Saga Vestmannaeyja II./ III. Atvinnuvegir, 2. hluti, framhald 2

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit




Fuglaveiðar og eggjatekja.
(2. hluti, lok)


Lundabyggðir nefnast staðirnir, þar sem lundinn hefst við og varpfuglinn, holulundinn, byggir hreiður sín. Þekkist lundabyggðin fljótt af umrótinu og moldkastinu á vorin, þegar lundinn fer að grafa sér holur og dytta að þeim gömlu. Þótti mönnum stundum lundinn spilla högum og slægjum í úteyjum, en fljótt grær upp aftur eftir lundann, og grasið er ákaflega kjarnmikið inni í lundabyggðinni. Talið er, að lundinn verpi eigi fyrr en hann er 7 ára. Hreiðurlundinn, holulundinn, byggðarlundinn, heldur sig inni í holu sinni milli þess að hann fer ferða sinna beint út á sjóinn, til þess að sækja æti, síli, handa sér og unganum, sílislundi. Hann ber sílin, smá ýsu- eða lýsuseiði, í nefinu og raðar þeim þar oft mörgum saman. Geldfuglinn, ungi lundinn, dreifir sér um byggðina, nef og snasir, og situr á brúnum, brúnalundi. Lundinn er talinn alorpinn um 6 vikur af sumri.
Áður er skýrt frá takmörkun þeirri, er gerð var á netjaveiðinni 1858, og skömmu síðar var hún afnumin með öllu. Samþykktir um veiðitakmarkanir gerði meiri hluti bænda (30 alls) 1889, til þess að koma í veg fyrir, að lundastofninn eyddist um of. Samkvæmt 1. grein þessarar samþykktar mátti eigi byrja lundaveiði neins konar fyrr en fullar 10 vikur af sumri, og skyldi veiði hætt eigi síðar en 14 vikur af sumri. Mátti eigi heldur veiða lunda sóla á milli virka daga og eigi á helgum dögum. 2. gr. hljóðaði um, að lundi skyldi aðeins veiddur með háf, en alls eigi með greflum eða annars konar veiðiaðferð. Pysju mátti eigi veiða hvorki á Heimalandi né í úteyjum, og hvergi annars staðar en í Almenningsskeri og í fýlabyggð með samþykkt sameignarmanna. Samþykkt þessi, er sýslumaður og amtið mældu mjög með, fékk þó ekki staðfestingu stjórnarinnar, með því að svo leit stjórnin á, sbr. landsh.br. 20. nóv. 1889, að meiri hluti bænda hefði eigi heimild til að binda minni hlutann við slíkar ákvarðanir, né til að gera þeim, er hafi lögleg byggingarbréf, skylt að hlíta viðbótum eða breytingum á skilmálum þeim, sem þeir hafi undirgengizt, þar sem þeir hafi fullan rétt á að halda sér til byggingarbréfa sinna. Sé því eigi annað fyrir hendi en að leita samkomulags í þessu efni við alla aðilja, með því að samþykktin miði til stórra bóta, sem og að gæta þessara takmarkana í nýjum byggingarbréfum.¹) Þarna gætir sama skilnings og í framannefndu bréfi dómsmálaráðuneytisins 12. maí 1869. Árið 1894 voru á Alþingi samin lög um heimild fyrir sýslunefndina í Vestmannaeyjum til að gera samþykktir um fuglaveiði. Samkvæmt þeim þurfti samþykki 3/4 fundarmanna á löglegum fundi, er sýslunefnd boðaði til, — fundargengir voru allir jarðarábúendur og kjósendur til Alþingis, — til þess að koma af stað fuglaveiðisamþykkt undir staðfestingu amtmanns, og skyldi samþykktin síðar birt í B-deild stjórnartíðindanna. Var nú eigi lengi að bíða löglegrar samþykktar. Fyrsta fuglaveiðisamþykktin er frá 16. júlí 1895.²) Var samkvæmt henni lundi alfriðaður, þ.e.a.s. í þeim veiðieyjum, er venja var að liggja við í, að meðtöldum Yztakletti, Miðkletti og Heimakletti, allan ársins hring, nema tímabilið frá því 11 vikur af sumri og til þess er 15 vikur voru af sumri, og bönnuð önnur veiðitæki en háfur. Undanskildar nefndum friðunarákvæðum voru eftirtaldar eyjar: Smáeyjar, Brandur, Geldungur, Hellisey og Súlnasker. Með lögum 27. júní 1909³) var ákveðið að friðunartími lunda megi eigi vera styttri en 6 vikur á tímabilinu frá 10. maí til 10. ágúst. Breyting á fuglaveiðisamþykktinni var gerð með samþykkt frá 3. júlí 1918.⁴) Var þá leyfð veiði á Heimalandi og veiðitíminn ákveðinn frá því 11 vikur af sumri og til 16 vikur af sumri, endurnýjað með seinni samþykktum, og sami tími ákveðinn fyrir úteyjar.⁵) — Landmenn réðu sig fyrrum til lundaveiða fram að slætti, og stúlkur af landi til fuglareitslu. Kaup greitt í fugli.

ctr


Veiðimenn í Eldey. Frá vinstri: Þórarinn Thorlacius Magnússon, Hvammi, Ásbjörn Þórðarson, Brekastíg, Pálmi Ingimundarson, Götu, Stefán Valdason, Sandgerði, Kristinn Friðriksson, Látrum, Óskar Valdason, Sandgerði, Benóný Friðriksson, Gröf, og fyrir framan hann Ásmundur Steinsson, Ingólfshvoli. Ljósm. Jónas Sigurðsson frá Skuld árið 1936. (Mynd úr endurútgáfu).



ctr


Þessi mynd er tekin á Bœjarbryggjunni í kringum 1926- 1927 og sýnir súlu úr Eldey. Á myndinni má greina fremstan Gísla Fr. Johnsen. Jórunn Magnúsdóttir er konan lengst t.v. á myndinni. Strákurinn til hœgri er Gísli Jóhannsson frá Hlíðarhúsi. Í baksýn má sjá að því er talið er m.a. Árna Valdason (Gölla Valda), sem snýr baki í myndavélina. (Ljósm. Friðrik Jesson). (Mynd úr endurútgáfu).

