Saga Vestmannaeyja I./ III. Kirkja, 1. hluti

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit


III. Kirkja
(1. hluti)


Kirkja var reist í Vestmannaeyjum þegar árið 1000, kristnitökuárið, en þó áður en kristni var lögtekin hér á landi. Eftir því sem næst verður komizt um byggingu fyrstu kirkna hér, hefir kirkjan í Vestmannaeyjum verið fjórða eða fimmta elzta kirkjan hér á landi. Eldri kirkjur eru í Kirkjubæ á Síðu, sem talin eru full líkindi til að Ketill hinn fíflski, er var kristinn landnámsmaður og bjó á Kirkjubæ, muni hafa reist á bæ sínum. Næst má telja kirkjuna á Esjubergi á Kjalarnesi, er byggði Örlygur Hrappsson Bjarnarsonar Bunu Ketilssonar Flatnefs, er var kristinn landnámsmaður og kom hingað úr Suðureyjum eins og hinn fyrrnefndi¹). Þeir Máni í Holti og Þorvarður Spak-Böðvarsson að Ási í Hjaltadal, er höfðu skírast látið af þeim Þorvaldi hinum víðförla Koðránssyni og Friðriki biskupi, er þeir boðuðu kristna trú hér á landi árin 981—986, byggðu heimakirkju, hvor á sínum bæ. Verið getur að Vestmannaeyjakirkja sé fyrsta eiginlega sóknar- eða héraðskirkja, er byggð var hér á landi. Hún er byggð einmitt um það leyti, er kristin trú er lögtekin hér, og þar á eftir hefjast byggingar kirkna almennt.

ctr


Þennan úthöggna kross er að finna í Heimakletti. Hann virðist höggvinn að kaþólskum sið og er sennilega frá miðöldum. Þó er erfitt að fullyrða nokkuð um aldur hans. (Mynd úr endurútgáfu).


