Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1986/Hrakningar Tjalds VE 225

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Karl Guðmundsson:

Óskar Eyjólfsson
Kristján Jónasson
Helgi Bergvinsson
Ragnar Helgason
Hrakningar Tjalds VE 225 í febrúar 1941


Mótorbáturinn Tjaldur var 15 rúmlestir að stærð, smíðaður hér í Eyjum af Magnúsi Magnússyni skipasmið og knúinn 40 hestafla Seffle-vél. Vertíðina 1941 voru þessir skráðir á bátinn:
Óskar Eyjólfsson frá Laugardal, skipstjóri, 25 ára.
Kristján Jónasson frá Múla, vélstjóri, 38 ára.
Helgi Bergvinsson, háseti, 22 ára.
Ragnar Helgason, háseti, 25 ára.
Karl Guðmundsson, háseti, 18 ára.
Róið skyldi með línu og síðan net.
Aðfaranótt 6. febrúar þennan vetur var kallað til róðurs. Veður var stillt eftir heldur rysjótta tíð frá áramótum. Róðrartími var kl. 3 eftir miðnótt. Þegar róðrarmerki var gefið var haldið vestur á Selvogsbanka. Eftir að línan hafði verið lögð, sem mun hafa verið um 8-leytið um morguninn, var farið að gæta suðaustan kalda. Þess vegna var látið liggja heldur stutt og línudráttur hafinn eftir um það bil klukkustund. Sæmilega gekk að draga línuna þó að alltaf bætti heldur í vindinn. Línudrættinum mhafa verið lokið milli kl. 2 og 3 síðdegis og vindur þá orðinn hvass af suðaustan.
Afli var lítill, enda ekki gott línusjóveður. Var nú gengið í að ganga frá á dekkinu, línustamparnir m.a. settir í lestina, og er því var lokið var lagt af stað heimleiðis.
Segir nú ekki af ferðalaginu fyrr en við munum hafa verið komnir langleiðina austur undir Þrídranga að við fáum brotsjó og dettur báturinn harkalega. Vindinn hafði alltaf hert og um þetta leyti, líklega milli kl. 7 og 8, var komið öskurok.
Skömmu síðar kom vélstjórinn upp úr vélarrúminu og kvað leka kominn að bátnum og væri vélin farin að „ausa upp á sig". Ég, sem hafði verið á vakt, var nú sendur fram í að ræsa þá Helga og Ragnar. Var gengið í það að dæla með dekkdælunum, en þær voru tvær, önnur ventladæla framan við vélarrúmið en hin stokkdæla í bakborðsgangi. Litlu síðar stöðvaðist vélin vegna þess að mikill sjór var kominn í vélarrúmið. Fóru þá þeir Óskar og Helgi fram í lúkar að leita að lekastað. Þannig háttaði til í lúkarnum að í hvorri síðu voru tvær kojur og aftan við þilið aðrar tvær, svokallaðar þverkojur. í gólfi var lúga og er hún var opnuð kom í ljós að mikill sjóstrókur streymdi upp milli planka stjórn-borðs megin. Ekki var auðvelt að komast að lekastaðnum vegna þverkojanna fyrrnefndu. Þeim Óskari og Helga tókst þó með handafli einu að rífa frá kojustakkinn á neðri kojunni, svo og gólfborðin, enda heljarmenni að burðum, og komust að lekanum. Varð þeim það fyrir að þeir tóku vattsæng úr kojunni minni og gátu troðið í rifuna og var síðan neglt yfir. Við þetta þéttist rifan að mestu leyti. Var nú haldið áfram að dæla úr bátnum, sem rak fyrir sjó og vindi, og gátum við fimm verið verið við það verk.
Er komið var langt fram á nótt hafði okkur tekist að miklu leyti að dæla úr bátnum svo að hægt var að skiptast á einn og einn í einu við að hafa við lekanum, enda hafði vind lægt en enn þá var mikill sjór.
Okkur hafði nú tekist að mestu að stöðva Iekann, en um tíma mun sjór hafa verið kominn upp á miðja vél, og hefði báturinn þá ekki átt langt í að sökkva. Við vorum nú orðnir þreyttir og höfðum mikla þörf fyrir einhverja næringu. Fóru því allir, að undanskildum þeim sem átti dæluvakt, fram í og skyldi nú lagað kaffi, ketilkaffi.
