið á Eyjólfi mikið upp að unna og á skilnaðarstundu er ljúft og skylt að þakka hans brautryðjendastörf við söfnun og varðveislu verðmæta, en hann vann lengi með Þorsteini Þ. Víglundssyni, þeim mikla eldhuga, og fleiri góðum mönnum að stofnun safnsins, auk þess að vera í fyrstu stjórn þess.“
Þegar ég minnist frænda míns hrannast upp minningar frá þessari stærstu verstöð landsins, Vestmannaeyjum, þegar róið var eftir hefðbundnu formi á línu og netum. Mest var fylgst með þessum litlu bátum þegar suðaustan óveður var að skella á; þá stóðum við krakkarnir undir húsveggjum og fylgdumst með bátunum þegar þeir voru að koma úr Faxasundi og böksuðu austur flóann. Margir saman sigldu þeir í halarófu austur að Bjarnarey en þar fengu bátarnir lygnu af eynni. Við krakkarnir þekktum alla báta en þegar Emma kom hlupum við niður á bryggju til að taka á móti frænda. Oft var eitthvað gott að hafa úr bitakössunum og þegar búið var að landa fengum við að fara út á ból, en bátunum var lagt við legufæri sem hver þeirra hafði og var skjöktbátur hafður til að fara út í báta og í land. Að loknum róðri yfir Botninn og upp Lækinn á milli Bæjarbryggju og Edinborgarbryggju var skjöktbáturinn settur upp í Hróf.
Árið 1928 byggði Eyjólfur hús skammt fyrir sunnan sitt æskuheimili og kallaði það Bessastaði eftir grunnbrotinu Bessa sem er grynning austsuðaustur af Heimey og brýtur á í óveðrum, en grunnbrotið var í beinni stefnu austur af húsinu. Sama ár kvæntist hann Guðrúnu Brandsdóttur og var hún mikil húsmóðir og hannyrðakona svo að af bar. Eftir að systkinin Lovísa og Eyjólfur fóru að búa höfðu þau félagsbú á Búastaðajörðinni. Á sumrin var mikið líf og gleði við heyskap á túni Búastaða og annarra býla í nágrenninu. Mikil samhjálp var á milli granna, en fjölskyldur þeirra Búastaðasystkina hjálpuðust að við heyskapinn og að nytja hlunnindi jarðarinnar.
Eldgosið á Heimaey og allt það umrót sem því fylgdi hafði slæm áhrif á Eyjólf og fleiri gróna Vestmannaeyinga. Fólk hrökklaðist frá heimilum sínum allslaust út í myrkrið og óvissuna. Það veit enginn nema sá sem slíkt reynir þegar aðeins er um það eitt að tefla að bjarga lífi sínu og sinna nánustu. Seint um kvöldið 24. janúar 1973 var verið að bjarga því sem var fljótlegast að taka og koma út úr Bessastöðum og voru aðstæður erfiðar, gífurlegt vikurfall og grjótkast, svo að varð að skríða í skjól af bílunum. Mér fannst sárast, þegar ég stóð í síðasta sinn í skrifstofunni og bókaherbergi Eyjólfs frænda, að þurfa að horfa á eftir öllum verðmætum í húsinu, en Eyjólfur var mikill fræðimaður og fór þar margur fróðleikur forgörðum.
Eyjólfur og Guðrún settust að í Garðinum innan um frændur og vini sem bjuggu þar eftir gosið. Úr Garðinum fluttust þau að Hrafnistu í Reykjavík 1981 og leið þeim þar vel.
Við Búastaðasystkinin þökkum Eyjólfi frænda allt sem hann var okkur í æsku og alla aðstoð við systur sína meðan hún var að koma barnahópnum á legg. Ég og fjölskylda mín viljum þakka Eyjólfi frænda öll árin sem við fengum að vera með honum; minningar okkar um Eyjólf eru margar og hverfa ekki.
