Saga Vestmannaeyja II./ Danska selstöðuverzlunin

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit




Danska selstöðuverzlunin.


Konungsverzlunin, er nefnd var hin síðari, miðuð við einokunartímann, hefir haldizt hér til 1788. Nú var eins og áður segir búið að gefa verzlun landsins frjálsa við alla þegna Danakonungs. Hans Klog, er verið hafði forstjóri verzlunarinnar hér í lok einokunartímabilsins, keypti verzlunina 1788. Söluverð verzlunarinnar með húsum og vörubirgðum og öllu tilheyrandi virðist hafa verið 11,400 rd., að minnsta kosti eigi lægra, og skyldi andvirðið greitt með jöfnum afborgunum á 10 árum, sbr. skýrslu frá skrifstofu íslenzku verzlunarnefndarinnar í Kaupmannahöfn (Den islandske Handels Realisations Kontor) 31. marz 1788.¹) Hefir nú verið nokkuð hærra mat á eignunum, en hið fyrra mat náði samanlagt 11,129 rd. Innstæðubátarnir voru eigi með í kaupunum, en eru taldir í fyrra matinu. Þilskip, er verzlunin átti, „Seien“, mun þó hafa fylgt með. Afsláttar þess, er boðaður var í augl. 18. ágúst 1785, mun kaupandi hafa notið.²) Innstæðubátarnir voru seldir sér, og útistandandi skuldir verzlunarinnar var sýslumanni falið að innheimta, og gekk það mjög treglega, eins og sjá má af bréfum milli sýslum. og amtsins.
Verzlunarhúsin í Vestmannaeyjum stóðu á eignarlóð konungs og hefir verzlunarlóðin, lóðin undir húsin og umhverfis þau, eigi verið seld með húsunum, að því er telja má líklegast, en sjálft afsalsbréfið fyrir eigninni er eigi til og eigi kunnugt um innihald þess. Í elzta afsalinu, sem til er, frá 29. maí 1799, er ekkert tekið fram um lóðina. Kaupandi hefir, þótt eigi eignaðist hann lóðina, verið undanþeginn því að gjalda eftir verzlunarlóðina, sbr. kansellíbr. til Lewetsov stiftamtmanns 28. apríl 1788 um leigulausar kaupstaðarlóðir.³) Í nefndu kansellíbréfi, sem er frá sama ári og Klog keypti verzlunina, er tekið fram, að rentukammerið falli frá kröfu um afgjald af verzlunarhússlóðum yfirleitt, ef húsin standi á lóðum, sem séu konungseign. Óumdeilt er, að konungur var eigandi allra lóða og landa í Vestmannaeyjum. Með verzluninni hér hefir eigi aðeins fylgt lóð undir verzlunarhús, heldur mjög stór verzlunarlóð, er nauðsynleg var fyrir stóran verzlunarrekstur og útgerð, þerrireiti, hjalla, fiskhús og margt fleira. Af þessari lóð var aldrei greidd nein leiga og því haldið fram, að minnsta kosti í seinni tíð, að lóðin hafi upphaflega verið seld með verzluninni. En þetta mun rangt. Það styður og það, er hér er haldið fram, að lóðarleiga var heldur eigi greidd fyrir verzlunarlóð þá eða kaupstaðarlóð, er svo var nefnd, er lögð var til hinna tveggja verzlunarstaðanna, er hér voru síðar stofnsettir. En hér var um mjög stórar lóðir að ræða, svipað og Garðsverzlunarlóð. Datt þó engum í hug að halda því fram, að eigendur hinna síðartöldu verzlunarstaða ættu lóðirnar, enda kunnugt um stofnsamninga, er voru miklu yngri en samningurinn fyrir Garðsverzlun. Í fám orðum sagt, dönsku selstöðukaupmennirnir hér greiddu ekkert lóðargjald í umboðssjóð eða til annarra, meðan þeir höfðu verzlunarrekstur á umræddum verzlunarstöðum. Þetta atriði virðist eigi hafa verið mönnum ljóst áður. Það er fyrst um aldamótin 1900, að lóðarleiga eða afgjald eftir verzlunarlóð er tilfærð í umboðsreikningum Vestmannaeyja. Sjá um þetta nánar hér síðar. Að byggja eignarrétt kaupanda Garðsverzlunar til hinnar víðtæku verzlunarlóðar á ákvæðum tilsk. 17. nóv. 1786 um fríðindi handa kaupmönnum, er verzla vildu í hinum löggiltu kaupstöðum, tel ég eigi rétt, og að ókunnugleika hafi mjög gætt í þessum málum.⁴) — Í framannefndu kansellíbréfi segir og um þau verzlunarhús, er stóðu á annarra landi en konungs, að rétt sé að lóðin fylgi með í húsakaupunum gegn sanngjörnu verði, eða að ákveðin sé hæfileg leiga í eitt skipti fyrir öll. Benda má á í þessu sambandi á rentuk.br. 23. febr. 1828 um leigu af lóð, er verzlunarhúsin á Skagaströnd stóðu á, í landi Höfðahóla, Þingeyraklaustursjarðar.⁵) Kunnugt er um, að sumar konungslóðir voru afhentar með sérstöku gjafabréfi.
