Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1954/ Hugleiðingar um heilbrigðismál sjómanna

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit


BALDUR JOHNSEN D.P.H.



Hugleiðingar um heilbrigðismál sjómanna


Því verður ekki neitað, að sjómenn búa við, að sumu leyti, allt önnur lífsskilyrði en fólk í landi, og ber margt til þess, sem hverjum manni má vera ljóst, og því óþarft upp að telja.
Afleiðingar þessarar sérstöðu eru margvíslegar, einkum, að því er snertir öryggis- og heilbrigðismálin, og þó verður það með ýmsu móti, eftir því hvaða grein sjómennskunnar er um að ræða.
Hér kemur til greina mataræði, svefn og hvíld, stundun persónulegra heilbrigðishátta, hreinlæti o.s.frv.
Á síðari tímum hefir verið kappkostað að bæta aðbúnað og aðstöðu sjómanna í skipunum, en enn vantar nokkuð á, að vel sé frá öllu gengið í þeim efnum.

Saga.


Baráttan fyrir hollustuháttum á sjónum á sér ekki mjög langa sögu, því að lengi vel voru þessi mál látin afskiptalaus, enda lítilla úrræða völ, einkum á löngum sjóferðum.
Erfiðast var um mataræðið, vatnið og loftræstinguna eftir að skipin stækkuðu og sjóferðir lengdust.
Hvað mataræðið snerti, var aðalvandinn að fá geymsluhæfan mat, sem fullnægði þörfunum. Stundum var þessi vandi leystur með því að hafa lifandi búpening með um borð, fóðra hann þar og slátra eftir þörfum. Sjófarendur gerðu sér lengi vel ekki grein fyrir nauðsyn á nýju grænmeti eða ávöxtum. Þess vegna hrundu menn niður úr skyrbjúg þegar sjóferðir drógust á langinn og var ekki óalgengt, að hver einasti maður um borð veiktist af þessum sjúkdómi, sem kallaður var svipa sjófarenda á þeim dögum, og aðeins helmingur skipshafnar kæmist lifandi á áfangastað. Sögur Jóns índíafara bera ástandi og aðbúnaði á sjónum, um hans daga, ljóst vitni. Hinir miklu norrænu sjófarendur fornaldar, víkingar og kaupmenn, virðast hafa komizt furðanlega af á hinum smáu skipum sínum, þó oft hefðu þeir útivist langa. Þeir þekktu þýðingu grænmetis t.d. skarfakáls, sem þeir sóttu í eyjar og útsker, þegar færi gafst, en þess utan var fæði þeirra langt frá því að vera sneytt vítamínum, en þar mun hafa verið um að ræða harðfisk, vindþurrkað kjöt, ost og óleikju, það er einskonar súrmjólk, hálfsíað skyr, sem geymdist vel, og þekkist enn á Vestfjörðum. Síðast en ekki sízt má nefna laukinn, sem geymdist vel og var hinn bezti C-vítamín-gjafi.
Seinna meir týndist þessi forni fróðleikur um þýðingu grænmetis fyrir sjófarendur, til varnar skyrbjúgs, og þegar spánskir sigla á Ameríku og Englendingar o.fl. tóku að stunda langferðir til Suður- og Austurlanda, þá var mest notaður saltur matur, gamall, gjörsneyddur vítamínum og var þá ekki von að vel færi.
Það var fyrst við lok 18. aldarinnar, sem skyrbjúgnum var útrýmt, meðal brezkra sjófarenda, með því að gefa öllum hásetum ákveðinn skammt á dag af sítrónusafa.
Það var herlæknirinn James Lind, er fyrst bar þess tillögu fram árið 1747, en það tók brezku flotastjórnina 50 ár að velta fyrir sér, hvort taka skyldi hana upp eða ekki, en þó fór svo að lokum, enda hafði það verið staðfest í nýlendustyrjöldum aldarinnar, af málsmetandi mönnum, að skyrbjúgurinn tæki fleiri mannslíf og gjörði fleiri menn örkumla en samanlagðir byssukjaftar óvinanna. Þetta var áhrifamesta heilsuverndarráðstöfun í sögu sjófarenda fyrr og síðar.

Loftræstingin.


Loftræsting í skipunum var annað heilsufarsatriði mjög erfitt viðfangs. Það var prestur nokkur Stefán Hales að nafni í Teddington í Englandi (1677 — 1761) sem fann ráð til að draga hið fúla loft upp úr djúpum dýflissanna og hinna stóru hafskipa, sem þá voru farin að tíðkast, þar sem loftið niður í fjórða gólfi (t.d.) hafði enga möguleika til að endurnýjast með því að vindaugu voru þá ekki möguleg svo djúpt í skipunum. Útbúnaður þessi var pípulagaður strompur, trektmyndaður í annan endann, er hægt var að snúa eftir vindátt, eftir því hvort átti að draga loft eða blása lofti niður. Prestur þessi í Teddington grúskaði og gerði tilraunir í lífeðlisfræði og heilbrigðisfræði, þegar annir preststarfanna leyfðu.
Honum var einkum umhugað um að bæta aðstöðu og aðbúnað þeirra, sem verst voru settir. En þá var sjómennskan á hinum löngu sjóferðum talin lítið betri en fangelsisvist. Þessi nýi loftræstingarútbúnaður var fyrst settur í New Gate-fangelsið í Englandi og olli þar skjótum umskiptum í heilsufari fanga, því að dánartalan féll úr 8 á mánuði í 2 á mánuði á skömmum tíma, svo að augljóst er hversu óskaplegt ástandið hefur verið í þessum efnum.
Skömmu síðar var svipaður útbúnaður settur í skip eftir nánari fyrirsögn Samuels Sutton (1745), og er búið við það tæki enn þann dag í dag — loftventlana.
Hér hefur verið drepið á þá erfiðleika, sem sjófarendur áttu við að stríða áður fyrr. Það hafa stundum verið kallaðir „hinir góðu dagar“. Ég held, að enginn óski þess að fá að lifa þá gömlu daga upp aftur.

