Sittu ekki fyrir glugganum mínum

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit


Sittu ekki fyrir glugganum mínum.


Einhverju sinni var Guðbjörg Daníelsdóttir, móðir þeirra Guðríðar á Steinsstöðum og Ólafs Magnússonar í Nýborg, á leið heim til sín innan af Eiði. Hafði hún verið inni við Almenning, því safnað hafði verið þennan dag til þess að rýja fé það, sem var á Heimalandi. Lagði hún leið sína upp Flatir og suður með Brimhólum. Þegar hún var komin upp að Brimhólum var hún orðin þreytt og móð af göngunni, enda hafði hún nokkra byrði og mestöll leiðin á fótinn. Settist hún því undir klett, sem er efst á Brimhólunum, til þess að hvílast. Þegar hún hafði setið þarna um stund, heyrir hún að sagt er bak við sig: „Sittu ekki fyrir glugganum mínum.“ Stóð hún þegar upp til þess að aðgæta, hvort nokkur væri bak við sig, en hún sá engan mann. Færði hún sig síðan um set, því að hún hélt, að huldukona, sem heima ætti í klettinum, hefði talað til sín.
(Sögn Jóns Jónssonar í Brautarholti)