Hans Klog hefir eigi farnazt vel verzlunarreksturinn, enda var og árferði hér hið versta á þessum tímum. Var ástandið svo slæmt, að líða varð marga bændur og tómthúsmenn um afgjöld frá ári til árs. Var hér og mikið fyrir af gömlum skuldum frá fyrri verzlunartímum og gengið fyrst og fremst eftir innheimtum á hinum gömlu skuldaeftirstöðvum og það mjög hart, sbr. bréf um þessi efni, er sífellt gengu á milli stiftamtmanns og sýslumanns hér. — En lítinn árangur bar þetta samt. Klog varð og að súpa seyðið af þessu vandræðaástandi. Hann gat á engan hátt staðið við skuldbindingar þær, er á honum hvíldu um greiðslu afborgana og vaxta, sbr. skuldbindingarskjal hans frá 26. júlí 1788. Var svo komið eftir 9 ár, að eigi hafði tekizt að greiða neina af hinum umsömdu árlegu afborgunum, er fallnar voru í gjalddaga. Skuldin öll með áföllnum vöxtum, er voru 4%, var skv. veðsk.br. 26. júlí 1788 16,928 rd., þar af aðeins tvær afborganir, er eigi voru eindagaðar, fyrir 1798 og 1799. Vegna þessara vanskila var verzlunin tekin af Hans Klog og seld öðrum. Klog hafði verið hér lengi sem verzlunarforstjóri og umboðsmaður.⁶) Hann var jafnan talinn hinn ágætasti maður. Hann fór héðan alfarinn utan skömmu eftir að hann hafði sleppt verzluninni í eyjunum. Hans Klog kaupmaður var faðir Tómasar Klog landlæknis í Nesi við Seltjörn.
Bjarna Sigurðssyni, seinna kaupmanni í Hafnarfirði, og með honum tveim bændum í Ölveshreppi, var veitt borgaraleyfi í Vestmannaeyjum 16. sept. 1789 og leyfi til að reka þaðan lausaverzlun í Þorlákshöfn og í Selvogi í Eyrarbakkaumdæmi, er nú heyrði undir Vestmannaeyjakaupstað.⁷)
Eyrarbakkakaupmanni þótti nærri sér gengið með því að veita téð verzlunarleyfi gagnstætt ákvæðum, og hefir talið, að af því kynni að leiða töluverða samkeppni. Vildi kaupmaður telja leyfisbréf þeirra félaga, er fengið væri undir því yfirskini, að um útibú frá Vestmannaeyjum væri að ræða, en þar höfðu nefndir menn enga verzlun, ógilt, og kærði málið fyrir stiftamtmanni. Kom málið fyrir rentukammerið, sjá bréf þess til Meldahl stiftamtm. 28. febr. 1791. Úrskurðaði rentuk. síðar, 1792, að verzlunarleyfisbréf þeirra Bjarna Sigurðssonar (Sivertsen) og félaga hans skyldu felld úr gildi, og var stiftamtm. boðið að veita sýslumanninum í Vestmannaeyjum, Jóni Eiríkssyni, ofanígjöf fyrir að hafa gefið út borgarabréf móti lögum.⁸)
Verzlunina í Vestmannaeyjum eignuðust síðan kaupmennirnir Westy Petræus og Peter Ludvig Svane. Verzlunarhúsin voru seld með innanstokksmunum og áhöldum og öllu tilheyrandi fyrir sama verð og Hans Klog keypti, eða þar um bil, og vörubirgðir eftir innkaupsverði og mati, að frádregnum 20%, sbr. bréf stiftamtmanns til sýslumannsins í Vestmannaeyjum 25. júlí 1798.⁹) Með yfirtöku verzlunarinnar í Vestmannaeyjum fylgdi og jarðaumboðið. Peter L. Svane veitti sjálfur forstöðu eyjaverzluninni um nokkur ár og hafði umboðið. Hann hafði ábúð á umboðsjörðinni Kornhól, og einnig hafði verzlunin ábúðarréttinn á Miðhúsum, eins og verið hafði nokkuð undanfarið. P.L. Svane gekk úr verzlunarfélaginu 1805.¹⁰) Síðar varð meðeigandi með W. Petræus L.M. Knudsen.
Vestmannaeyjar voru teknar aftur úr tölu kaupstaða, sbr. augl. 22. apríl 1807.¹¹) Verzlun og útgerð hafði dregizt saman þessi árin og eyjarnar orðnar eins konar útibú frá verzlun W. Petræus í Reykjavík.¹²) Westy Petræus var síðasti kaupmaðurinn, er hafði jarðaumboðið í Vestmannaeyjum og kirkjuhaldið þar. Hafði hann Yztaklett og Kornhól sem fríjarðir. Verzlun W. Petræus var seld eftir dauða hans 1829. W. Petræus hafði mikla verzlun í Reykjavík, og er hann talinn hafa verið helzti kaupmaðurinn þar framan af 19. öldinni.¹³)
Fram til 1830 var aðeins ein verzlun í Vestmannaeyjum, svo að segja má, að einokunin hafi haldizt þar óbreytt að minnsta kosti þangað til. Verzlun Westy Petræus og félaga hans var einráð um 30 ára skeið, og voru verzlunarkjör þau, er eyjamenn áttu við að búa, sízt betri en á einokunartímunum og lítt haldin ákvæði tilskipunar 13. júní 1787 og fyrirskipanir, er ætlað var að ráða bót á ýmsu, er að verzluninni laut. Var oft mesti hörgull á nauðsynjavörum, en eins og tíðkazt hafði áður meira séð um það að hafa á boðstólum nóg af tóbaki og brennivíni. Lá mjög slæmt orð á eyjamönnum bæði fyrir aldamótin 1800 og lengi síðar fyrir drykkjuskaparóreglu, svo að friðsamir kaupmenn treystust jafnvel eigi að leita þangað í verzlunarerindum, sbr. stiftamtmannsbréf 19. maí 1790 til sýslumanns.