Útför Eyjólfs var gerð frá Fossvogskirkju 15. júní að viðstöddu fjölmenni, en hann hvílir í Fossvogskirkjugarði.
Blessuð sé minning frænda míns Eyjólfs Gíslasonar.
Jón Bryngeirsson frá Búastöðum.


Magnús Gíslason
frá Hvanneyri
F. 30. sept. 1938. - D. 9. mars 1996.
Lengi hefur hafið heillað. Frá aldaöðli hefur það freistað í öllum sínum fjölbreytileika og verið forðabúr og hornsteinn að gæðum hins íslenska þjóðfélags og því kannski eðlilegt að þangað sæki ungir og hraustir drengir, ölvaðir af ævintýraþrá.
En þó að sjómennskan sé áhættusöm atvinnugrein og hin miklu öfl eilífðarinnar hafi oft vinninginn yfir veikleika mannssálarinnar láta sæfarendur það ekki raska ró sinni því að lund hins dugandi sjómanns er bundin kjarki og æðruleysi. Í sjávarplássum þar sem lífsbaráttan snýst um allt það sem að sjávarfangi lýtur er von heimilanna sú að farsæld fylgi hverri veiðiferð og ósk um góða heimkomu föðurins eða þess sem sjóinn stundar. Þessu kynntist Magnús vel þegar hann var að alast upp hér í Eyjum.
Faðir hans hét Gísli Sveinsson, sjómaður og átti í útgerð ásamt öðrum. Gísli var mikill hugsjónamaður sem barðist fyrir betri hag hins vinnandi manns sem oft þáði lítilfjörleg laun úr hendi atvinnurekanda. Og það fór ekki hjá því að Magnús hreifst mjög af föður sínum og átti þar góðan vin og beið hans oft á bakkanum þegar hann kom að landi og lífið var bjart framundan. En enginn sér fyrir óráðnar gátur tilverunnar. Sem unglingur missti hann föður sinn og varð það honum mikil harmur. Þetta setti ungum dreng skyldur og þunga ábyrgð á herðar.
Snemma varð hann því að hjálpa til með móður sinni og eldri systkinum til að halda fjölskyldunni saman og sem ein heild yfirunnu þau erfiðleikana. Þroski eykst með árunum, eðli og eiginleikar Magnúsar sögðu fljótt til sín, hann vildi á sjóinn. Eins og faðir hans hafði verið, laðaðist hann að þeirri tilveru í kringum bryggjurnar og vildi vera þátttakandi í þeirri verðætasköpun sem þar fór fram og eiga hlutdeild í því sífellt fjölbreytta og áhugaverða lífi.
Svo kom vorið sem hann fermdist. Þá voru síldveiðar miklar fyrir Norðurlandi og dag eftir dag streymdu þangað bátar héðan úr höfn og fjölmiðlar sögðu frá vaðandi síld um silfraðan sæinn. Þessi heillandi myndlýsing hafði svo mikla dýpt og hana stóðst hann ekki og réð sig á mb. Vonina VE-113, upphafið að annars ekki löngum sjómannsferli, sem hann þó hefði viljað leggja fyrir sig og stunda allt til hinsta dags. Hann náði þó að kynnast ólíkum veiðiaðferðum og stundaði sjó á bátum sem allir heyra nú sögunni til.
En bakverkir hrjáðu hann æ oftar og svo fór að hann varð að segja skilið við það starf sem hann hafði fundið sjálfan sig í. Kafli í hans ævisögu var á enda, en hann merlaði fram minningar frá þeim tíma á góðum stundum. Það átti því fyrir honum að liggja að hefja landvinnu. Starfaði hann hjá ýmsum fyrirtækjum, lengst af hjá bæjarsjóði.