Smærri skip og bátar.


Öll þessi vandamál eru líka enn til staðar hjá sjómönnum bátaflotans, þótt í smærri stíl sé.
Menn búa þröngt í káetunni, og er því mjög þýðingarmikið, að öllu sé þar vel fyrir komið, til að auðvelt sé að hreinsa til, hér er hreinlætið höfuðatriði en víða vantar mikið á, að þessi þrifnaðaraðstaða sé fyrir hendi svo og aðstaða til þvotta fyrir sjómenn.
Þrengslin hafa í för með sér mikla smithættu. Ef einhver skipverja er haldinn af smitandi sjúkdómi er hætta á skjótri útbreiðslu. Óþrifakvillar eins og lús eða kláði geta gert manni lífið súrt, svo ekki sé meira sagt, en alvarlegri sjúkdómar eins og lungnaberklar hafa einnig góð útbreiðsluskilyrði, ef ekki er höfð gát á öllu.
Á þrem undanförnum vertíðum hér í Eyjum hafa fundizt smitandi berklasjúklingar í skiprúmi og verið búnir að smita nokkuð frá sér, áður en þeir fundust. Allt hafa þetta verið aðkomnir vermenn, sem hafa sloppið við allt eftirlit heilsuverndarstöðvarinnar hér. Það ber því brýna nauðsyn til, að formenn eða útgerðarmenn krefjist læknisvottorðs með röntgenskyggningu af mönnum, sem þeir ráða til sín í skiprúm, þegar í byrjun vertíðar. Með því mætti koma í veg fyrir margvísleg vandræði, sem annars kynnu af veikindum að hljótast, bæði fyrir þann sjúka sjálfan, svo og fyrir aðra um borð og raunar afkomu útgerðarinnar þá vertíð. Margt annað væri vert að taka til athugunar viðvíkjandi heilbrigðis- og öryggismálum sjómanna.
SUNDIÐ verður þar ofarlega á baugi, og eigi nægilega vel búið að þeirri íþrótt hér í Eyjum fyrr en sundhöll hefur risið af grunni, sem starfrækt verði allt árið, eins og ég ræddi um á síðasta sjómannadegi og nú hefur fengið byr undir báða vængi. Það ætti að vera eitt aðaláhugamál sjómanna hér og sjómannadagsins að vinna að skjótum framgangi þess máls.
Annað mjög þýðingarmikið atriði er mataræði sjómanna. Ekki má í því sambandi loka augunum fyrir því, að mikið veltur á hæfni matsveinsins um borð, að hann hafi fengið nokkra undirstöðumenntun og þjálfun í fagi sínu.
Lítill ískassi getur og gert ótrúlega mikið gagn t.d. við geymslu mjólkur og grænmetis o.fl.

Eftirmáli.


Hér með verður þessum hugleiðingum um heilbrigðismál sjómanna lokið að sinni. Þær eru skrásettar um borð í hinu ágæta skipi Brúarfossi á hafinu milli Íslands og Skotlands. Veðrið er eins gott og frekast verður á kosið. Fýllinn fylgir enn skipinu, en skúmurinn er horfinn.
Við eigum það að þakka einu þýðingarmesta öryggistæki sjómanna í dag, að við komumst um borð í Brúarfoss í þetta skiptið. Ég á þar við ratsjána. Þokan var svo svört við Eyjar á mánudagsmorguninn, þegar Brúarfoss, með hjálp ratsjárinnar, þræddi leiðina inn á flóann, að varla sá handa skil. Við sigldum á Létti út úr hafnarmynninu, út á venjulega skipalegu beint inn í þokuna, sem brátt fal alla sýn til lands. Við sigldum eftir eimpípublæstri skipsins, sem þó virtist koma úr öllum áttum, vegna bergmáls fjallanna í kring. En Ólafur skipstjóri var viss á stefnunni þrátt fyrir afvegaleiðandi uppástungur farþeganna. Von bráðar steig skipið eins og heljarstór undraskepna fram úr þokunni og skipshliðin reis eins og veggur úr hafinu.
Fólkið var „handlangað“ um borð og brátt var Léttir enn horfinn í þokuna út á miðjum flóa.
Úr stjórnklefa skipsins var þó fylgzt með ferðum bátsins, og menn voru tilbúnir að gefa honum kall, ef út af bæri. En þess þurfti ekki með. Fyrst tók báturinn stefnuna beint á Urðavitann, en beygði brátt og tók stefnuna beint á hafnarmynnið og Ólafur hafði sjálfur ratsjáraugu. Þetta leiðir hugann að gömlum orðskvið: „Margt býr í þokunni“.
En nú getur ekkert falizt í þokunni eða myrkrinu lengur, svo máttugur er mannsandinn, og hver vill fullyrða, að lengra verði ekki komizt?

Brúarfossi, 18. maí 1954.
B.Johnsen.