Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1962/ Sipaviðgerðir h.f., Vestmannaeyjum

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Skipaviðgerðir h. f., Vestmannaeyjum


Fyrirtæki er hér í bænum, sem Skipaviðgerðir h.f. nefnist. Stofnendur þess eru Bárður Auðunsson, Eggert Ólafsson og Ólafur Jónsson bátasmiðir. — Skipaviðgerðir h.f. er stofnað 1958 og hefur frá þeim tíma ávallt haft meir en nóg verkefni, það mikil að stundum hafa unnið þar 7 til 9 menn til þess að geta levst af hendi þau verkefni, sem æskt var eftir. Hafa þau verið viðgerðir báta og nýsmíðar, sem hlotið hafa almennings lof fyrir vandvirkni og góða vinnu. Þá gullvægu eiginleika sannar bezt síðasta nýsmíði fyrirtækisins, mb Haraldur SF 70. Hann var fullsmíðaður um mánaðamótin apríl/maí, sérlega fagur bátur og vandaður að öllum frágangi. Hann hefur 230 Hk Rolls Royce vél og er 36 smál. að stærð og þykir prýðilegasti bátur í sjó að leggja. Það er nú orðið nokkuð langt síðan nýjum bát hefur verið hleypt hér af stokkunum eða líklega ekki síðan 1947, að þeir voru smíðaðir hér Jón Stefánsson og Blátindur.

Síðasta nýsmíði skipaviðgerða hf., m/b Haraldur SF 70

Næsta verkefni Skipaviðgerða h.f. verður 120 smál. bátur fyrir hinn mikla aflamann Helga Bergvinsson, auk fleiri nýsmíða og viðgerða. Er óhætt að fullyrða að Skipaviðgerðir h.f. geri sitt til þess að auka hróður skipasmíða í Eyjum og er það vel farið. Er fyrirsjáanlegt, að ekki mun þurfa minni vinnukraft í fyrirtækinu á næstu tímum en verið hefur undanfarið, sem ætti að skapa nokkra atvinnu í bænum innan þessarar stéttar manna. Er gott til þess að vita, að menn ráðast enn í það að stofna til bátasmiða hér í bæ, þótt nú þyki mörgum, sjálfsagt að flytja inn frá útlöndum hverja fleytu. Hafa íslenzkar bátasmíðar sannað fyrr og svo mun enn verða, að þær eru fullkomlega samkeppnisfærar erlendum smíðum á sama sviði.
Persónulega óska ég hinu unga fyrirtæki allgóðs í framtíðinni og að frami þeirra aukist með hverri nýsmíði. Það væri einnig Eyjunum ekki svo lítill vegsemdarauki á sviði iðnaðar, sem Eyjamenn ættu að efla sem bezt að framgangi.
A. A. G.

Menn þessir allir við smíði m/b Haraldar: Bárður Auðunsson, Ólafur Jónsson, Ólafur Ólafsson, Jón Ögmundsson, Eggert Ólafsson, Þorgils Bjarnason, Gústav Sigjónsson og Guðni Kristófersson.- Ljósm. Sigurgeir Jónasson.
Næsta verkefni Sipaviðgerða h.f.- 120 smál. bátur fyrir Helga Bergvinsson Skipstjóra.