Magnús var glöggskyggn og sá fljótt kosti og galla hvers manns. Á ævi sinni tamdi hann sér nægjusemi, sem hann taldi mikinn kost, og ræktaði skyldur sínar í kyrrþey. En hann hafði orðið fyrir ýmsu mótlæti í lífinu, þótt það sé ekki allt tíundað hér, en varð ef til vill til þess að hann hneigðist æ meira að víni sem varð honum fjötur um fót. Þá breyttist þessi hljóðláti og hæverski maður og vildi þá fanga heiminn að fótum sér og hóf að flytja kvæði sem hann hafði mikið dálæti á. Þá var andagift hans með ólíkindum, en hann var líka oft einmana.
Allar öldur hníga þegar þær hafa risið hæst og eins er það með lífið. Magnús var meðvitaður um hvert stefndi í sinni jarðnesku vist. Örlögum sínum tók hann með hógværð og yfirlætisleysi.
Og morgun einn þegar hinir fyrstu vorgeislar breiddu sig um eyna sem hafði fóstrað hann var hann sofnaður sínum hinsta svefni.
Kristinn Viðar Pálsson.


Torfi Bryngeirsson
frá Búastöðum
F. 11. nóv. 1926 - D. 16. júlí 1995
Þó að Torfa Bryngeirssonar frá Búastöðum verði fyrst og fremst minnst sem eins fræknasta íþróttamanns á Íslandi á þessari öld er hans minnst á síðum Sjómannadagsblaðs Vestmannaeyja vegna þess að frá unga aldri stundaði hann sjómennsku frá fæðingarbæ sínum, Vestmannaeyjum. Hann var einnig um tíma í útgerð og í fjöldamörg ár var hann verkstjóri hjá Einari Sigurðssyni í Hraðfrystistöð Vestmannaeyja.
Torfi Bryngeirsson var fæddur að Búastöðum í Vestmannaeyjuni 11. nóv. 1926, sonur hjónanna Lovísu Gísladóttur og Bryngeirs Torfasonar skipstjóra sem ættaður var frá Stokkseyri.
Innan við fermingaraldur missti Torfi föður sinn og varð fljótt að taka til hendi. Þau voru sjö systkinin að Búastöðum og komust fimm til fullorðinsára. Torfi var næstelstur þeirra er upp komust og byrjaði snemma að vinna og draga björg í bú. Sumarið 1942 vann hann 15 ára gamall við hafnargerðina en þá fór fram mikil viðgerð á syðri hafnargarðinum, Hringskersgarði.
Torfi var 16 ára gamall þegar hann fór á síld við Norðurland eins og þá var títt og var á tvílembingunum Tý VE 315 og Nönnu VE 300. Þetta var sumarið 1943 og síldveiðar þá stundaðar með herpinót sem var róið út frá tveim nótabátum. Vetrarvertíðina 1944, þá 17 ára gamall, var hann á Emmu VE 219 með Eyjólfi móðurbróður sínum og var með honum í tvær vertíðir. Torfi var beitumaður og varð skjótt fljótvirkur og afkastamikill við beitninguna. Vertíðina 1946 var Torfi beitningamaður á m/b Veigu sem Sigurjón Auðunsson var með og voru þeir þar saman æskufélagarnir Hjörleifur Guðnason frá Oddsstöðum og Torfi.
Torfi var þá þegar orðinn einn af bestu íþróttamönnum í Vestmannaeyjum og keppti fyrir Íþróttafélagið Þór. Frammámenn íþróttahreyfingarinnar í Reykjavík á þessum árum, þeir Erlingur Ó. Pétursson, aðaldriffjöður KR, og Benedikt G. Waage, forseti íþróttasambands Íslands, voru fljótir að koma auga á hvílíkt efni Torfi var í íþróttamann á heimsmælikvarða. Sumarið 1946, þegar hann var á leið norður til síldveiða, voru honum því boðin kostakjör, góð atvinna og á þeirrar tíðar mælikvarða góð aðstaða til æfinga í Reykjavík sem hann gat ekki hafnað, enda hafði hann brennandi áhuga á íþróttum.