Mér þykir rétt að lýsa í stuttu máli þeim aðbúnaði — og jafnframt öryggisleysi — sem sjómenn bjuggu við á þessum árum, en bátafloti Eyjamanna var þá á bilinu frá 12-35 rúmlestir að stærð. Ekki var matsveinn á neinum bát, heldur lifðu menn við skrínukost. Voru menn með svokallaða bitakassa, en þeir munu hafa verið sem næst 40x20x20 sm. Mjög algengt var að í þeim væru fyrir sjóferðina einn kjötbiti, peli af mjólk, brauð og oft eitt til tvö egg. Oftast mun hafa verið orðið framorðið í þeim er leið á róðurinn. A þessum árum voru talstöðvar komnar í sárafáa báta, en það stóð þó til bóta, og á næstu árum fjölgaði ört þeim bátum sem höfðu talstöðvar. Ekki var talstöð í Tjaldi. Gúmmíbátar fóru ekki að koma í bátana fyrr en rúmum áratug síðar.
Þegar við komum fram í lúkar var brúsinn með vatnsbirgðirnar, sem tók um það bil 25-30 lítra, kominn á hliðina og allt úr honum. Nú voru góð ráð dýr. Þannig var að sumar af þeim vélum, sem voru í bátum á þessum árum, voru keyrðar á vatni með olíunni og var lítill vatnsgeymir í vélarrúminu. Kristján vélstjóri, sem var mikill kaffimaður, fór nú aftur í vélarrúm og kom til baka með ketilinn fullan af vatni. Ekki mun hafa verið frítt við að aðeins sæist olíubrák ofan á vatninu, en kaffi var lagaðog drukkið með góðri lyst.
Alla nóttina hafði okkur rekið vestur og munum við hafa verið komnir vestur í Háaleitisforir er við sáum til togara á veiðum. Var nú sett upp neyðarmerki, þjóðfáninn í frammastur, og skömmu síðar hífði hann upp og kom til okkar.
Þetta var enskur togari. Lagðist hann til kuls við okkur og lét belg með línu reka til okkar. Drógum við nú inn línuna og síðan togvírsendann og festum. Síðan setti togarinn á ferð í átt til Eyja.
Þegar við vorum við togarann urðum við varir við flugvél sem flaug hringi yfir okkur meðan verið var að ganga frá festum í togarann. Fréttist síðar að þetta var flugvélin Haförn frá Flugfélagi Íslands, og mun það vera í fyrsta sinn sem flugvél var fengin til að leita að bát.
Togarinn hélt nú með fullri ferð í átt til Eyja og við ferðina lyftist báturinn upp að framan og var þá hægt að þétta rifuna betur og sem næst þurrausa bátinn. Þá var gengið í það að hreinsa upp sveifarhús vélarinnar og nokkru síðar var hægt að setja í gang.
Þann 6. febrúar hafði varðskipið Ægir komið austan frá Seyðisfirði með flutningaskip. vélarvana, í togi og lagst með það undir Eiði þar sem kominn var suðaustan stormur. Mun þess hafa verið farið á leit við varðskipið að það færi til leitar að bátnum, en varðskipsmenn ekki talið fært að skilja við skipið vélarvana eins og veður var. Þeir fóru þó strax til leitar er veðurlægði með morgni. Sjálfsagt hefir togarinn haft samband við Ægi og mættum við honum um 25 sm. frá Eyjum samkvæmt dagbók Ægis. Sleppti þá togarinn okkur og þar sem vélin var nú í gangi gátum við keyrt og fylgdi Ægir okkur að Eyjum og þangað komum við um kl. 20. Hafði róðurinn þá tekið tæpa tvo sólarhringa.
Báturinn var þá strax tekinn í dráttarbraut og kom í ljós að annar planki frá kjöl stjórnborðs megin hafði sprungið frá í endann og neðri kantur spennst frá á u.þ.b. tveggja metra bili. Var það samdóma álit allra sem sáu að undravert væri að báturinn skyldi hafa haldist á floti.
Lýkur nú frásögn af þessum eftirminnilega róðri sem farinn var fyrir 45 árum.
Karl Guðmundsson

Tjaldur VE 255
Þrídrangar
Bitakassi