Sama og að ofan segir um verzlun Westy Petræus gilti um verzlanir eyjakaupmanna að miklu leyti út nær alla 19. öldina. Þótt verzlununum að vísu fjölgaði og nokkur samkeppni hæfist, hafði það samt lítið að segja, því að kaupmenn hliðruðu til hver fyrir öðrum og höfðu samtök sín á milli. Af eyjaverzlunum, er voru orðnar þrjár um miðja 19. öld, voru tvær lengst af á sömu höndum og þriðja verzlunin lögð niður undir lok 19. aldar. Í Vestmannaeyjum ríkti út 19. öldina alveg sami verzlunarmátinn og einokunarandinn sem fyrrum, og kaupmenn voru einráðir um flest. Allar greiðslur manna á milli, landsskyldir og leigur var greitt með innskriftum í verzlanir. Búðir voru hér oft eigi opnar nema 1—2 tíma á dag fram undir lok aldarinnar. Jafnan var og haldið uppteknum hætti um að hafa nóg til af munaðarvörunni, en nauðsynjavörur látnar sitja á hakanum. Salt var t.d. stundum ófáanlegt eða afhent af skornum skammti, til þess að neyða menn til að leggja inn blautan fisk. Tíðum var og kvartað yfir slæmri vöru. Það mátti segja um fátæka tómthúsmenn og enda bændur, að þeir voru flestir sem ánauðugir þrælar kaupmannanna. Var það algengt, að menn — til þess að fá vörur í reikning, en kontantsala þekktist nær engin — mættu veðsetja kaupmanni allan vertíðarafla sinn fyrirfram. — Hér að framan er þess getið, að það hafði tíðkazt hér frá fyrri tímum, að undirkaupmaður hefði hér vetrarsetu með þjónum sínum, þó að eigi tíðkaðist það annars staðar.
Til almennra þarfa greiddu kaupmenn mjög lítið; aðeins fyrrum lítils háttar sveitartíund, og eftir að farið var að jafna niður útsvari almennt á síðasta hluta 19. aldar, var útsvar verzlananna mjög lágt. Samanlagt útsvar allra þriggja verzlana, er hér voru 1879, var aðeins 798 kr. nefnt ár, og lausir voru þeir, eins og áður segir, við að greiða afgjöld eftir hinar stóru verzlunarlóðir.
Hinn sterki fjötur, er um aldaraðir hafði hvílt á öllum viðskiptum og verzlun og öllu atvinnulífi eyjamanna, varð eigi leystur til fulls fyrr en hér reis upp alhliða innlend verzlun. Þetta gerðist upp úr aldamótunum síðustu. Þá markast tímahvörf hér og nýtt tímabil hefst í sögu eyjanna með stöðugt vaxandi þróun á öllum sviðum verzlunarinnar og stórkostlegri eflingu atvinnuveganna með samtaka starfi og fjárhagslegri endurreisn.
Kaupstaðarréttindi sín misstu Vestmannaeyjar aftur, eins og áður segir. Þá voru eyjarnar taldar með útbúðar- eða útliggjarastöðvum, Udliggersted. Voru eyjarnar eins konar útibú frá Reykjavík, en þar hafði eyjakaupmaður stóra verzlun. Lausakaupmenn, spekúlantar, máttu eigi koma við hér í ferðum frá útlöndum sem fyrstu höfn, en urðu að koma áður við í kaupstað.¹⁴) Stjórnin gaf undanþágu fyrir lausakaupmenn, er sigla vildu til Vestmannaeyja, til tveggja ára, sbr. konungsbréf 20. apríl 1826.¹⁵) Þurftu lausakaupmenn, er til eyjanna sigldu, nú eigi að koma fyrst annars staðar að landi. Var leyfi þetta veitt til þess að bæta úr hinu mikla verzlunarólagi, er í Vestmannaeyjum ríkti. Hafði sýslumaður eyjanna, J.N. Abel, sent rentukammerinu kærur eyjamanna yfir verzluninni, einkum yfir skorti á nauðsynjavörum, sem og því, að verzlunin léti eigi af höndum salt, þótt nægilegt væri til af því, til þess að neyða eyjabúa til að leggja inn blautfisk, er kaupmaður sjálfur lét verka og hafði mikinn hagnað af. Leyfið til lausakaupmanna var framlengt um 3 ár, sbr. konungsbréf 27. febr. 1828.¹⁶) Með kgbr. 23. febr. 1831¹⁷) var leyfið enn framlengt til þriggja ára. Fiskútvegur hafði nú aukizt mikið aftur og fólki fjölgað. Kom til tals, að stjórnin veitti Vestmannaeyjum aftur kaupstaðarréttindi, en úr því varð samt eigi, enda voru og kaupstaðirnir sem slíkir brátt úr sögunni, sbr. tilsk. 