Torfi skaraði þá strax fram úr í „þjóðaríþrótt“ Vestmannaeyinga, stangarstökkinu, eins og sú íþróttagrein var oft nefnd á þeim árum, en Vestmannaeyingar áttu Íslandsmet í stangarstökki um áratugaskeið og komust aðrir landsmenn ekki með tærnar þar sem Eyjamenn höfðu hælana í stönginni.
Mér er það sérstaklega minnisstætt þegar Torfi setti fyrsta Íslandsmetið, drengjamet, sem var auðvitað óstaðfest við þær aðstæður sem keppt var við. Þetta gerðist austur á Móhúsaflöt sem var spölkorn vestur af Urðavita, beint suður af Kirkjubæjum. Þarna hafði verið útbúin svolítil sandgryfja og var oft verið þarna í leikjum og margs konar stökkum og hlaupum. Að sögn sjónarvotta (hjónanna á Kirkjubóli, Kristjáns heitins Kristóferssonar og Þóru) hófst eldgosið 23. janúar 1973 á Móhúsaflöt, líkast því að kviknaði í sinueldi og síðan opnaðist eldsprungan til beggja átta. Þessi staður er því undir miðjum rótum Eldfellsins.
Torfi gat sér strax frægðarorð í Reykjavík sem afreksmaður í íþróttum og varð fljótlega Íslandsmeistari í langstökki og stangarstökki. Frægðarferil sinn sem íþróttamaður á heimsmælikvarða á erIendri grundu hóf Torfi þegar hann tók þátt í Olympíuleikjunum í Lundúnum árið 1948. Árið 1949 varð hann Norðurlandameistari í langstökki og í hinni frægu þriggja landa keppni í Ósló 29. júní 1951, þegar Ísland bar sigurorð af Norðmönnum og Dönum, var Torfi fræknasti íþróttamaður keppninnar. Hann varð sigurvegari í langstökki og stangarstökki og hljóp endasprettinn í 4x100 metra boðhlaupi sem Ísland vann einnig.
Mesta afrek Torfa Bryngeirssonar var þó þegar hann varð Evrópumeistari og sigraði í langstökki á Evrópumeistaramótinu í Brussel árið 1950.
Árið eftir varð hann meistari í stangarstökki á bresku samveldisleikjunum þar sem lönd breska samveldisins, víðs vegar að úr heiminum, kepptu.
Um Torfa átti við hið fornkveðna, „Römm er sú taug er rekka dregur föðurtúna til,“ af því að á þessum viðburðaríku árum í lífi hans var hugurinn oft bundinn æskustöðvunum þó að æfingar og keppnisferðir tækju mikið af frístundum hans.
Torfi kvæntist árið 1950, Jóhönnu Pétursdóttur frá Selshjáleigu í Austur-Landeyjum. Þau hófu búskap í lítilli risíbúð við Laugateig og voru samhent og gestrisin. Á þessum árum var fjölmennt lið frænda og vina úr Vestmannaeyjum við nám í Stýrimannaskólanum í Reykjavik og fleiri skólum í höfuðborginni. Við vorum margir heimagangar á heimili Torfa og Hönnu og var öllum alltaf vel tekið á heimili þeirra og oft glatt á hjalla.
Árið 1955, eftir nærri 10 ára dvöl í Reykjavík, fluttust þau hjón til Vestmannaeyja, byggðu sér einbýlishús og bjuggu þar næstu 15 árin. Mér er minnisstætt hvað Torfi hlakkaði til að flytja aftur til Eyja. Þeir bræður, Torfi og Jón, nú verksmiðjustjóri í Grindavík, keyptu haustið 1955 lítinn bát, súðbyrtan, með svonefndu Breiðfirðingslagi, og nefndu bátinn Bryngeir VE 232. Hann mældist 10 rúmlestir og bar 12 tonn af fiski. Þeir bræður áttu Bryngeir í þrjú ár. Jón var formaður og fiskaði prýðilega. Á þeim árum var oft mikill fiskur á Eyjamiðum, ekki síst á handfæri. Jón hefur sagt mér að Torfi hefði sýnt af sér fádæma hreysti við færin þegar þeir lentu í miklum fiski. Eitt sinn fylltu þeir t.d. bátinn á einu reki við Hvítbjarnarboðann. Þetta var í sílisgöngu seint í mars og reru allir undir Sand en Jón hafði dreymt fyrir fiski við Hvítbjarnarboðann sem í draumnum var í einu hvítu broti. Hann hélt því þangað einskipa og komust strax í óðann fisk. Þeir voru þrír á bátnum, bræðurnir Jón og Torfi og frændi þeirra, Tóti á Kirkjubæ (Þórarinn Guðjónsson). Drekkfylltu þeir Bryngeir litla og komu tólf tonn af rígaþorski upp úr bátnum.
