Saga Vestmannaeyja I./ III. Kirkja, 4. hluti

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
III. Kirkja
(4. hluti)


Mikil þörf salts hefir verið í Vestmannaeyjum bæði vegna fuglatekjunnar og fiskveiðanna á sumrum. Fornlög gera eigi ráð fyrir innflutningi á salti til landsins, og hefir því orðið að vinna saltið í landinu. Þess mætti og geta til, að sumt af tunnunum hafi verið notað til að salta í fugl, en fuglatekja mikil hefir jafnan tilheyrt Ofanleiti.
Af kvikfjáreign kirknanna, sem aldrei var mikil, nutu prestarnir arðs, meðan kirkjurnar voru lénskirkjur. Bar þeim að sjá um að þessi eign rýrnaði eigi fremur en annað kirkjugóss.
Á Kirkjubæ og Ofanleiti var haldið uppi bænhúsum⁴⁶). Bænhúsin stóðu fram um aldamótin 1900. Er líklegt, að gömlu kirkjunum á báðum stöðunum hafi frá fyrstu verið haldið við sem bænhúsum eða bænhúsin byggð upp úr þeim á sama stað. Við bæði bænhúsin sást móta fyrir kirkjugarði fram undir aldamótin síðustu. Greftranir munu að vísu hafa lagzt niður þarna eftir byggingu Landakirkju, en hafa verið teknar upp aftur á tímabili eftir Tyrkjaránið. Kunnugt er um, að messað var í bænhúsinu á Ofanleiti eftir Tyrkjaránið. Föstumessur voru haldnar þar á síðari hluta 18. aldar. Bænhúsið á Kirkjubæ fylgdi Bænhússjörðinni þar eftir að prestsetur var lagt niður á Kirkjubæ. Það er því eigi rétt, er segir í skýrslu í Árbók Fornleifafélagsins 1924 um fund legsteins séra Jóns píslarvotts, að bænhúsið hafi tilheyrt jörð þeirri, er Magnús Eyjólfsson bjó á. Bænhússjörðin var í ábúð afkomenda séra Jóns Austmanns. Frá því um 1880 hafði dóttursonur hans, Jóhann Jörgen Johnsen, jörðina og ekkja hans þar til löngu fram yfir aldamótin. Hafði ábúandi Bænhússjarðarinnar umráðin yfir bænhúsinu. Bænhúsið er talið í úttekt Kirkjubæjar 1822, þá er séra Páll skáldi tók við af séra Bjarnhéðni.
Til kirkjulegra athafna var bænhúsið eigi notað mjög lengi síðustu árin. Samkvæmt úttektinni 1822 var bænhúsið í 3 stafgólfum, hefir áður verið stærra. Þegar það loks var rifið um 1900 var það mjóg hrörlegt. Þak var á því úr timbri, en veggir og afturgafl úr grjóti og torfi, framgafl úr timbri og lítill gluggi á. Moldargólf var í því. Hefir það verið mikið breytt frá því sem áður var. Þá er bænhúsið var rifið um 1900 fékk Magnús Eyjólfsson leyfi til að reisa smiðju í stæðinu, en austurhlutinn var lagður til kálgarðs í gamla kirkjugarðsstæðinu. Í þessum hluta bænhússstæðisins fannst vorið 1924, er þar var stungið upp, legsteinn Kirkjubæjarprestsins, séra Jóns Þorsteinssonar píslarvotts. Hefir séra Jón, er drepinn var af Tyrkjum 17. júlí 1627, verið grafinn inni í bænhúsinu og legsteinninn settur yfir gröf hans. Auðsætt var, að bænhúsið hefir verið lengra og stærra á þessum fyrrnefndu tímum.