(Athugasemd frá Heimaslóð: Maðurinn fremst, sem snýr vanga að myndavélinni, er Jónas Þorbergur Guðmundsson, kenndur við Vilborgarstaði, (Nonni á Vilborgarstöðum). Sonur Jónasar Þorbergs, Þorgils Jónasson fullyrðir þetta og hefur fyrir sér skýringar föður síns).

ctr


Veiðimenn við Bjarnareyjarkofann. Talið frá vinstri: Björgvin Pálsson frá Brekkuhúsi, Jóel Eyjólfsson, Sœlundi, Guðjón Tómasson, Gerði, Sigurður Helgason, Götu, Jónas Sigurðsson, Skuld, Þorgeir Jóelsson, Sœlundi, Sigurgeir Jónsson, Suðurgarði og Haraldur Eiríksson, Vegamótum. Þeir Björgvin, Sigurður og Sigurgeir hröpuðu allir í Vestmannaeyjum. (Mynd úr endurútgáfu).



Lengi hefir það tíðkazt í Vestmannaeyjum, að menn lægju við um veiðitímann, fuglatímann, lundatímann, í úteyjum, til þess að veiða lunda, til lunda. Fyrrum höfðust veiðimennirnir, lundamennirnir, við í hellisskútum og bólum í eyjunum. Voru það kölluð leguból. Munu þau hafa verið kölluð svo frá fornu. Eigi finnst þetta merkilega heiti í orðabókum. Svo langt sem vitað er aftur í tímann og allt þar til um aldamótin síðustu notuðust menn við legubólin, er legið var við í úteyjum til veiðiskapar, lundaveiði, legið við ból, eins er stundaður var heyskapur í úteyjum, legið yfir heyi. Um aldamótin hættu flestir að liggja við ból, eins og sagt var. Frá nefndum tíma tóku menn að koma sér upp veiðikofum eða lágu í tjöldum. Nú er búið að jafna veiðikofana við jörðu, og í þeirra stað hafa verið reist veiðihús eða skýli úr timbri, járnvarin og þiljuð í hólf og gólf, svo að nú má segja, að hér sé öldin önnur. Ekki hefir þetta samt lyft undir afköstin.
Í legubólunum bjuggu menn um sig eftir föngum. Rúmstæði höfðu menn að vísu engin, heldur lágu á gólfinu á heyi eða heydýnu og höfðu yfir sér brekán. Víða var hlaðið að til skjóls, en á daginn var oft tekið af fyrirhleðslunni til þess að fá birtu inn í bólið. Bólin voru allmisjöfn, bezt þar sem einnig voru heyból. Að jafnaði voru legubólin allhlý og þurr, að sögn þeirra, er legið hafa við ból, en út af þessu vildi samt bregða, ef vætutíð var mikil. Undir bríkum og í afhellum við aðalbólin voru reistar hlóðir til eldamennsku eða til að hita kaffi, en annars tóku veiðimenn lítt upp eld, gáfu sér eigi tíma til þess, en eigi var siður, að menn héldu ráðskonur eða bústýrur í eyjunum, sem í verbúðum. Kaffi var nær það eina, sem hitað var, enda drukkið óspart, eftir að það kom til notkunar. Tíðkaðist í eyjunum ketilkaffi, og drukkið úr tveggja marka skálum, spilkomum, og neytt óspart.
Fuglamenn, en svo voru veiðimenn ætíð nefndir, sama orð og notað er í Færeyjum,⁶) voru gerðir út með nesti að heiman til 3—4 daga í senn. Nestið, eða matan, útgerðin, var rúgbrauð eða flatkökur, sem voru algengastar, saltkjöt og reykt kjöt, harðfiskur, soðinn fugl, nýr eða reyktur, smjör og bræðingur, kaffi og sykur, stundum og nokkuð af mjólk. Hver fuglamaður hafði sína mötu fyrir sig. Maturinn var mönnum færður að heiman tvisvar í viku með jöfnu millibili, í kössum eða tínum, og kölluðust þetta lundaskrínur.
Fuglamenn völdu sér fyrirliða eða veiðikóng. Mun svo hafa tíðkazt lengi. Ákvæði um það var og tekið upp í fuglaveiðisamþykktina 1895 og fyrirliðanum þá falið að sjá um, að eigi væru viðhafðar aðrar veiðiaðferðir en leyfðar voru með samþykktinni. Á hinn bóginn, að því er að sjálfu veiðilífinu snéri, bar honum að gæta þess, að fylgt væri gömlum reglum og venjum, er farið hafði verið eftir, og gengu veiðimenn allríkt eftir þessu. Samkvæmt samþykktinni voru fyrirliðanum ætluð ómakslaun, einn fugl að óskiptu af hverjum 200 fuglum, er veiddust í eynni. Svipaða hlutdeild, eins konar formannskaup, mun hann jafnan hafa hlotið sem þóknun fyrir hin ýmsu störf, er á honum hvíldu, meðan veiðitíminn stóð, og um undirbúning fararinnar, sbr. og þóknun þá, er einn sameignarmanna fékk fyrir að „kalla“ í úteyjar. Þótti köllunarstarfið jafnan trúnaðarstaða. Allir veiðimenn í sömu úteynni risu upp jafnsnemma að morgni eftir ákvörðun fyrirliða síns, dreifðu sér allir í senn um eyna í veiðistaðina. Tíðast munu menn hafa farið á fætur með sólaruppkomu, og drukku kaffi áður en farið var út. Um hádegi kallaði fyrirliði alla til bóls, eins og enn er sagt, og minnir það á fyrri tíma, er menn lágu við í legubólunum, og var nú snæddur miðdegisverður. Síðan fóru menn aftur til veiða og voru til miðaftans. Þá var aftur kallað til bóls og borðaður kvöldverður, og hætt veiðum að jafnaði þann daginn, og síðan lagzt til svefns. Svona gekk alla rúmhelga daga, ef veiðiskapur var og „fugl við“. Sunnudaga tóku menn sér hvíld og var þá lesinn húslestur.