28. des. 1836. Aðeins eitt skip lausakaupmanna kom hér 1829. Nú var risin hér upp önnur fastaverzlun. Umgetið ár, 1829, veitti stjórnin P.C. Knudtzon stórkaupmanni leyfi til að hefja verzlunarrekstur í Vestmannaeyjum og til að fá þar útmælda verzlunarlóð. Sjá bréf stiftamtmanns 5. maí og 14. júní til sýslumannsins.¹⁸) Verzlun þessi var nefnd Godthaabsverzlun, seinna í daglegu tali Miðbúð, eftir að þriðja fastaverzlunin var komin upp.¹⁹) P.C. Knudtzon tók í félag með sér mág sinn, Th. Thomsen kaupmann í Hafnarfirði. Átti Knudtzon 3/4 verzlunarinnar, en Thomsen 1/4. Samkvæmt skoðunar og matsgerð framkvæmdri af sýslumanni 11. ágúst 1831 á verzlunareigninni Godthaab var verzlunarlóðin að stærð: 175 álnir á lengd að austanverðu frá Breiðfjörðshúsi til sjávar,²⁰) 150 álnir á breidd frá austri til vesturs og 75 álnir á lengd að vestanverðu. Undanskilin voru bátahróf eyjamanna, er voru á norðurhlið lóðarinnar. Hús þau, er verzluninni tilheyrðu, voru þessi: íbúðarhúsið Godthaab, nýbyggt, 16 álna langt og 8 álna breitt. Húsið virt á 900 rd. Vörugeymsluhús, fiskhús til móttöku á nýjum fiski o.fl., virt á 500 rd. Annað vörugeymsluhús, byggt úr góðu timbri, 30 álna langt, 15 álnir á breidd, þakið tvöfalt að sunnan, en að norðan einfalt. Í austurenda hússins var sölubúðin. Húsið var virt á 2800 rd.²¹) Fyrsti verzlunarstjórinn við Godthaabsverzlun var J.L. Schram, en 1831 tók H.E. Thomsen við verzlunarforstöðunni. Varð hann seinna eigandi verzlunarinnar. Við Godthaabsverzlun var seinna verzlunarstjóri Jacobsen, faðir Egils Jacobsens kaupmanns í Reykjavík.
P.C. Knudtzon átti verzlanir í Reykjavík (Norðborgarverzlun), Keflavík og Hafnarfirði, og var hann talinn einn meðal hinna fremri kaupsýslumanna Dana. P.C. Knudtzon komst í gjaldþrot 1842, en rétti sig fljótt við aftur og varð síðan auðugur maður. Hann var Suðurjóti að ætt. Hann deyði 1864.

Vöruverð í Vestmannaeyjum 1840.²²)


Innlendar vörur:
Saltfiskur (Klipfisk) skpd. 14 rd.
Harðfiskur (Platfisk) skpd. 18 —
Hákarla-, þorska- og sellýsi tn. 17,48 —
Tólg pd. 22 sk.
Lambsskinn st. 8 —
Fuglafiður pd. 18 —
Hvít ull pd. 24 —
Mislit ull pd. 22 —
Eingirnissokkar parið 24 —
Hrogn tn. 5 rd.
Stórgripabein skpd. 3,32 —
Útlendar vörur:
Rúgtunna 7 rd.
Rúgmjölstunna 7 —
Baunatunna 7 —
Bankabyggstunna 10 —
Salttunna 2,64 —
Járn pd. 12 sk.
Stál pd. 40 —
Steinkolatunna 2,64 —
Tylftin af borðum 10 —
Önglar 100 stk. 16,64 —
60 faðma færi 1,64 —
Tjörutunna 10 —
Léreft alin 36 sk.
Klæði, meðalgott alin 3 rd.
Danskt brennivín pt 16 sk.
Munntóbak pd. 64 sk.
Kaffi pd. 32 —
Sykur pd. 36 —
Kandís pd. 28 —
Púðursykur pd. 24 —


Sören Jacobsen stórkaupmaður í Kaupmannahöfn keypti Garðsverzlun af erfingjum W. Petræus. Söluverð var 4300 rd., sbr. afsal 28. maí 1832.²³) Sören Jakobsen seldi Gísla kaupmanni Símonarsyni hálfa verzlunina fyrir 2150 rd., sbr. afsal 9. jan. 1833, og hinn helminginn keypti Gísli Símonarson af þrotabúi S. Jacobsens, sbr. afsal 14. febr. 1835, fyrir 1975 rd. Ekkja Gísla, Guðrún Simonsen, seldi síðan Jens Jakob Benediktsen frá Staðarfelli Garðsverzlun, sbr. afsal 15. febr. 1838, fyrir 13,500 rd., og fylgdu með í kaupunum 2 fiskibátar (Vestmannö og Merkurius) og 2 fiskiskútur og enn eitt þilskip.²⁴) Gísli kaupmaður Símonarson var frá Málmey í Skagafirði. Hann var mesti kaupsýslumaður og einn af forgöngumönnum íslenzkrar kaupmannastéttar. Átti verzlun í Reykjavík (Jacobæusverzlun) og í Höfðakaupstað og þótti bæta mjög verzlun norðanlands. Hann var búsettur í Kaupmannahöfn og lézt þar.