Bænhúsinu á Ofanleiti hefir verið haldið við sem slíku fram um 1860 eða þar til séra Jón Austmann deyði, sbr. úttekt Ofanleitis frá 11. júní 1860⁴⁷) og fyrri úttektir, sem sýna, að skylda hefir verið að halda bænhúsinu við, svo það yrði notað til messugerðar, ef við lægi, einkum til föstuguðsþjónustu. Um kirkjuna á Ofanleiti er talað 1634 og messað þar áður en hin nýja Landakirkja komst upp eftir Tyrkjaránið, sbr. kærumál yfir Gísla presti Þorvarðarsyni á Ofanleiti, er komu fyrir Gísla biskup Oddsson á Breiðabólstað í Fljótshlíð 1636⁴⁸).
Í úttekt Ofanleitis 20. júní 1885 eftir séra Brynjólf Jónsson látinn segir, að hið svonefnda Bænhús, sbr. úttektina 11. júní 1860, og útieldhús á Ofanleiti sé nú byggt undir einu þaki. Bænhúsið á Ofanleiti var í þrem stafgólfum, af timbri, tjargað að utan og með lagðri þakhellu. 1 glergluggi var á því með 4 rúðum, sbr. úttekt Ofanleitis 8. júní 1746 og seinni úttektir. Misskilningur er það, er segir, sbr. Árb. 1907, B.J., um tréútskurð í bænhúsinu á Ofanleiti. Þetta á við Landakirkju sjálfa.
Á Ofanleiti sást móta fyrir kirkjugarði í tíð elztu manna, er nú lifa. Gröftur hefir þó verið lagður þar niður fyrir æfalöngu, nema um tíma eftir Tyrkjaránið. Í hinum nýja Landakirkjugarði var Ólafur prestur Egilsson að Ofanleiti, er deyði 1639, grafinn.
Á Fornu-Löndum sást móta fyrir kirkjugarði fram til um 1887—1890. Þá voru gerðar þarna ýmsar breytingar og jarðrask. Til húsatótta sást þarna fram til 1873⁴⁹).
Kirkjan, sem reist var á Fornu-Löndum, sem sóknarkirkja fyrir báðar sóknirnar 1573, hefir verið timburkirkja allstór og vegleg og vel búin að kirkjugripum. Munu til hennar hafa gengið kirkjumunir beggja hinna kirknanna, en milli þeirra munu sennilega hafa skipzt eignir Klemensarkirkjunnar gömlu, er hún var lögð niður. Þessi kirkja var fyrsta kirkjan, er byggð var á Löndum, sbr. kirkjusamþykktina frá 1606. Til kirkjubyggingarinnar hefir verið aflað fjár með samskotum, fiskgjöfum, eins og átti sér stað síðar. Prestarnir máttu leggja til ríflegt tillag í eitt skipti fyrir öll sem endurgjald fyrir kirkjutíundina, er þeir nú gátu haldið óskertri. Tillagið frá þeim voru 3 lestir fiskjar, og þótti hart að gengið, er þeir sátu í tekjurýrum brauðum⁵⁰). Kvikfjáreign gömlu kirknanna hefir ef til vill gengið hér upp í.