Bezt veiddist á morgnana, er mátulegur blástur stóð upp í bergbrúnirnar; þá fær lundinn hæfilegan byr undir vængina og flýgur í hæfilegri fjarlægð við brúnirnar á sífelldu hringflugi, eða leitar til þeirra, er uppi sitja, og þykir þá gott að taka fuglinn í háfinn við nef og standa við brúnir. Þegar líður á daginn flýgur fuglinn út á sjó og kemur þaðan aftur, ef veiðiátt er, upp í fjöllin, á stöðugri hringrás fram og aftur, og myndar þykkni við bjargbrúnir, hér kallað fuglamor, svo að skugga slær á sjóinn. Í miklum stormum, rigningum og þokusúld flýgur lundinn eigi, né heldur í logni. Er hann þá á sjónum eða inni í holunum. Í votviðri situr fuglinn oft í stórhópum uppi um eyjarnar, svo þétt, að heita má, að allar brekkur og höfðar eyjanna sé þakið af fugli.
Þegar vont var veður, eða ef engin veiðiátt var eða veiðivindur, voru innistöðudagar hjá fuglamönnum. Höfðu menn þá ætíð eitthvað sér til dægrastyttingar. Þá voru sagðar sögur og skrítlur, iðkaðir leikir og glímur og alls konar tusk. Ýmsar gamlar leikþrautir héldust lengi við hjá viðlegumönnum í úteyjum. Þá vantaði og eigi köpuryrði og glens og alls konar kátínu, að sögn þeirra, er reynt hafa, og varð mönnum sjaldan áfátt í þessum efnum. Hefir því verið lengi viðbrugðið, hversu úteyjalífið væri skemmtilegt og frjálst, en þarna voru saman komnir ungir menn og hraustir. Þótt aðbúnaðurinn í úteyjum væri eigi betri fyrrum en hér hefir verið lýst, var það eigi talið miklu skipta. Ætíð þykir röskum mönnum það eftirsóknarvert að fá að liggja við í úteyjum.⁷) Á þol og styrkleika veiðimanns, er fer með háf, reynir mjög mikið. Sem dæmi um viðbragðssnarleik þann, er veiðimaður, er fer með háf, verður að viðhafa, má nefna, að sums staðar verður maðurinn að liggja á hliðinni á bröttum snösum frammi á bergbrún, snúast á hæl og hnakka, til þess að geta náð fuglinum í háfinn, og helzt að geta tekið hann fyrir aftan sig, en það geta þó eigi nema hinir allra færustu.⁸)
Um fuglatímann, veiðitímann, hefir tíðkazt að fara tvisvar í viku til fuglamanna, til þess að færa þeim mat og um leið að sækja til þeirra fugl. Þessar ferðir, sókningsferðirnar, voru farnar á smábátum, og fengu þeir, er sóttu, vissa hlutdeild í afla fyrir. Voru það oftast áður tveir fuglar af hverju veiddu hundraði. Fyrir bátinn var greiddur sérstakur bátshlutur. Sumar sameignir áttu sína eigin sókningsbáta. Veiðin skiptist jafnt milli allra sameignarmanna. Venja var í seinni tíð, að einn maður færi frá hverri jörð í sama leigumálanum. Ef enginn maður fór frá einhverri jörð, var jörðinni skipt jarðarhlut, 1/9 hl. eða 1/8. Á síðustu árum fara, eins og áður segir, miklu færri en áður. Fuglinum var fleygt í sjóinn til sókningsmannanna, er hirtu hann upp í bátinn, eða fuglinn var borinn niður og á skip. Þegar lundinn er bundinn saman, er hann bundinn í kippur, þ.e. 100 fuglar í eitt. Kippan, sem er talin hæfileg byrði, er borin yfir axlirnar. Þessi tala er mátuleg á lundasnærið. Þegar kippað er, eru settir fimm fuglar í hvert knýti og ríghert að hálsinum. Við kippurnar er miðað, þegar skipt er og talin veiði. Þegar eigi náði 100 á lundasnæri, var það kallaður háli. Fuglamenn báru fugl þann, er þeir veiddu, frá veiðistað heim að bóli í kippum, eða hlóðu á beltið.
Hér fylgir lýsing á legubólunum gömlu, eða lundabólunum, sem þau einnig voru nefnd, í Suðurey — Vilborgarstaðamannaból og Kirkjubæjarmannaból. Um og yfir 20 manns lágu við í Suðurey fyrrum. Suðureyjarbólin eru bríkur, sem hlaða varð að, og tekið nokkuð úr á daginn, en hlaðið upp aftur að kvöldi. Milli bólanna eru 10—20 faðmar, svo að vel gátu menn kallazt á. Uppi á Suðurey, sem er mjög hálend og hömrum girt, er ekkert vatn, en vatnið í eynni kemur fyrst fram niður við sjó, og bunar þar lind út úr berginu, og er það kallað á Vatni. Er um 30 faðma sig í vatnið. Búr eða matargeymslu höfðu Suðureyjarmenn í smáskúta framan í bergbrúninni og varð að fara um tæpt einstigi. Fiskibátar leggja stundum að berginu á Vatni og taka vatn í austurtrogum. Lending er mjög erfið í Suðurey og flutningur allur upp eyna, og oft vaðflutt upp fyrir bergið.