ctr


Brydestofan, Lystigarðurinn og Lýsishús (síðar Kornhús). Myndin er tekin af suðurhlið húsanna en þar áttu Brydarnir dálítinn lystigarð. Á myndinni eru Herluf Bryde, síðasti Brydinn í Eyjum, og Jóhann faktor Bjarnasen, verslunarstjóri Garðsverslunar, og konur þeirra. (Sbr. Blik 1962). (Mynd úr endurútgáfu).


Jens Benediktsen færði út kvíarnar í Vestmannaeyjum. Hafði hann mörg skip í förum. Hann átti og verzlun á Ísafirði og víðar. Jens Benediktsen bjó lengstum í K.höfn. Hann kom á ýmsum endurbótum í sambandi við verzlunarreksturinn, lýsisvinnslunni m.m. Benediktsens naut eigi lengi við. Hann andaðist í Vestm.eyjum 14. júní 1842, var þar staddur. J. Benediktsen var sonur Boga Benediktsens á Staðarfelli, hins merka sagnfræðings og kaupmanns. Meðal barna Jens Jakobs Benediktsens voru Jens Jakob Benediktsen kafteinn, faðir Anne Marie Benediktsen, konu H.N. Andersen forstjóra Austur-Asíufélagsins danska; Anne Marie Benediktsen söngkona við konunglega leikhúsið í Kaupmannahöfn, kona F. Meyer stórkaupmanns í Kaupmannahöfn; Júlía, gift landshöfðingja Brun í Svíþjóð; Þorvaldur Benediktsen forstjóri og tóbaksekrueigandi á Sumatra.²⁵)
Niels Nikolai Bryde, er verið hafði við verzlunar- og beykisstörf í Höfðakaupstað á Skagaströnd, varð næsti eigandi Garðsverzlunar, keypti hana af erfingjum Jens Benediktsens, samkv. uppboðsafsali 9. marz 1844, útg. í Kaupmannahöfn, fyrir 3450 rd. Var í uppboðsrétti Kaupmannahafnar haldið síðasta uppboð yfir verzlunareigninni Garður (Garden) 12. febr. 1844. Niels N. Bryde hafði áður verið verzlunarstjóri við Garðsverzlun og bjó í Kornhól, Danska Garði, 1830—1838. Eftir lát hans 1881 tók við verzluninni sonur hans, Johan Peter Thorkelin Bryde, sbr. afsal þinglesið 21. júní 1881. Hann var fæddur á Kornhól í Vestmannaeyjum 1831.
Garðsverzlunareignin var tekin upp í sameignarfélag J.P.T. Bryde og sonar hans Herluf Ingjald Bryde 1905, sbr. félagssamning 29. marz 1905. Eignin öll var þá metin á 20,000 kr., þar af 4000 kr. áhöld og innanstokksmunir.²⁶) Herluf Bryde varð einn eigandi verzlunarinnar eftir dauða föður síns 1910.
Eigendaskipti urðu að Godthaabsverzlun 1847, eftir gjaldþrot P.C. Knudtzons. Keyptu þeir hana þá J.Th. Christensen verzlunarstjóri í Vestmannaeyjum og mágur hans J.Ch.Th. Abel, sbr. afsal 11. júní 1847.²⁷) Eigendur Godthaabsverzlunar seldu hana aftur 1858 H.E. Thomsen, er verið hafði verzl.stjóri við þessa verzlun skömmu eftir að hún var stofnuð. Kaupverðið var 9000 rd., sbr. afsal 26. júní 1858, þingl. 14. júní 1859.²⁸) H.E. Thomsen deyði 27. apríl 1881. Hann var faðir Lárusar Sveinbjörnsson háyfirdómara, d. 7. jan. 1910. — Eignir Godthaabsverzlunar voru 1881 virtar á samtals 52,260 kr., þar af húseignir 15,177 kr. og innfluttar vörur rúmar 30,000 kr.²⁹)
Erfingjar H.E. Thomsens seldu Godthaabsverzlun J.P.T. Bryde kaupmanni 1895, með húsum og mannvirkjum.³⁰) Verzlun var eigi tekin upp aftur í Godthaab að því sinni. Lét J.P.T. Bryde rífa verzlunarhúsin, og voru úr þeim byggð verzlunarhús Brydesverzlunar í Vík í Mýrdal.
Þriðja verzlunin var stofnsett í Vestmannaeyjum undir miðja 19. öld, og nefndist hún Juliushaab. Eigandi var J.T. Birck. Stór verzlunarlóð var útmæld undir verzlunarstaðinn. Íbúðar-og verzlunarhús í Juliushaab voru reist 1846—1849. Þessi verzlun var í daglegu tali nefnd Tangabúð og Tangi og Tangalóð. Á þessum slóðum höfðu áður verið verbúðir og fiskigarðar. Tangaverzlun eða Juliushaab keypti J.P.T. Bryde af umráðamönnum dánarbús J.T. Birck 1852. Afsal þingl. 13. júní 1853. Kaupverð 5410 rd.³¹)
Verzlunarstaðurinn Juliushaab, skoðunar- og mælingargjörð 3. júní 1856: Lóðin: Suðurhliðin nær frá takmarkasteini, sem er niðursettur í það vestlæga og syðsta horn, merkt J.H., um 46 faðma. Landsuðurhliðin er hér um bil 14 faðmar og tveir marksteinar, merktir J.H., í landsuður og austurhornunum. Austurhliðin um 30 faðma löng. Norðurhliðin um 28 faðmar. Vesturhliðin frá takmarkasteini, merktum J.H., í vesturhorni suðurhliðar, lengd um 36 faðmar. Hin konunglega fjara er undanskilin.