Kirkjan á Fornu-Löndum stóð þar til hún var brennd í Tyrkjaráninu 17. júlí 1627. Segir í Tyrkjaránssögunni, að ræningjarnir hafi umkringt kirkjuna með skotum og axarhöggum og illum látum, þar til þeir komust inn. Ræntu þeir hana fyrst sínum skrúða. Seinna slógu þeir eldi í kirkjuna og brenndu hana til kaldra kola. En fám árum áður, eða 1614, höfðu enskir reifarar rænt kirkjuna bókum og messuklæðum og öllum ornamentis, og voru kirkjunni þá lánuð ornamenta frá Breiðabólstaðarkirkju í Fljótshlíð: Gamall sloppur og silfurkaleikur með patínu, kólflaus klukka o.fl. Hafði sr. Ólafur Egilsson, þá prestur á Ofanleiti, veitt téðum munum móttöku og ábyrgzt að þeim yrði aftur skilað Breiðabólstaðarkirkju, „nær sem guð gæfi önnur til Vestmannaeyja“. Líklegt er, að eitthvað hafi verið eftir af kirkjumunum í bænhúsunum á prestsetrunum, og mun það að mestu hafa lagzt til hinnar nýju kirkju. En þessir gömlu kirkjumunir, margra alda samansafn, ásamt þeim munum, er síðar hefir verið aflað, gera má t.d. ráð fyrir því, að frá umboðsmönnum á eyjunum hafi kirkjunni borizt gjafir, hafa allir lent í ræningjahöndum í enska ráninu 1614. Í Tyrkjaráninu létu og ræningjarnir greipar sópa um muni kirkjunnar. Samt virðist sem kirkjuklukkunum hafi verið komið undan, bæði klukku þeirri, er nú er í Landakirkju og ber ártalið 1619, og annari ennþá eldri klukku, sem fyrir löngu er samt komin úr eigu kirkjunnar. Þessi gamla klukka hefir verið í Landakirkju, er hún var rænd 1614. Segir svo frá, að þegar Landakirkja var rænd nefnt ár, tóku ræningjarnir meðal annars stóru klukkuna og fluttu hana til Englands. Foringi ræningjanna, John Gentelmann, var ásamt fylgjurum sínum dreginn fyrir lög og dóm í Englandi, og tekinn af lífi. Á kirkjuklukkunni hafði staðið, hvaða kirkju hún tilheyrði á Íslandi. Munu ræningjarnir hafa ætlað að selja hana, en þetta varð til þess að koma upp um þá. Jakob Englandskonungur, segir sagan, sendi klukkuna aftur til Vestmannaeyja 1617. Hafa ýmsir viljað telja, að kirkjuklukkan, sem ber ártalið 1619, sé einmitt hin umrædda klukka, því eigi hefir verið kunnugt um aðra klukku gamla, er kirkjan hefir átt. Ártalið 1619 mun eiga við árið, er klukkan var smíðuð⁵¹).
Sögnin um heimsendingu klukkunnar getur samt verið rétt, en hún mun eiga við aðra klukku, og mun það einmitt vera klukka sú, er seld var frá kirkjunni fyrir 1743, og önnur ný þá keypt í staðinn, er ber ártalið 1743 og enn er í Landakirkju. Sjá kgúrsk. 26. marz 1748, þar sem getið er þessarar kirkjuklukku, er seld hafði verið frá Landakirkju og önnur ný keypt í staðinn. Þessi nýja klukka, er keypt var 1743 frá Danmörku, kostaði 168 rd., en upp í andvirði hennar var látið ganga 68 rd., er fengizt höfðu fyrir hina gömlu klukku frá Landakirkju, er send hafði verið til Kaupmannahafnar af kirkjuhaldara og seld þar. Ef til vill er þessa klukku að finna meðal forngripa á söfnum í Danmörku. Til er þjóðsaga um að reyniviðarhríslur tvær hafi vaxið sín hvorum megin Landakirkju, og svo háar, að limar þeirra mættust yfir kirkjuburstinni. Segir sagan, að reynitrén hafi staðið, unz Hundtyrkinn kom og rændi eyjarnar og hjuggu upp trén⁵²). Sagan er merkileg fyrir það, að þetta er eina sögnin, er þekkist um trjágróður á eyjunum fyrrum.