Á Vatni slútir berghamarinn svo, að hægt er að renna þar færi. Kemur öngullinn í sjóinn um tvo faðma frá berginu. Veiðimenn lögðu oft út færum á Vatni sér til skemmtunar og til þess að fá sér í soðið, og fiskuðu oft nokkuð, þótt hátt væri af hástokk. Ef stórdráttur kom á, svo sem lúða, vandaðist málið, því að gera varð henni skil, áður en hún varð dregin upp. Menn gerðu sér þá lítið fyrir, sigu fyrir bergið sem kólfi væri skotið, steinsig, skelltu sér niður á sjóinn, þar sem lúðan á færinu var komin upp að yfirborðinu, varkjöftuðu lúðuna, og var hún svo dregin upp, en sjálfur las maðurinn sig upp á bergbrún á bandinu. — Suðureyjar getur á fornskjali 1363: Um hin eystri fjörumörk Maríufjöru, er kirkjan á Breiðabólsstað í Fljótshlíð á, að bryddi Suðurey vestanverð undan vestanverðum Klettinum í Vestmannaeyjum, en vestari, að bryddi Suðurey austanverð undan Lauphellu (nú Lauphausum) í Elliðaey. Standa þessi fjörumörk þar til stofustafninn á Önundarstöðum í Landeyjum, hinn vestari, ber með sjónhending af fjörunni upp í miklu (stóru) Dímon miðja.⁸)
Í Bjarnarey var legið við í legubólinu við Hvannhillu, sem einnig var notað fyrir heyból. Vatn er nóg í Bjarnarey á bergruna. Uppganga á eyna er austan á, eða ef brim er við Hvannhillu. Áður lágu við í Bjarnarey um 10—16 manns og lágu allir í bólum. Uppganga við Hvannhillu er erfið og verður þar að nota bönd. Eyjan liggur skemmst frá höfninni allra úteyjanna. Var siður að fara þangað skemmtiferðir á sumrum, sem og í Elliðaey, sem er nokkru lengra undan, og fleiri eyjar og heimsækja lundamennina.
Í Elliðaey lágu við allt að því helmingi fleiri menn en í Bjarnarey. Legubólin þar eru Nautaréttarbólið og bólið við Kirkju. Sérstaklega var hér margt um manninn, þegar sláttarfólk var einnig í eynni. Elliðaey er stærsta eyjan og eiga 16 jarðir ítök í henni. Eyjan er annáluð fyrir hinn mikla grasvöxt sinn og fuglatekju. Vatnsból er á eynni í Vatnshelli. Setja má upp báta í Elliðaey, bæði að austan og vestan, en í engri hinna úteyjanna er uppsátur, nema í Álfsey, þótt naumast geti svo heitið þar, því að bátinn verður að draga upp í dráttartaugum yfir brattan og háan bergfláa og festa í böndum í berginu, líkt og sums staðar sést í Færeyjum. Í þessum eyjum, sem menn höfðu báta hjá sér, sem eigi var þó mjög títt, var hægt að bregða sér í fiskiróður, ef hlé varð á fuglaveiðinni. Bjarnareyjar og Elliðaeyjar getur í hinum fornu fjörumörkum á fjórðungafjörum á landi: Bunkinn í Bjarnarey. Elliðaeyjar getur og í sambandi við fjörumörk Gunnarsholts á Rangárvöllum.⁹)
Í Yztakletti var legið við í legubólinu við Sandtorfu. Þar var hlaðið að kekkjum til skjóls, en bólið var rúmgott, og var fyrrum margt manna við bólið og samtímis oft sláttufólk. Vatn er nægilegt og gott úr bergruna þar, sem kallast undir Hendi.
Í Heimakletti lágu við 8 manns í lundabólinu við Bólnefið. Þar er bergruni í Ólapytti. Einnig var legið við í Miðkletti á svonefndum Bólbekk. Þar er tæpt mjög á brúnina og hátt berg fyrir neðan. Tveir litlir skútar á bergbrúninni voru notaðir fyrir búr og eldhús.¹⁰)
Í Stórhöfða gátu 3—4 menn legið við í hellisskúta austan á höfðanum. Vatnsból er þar ágætt og gnægð vatns í uppsprettulind þar skammt frá. Í seinni tíð hafa menn legið við í tjaldi á Lambhillu.
Í Álfsey er lítið um hella og skúta, aðeins smáskútar fyrir fáa menn. Hér voru því oft notuð tjöld. Vatnsból er þar ágætt í Vatnsgili. Í Smáeyjum eru góð lundaból, en bæði þar og í Hellisey og Brandi er eigi legið við að staðaldri. Veiði í þessum eyjum var eigi bundin við tímatakmörk, sbr. fuglaveiðisamþykktina.
Það getur komið fyrir, þótt um hásumartímann sé, að ferðir taki frá í úteyjar, sökum brims, eða geri frátök, eins og kallað er, og tepptust veiðimenn þá stundum í eyjunum og gátu komizt í hann krappan vegna matarleysis. Sumarið 1872 fengu lundamenn í Suðurey alllanga teppu. Lágu þá 8 menn við í legubólinu í eynni, en útsynningshroða gerði, svo að eigi varð komizt í eyna, en þar er mjög brimasamt og erfið lending við Steðjann, en svo kallast lendingarhleinar eða stallar við úteyjarnar. Varð eigi komist í eyna fyrr en eftir 9 daga. Mat höfðu fuglamenn eins og vanalegt var til 3—4 daga. Samt björguðust allir vel að lokum. Þessu líkt mun hafa komið fyrir stundum. Það kom og fyrir, einkum í Suðurey í viðlegum þar, að menn tóku sóttir og dóu, áður en hægt var að ná til læknis.
Svartfuglaveiðar. Utan í standbjörgunum í úteyjum og sums staðar í fjöllunum á Heimaey, er vita að sjó, verpir svartfuglinn á hillum og bekkjum, sums staðar svo mörgum hundruðum skiptir á sömu syllunni, og kallast það svartfuglabæli. Svartfuglinn kemur til eyjanna í febrúar—marz og heldur sig á sjónum, en sezt ekki upp í bergið fyrr en seint í apríl eða maí og oft ekki að staðaldri fyrr en seint í maí; fer þetta eftir veðráttufari. Svartfuglaveiðar eru erfiðar, því að síga verður í björgin í hvert sinn, sem farið er til veiða, og hefir með þessum hætti verið veitt eingöngu á seinni tímum. Nú er fyrir fáum árum hætt að veiða svartfugl, sökum þess, hve erfitt það þykir, og ef til vill vegna vöntunar á sigamönnum. Allmarga menn þurfti og til veiðanna, sigamenn, undirsetumenn og bátslegumenn, svo að tæplega þykir borga sig framar að stunda svartfuglaveiðar, fara til svartfugla.