Löngu seinna, 1889, afsalaði Bryde verzlun þessari syni sínum Herluf Bryde með gjafaafsali. Þingl. 21. júní 1889. Verð 10,000 kr.³²) Tangaverzlun hætti fyrir aldamótin 1900, og féll verzlunarlóðin, er verið hafði afgjaldalaus, til landssjóðs, eins og Godthaabslóðin, er verzlunin hætti þar. — Síðasti verzlunarstjórinn við hina gömlu Tangaverzlun var Gísli Engilbertsson.
Jón Salómonssen verzlunarstjóri (sjá um hann við Herfylkingu Vestmannaeyja í I. b.) fékk borgarabréf í Vestmannaeyjum 1864 og var innritaður sem verzlunarborgari þar og undirskrifaði hinn venjulega borgaraeið, sbr. sýslum.br. 14. sept. 1864.³³) Eigi kom til þess, að Jón Salómonssen notfærði sér verzlunarleyfi sitt.
Kaupmenn þeir, er fengu leyfi til að stofnsetja nýjar verzlanir í Vestmannaeyjum og fengu útmældar lóðir, Godthaabsverzlun 1830 og Juliushaabsverzlun 1845, fengu lóðirnar til afnota án eignarréttinda, en leigu- og afgjaldalausar með öllu, meðan verzlunarreksturinn hélzt. Mun hér hafa verið fylgt sama fordæmi og er Hans Klog yfirtók Garðsverzlun, einu verzlunina þá í eyjunum, eftir lok einokunarinnar, sbr. kansellíbréf 26. apríl 1788, er áður getur, og tilsk. 13. júní 1787, og lóðin afhent til afnota án eignarréttinda, en með rétti til að selja og veðsetja leiguréttinn. Garðsverzlunarlóðin hefir því ekki fremur átt að skoðast sem eiginleg eignarlóð. Þegar selja átti Vestmannaeyjar 1833 voru Miðbúðarlóð og Garðsverzlunarlóð báðar undanskildar, en að vísu báðar taldar eignarlendur konungs, og sannar þetta meðal annars, að Garðsverzlunarlóðin hafði eigi verið afhent til eignar. — Lóðirnar undir hinum nýju verzlunarstöðum voru útmældar mest af óræktuðu landi. Á þeim voru auk verzlunarhúsanna reist mannvirki ýmisleg, íbúðarhús og þurrkreitir. Samt var engin leiga greidd af lóðum eða af húsum, eigi heldur tómthúsleiga af íbúðarhúsi verzlunarstjórans. Hélzt þetta 19. öldina út, að engin leiga var greidd í jarðabókarsjóð eða landssjóð, meðan verzlanirnar voru í rekstri, og sama, þótt eigendaskipti yrðu að verzlununum. Godthaabs- og Juliushaabsverzlanirnar voru lagðar niður, eins og að ofan segir, fyrir aldamótin 1900, og féllu lóðirnar þá, er hætt var að nota þær eftir hinu upphaflega augnamiði, aftur til landsdrottins eyjanna, nú ríkissjóðs, til ráðstöfunar. Hér eftir voru þær leigðar út til nýs verzlunarreksturs gegn fullu leigugjaldi. Er fyrst frá árinu 1900—1901 í umboðsreikningum Vestmannaeyja tilfærð lóðarleiga í Vestmannaeyjum eftir verzlunarlóðir þar, sem sé Godthaabs- og Juliushaabslóðirnar, er nú höfðu verið leigðar aftur, er verzlunin var lögð niður, J.P.T. Bryde kaupmanni og etazráði í Kaupmannahöfn til fiskverkunar, sbr. leyfi í ráðgjafabr. 22. sept. 1899, og sérstakur leigusamningur um lóðirnar gerður 14. sept. 1900. Afgjaldið eftir Juliushaabslóðina, sem var talin 2100 ferfaðmar, eða á stærð við 6 tómthúslóðir, var ákveðið 96 álnir árlega eftir meðalverði. Hin lóðin var talin 1400 ferfaðmar, og afgjaldið hlutfallslega lægra. Umboðsvaldið áskildi sér rétt til að segja leigjanda upp leigurétti, ef einhver vildi fá lóðirnar til verzlunarreksturs. Garðsverzlun var hins vegar aldrei lögð niður, og virðist sem afgjaldalaus ábúðarréttur hefði átt að haldast meðan verzlunin hélt áfram og lóðin eign ríkissjóðs.