Byrjað var á nýrri kirkjubyggingu í stað kirkjunnar á Fornu-Löndum, er ræningjarnir höfðu brennt, 22. ágúst 1631. Kirkjan var færð nokkuð lengra upp frá kauptúninu og vestar til hægðarauka fyrir Ofanbyggjara. Stóð kirkjan þar, sem nú kallast Gamli kirkjugarður í núverandi kirkjugarði eyjanna. Nafnið Landakirkja hefir samt haldizt og helzt enn þann dag í dag, þótt kirkjan væri flutt frá Fornu-Löndum. Á þessu hefir verið villzt, sbr. það, sem skrifað er á afrit af samþykktinni frá 1606, um kirkjufiskinn, þar sem sagt er, að Landakirkja hafi staðið alls til datum, er nú er skrifað 1744, 171 ár, á þeim sama stað, sem hún var byggð 1573⁵³)
Til er skýrsla um endurbyggingu Landakirkju eftir Tyrkjabrunann og um gjafir til hennar yfir tímabilið frá 1631—1704⁵⁴). Það sést, að til kirkjubyggingarinnar hafði umboðsmaðurinn, Zakarias Gottfredsen, lagt út um 7½ lest fiskjar. Skuld kirkjunnar við umboðsmann nam í maí 1632 nær 6 lestum fiskjar, og var hún greidd með frjálsum fiskgjöfum, 1 greniborð metið á 1 fisk. Fiskgjafirnar bárust frá bændum og búandliði á eyjunum, formönnum og skipshöfnum. Einnig voru miklar gjafir frá kaupmönnum og skipstjórum á kaupskipunum o.fl. Prestarnir gáfu og til kirkjunnar. Brynjólfur biskup Sveinsson gaf til kirkjunnar 4 rd., Þorleifur sýslumaður á Hlíðarenda Magnússon og Kláus Eyjólfsson lögsagnari voru og meðal gefenda. Til kirkjunnar hefir verið vel vandað og entist hún að vísu í 91 ár. Fyrir greiðslu kostnaðarins við kirkjubygginguna, er kaupmenn höfðu lagt út, kvittar Johan Roebring 1641. Var byggingarkostnaðurinn greiddur með andvirði kirkjufiskjarins og fiskgjafa.
Til stuðnings kirkju sinni, er eigi hafði haft annað en það, er henni barst í frjálsum gjöfum, höfðu eyjamenn gert með sér samþykkt 11. okt. 1606 í 11 greinum um greiðslu hins svokallaða kirkjufiskjar. Skyldi Landakirkja hafa einn fisk af hverju skipi eftir hvern útróður á vertíðinni, nær einn fiskur var í hlut á hvern mann, og skyldi það vera bezti fiskurinn, sem aflaðist, eins og gilt hafði um fátækrafiskinn, er goldinn var á sama hátt.
Formanni bar að afhenda fógeta konungs kirkjufiskana í vertíðarlok, og átti fógeti að athuga, að fiskatalan kæmi heim við róðrartölu bátanna.
Umsjón kirkjunnar höfðu prestarnir báðir, hreppstjórarnir og nokkrir bændur og tómthúsmenn, úr þeirra flokki hinir vönduðustu og guðhræddustu. Áttu þeir og að velja annanhvorn prestanna eða einn hreppstjóra og með þeim einn af bændunum til að standa fyrir málefnum kirkjunnar sjálfrar. Héraðsbúum bar að gera skil fyrir kirkjufiskinum opinberlega hvert ár á hreppstjórnarþingi. Veita mátti fyrir kirkjunnar fé eina tunnu öls til glaðnings handa fólki á kirkjustefnu eða hreppastefnu. Var þá venja, að fólk kom með fiskgjafir sínar til kirkjunnar. Tók fjárhaldsmaður kirkjunnar, er var fógeti, á móti gjöfunum og innfærði í reikningsbók kirkjunnar ásamt fiskhlutunum. Þá voru ákvæði um sektarútlát þeirra, er dirfðust að neita að láta kirkjufiskinn af hendi eða viðhöfðu óviðurkvæmileg orð um kirkjuna eða tilsjónarmenn hennar. Einnig var ákvæði um að selja mætti kirkjufiskinn hverjum sem vildi, ef eigi fengist nógu góð vara út á hann hjá konungsfógeta í Dönskuhúsum. Eins og áður segir nær reikningsbók Landakirkju yfir tímabilið 1631—1704.
Árni Magnússon segir⁵⁵), að umboðsmenn konungs, margir hverjir, er höfðu reikningshald kirkjunnar, hafi eigi farið sem ráðvandlegast með fé hennar, en bændurnir, er hafi haft eftirlit með fjárreiðunum, fáfróðir um reikningsskil og lítt skrifandi. Á hinn bóginn má geta þess, að sumir umboðsmannanna gáfu kirkjunni stórgjafir og sæmdu hana dýrmætum kirkjugripum, sem kirkjan á enn. Yfirumsjón með reikningshaldi kirkjunnar heyrði undir héraðsprófast og stiftamtið.