Svartfuglaveiði mun allgömul í eyjunum. Hennar getur í sóknarlýsingu séra Gissurar og ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar.
Svartfuglaveiði hefir oft verið mikil. Meðan flekaveiðarnar voru stundaðar, en þær eru og gamlar, var fuglinn ekki einasta tekinn í bjarginu, heldur og á sjónum. Mun með óskynsamlegri veiðiaðferð oft hafa verið gengið nærri stofninum, og svartfuglaegg tekin, sem náðist til, svo að fuglinum hefir fækkað um tíma og veiðin takmörkuð. Svartfuglaveiðar með snöru voru teknar upp aftur um 1870 og héldust fram undir þessa tíma. Mun Árni Þórarinsson á Oddsstöðum fyrstur hafa hafið þessa veiði aftur. Eins og veiðiaðferðum var hagað á seinni tímum, hafði bændum tekizt með samþykktum og samráðum sín á milli um veiðiskapinn, að tryggja viðhald stofnsins án offjölgunar og ná árlegum vissum arði í fugli og eggjum.
Aðalveiðiaðferðin var fólgin í því, að svartfuglinn var snaraður á bælunum. Voru gerð til þess sig niður í bergið. Þar staðnæmdist fuglamaðurinn á bandinu í námunda við bælin, er undirsetumönnunum hafði verið gefið merki um það, annað hvort af sigamanni sjálfum eða brúnamanni. Var sigamaður þannig bundinn á festinni, að hann gat setið sem í stól. Brá nú sigamaður snörunni, er hann hélt á í hendinni, þegar hann var kominn í færi við fuglinn í bælunum. Svartfuglasnaran er þannig útbúin, að á þriggja álna langa tréstöng er fest snærislykkja og höfð á kappmella, spöng af hvalskíði einnig notuð.
Áður höfðu menn fjaðrasnörur. Veiðimaður bar að stöngina og festi lykkjuna um hálsinn á fuglinum, herti að og dró fuglinn að sér, og svo hvern af öðrum, jafnvel svo hundruðum skipti af sama bæli, unz hann hafði tæmt bælið. Þótt fuglinn sprikli og ærist í snörunni, fær það ekki á hina, en undir eins og eitthvert annarlegt hljóð heyrist, svo sem að manninum verði það á að hósta eða hnerra, kemur óðara styggð að fuglinum og hann flýgur allur út á augabragði. Svartfugl var helzt snaraður að kvöldi og undir lágnætti, því að þá er hann spakastur. Mjög mikið var snarað af egglægju í bælunum, en annar fugl tekur síðan eggið og leggst á það, ef bælin eru ekki tæmd. Þá lögðust stundum bælin í auðn um lengri tíma og sótti enginn fugl í þau, eins og mörg dæmi voru til, er of mikið var tekið af fugli í einu, svo sem átti sér stað með eitt bezta svartfuglabælið í Elliðaey, Stórabælið, en þar voru teknir einu sinni um 1800 fuglar. Utan í björgunum er hver bekkur setinn, og á sjónum er geysimergð af fugli og á nefjum og flúðum, svo að auðsætt er, að eigi kemst nærri allur fuglinn fyrir uppi í bælunum, og fyllist því venjulega fljótt í skörðin, nema þegar alrænt er og eggin tekin, þá er eins og fuglar forðist staðinn.
Það var gömul regla að byrja að snara fuglinn, þegar unginn byrjaði að brjóta á eggi, því að þá sat fuglinn sem fastast á. Fuglinn var snaraður fyrstu dagana af fuglatímanum, þ.e. viðlegutímanum í úteyjum.
Svartfugl var og veiddur með snörum á flekum úti á sjó, og er sú veiðiaðferð gömul og mun hafa tíðkazt lengi fyrrum. Hún var notuð hér með vissu um 1700, en virðist hafa lagzt niður aftur einhvern tíma eftir 1800.¹¹) Flekaveiði var tekin upp aftur seinna og hélzt í Vestmannaeyjum fram um aldamótin síðustu. Með þessari veiðiaðferð var fuglinn mjög hörðu beittur, því að oft gat komið fyrir að eigi væri hægt að vitja flekanna á sjónum um lengri tíma vegna brims og storma. Svalt þá fuglinn, er sat fastur á flekanum, sárum sulti og veslaðist upp eða varð ránfuglum að bráð, sem héldu sig mjög að flekunum.
Séra Gissur segir í sóknarlýsingu sinni, að sigamaður noti 8 álna langa stöng með snöru úr hrosshári eða seglgarni, til þess að snara svartfugl. Hann segir og, „að notaðir séu flekar við svartfuglaveiði, úr fjölum með snörum upp úr, og sé upptekið eftir norðlenzkum“. Slegið var yfir svartfugl á nefjum og flúðum og veiddist töluvert þannig.
Megnið af svartfuglinum í Vestmannaeyjum er langvía, stuttnefja verpir á stangli, t.d. í Suðurey. Hringvía verpir eigi í Vestmannaeyjum, að minnsta kosti eigi svo nokkru nemi. Álka verpir í holum í bergbrúnum. Hún var veidd lítið eitt. Svartfuglinn gefur ungum sínum stór trönusíli og ber þau langsum í nefinu. Hlutaskiptin voru hin sömu við svartfuglaveiðar sem lundaveiðar. Hver svartfugl metinn til jafns við tvo lunda.