Eftir að Torfi og þeir bræður seldu Bryngeir og hættu í útgerð starfaði hann um tíma í lögreglunni í Eyjum. Hann fór þó aftur á sjóinn og var t.d á Ágústu með Óskari Gíslasyni, Hannesi lóðs með Jóhanni Pálssyni og fleiri bátum. Nokkru síðar aflaði Torfi sér fiskvinnsluréttinda og var verkstjóri í Hraðfrystistöð Vestmannaeyja frá 1962-1969. Árið 1969 fluttust þau hjón aftur til Reykjavíkur og áttu þá orðið fjögur börn. Í Reykjavík setti Torfi á stofn verktakafyrirtæki í byggingariðnaði og bjó þar til dauðadags.
Jóhanna Pétursdóttir andaðist árið 1983, en sambýliskona Torfa hin síðari ár var Erla Þorvarðardóttir frá Ólafshúsum í Eyjum.
Torfi Bryngeirsson varð bráðkvaddur hinn 16. júlí 1995 og var útför hans gerð frá Hallgrímskirkju 26. júlí að viðstöddu fjölmenni. Torfi hvílir við hlið Jóhönnu eiginkonu sinnar í Gufuneskirkjugarði. Blessuð sé minning þeirra hjóna.
Guðjón Ármann Eyjólfsson.


Björn Júlíusson
læknir
F. 1. okt. 1921. - D. 6. mars 1995.
Með fáeinum orðum og mynd langar mig að geyma minningu vinar míns, Björns Júlíussonar læknis frá Stafholti, í Sjómannadagsblaði Vestmannaeyja.
Hann var fæddur og uppalinn í Vestmannaeyjum, sonur hjónanna Júlíusar Jónssonar og fyrri konu hans, Sigurveigar Björnsdóttur. Björn var elstur sjö systkina sem öll voru þekktir Vestmannaeyingar. Þeir voru þrír bræðurnir: Hafsteinn útgerðarmaður og múrarameistari, sem stundaði sjó á yngri árum og var einn fjögurra sem komst af þegar Guðrún VE 63 fórst inn af Ellirey 23. febrúar 1953, og Garðar rafvirkjameistari. Þeir eru báðir látnir.
Á námsárum sínum var Björn á síldveiðum við Norðurland á elsta Reyni VE 15 með Páli Ingibergssyni og þeim bræðrum. Hann minntist oft þess tíma með mikilli ánægju. Eftir að Björn lauk læknanámi frá Háskóla Íslands vorið 1955 var hann læknir í Vestmannaeyjum til ársloka árið 1958, en á kandídatsárum sínum hafði hann unnið á Sjúkrahúsi Vestmannaeyja. Einar Guttormsson var þá sjúkrahúslæknir, en héraðslæknir var Baldur Johnsen. Á þessum árum var mikill fjöldi erlendra fiskiskipa á Eyjamiðum og leituðu þau oft til Vestmannaeyja með veika og slasaða sjómenn. Læknar í Eyjum vitjuðu einnig fjölda erlendra og íslenskra skipa sem lágu í vari á Víkinni, Ytri höfninni, eða undir Eiðinu. Oft var þetta við erfiðar aðstæður á Létti litla eða mótorbátum sem voru fengnir til að fara með lækni út í skipin ef mjög vont var í sjóinn. Í slæmum veðrum og haugasjó þurfti ákveðni og kjark ef taka varð sjúklinga frá borði þegar skipin komust ekki til hafnar. Af meðfæddri hógværð lét Björn ekki mikið yfir þessum læknisvitjunum sem var starfsskylda hans og Vestmannaeyjalækna, en í erlendum blöðum hafa þakklátir sjómenn vitnað um ágæta þjónustu læknanna og Sjúkrahúss Vestmannaeyja. Björn sagði mér að eitt sinn hefðu þeir orðið að spelka fársjúkann mann og brotinn við lestarlúgu sem var síðan hífð frá borði togarans yfir í Vestmannaeyjabát sem lagðist að honum.