Þessi merkilega kirkjusamþykkt eyjamanna, sem ekki á sinn líka hér á landi og ber eyjabúum trútt vitni um ræktarsemi þeirra við kirkju sína, var rúmum 100 árum seinna eða þann 13. ágúst 1717 staðfest af Jóni biskupi Vídalín. Eftirrit af samþykktinni var tekið 1704, sennilega um leið og Jón biskup vísiteraði Landakirkju, vísitasían er dagsett 14. maí 1704⁵⁶)
Kirkjusamþykktin mun lengstum hafa verið geymd í Landakirkju, sem einn af dýrgripum hennar. Hvort frumritið hefir bjargazt, sem líklegast er, er Landakirkja var brennd 1627, eða annað gilt handrit verið geymt annars staðar, verður eigi sagt um.
Í staðfestingarbréfi Jóns biskups Vídalíns frá 1717⁵⁷) segir, að almúginn í Vestmannaeyjum hafi verið vanur að gefa til kirkjunnar sérstaklega þriðja hvert ár, eins og kirkjubókin hin forna beri með sér⁵⁸) Kirkjan hafi og þegið gjafir af útlendum mönnum, skipurum, kaupmönnum og umboðsmönnum. Felur biskup prestunum á eyjunum að áminna fólkið um að halda uppi þessari góðu og guðrækilegu siðvenju, og eggjar þá sjálfa að ganga á undan með góðu eftirdæmi, eftir getu þeirra. Leggur biskup einnig fyrir, að staðfestingarbréfið skuli lesið upp við Landakirkju og á hreppastefnu. Jafnframt sendi biskup kirkjunni nýja reikningsbók með innsigli biskups og fulltrúa stiftamtmanns. Þá var umboðsmaður á eyjunum Joh. Lor. Bech. Skrifar hann biskupi 22. okt. 1717 og lýsir þakklæti fyrir að biskup hafi tekið málefni kirkjunnar í sínar hendur. Hafa hvatningarorð biskups borið góðan árangur, því t.d. næsta ár gáfust kirkjunni nær 700 fiskar⁵⁹). Af fiskgjöfum 1718 voru um hálft annað hundrað frá eyjamönnum, 2 skiparar og skipshafnir þeirra gáfu um hálft þriðja hundrað, hitt frá prestunum og kaupmönnum.
Nú hefir verið hafin söfnun til nýrrar kirkjubyggingar, því gamla kirkjan, er byggð var 1631, var orðin mjög hrörleg, höfðu þó tíðum verið gerðar á henni miklar endurbætur. 1686 hefir kirkjan verið orðin mjög illa farin og var þá „niðurrifin og af undirviðum endurbætt og með borðum klædd að öllu uppbyggð“⁶⁰). Þá var Anders Svendsen umboðsmaður reikningshaldari kirkjunnar. Hann er sá af umboðsmönnunum, sem Árni Magnússon, sbr. A.M. Embedsskriv., segir, að hafi dregið sér mest af fé kirkjunnar, þó fleiri hafi þeir verið, er gerðu sig seka þar um. Vildi Árni, að erfingjum Svendsens væri nú gert að skyldu að leggja fé fram til hinnar nýju kirkjubyggingar og bæta þannig kirkjunni skaðann⁶¹). Lítinn árangur mun þetta samt hafa borið.
Jón biskup Vídalín sýndi mikinn áhuga fyrir málefnum kirkjunnar í Vestmannaeyjum. Segir dr. Arne Möller í æfisögu hans⁶²), að biskupi hafi runnið þar blóðið til skyldunnar um að heiðra þennan stað, kirkjuna í Vestmannaeyjum sem ættarinnar dýrmæta fórnaróðal. En Jón biskup var sonardóttursonur séra Jóns Þorsteinssonar píslarvotts.
