Sigurður Stefánsson (verkalýðsleiðtogi)

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Björgvin Sigurður Stefánsson.

Björgvin Sigurður Stefánsson frá Byggðarholti í Fáskrúðsfirði, sjómaður, verkalýðsleiðtogi fæddist 26. janúar 1915 og lést 23. september 1967.
Foreldrar hans voru Stefán Júlíus Jónsson sjómaður, verkamaður, 1. júlí 1887, d. 3. nóvember 1953, og Ólafía Björg Jónsdóttir, síðar húsfreyja á Gullbringu í Búðahreppi, f. 2. desember 1892, d. 25. júní 1964.
Fóstri Sigurðar var Guðjón Bjarnason frá Ánastöðum í Breiðdal, útvegsbóndi á Gullbringu, f. 15. mars 1892, d. 25. apríl 1979.

Sigurður var með móður sinni og Guðjóni fóstra sínum á Gullbringu í Búðahreppi í æsku.
Hann fór í atvinnuleit til Vestmannaeyja sextán ára gamall árið 1932, réðst beitningamaður á Litla-Glað hjá Magnúsi á Hrafnabjörgum. Síðar var hann með Guðna Grímssyni á m.b. Maggý, alls 9 vertíðir.
Hann tók hið minna fiskimannapróf í ársbyrjun 1943.
Þá var Sigurður á Eyjatogurunum 1947-1953.
Sigurður átti gildan þátt í verkalýðsbaráttu.
Árið 1943 var hann kosinn formaður Sjómannafélagsins Jötuns. Því embætti gegndi hann í 25 ár eða til æviloka.
Hann var skrifstofustjóri verkalýðsfélaganna í Eyjum 1956-1959, en fór þó á síldveiðar á sumrin sum árin.
Árið 1959 réðst Sigurður starfsmaður í Netagerð Ingólfs og vann þar síðan lengst af, en fór stundum á síldveiðar.
Sigurður hafði sérstakan áhuga á menntun sjómanna, þjálfun og fræðslu og skrifaði greinar um þau efni.
Hann vildi fjölga sjómannaskólum og að þeir yrðu a.m.k. tveir á landsbyggðinni og þá annar í Eyjum, þar sem kennt yrði skipstjóra- og vélstjóraefnum.
Sigurður var í stjórn Alþýðusambands Íslands frá 1942-1948 og frá 1950 og síðan til æviloka. Ennfremur var hann fulltrúi Jötuns á öllum þingum A.S.Í. frá 1944, nema árið 1948.
Árið 1959 var Sigurður skipaður til að vera í sjó- og verslunardómi í Vestmannaeyjum.
Hann var bæjarfulltrúi 1946-1950 og aftur 1954 og síðan, alls 17 ár. Hann átti sæti í bæjarráði frá 1954 og mörgum nefndum á vegum bæjarstjórnar.
Sigurgeir Kristjánsson fyrrv. forseti bæjarstjórnar, mælti svo m.a. á fundi í bæjarstjórn 3. okt. 1967:
„Með Sigurði er horfinn af sjónarsviðinu einn af forystumönnum bæjarfélagsins, maður sem barðist fyrir sínum hugsjónamálum og var heill og óskiptur í hverju máli, málafylgjumaður og stundum harðskeyttur, en ætíð hreinskiptinn. Hann var mikill samningamaður, enda reyndi oft á það í verkalýðsátökum, og einnig góður í samstarfi, og vil ég persónulega þakka honum fyrir það samstarf, sem við áttum saman. Ég reyndi hann að drengskap og velvilja í þágu þeirra málefna, sem honum var trúað fyrir.“
Þau Ragna giftu sig 1943, eignuðust tvö börn, en það síðara fæddist andvana.
Þau bjuggu í fyrstu á Löndum, síðan á Vestmannabraut 49, Heiðarvegi 49 og Heiðarvegi 58.
Sigurður lést 1967 og Ragna 1979.

I. Kona Sigurðar, (9. október 1943), var Ragna Vilhjálmsdóttir frá Litla-Gerði, húsfreyja, f. 3. febrúar 1916, d. 3. desember 1979.
Börn þeirra:
1. Hrafnhildur Sigurðardóttir húsfreyja, verslunarmaður, skrifstofumaður, f. 12. október 1944 á Löndum.
2. Andvana drengur, f. 17. október 1949 á Vestmannabraut 49.


Heimildir


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.