Á læknisárum Björns í Vestmannaeyjum voru á vegum Stýrimannaskólans í Reykjavík haldin fjölmenn skipstjórnarnámskeið fyrir hið minna fiskimannapróf sem Páll Þorbjörnsson og Friðrik Ásmundsson, núverandi skólastjóri Stýrimannaskólans í Vestmannaeyjum, veittu forstöðu. Björn kenndi heilsufræði og slysahjálp á þessum námskeiðum og lagði sig þar fram eins og við allt sem hann gerði. Hann hafði gaman af þessari kennslu og samveru við unga sjómenn. Löngu síðar höfðu nemendur iðulega samband við hann beint af miðunum þegar þeir þurftu sem skipstjórnarmenn að sinna veikum og slösuðum skipverjum. Björn kenndi síðar um fjöldamörg ár við Hjúkrunarkvennaskólann og læknadeild Háskóla Íslands.
Í eldgosinu í Heimaey var Björn við læknisstörf úti í Eyjum veturinn 1973, en 23. janúar, nóttina sem eldgosið hófst, var hann í fremstu víglínu hjálpar- og aðstoðarfólks í Þorlákshöfn þegar Vestmannaeyjabátar komu þangað hlaðnir fólki um nóttina og snemma morguns. Alla tíð var hann mikill Eyjamaður.
Björn Júlíusson var mjög vel menntaður og fær læknir, en framar öðru var hann sérstaklega vandaður og hreinskiptinn maður, traustur félagi og vinur.
Hann var kvæntur Þórunni Kristjánsdóttur frá Brattlandi í Vestmannaeyjum. Hún lifir mann sinn og eignuðust þau tvö börn. Blessuð sé minnig hans.
Guðjón Ármann Eyjólfsson.


Brynjólfur Einarsson
F. 7. júní 1903 - D. 11. apríl 1996
Brynjólfur Einarsson bátasmiður var fæddur 7. júní 1903 en ólst upp á Jökuldal og í Vopnafirði til sjö ára aldurs. Foreldrar hans voru þau Guðný Benediktsdóttir úr Suðursveit og Einar Pálsson bóndi, frá Hofsnesi í Öræfum. Áttu þau fyrir sitt barnið hvort en saman átta. Þau settust að á Eskifirði 1910 þar sem Brynjólfur nam bátasmíðar hjá móðurbróður sínum, Auðbergi Benediktssyni, og hóf sjómennsku 14 ára gamall á árabát með Bjarna Marteinssyni.