Til er skrá yfir muni Landakirkju frá 22. sept. 1690. Átti þá kirkjan 2 kaleika, annan gylltan og lítinn silfurkaleik, 2 rauð altarisklæði og 1 gamalt úr kattun. Góðan messuhökul, annan fjólubláan með gullvírsnúrum. Var hann gjöf frá Hans Nansen kaupmanni um 1660. Ennfremur 2 gamla messuhökla, þó notfæra, 4 kertastikur á altari, 2 stórar og 2 smáar, Krucifix úr messing, 16 arma ljósakrónu og aðra 12 arma, 2 ljósastjaka yfir dyrastólpum, skírnarfat úr tini, gamla kistu og gamla flösku, 2 gamlar myndir Fides og Spes. Myndirnar voru gjöf frá Hans Würst kaupmanni, sbr. skrá frá 1676. Kirkjan átti og mjög gamla biblíu, gjöf frá séra Oddi Eyjólfssyni á Kirkjubæ, íslenzka biblíu, gefna af Anders Suensen. Íslenzka evangeliebók, að líkindum gefna af séra Ólafi Egilssyni á Ofanleiti. Þá eru taldir 2 litlir gluggar, 1 gamall gluggi, gömul öxi og lítil tinskál. Á skránum 1666 og 1676 eru nær allir sömu munir taldir. Samkvæmt vísitasíu kirkjunnar frá 14. maí 1704, framkvæmdri af Jóni biskupi Vídalín, er og talið, að kirkjan eigi krucifix af messing á altari og krucifix af tré fyrir framan prédikunarstól, kaleik af silfri, gefinn af Niels Regelsen, og annan afgamlan. Skriðbyttu af horni og blikki. Kirkjan er hér talin 24 al. á lengd, 9 al. 3 kv. á breidd. Á kirkjunni voru útbrot 15 al., útbrotastafirnir 2 al. 3 kv. Í kórnum fóðraðir bekkir og lítið útbrot út af kórnum⁶³)
Árið 1722 var loks byggð ný kirkja. Var þetta þriðja Landakirkjan með því nafni, en önnur kirkjan, er byggð var á sama stað. Kirkjan var reist að nokkru fyrir gjafafé, en að mestu fyrir fé úr Jarðabókarsjóði, sbr. úrsk. 26. marz 1748. Frá þessum tímum kemst kirkjan á ábyrgð og framfæri Jarðabókarsjóðs. Hafði stjórnin orðið að lúta í lægra haldi með að koma kostnaðinum við kirkjuna yfir á Hörmangarafélagið. Hlaut konungur, er var eigandi allra jarða og fasteigna á eyjunum og sem einnig var aðnjótandi þriðjungs af hinni sameiginlegu presta- og kirkjutíund, að taka að sér kirkjuna og sjá kosti hennar borgið, að því leyti sem tekjur hennar, er voru að mestu fólgnar í frjálsum gjöfum og lítilsháttar fyrir sætagjöld, sbr. vísitasíu kirkjunnar frá 1749, eigi reyndust nægjanlegar.
Kirkjan, sem byggð var 1722, hefir verið lítt vönduð og stóð hún eigi lengur en 26 ár. Í vísitasíu kirkjunnar frá 13. júlí 1747 segir, að héraðsprófasturinn, Sigurður Jónsson í Holti undir Eyjafjöllum, hafi skoðað kirkjuna og endurskoðað reikninga hennar, er H. Dreyer kaupmaður hafði afhent prestunum samkvæmt skipun stiftamtmanns 27. júlí 1727⁶⁴).
Með konungsúrskurði 26. marz 1748 var ákveðið, að kirkjan, er orðin væri mjög hrörleg, skyldi rifin. Var gerð teikning að nýrri kirkju. Kostnaður við bygginguna áætlaður 336 rd., og bauðst stjórnin til að greiða allan kostnaðinn úr konungssjóði, enda tilfélli honum þá portion kirkjunnar, sem var 102 rd. Kirkjan var þá í skuld um 90 rd. við Ísl.-finnska verzlunarfélagið fyrir kirkjuklukkuna, er keypt var 1743.