Rita er í Vestmannaeyjum, rilla. Verpir hún í standbjörgum við sjó fyrir utan aðrar fuglabyggðir, og er í holum og skvompum yfir sjávarhellum og gjögrum. Ritan telst hér eigi nytjafugl, og kom veiði á rituunga, rillupysju, eigi undir venjulegar veiðireglur. Sama gildir um skrofuna, sem verpir á sumum úteyjunum og á Yztakletti, og um sæsvöluna. Bæði skrofan og sæsvalan grafa sér holur líkt og lundinn til að verpa í. Sæsvöluholurnar eru afar langar og mjóar eins og músarholur, og verður að grafa holuna upp á mörgum stöðum, til þess að ná til hreiðursins. Báðir þessir fuglar sjást ekki uppi í eyjunum á daginn, en eru á flökkti á nóttunni með gargi og óhljóðum, svo að fuglamenn í úteyjum fá varla sofið. Sæsvölu- og skrofuegg voru eftirsótt fyrir söfn.
Eggjatekja telst með hlunnindum Vestmannaeyjajarða. Hefir eggjatakan á vorin verið einn þáttur í hlunnindum þeim, er menn höfðu af bjargfuglinum, og stunduð frá því, er sótt var til eyjanna í fyrstu til veiðiskapar, sbr. t.d. sögnina um Þorgeir Skorargeir. Í áðurnefndum umboðsskilagreinum Vestmannaeyja frá lokum 16. aldar er getið sóknar á eggjum í úteyjar. Í Vestmannaeyjum voru að minnsta kosti í seinni tíð aðeins tekin svartfuglaegg, fýlsegg og nú tekin. Um eggjatöku giltu sérstakar reglur og óskrifaðar samþykktir milli sameignarmanna innan leigumálanna.
Eggjatíminn er síðast í maí og fyrst í júní, og er þá gerð ferð í úteyjar og sigið eftir eggjunum. Við eggjasig var sigamaður venjulegast „bundinn á báðum“ og gerðar margar ferðir í bjargið. Sigamaður tók eggin í bælunum og trauð í úlpu sína, eggjaburuna, og er hann var búinn að fylla hana, var hann dreginn upp. Um 100 egg gat sigamaður haft í burunni, og var það eigi lítill vandi að láta þau eigi komast við og brotna. Stundum hafði sigamaður með sér skrínu undir eggin. Í sumum eyjum verpir fuglinn uppi á eynni. Sigamenn fengu sigahlut. Í seinni tíð 1/2 fullkominn eggjahlut, er þeir svo aftur skiptu sín í milli. Festarhlutur var greiddur með eggjum, sem og skipshlutir. Í Súlnaskeri var, eins og áður segir, öll eggjataka sameiginleg fyrir eyjajarðir, en í hinum úteyjunum fylgdi hún með fuglaveiðiréttindunum. Venja var að fara til eggja einu sinni á ári í sömu eyna, en stundum tóku menn og seinni urtina. Verpir fuglinn aftur hálfum mánuði eftir að hann er rændur, ef egg voru eigi orðin unguð, en eigi eins mikið og áður. Talið er, að svartfuglinn verpi í þriðja sinn, ef tvisvar er rænt, og þá allra minnst. Eggjatekjan í Vestmannaeyjum mun oft hafa numið 20—30 þús. eggjum árlega.
Eggjasig, eins og þau voru framkvæmd í Vestmannaeyjum fyrrum: „Sigamaðurinn klæddist síðri konuúlpu utan yfir snöggfelld nærföt, og girðir úlpuna niður í buxurnar, en lætur sem sekki hanga til baks og hliða. Síðan binda þeir hann í endann á þríþættri festi af leðri, þriggja fingra breiður þátturinn. Síðan leggjast þeir til bænar fram á bergbrúnina, hann og þeir sex, sem hann draga, og síðan sígur hann niður fyrir bjargið, bundinn yfir um mittið og undir bæði lærin, og þar sem loftsig eru, spyrnir hann báðum fótum sem fastast í bergið, svo að framkastið frá berginu verði sem lengst fram í loftið, því að þess harðara verður aftur innkastið, þar til hann getur aftur stöðvað sig með handfestu á því bæli, sem hann vill ná inn á. Kallar hann þá „slakkt“, og ef þeir, sem uppi eru, heyra eigi til hans, benda þeir, sem á skipi eru, með venjulegum táknum“.¹²) Í eggjaferðunum geta ofanferðir orðið allt að 20, og mikið erfiði fyrir þá, er draga eggjamanninn upp. Eggjunum gefið niður í skrínu og hafður gagnvaður úr berginu og niður á skipið.
Slysfarir. Fjallasóknin í eyjum, sem nauðsynleg var til þess að geta notað sér það mikla bjargræði, sem fuglatekjan veitir, hefir löngum þótt erfið og hættuleg, enda hafa fuglaferðirnar kostað eyjarnar mörg mannslíf, bæði fyrr og seinna. Eru allmiklar sagnir um það frá fyrri tímum, að menn hafi hrapað í fjöllum hér, en eigi er hægt að segja neitt um þetta með vissu. En á síðustu 150 árunum, eða frá því fyrir aldamótin 1800 og fram til þessa tíma, hafa með vissu hrapað til dauða í björgum í Vestmannaeyjum 61 maður,¹³) þar af 9 úr úteyjum, sem sé 4 úr Elliðaey, 2 úr Bjarnarey, 1 úr Hellisey, 1 úr Geirfuglaskeri og 1 úr Álfsey, — úr Heimakletti 7, Yztakletti 3, úr fjöllum á Heimalandi 42, sem hér segir: 5 úr Stóraklifi, 4 úr Hánni með Mikitagstó, 5 úr Dalfjalli, þar af ein stúlka, úr Ofanleitishamri 14, þar af 8 unglingar um og innan fermingaraldurs, í fugla- og eggjasnatti, í Stórhöfða 10 og Flugum 4.¹⁴)