Það átti fyrir honum að liggja að sækja sjó á opnum báti frá Papey og þaðan var jafnvel róið á hákarlamiðin djúpt úti af Austfjörðum. Hann gerðist háseti á línuveiðaranum Andey, var tvö sumur á kútter Helgu frá Akureyri. Löngu síðar týndist hún mannlaus í hafi þar sem hún var notuð til að ferja síldartunnur milli hafna og spunnust upp magnaðar furðusögur um það skip. Hann var á kútter Lovísu, fór þaðan á vélbáta, svo sem Vanadís, Má og Njál þar sem hann var einnig hafður að vélstjóra og tók upp úr því vélstjórnarréttindi (árið 1922). Hann er líklega sá síðasti af þeim sjómönnum af gamla Víkingi er kveður lífið, en Víkingur var fyrsti bátur Gísla frá Arnarhóli og félaga; seldur til Austurlands er sá nýi kom (1925)
Eitt sinn er hann var sendur frá Austfjörðum til Vestmannaeyja að sækja bátinn Snyg. Þá varð hann vitni að landburði af fiski. Varð honum þá að orði að nú skildi hann Þorstein frá Vattarnesi, af hverju hann hafði brugðið búi og flust til Eyjanna. Þar kom einnig að því að Brynjólfur pakkaði saman á Eskifirði, bæði með vélstjórnar-, skipstjórnarréttindi og bátasmíðar uppá vasann. Hann hóf vinnu við skipasmíðar hér í Vestmannaeyjum einmitt á þeim árum er þær urðu stóriðnaður í byggðinni. Allan smíðatíma Helga VE 33 var hann verkstjóri og yfirsmiður en Gunnar Marel var meistarinn. Engum vildi Brynjólfur frekar vinna með eða hjá en Gunnari Marel. Árið 1940 var hann á síldarvertíðinni á Helga VE. Voru þeir samskipa feðgarnir, Hálfdan Brynjar, að hefja sjómannsferilinn, og hann.
Árið 1942 hóf hann að teikna og smíða Helga Helgason, stærsta tréskip sem smíðað hefur verið á Íslandi. Sá bátur var í Eyjaflotanum fram yfir 1960 að hann var seldur norður.
Er sá tími kom að erfiði bátasmíðarinnar hentaði ekki rosknum manni gerðist Brynjólfur kyndari í Lifrarsamlagi Vestmannaeyja og var þar í átta ár. Eitt var það sem fylgdi Brynjólfi alla tíð en það var vísnagerð. Honum fannst vísurnar eiga aðeins við, „á einum stað og einu sinni“ en margar lifa enn í munni manna og fljúga við ýmis tækifæri.
Starfsferil sinn endaði hann sem rukkari hjá Bæjarsjóði Vestmannaeyja.
Brynjólfur kynntist konu sinni, Hrefnu Hálfdanardóttur, á Eskifirði og varð þeim tveggja sona auðið: Hálfdan Brynjar er fórst með Helga VE 333 á Faxaskeri 7. jan. 1950 og Gísli Hjálmar málarameistari sem býr á Brimhólabraut 15 hér í bæ.
Snorri í Betel.


Björgvin Magnússon
F. 26. jan. 1900 - D. 25. okt. 1995
Björgvin var fæddur 26. jan. árið 1900 í bænum Víkurgerði við Fáskrúðsfjörð. Þar bjuggu foreldrar hans, hjónin Málfríður Björnsdóttir og Magnús Þorsteinsson. Ungur að árum fór Björgvin að stunda róðra á sumrin þar eystra. Sautján ára fór hann fyrst á vertíð í Eyjum og flutti hingað börn og bú árið 1928.
Tuttugu vertíðir sótti Björgvin sjó samfleytt frá Eyjum, en varð þá að hætta sjósókn af heilsufarsástæðum. Hann var alltaf lagningarmaður á línu sem var vandasamt og vont verk. Hér réri hann hjá miklum sægörpum, formönnunum Guðjóni á Heiði og Hannesi á Hvoli, mikið góðir menn sagði Björgvin í blaðatali fyrir nokkrum árum. Þeim hefur trúlega hentað best að hafa mikið góða háseta.
Eftir að Björgvin hætti á sjó vann hann nokkur ár hjá Helga Benediktssyni og hjá Ársæli Sveinssyni í nokkur ár. „Þetta voru mikið góðir menn og gott að vera hjá þeim“ sagði Björgvin í nefndu blaðaviðtali. Síðar vann Björgvin í Hraðfrystistöðinni um tíma, en síðast hjá Ísfélaginu fram að gosi.