Í vísitasíu héraðsprófasts séra Sigurðar Jónssonar frá 30. júní 1748 segir, að kirkjan á Löndum hafi verið „niðurtekin í grunn til uppbyggingar“. Og í vísitasíunni árið eftir, júlí 1749, segir, að kirkjan sé byggð í hólf og gólf af timbri, 24 og hálfa alin á lengd og 14 ál. á breidd. Sést af framanskráðu, að ákvörðunin um byggingu kirkjunnar frá 1748 hefir komizt til fullra framkvæmda. Það er því alls eigi rétt og á ókunnugleika byggt, sem haldið hefir verið fram⁶⁵), að kirkja sú, er reist var 1722, hafi staðið þar til byggð var steinkirkja sú um og eftir 1780, er enn stendur.
Um hina nýju kirkju segir svo í vísitasíunni frá 1749: Kórinn er aðskilinn frá framkirkjunni með pílaríum, og eru í kórnum 2 skriftastólar, sinn hvorum megin altaris og fóðraður stóll að auki sunnan megin. Í framkirkjunni er skírnarfontur, gefinn af H. Dreyer kaupmanni, 11 stólar, hver fyrir 6 persónur, og einnig 11 karlmannastólar og að auki einn kvenstóll fyrir 3 persónur. Á kórnum eru 6 gluggar, 3 á hvorri hlið, og 6 á framkirkjunni, 3 á hvorri hlið. Ornamenta kirkjunnar: Altari gamalt. Stór altaristafla. Altarisklæði af blálituðu plussi, ísaumað með gull- og silfurvír, einnig hvítur altarisdúkur. Þá altarisklæði af rauðu skarlati, lagt allt um kring með gullsnúrum. Því fylgir altarisdúkur með knipplingum. Þriðja altarisklæðið af rauðu klæði, gamalt með ullarkögri. Fjórða altarisklæðið gamalt og slitið⁶⁶). Hökull úr blálifrauðu flauili með ekta krossi, gefinn af Hans Nansen, og annar af rauðu plussi með gullkrossborða, bryddaðir gullsnúrum. Þriðji af líndúk, fjórði af blómstruðu atlaski með ekta krossi, mjög gamall. Kaleikdúkur, rautt silki, 3 oblátudósir úr silfri, tini og tré. Sakraríum úr tini. Auk þessa munir, er taldir eru á skránni frá 1690. Vængjahurð var fyrir aðaldyrum kirkjunnar.
Kirkjan, er byggð var 1648—49, entist eigi lengi fremur en kirkjan frá 1722. Í vísitasíu Landakirkju 1767 segir, að kirkjan hafi þá hlotið aðgerð, en samt sé henni þá þörf miklu frekari aðgerða, leki kirkjan í stórrigningum. Í visitasíugerð Páls prófasts Sigurðssonar 9. ágúst 1774 er kirkjan á Löndum talin í svo slæmu ástandi, að hún sé naumast fær til guðsþjónustu.
Stjórnin ákveður 1774, að reisa skuli nýja kirkju, sbr. reglugerð 28. apríl 1774⁶⁷). Leggur stjórnin nú fyrir, að bændur og þurrabúðarmenn á eyjunum, sem standi í skuld við gömlu kirkjuna, skuli vinna skuldina af sér við hina nýju kirkjubyggingu. En reyndin varð sú, að engir fundust, er skulduðu kirkjunni. Gert er og ráð fyrir því, að fangar frá hegningarhúsinu í Reykjavík verði sendir til eyjanna til þess að vinna að kirkjubyggingunni þar. Til þessa kom þó eigi. Seinna voru sett ákvæði um skyldu sóknarmanna til að leggja vinnu til kirkju sinnar, sbr. reglug. 10. júlí 1782.