Dúntekja er sem engin í Vestmannaeyjum. Æðarfugl er samt allmikill við eyjarnar, en verpir á tvístringi í víkum og vogum á Heimalandi, sums staðar uppi í fjöllum, og hefir sú venja verið, að hver hirti dún, sem fann. Dúnhörpur eða dúngrindur voru til á mörgum heimilum. Undir Stórulöngu var dálítið varp um tíma, er tilheyrði Vilborgarstaðajörðunum, einnig í Klettsvík. Hafði á báðum þessum stöðum verið hreiðrað um fuglinn, er var fljótur til að sækja á staðina, og myndi varp hafa aukizt þarna, ef hægt hefði verið að friða staðina til lengdar, en segja má, að í seinni tíð, eftir að siglingar og sjósókn jókst svo mjög við eyjarnar, hafi æðarfugl þar hvergi friðland. Á fyrsta fjórðungi 19. aldar gerði stjórnin ráðstafanir til aukningar æðarvarpi í eyjunum fyrir forgöngu Abels sýslumanns og umboðsmanns þar, sbr. rentuk.br. 29. ág. 1824.¹⁵) Gerði umboðsmaður samning við jarðaábúendur, 16 að tölu, er höfðu komið sér upp nokkru varpi, um að þeir afsöluðu sér því til umboðsmanns, og yfirleitt réttindum til þess að hagnýta sér æðarvarp samkvæmt byggingarbréfum, gegn 10 fiska árlegri lækkun á jarðarafgjöldum fyrir hvern greindra ábúenda. Samþykkti ráðuneytið þetta, eftir tillögum stiftamtmanns. Staðir þeir, sem bændur munu hafa verið búnir að koma sér upp varpi í, munu aðallega hafa verið undir Löngu og í Víkum og ef til vill í Elliðaey. Ofanleitisprestur gerði tilkall til, fyrir kirkjunnar hönd, að eiga æðarvarp á sömu stöðum og prestar vildu eigna kirkjunni reka, í Vík og Brimurð, sbr. máldaga 1628. Var svo hafizt handa með ýmsan undirbúning á þeim stöðum, er vænlegast þótti, að æðarfugl hændist að. Bauð stjórnin síðan umboðsmanni að leigja æðarvarpið hæstbjóðanda til 5 ára í senn. En allt fór þetta út um þúfur, mest fyrir hirðuleysi þeirra, er varpið leigðu. Segir í rentuk.br. 17. sept. 1831,¹⁶) að engir möguleikar séu til að koma varpinu aftur á fót. Féll þannig þessi tilraun um sjálfa sig. Hin umsamda afgjaldslækkun mun þó hafa haldizt í ábúendatíð hlutaðeigandi bænda. Löngu seinna voru gerðar tilraunir til þess að koma á æðarvarpi undir Löngu og í Klettsvík með nokkrum árangri, eins og að ofan segir.
Ránfuglar gera oft óskunda í fuglabyggðunum. Hrafninn rænir fýlseggjum með þeim hætti, að hann kemur að fýlnum, þar sem hann liggur á eggi, helzt utarlega í fýlabyggðum, því að krummi hættir sér ógjarnan inn í aðalfýlabyggðina, rennir sér hljóðlega að fuglinum, rekur allt í einu upp mikið garg, svo að fýllinn flýgur burtu í ofboði, en hrafninn hirðir eggið. Safnaði hrafninn sér oft eggjaforða til vetrarins, er hann gróf í sand eða mosa. Var þetta kallað hrafnsfelur. Lundinn er mjög hræddur við hrafninn og flýgur allur fugl burtu, þegar hrafn kemur í lundabyggðina, og tekur alveg fyrir veiði í bili. Á seinni hluta 19. aldar og fram um aldamótin gerðu eyjabændur ýmsar ráðstafanir til að eyða hrafninum, sökum skaðræðis þess, er hann vann nytjafuglinum. Voru veitt verðlaun fyrir hvern hrafn, er drepinn var, og fyrir að steypa undan hrafni, þ.e. að fella hrafnslaupinn, og gerðar til þess ferðir í úteyjar. Meðan varnir voru hafðar uppi gegn ránfuglum yfirleitt, stóðu fuglaveiðar með meiri blóma en seinna varð.
Fálkinn slær lunda. Veldur koma hans ætíð mikilli ókyrrð og styggð í lundabyggðunum.
Smyrlar sjást hér oft.
Um erni er getið í Vestmannaeyjalýsingunni frá 1749. Sáust þeir endrum og sinnum fram að seinni tímum, en vart nú.
Veiðibjallan er hinn mesti vágestur. Hún rænir miklu af eggjum í fuglabyggðunum og drepur fuglsunga. Halda sumir því fram, að fækkunin á fugli í sumum úteyjunum í seinni tíð sé veiðibjöllunni að kenna.
Skúmurinn drepur og mjög ungviði og jafnvel fullorðinn fugl. Hann slær fuglinn til dauðs á sjónum, lyftir honum við og reytir fiðrið af bringunni og étur síðan kjötið. Þegar fer að líða á sumarið og svartfuglapysjan er orðin fleyg, heldur skúmurinn sig á sjónum nálægt úteyjunum og situr um pysjuna, þegar hún yfirgefur hreiðrið og sezt á sjóinn. Þetta vita foreldrarnir og fylgja henni oft úr garði og langt á haf út. Skúmurinn rænir lunda og súlu ætinu. Súluna eltir hann ákaft og linnir ekki látum fyrr en hún ælir upp átunni á sjóinn, og lepur skúmurinn það upp af sjónum. Kjóinn heldur sig mjög í úteyjum á sumrin og rænir lundan seiðunum, sem hann ber í nefinu handa ungum sínum. Því, sem lundinn verður að sleppa við kjóann, lætur hann detta í grasið og hirðir kjóinn það. Kjóinn rænir og mikið ritu. Álka rænir og lunda. Hún skellir sér undir lundann, þar sem hann flýgur með sílin í nefinu, og tekur þau af honum.
Um 30 fuglategundir hefir orðið vart við að orpið hafi í Vestmannaeyjum, en margar þó ekki nema endrum og sinnum. Yfir 60 fuglategundir hafa sézt þar. Sæsvala (Procellaria Leachii) og skrofa (Puffinus arcticus) verpa hvergi hér við land nema í Vestmannaeyjum, mest í Yztakletti.