Björgvin var einstaklega jafnlyndur maður, átti kannski einhvern þátt í hversu hár varð aldur hans. Fremur fámáll en viðræðugóður ef eftir var sótt, lagði jafnan gott til mála. Skopskyn hans var í góðu lagi en gráglettni var fjarri honum.
Við Björgvin vorum nágrannar í nokkur ár og hittumst því oft og skiptumst á nokkrum orðum, ekki mörgum því Björgvin var ekki fyrir neinar hrókaræður um lítið efni. Hann var ekki í hópi þeirra sem ræddu um veður og aflabrögð undir Drífanda- eða Geirseyrargafli. Slíkir mannfundir settu sinn svip á umhverfið og voru partur af bæjarlífinu, en eru nú liðin tíð eins og fleira skemmtilegt.
Kona Björgvins var Petra Lúðvíksdóttir frá Fáskrúðsfirði. Hún andaðist 1961. Börn: Friðgeir trilluformaður, býr í Reykjavík, Lovísa, húsfreyja Vestmannaeyjum, látin, Jóhann, sjómaður og verkamaður Vestmannaeyjum, Birna, húsfreyja í Reykjavík, Helga, húsfreyja í Vestmannaeyjum (kjördóttir), Alfons, sonur Björgvins. látinn.
Björgvin dvaldist á Hraunbúðum síðustu árin og lét vel af vist þar. Hann andaðist 25. október 1995 sáttur við Guð sinn og samtíðarmenn.
Blessuð sé minning hans.
H.G.


Magnús Hlíðdal Magnússon
F. 11. júlí 1910 - D. 13. maí 1996
Magnús var fæddur í Hvammi í Eyjum. Foreldrar hans voru Magnús Þórðarson, þá kaupmaður, ættaður úr Fljótshlíð, og kona hans Margrét Bjarnadóttir frá Ásólfsskála undir Eyjafjöllum.
Þrjú voru þau alsystkinin. Elstur var Þórarinn Thorlacius, f. 1906, fórst 29. janúar 1940 með norsku flutningaskipi ásamt Guðmundi Eiríkssyni frá Dvergasteini og Haraldi Bjarnfreðssyni frá Efri-Steinsmýri í Meðallandi. Þá Magnús en yngst alsystkinanna var Anna Sigrid húsmóðir, f. 1913, d. 20. april 1991, gift Sigurði Gissurarsyni. Magnús ólst upp heima í Hvammi til fermingaraldurs en fór þá að vinna fyrir sér sem títt var um efnilega unglinga í þá daga.
Magnús tók vélstjórapróf árið 1941. Hann var vélstjóri hjá kunnum aflamönnum í Eyjum, á mb. Leó hjá Valda Guðjóns, mb. Ágústu með Guðjóni á Landamótum og m/b Ársæli hjá Björgvin í Viðey. Um tíma var hann vélstjóri í Hraðfrystihúsi Þórshafnar.
Magnús kvæntist árið 1932 Halldóru Halldórsdóttur. Þau bjuggu í Eyjum nokkur misseri en lengst af í Kópavogi og síðast í Mosfellsbæ.
Magnúsi er svo lýst að hann hafi verið léttur í lund, hlýr og viðræðugóður og smáglettinn. Þau hjón fögnaðu vel gestum og veittu af rausn. Frændgarður Magnúsar Hlíðdals er stór, hálfsystkin mörg en þeim hjónum varð tíu barna auðið og níu eru á lífi.
Sjómannadagsblaðið kveður mætan Eyjamann með virðingu og þökk og sendir vandamönnum samúðarkveðjur.


Þorgils Bjarnason
F. 9. sept. 1905 - D. 21. júní 1994
Þau leiðu mistök urðu við vinnslu síðasta Sjómannadagsblaðs að mynd með minningargrein um Þorgils Bjarnason féll út. Bætum við hér með úr því og biðjum aðstandendur velvirðingar.