Stjórnin hefir haft stór ráð í huga með þessa nýju kirkjubyggingu. Átti nú að byggja kirkju, er staðið gæti um aldur og æfi. Kostnaðurinn var áætlaður 2735 rd. Kirkjan átti auðvitað að vera úr steini. Var gert ráð fyrir að til hennar færu 900 tn. af kalki og 11000 Flensborgarmúrsteinar, auk höggins grjóts og hraungrýtis, er notað var í veggina og tekið hér. Teikningin var gerð af helzta lærða húsameistara Dana, er frægur var um Norðurlönd, Nikolai Eigtved, þess sama, er teiknaði Amalienborgarhöll og Kristjánsborgarhöll Kristjáns V., Koncertpalæið í Kaupmannahöfn o.fl. Georg David Anthon, kgl. Majest. byggingameistari í Kaupmannahöfn, stóð fyrir kirkjubyggingunni. Kristófer Berger, þýzkur maður, var yfirsmiður. Samningur var gerður við hann 21. maí 1774. Kom hann og einn sveinn með honum til Eyjanna 1774 ásamt konum þeirra og 8 börnum. Forsmiður að byggingunni var og Guðmundur bóndi Eyjólfsson í Þorlaugargerði. Guðmundur hafði áður staðið fyrir smíði Breiðabólstaðarkirkju í Fljótshlíð.
Kirkjusmíðin stóð yfir frá 1774—1778. Byrjað var að grafa fyrir grunni kirkjunnar í ágústmánuði 1774. Var héraðsprófastur Páll Sigurðsson þar viðstaddur og segir í vísitasíu hans, að allir æðri sem lægri stéttar óski af hjarta, að guð gefi lukku og blessun. Um það leyti, er Landakirkja var fullger, var hafin bygging Bessastaðakirkju, sem því er nokkrum árum yngri. Var notað til kirkjubyggingarinnar á Bessastöðum ýmislegt frá smíði Landakirkju. Af bréfum frá þessum tímum um þessi málefni sést að áformað er, að Bessastaðakirkja verði 7 álnum lengri en Landakirkja.


Tilvitnanir og umfjöllun neðanmáls í þessum kafla:
46) De mirabilibus Islandiæ, Gísli biskup Oddsson.
47) Úttektarbækur Rangárvallaprófastsdæmis, Þjóðskjs.
48) Bréfabók Gísla Oddssonar.
49) Árb. 1913, sóknarlýsing Br.J.
50) Bænarskjal Odds biskups og 15 klerka til konungs 20. júlí 1592.
51) Á klukkunni stendur: „Hans Klemmer (að líkindum þýzkur smiður) me fecit“ (smíðaði).
52) Sbr. Þjóðs. Jóns Árnasonar I, 642—43.
53) Sbr. einnig Biskupasögur J.H., I, 147—48.
54) Reikningsbók Landakirkju, Þjóðskj.s.
55) A.M. Embedsskrivelser, Landsbókasafnið.
56) Visitasíubók J. Vídalíns, Þjóðskjs.
57) Alþb. IV, bls. 31—33.
58) Reikningsbók kirkjunnar frá 1631-1704.
59) Sjá bréf umboðsmanns frá 1718.
60) Sbr. Reikningsb. kirkjunnar.
61) A.M. Embedsskriv. 349, Underdanig Memorial om Landekirke udi Westmannöe, bréf A.M. til Gyldenlöve, 23. sept. 1709.
62) Jón Vídalín og hans Postil Odense 1929, bls. 5.
63) Vísitasíubók Jóns biskups Vídalín 1699—1705, 1710—1719, Þj.skj.s.
64) Vísitasíubók Rangárvallaprófastsdæmis, Þjóðskj.s.
65) Sjá Tyrkjaránssöguna, XXXV, IV, og Árb. Fornl.fél. 1936.
66) Niels Chlemedtzon gaf kirkjunni rautt altarisklæði 1640 (Reikningsbók Landak.).
67) Norske Tegn, Lovs. II, 89—90.

5. hluti

Til baka



Saga Vestmannaeyja efnisyfirlit