Af verzlunarlóðunum þrem var Garðsverzlunarlóðin stærst. Hún skiptist þannig: Austurlóð: Skanzinn er austurhlið hennar og takmarkast af Kornhólstúni. Norðurlóð: Norðurhlið hennar er 58 faðmar, nær að sjónum. Suðurlóð: Norðurhlið hennar er ca. 49 faðmar, takmarkast af alfaravegi. Marksteinar Garðsverzlunar eru merktir stóru G. höggnu í steinana. Marksteinar Godthaabslóðar eru merktir G.H., og Tangalóðar, Juliushaab, með J.H.³⁴)
Með lögum frá 11. júlí 1911 var svo ákveðið um verzlunarlóðina í Vestmannaeyjum, að hún að sunnan skyldi takmarkast frá Hásteini í beina línu, rétt fyrir framan Landakirkju, og þaðan bein lína austur í sjó um hól í Vilborgarstaðatúni. Samkvæmt lögum frá 1905 um ákvörðun verzlunarstaðar í Vestmannaeyjum takmarkaðist svæðið af beinni línu frá Uppsölum, í Fornu-Landagarð og þaðan í landsuðurhorn Eystri-Landalóðar.
Verzlanirnar í Vestmannaeyjum höfðu árlega eigin skip að mestu til vöruflutninga. Munu kaupskipin lengstum hafa verið 2—3, er til eyjanna sigldu, og stundum fleiri. Á fyrri hluta 19. aldar, eftir að verzlanirnar voru orðnar tvær og síðar þrjár, höfðu þær 5—8 skip til vöruflutninga, sum þó aðeins til ferða milli staða innanlands, Vestmannaeyja, Hafnarf jarðar, Reykjavíkur og Íafjarðar. Skipin voru sum mjög lítil, niður í 7 C.L., eða rúmar 14 smálestir.³⁵)
Á seinni hluta 19. aldar voru vöruskipin til millilandaflutninga venjulega fjögur og þess utan stundum aukaskip. Lausakaupmenn komu og endrum og sinnum. Skipin lögðust á innri höfnina, úti á Botni, og var vörum skipað upp og út á uppskipunarbátum. Til Brydesverzlana komu kaupskipin: Skonnortan Johanne, 75,30 t., Charlotte, 64,79 t., og Jason, 59,23 t. Áður eldri Johanne, 39 1/4 t., og Adolphine, 36 t. Þess utan aukaskip með kol, salt, timbur, olíu o.fl.: Sömanden, 99,47 t., Union og seinna gufuskipið Ísafold. — Frá Godthaabsverzlun var oftast aðeins eitt skip í förum í seinni tíð lengi: Skonnortan Sophie, rúm 77 t., og Carl, 69,36 t.
Fyrstu skipin komu snemma á vorin og biðu eftir að fiskur væri fullþurrkaður til útflutnings og fóru á meðan í hákarlatúra. Skipin fluttu fisk í seinni tíð beint til Spánar, og til Englands fóru þau með ull og fleiri afurðir og komu aftur með salt og kol frá þessum löndum, og tóku hér svo síðþurrkaðan fisk og ýmsar fiskafurðir og fluttu til Kaupmannahafnar. Á síðasta hluta 19. aldar mun fiskútflutningurinn og annarra afurða hafa skipzt þannig á milli verzlananna: Tangaverzlun hafði árlega einn skipsfarm í skipið Jason, Garðsverzlun tvo farma og Godthaabsverzlun einn. Verzlunarvelta Garðsverzlunar var oft rúmlega helmingur af allri verzlunarveltu eyjanna.
Árið 1886 var útflutningur á fiski og fiskafurðum frá eyjum samkvæmt verzlunarskýrslunum:

Charlotte, farardagur frá eyjunum 15. júní, til Bilbao með 134,400 pd. saltfiskjar og 145 tn. hrogn.
Sophie, farardagur frá eyjunum 19. júní, til Bilbao með 145,000 pd. saltfiskjar og 64 tn. hrogn.
Sömanden til Kaupmannahafnar með 77,705 pd. af saltfiski, 2,001 pd. sundmaga og 320 tn. lýsi.
Seinni ferðir tveggja fyrstnefndra skipa: Charlotte frá eyjum 14. sept. til Kaupm.hafnar með 35,905 pd. af saltfiski og 49 tn. lýsi.
Sophie frá eyjum til Kaupm.hafnar með 46,868 pd. af saltfiski.³⁶)

Fátítt var að aðkomuskip kæmu til eyjanna. Það þótti því tíðindum sæta, er Coghill, hinn skozki hesta- og fjárkaupmaður, lét skip sitt, Magnetic, koma við í eyjunum 1889 og 1890. Keypti Coghill í eyjunum nokkra hesta. — Clutha, skip er Jón Vídalín konsúll hafði í förum, kom til eyjanna um þessar mundir með vörur.
Kaupskipin svokölluðu hættu ferðum sínum hingað upp úr aldamótunum, og hefst þá vöruflutningur með póstskipunum, nema þungavara — kol, salt og timbur — var flutt á sérstökum skipum og mestallur fiskur.