Heimildir og umfjöllun neðanmáls í þessum hluta:
1) Stjrt. 1889, B, 119.
2) Stjrt. 1895, B, 130.
3) Stjrt. 1909, A, 141.
4) Stjrt. 1918, B, 105.
5) Sjá lundaveiðisamþykktir 11. júlí 1919, 15. júlí 1921, 21. júlí 1924, 6. júlí 1925, 8. júlí 1926, 12. ágúst 1929, 2. júli 1930; Stjrt. 1919, B, 151, 1921, B, 71, 1924, B, 45, 1925, B, 66, 1929, B, 225, 1930, B, 159. Sjá og samþykktir 4. ágúst 1931 og 6. júlí 1932, o.fl.
6) Sbr. I.C. Svabo: Föroyaferdin 1781—82.
7) Nú á þessari miklu sportöld þykir þetta vera „bezta sport“.
8) Vart myndi skáld, er lýsti lundaveiðum, fara þar um líkum orðum og R. Kipling viðhefir í einni af bókum sínum um jafn víðfræga sportveiði og laxveiði með stöng, í þá átt, að hún sé þolinmæði-langseta o.s.frv.
9) Ísl. fornbr.s. III, 158, 528.
10) Meðan lundaveiðar voru stundaðar sem mest, var allur þorri yngri manna um fuglatímann við veiðarnar í úteyjum.
11) Sbr. Sóknarlýsingu séra Jóns Austmanns.
12) Sóknarlýsing séra Gissurar 1703.
13) Kirkjubækur Vestmannaeyja.
14) Sjá Sigfús Johnsen, Blanda IV, 242 og 251. Í skýrsluna í Blöndu vantar nöfn tveggja manna, er hröpuðu fyrir aldamótin 1800: Guðmundar Jónssonar vinnumanns á Oddsstöðum, er hrapaði í Álfsey á fýlaferðum, og Sigurðar Þorsteinssonar vinnumanns í Kirkjubæ, er hrapaði úr Ofanleitishamri. — Sæmundur Hansson, er talinn er í nefndri skrá í Blöndu að hrapað hafi í Heimakletti, hrapaði eigi þar, heldur í Halldórsskor á Dalfjalli. — Sjá einnig dóm, er kom fram í lögréttu á Alþingi 1646, dæmdan af Vigfúsi sýslumanni Gíslasyni, um mál Hannesar Eyjólfssonar, er sleppti festi á sigamanni Þórði Jónssyni, svo að hann hrapaði til bana (Alþb. VI, 2).
15) Rentek. Isl. Copieb. V, Nr. 841, Lovs. 599—600.
16) Rentek. Isl. Copieb. IX, Nr. 521, Lovs. XIX, 779—780.

3. hluti

Til baka


Saga Vestmannaeyja efnisyfirlit