Undir lok 19. aldar var verzlun J.P.T. Bryde, Garðsverzlun, orðin einráð í Vestmannaeyjum aftur. Útibú hafði verzlunin nú í Vík í Mýrdal. Hafði Bryde kaupmaður og umráð yfir hinum verzlunarstöðunum, þar sem búið var að leggja verzlanirnar niður, og lóðum þar og mannvirkjum öllum í þágu verzlunarreksturs síns. Meðal verzlunarstjóranna við J.P.T. Brydes-verzlun hér voru: Jóhann Bjarnesen, Anton Bjarnesen, Ólafur Arinbjarnarson og Jón Hinriksson. — J.P.T. Bryde etazráð var einn af helztu kaupmönnum hér á landi. Hann rak lengi verzlun í Reykjavík.³⁷) Brydesverzlun í Reykjavík rak útibú í Borgarnesi. Firmað rak og verzlun í Hafnarfirði. Keypti Akurgerði í Hafnarfirði með verzlunarhúsum 1901 af fiskveiða og verzlunarfélaginu Ísafold.

Heimildir og umfjöllun í þessum kafla:
1) Sýsluskjöl V.E., stiftamtmannsbréf I, IV, Þjóðskjs.
2) Sjá tilsk. 13. júní 1787, 20. gr.
3) Lovs. V, bls. 523—524.
4) Sjá hæstaréttardóm 5. júní 1940, Hæstar.d. XI, bls. 301—307.
5) Lovs. IX, bls. 262—263.
6) Sjá Isl. Jordebogsregnskab 1774 og síðar, Þjóðskjs.
7) Leyfisbréfið útgefið af sýslumanninum í Vestmannaeyjum.
8) Sbr. tilsk. 13. júní 1787.
9) Sýsluskjöl V.E. I, IV, Þjóðskjs. — Afsalsbréf 29. maí 1799, söluverð 11,279,89 rd., með verði skipsins „Seien“ alls 17,279,89 rd., sjá tryggingar bréf 2. apríl 1804 og 6. ágúst 1805.
10) Afsalið til W. Petræus frá P.L. Svane þinglesið 16. sept. 1805, kaup verð 4534 rd.
11) Lovs. VII, bls. 121—123.
12) Magnús Ólsen Bergmann var verzlunarstjóri við verzlunina í Vestmannaeyjum og bjó hann í Kornhól (Danska Garði). Magnús var og um tíma lögsagnari. Hann varð síðar verzlunarstjóri við Rödgaardsverzlun í Reykjavík. Andreas Petræus tók við verzlunarforstöðunni 1815.
13) Voru eignir hans og meðeiganda þar, L.E. Knudsens, metnar á 80,315 rd. Sjá Safn t.s.Ísl. V, bls. 54.
14) Sbr. tilsk. 13. júní 1787, 1. kap., 13. gr.
15) Lovs. IX, 64; Klausturpóstur 1826, 87.
16) Rentek. Relat. og Resol. Prot. 1828, A, nr. 64; Lovs. IX, 263.
17) Rentek. Relat. og Resol. Prot. 1831, nr. 30, Lovs. IX, 644.
18) Sýsluskjöl V.E., Þjóðskjs.
19) Í prestsþjónustubók Ofanleitisprestakalls 1830 er nefnt nýja „Höndlunarhúsið“, síðar Godthaab.
20) Breiðfjörðshús var kennt við Sigurð Breiðfjörð, er þar bjó 1827.
21) Sýsluskjöl V.E., Þjóðskjs.
22) Verzlunarskýrslur V.E. 1840—1861, Þjóðskjs. XXVII.
23) Veðmálabók V.E. 1832—1873.
24) Veðmálabók 1832—1873, veðmálabókarskrá, Þjóðskjs. Skjöl XXX, III, 4, 1829—1854, Þjóðskjs.
25) Sjá feðgaæfir Jóns Péturssonar háyfirdómara; Íslendingar í Danmörku, dr. Jón Helgason, Rvík 1931.
26) Veðmálabækur og veðmálaskrá V.E.
27) Veðmálabók V.E. 1832—1873. — Hafði Th. Thomsen selt Knudtzon sinn hluta fyrir 1500 rd., þingl. 10. júní 1848.
28) Veðmálabók V.E. 1832—1873.
29) Virðingargjörð sýslum. Aagaards 29. ágúst 1881, skiptabók V.E.
30) Kaupverðið var 4500 kr. Hafði verzluninni verið haldið uppi síðustu árin aðeins til þess að selja vörubirgðirnar.
31) Afsalsbók og veðmálabókarskrá V.E., Þjóðskjs.; Bréfab. 1821—1891.
32) Aukatekjubók Vestmannaeyja.
33) Sýsluskjöl V.E., Þjóðskjs.
34) Sjá skoðunargerðir: Fyrir Garðsverzlunarlóð 6. okt. 1855, Godthaabslóð 4. ágúst 1858, Juliushaabslóð 24. maí 1862 (Sýsluskjöl V.E., veðmálabækur V.E. 1832—1873).
35) Verzlunarskýrslur 1840—1861, Þjóðskjs., XXVII. — C.L.-lestatal gilti í Danmörku til 1867.
36) Verzlunarskýrslur Vestmannaeyja 1840—1861 og 1861—1886, Þjóðskjs. Sjá og Fróða 1881.
37) Bryde keypti N. Chr. Havsteens verzlun í Reykjavík 1881. Dines Petersen: Dansk-Islandsk Handel, Kbh. 1934. Petersen hafði verið við Brydesverzlun í Vestmannaeyjum.


Saga Vestmannaeyja efnisyfirlit