Kirkjuna í Vestmannaeyjum létu þeir reisa Gissur hinn hvíti Teitsson frá Mosfelli og Hjalti Skeggjason úr Þjórsárdal, árið 1000, er þeir komu frá Noregi til Íslands, að boði Ólafs konungs Tryggvasonar, um að reisa þar kirkju, er þeir kæmu fyrst að landi.
Á þessum tímum getur Ormur Herjólfsson á Ormsstöðum hafa verið á lífi og eigi allgamall, og hann átti einn Vestmannaeyjar. Vera kann að Ormur hafi verið búinn að taka áður kristna trú annaðhvort af Þangbrandi, sem er líklegra, eða af Stefni Þorgilssyni. Um þetta er þó ekkert hægt að fullyrða, en hafi svo verið var kirkju betur borgið hér á undan hinni almennu kristnitöku en víðast annars staðar hér á landi. Það, sem segir í Kristnisögu, „þar voru áður blót og hörgar“, fyrir norðan voginn, þar sem kirkjan var reist, virðist benda fremur til hins framantalda, og að búið hafi verið að eyða blóti og hörgum fyrir þann tíma, er kirkjan var byggð, af kristnum landeiganda.
Það gæti og hugsazt, að kirkjan hafi verið reist fyrir tilstyrk kristinna kaupmanna á eyjunum, norrænna, því að líklegt er, að þegar á þeim tímum hafi verið hér verzlun nokkur samfara því að eyjarnar voru veiðistöð. Af skiljanlegum ástæðum verður ekkert um þetta fullyrt, en hins vegar virðist liggja nærri, þegar á allt er litið, að mega álykta, að kirkjan hafi verið reist með ráði og samþykki megandi manna í eyjunum, svo að þeir, er þarna stóðu að byggingu kirkju þeirrar, er Ólafur konungur hafði gefið, gátu eftirlátið hana í fullu trausti þess að helgi hennar yrði eigi raskað og að hún fengi framvegis að vera í friði, eftir að þeir höfðu yfirgefið eyjarnar eftir aðeins tveggja daga dvöl þar og farið til lands.
Að þeir Gissur og Hjalti hafi haldið fund með eyjamönnum eða almenningi þennan stutta tíma, sem talið er að þeir hafi dvalið hér í umrætt skipti, og fengið fólkið til að taka kristna trú, eða jafnvel þröngvað því til þess, er næsta ólíklegt, enda þessa eigi getið í Kristnisögu eða annars staðar, og hefði þó verið full ástæða til að geta jafnmikilsverðs atburðar, ef þessu hefði verið þannig farið. Slík tilraun gat þá vel verið framkvæmanleg, ef þeir voru í eyjunum ráðandi menn, er kristnir voru eða hlynntir kristinni trú.
Fyrsta kirkjan, er byggð var í Noregi, var byggð af Ólafi konungi Tryggvasyni á eynni Mostur, eftir að konungur hafði fengið eyjaskeggja til að heita því að ganga undir hinn nýja sið. Eftir elztu norskum heimildum um kristnitökuna í Noregi tókst Ólafi konungi fyrst að kristna fólkið í sjávarhéruðunum í Noregi og var kristniboðinu framfylgt með oddi og egg, ef annað dugði eigi²).
Svertingur sonur Runólfs goða í Dal, þess manns, er einmitt er líklegt að hafi haft goðorðsumráð yfir Vestmannaeyjum, var einn af gíslum þeim, er Ólafur konungur hélt eftir í Noregi, þar til útséð var um, hversu þeim Gissuri farnaðist á Íslandi. Þetta gat valdið því, að eyjamenn, hvernig sem trú þeirra annars var háttað, unnu eigi á móti kirkjubyggingunni. Í þessu sambandi mætti og á það líta, er segir í Ólafssögu, að konungur hafði fengið þeim Gissuri fé eigi lítið til þess að vingast við höfðingja og þeir hins vegar heitið góðum árangri og að fara að með ráðum. Um útkomu Gissurar og Hjalta og um kirkjubygginguna í Vestmannaeyjum getur í Kristnisögu³) og í Biskupasögum⁴).
Þeir Gissur og Hjalti höfðu haft vetursetu í Noregi og komu út vorið 1000 og fóru með kristniboðserindum Ólafs konungs Tryggvasonar. Segir svo í Kristnisögu: 1. Um vorið bjuggu þeir Hjalti og Gissur skip sitt til Íslands. Margir löttu þess Hjalta, en hann gaf sig ekki um það. 2. Það sumar fór Ólafur konungur suður til Vindlands, þá sendi hann og Leif Eiríksson til Grænlands, að boða þar trú. Þá fann Leifur Vínland hið góða, hann fann og menn á skipsflaki í hafi. Því var hann kallaður Leifur enn heppni. 3. Gissur og Hjalti komu þann dag fyrir Durhólmaós, er Brennu-Flosi reið um Arnarstakksheiði til alþingis. Þá spurði hann af þeim mönnum, er til þeirra höfðu róið, að Kolbeinn bróðir hans var tekinn í gísling og allt um erindi þeirra Hjalta og sagði hann þau tíðindi til alþingis. 4. Þeir tóku þann sama dag Vestmannaeyjar og lögðu skip sitt við Hörgaeyri; þar báru þeir föt sín á land og kirkjuvið þann, er Ólafur konungur hafði látið höggva og mælt svo fyrir, að kirkjuna skyldi þar reisa, er þeir skyti bryggjum á land. 5. Áður kirkjan var reist var hlutað um hvorum megin vogsins standa skyldi og hlauzt fyrir norðan, þar voru áður blót og hörgar. 6. Þeir voru 2 nætur í eyjunum, áður þeir fóru inn á land. Það var þann dag, er menn riðu á þing. Þeir fengu engan farargreiða né reiðskjóta fyrir austan Rangá, því að þar sátu þingmenn Runólfs, Runólfs goða í Dal, í hverju húsi. 7. Þeir gengu þar til er þeir komu í Háf til Skeggja Ásgautssonar, hann fékk þeim hesta til þings, en Þorvaldur sonur hans var áður heiman riðinn, er átti Koltorfu systur Hjalta. En er þeir komu í Laugardal fengu þeir það af Hjalta, að hann var eftir með tólfta mann, því að hann var sekur fjörbaugsmaður. 8. Þeir Gissur riðu þar til þeir komu til Vellankötlu við Ölfusvatn. Þá gerðu þeir orð til alþingis, að vinir þeirra og venzlamenn skyldu ríða í mót þeim. Þeir höfðu þá spurt, að óvinir þeirra ætluðu að verja þeim þingvöllinn. 9. En áður þeir riðu frá Vellankötlu, komu þeir Hjalti þar, og voru þá frændur þeirra og vinir komnir í móti þeim, og riðu þeir þá á þing með miklum flokki og til búðar Ásgríms Elliðagrímssonar, systursonar Gissurar. Þá hlupu hinir heiðnu menn saman með alvæpni og horfði stór nær, að þeir myndu berjast, þá voru þeir sumir, er skirra vildu vandræðum, þó að eigi væri kristnir. 10. Þormóður hét prestur sá, er Ólafur konungur hafði fengið þeim Hjalta og Gissuri. Hann söng messu um daginn eftir á gjábakka upp frá búð Vestfirðinga. 11. Þaðan ganga þeir til Lögbergs. Þar voru VII menn skrýddir. Þeir höfðu krossa tvo, þá er nú eru í Skarði hinu eystra, merkir annar hæð Ólafs konungs Tryggvasonar, annar hæð Hjalta Skeggjasonar. Segir í Kristnisögu frá atburðunum um kristnitökuna.
Þetta sumar var kristni lögtekin á Alþingi. Í Kristnisögu segir svo, sbr. 13. kafla: „Sumar þetta er kristni var lögtekin á Íslandi var liðið frá holdgan vors herra Jesu Christi M vetrar“ ⁵). Árið 1000 áttu goðarnir að vera komnir til þings fimmtudaginn 20. júní.
Þeir Gissur og Hjalti hafa komið fyrir Dyrhólmaós þriðjudaginn 18. júní og sama dag tóku þeir Vestmannaeyjar. Þar voru þeir tvær nætur, komu þeir á land fimmtudaginn 20. júní, en laugardaginn 22. júní hafa þeir komið á Alþingi ⁶).
Í Íslendingabók Ara prests Þorgilssonar hins fróða getur farar þeirra Gissurar og Hjalta úr Noregi ásamt Þormóði presti, og komu þeirra í Vestmannaeyjar á heimferðinni, er 9 vikur voru af sumri árið 1000. Eru heimildirnar samdóma um þetta. Hins vegar er gengið fram hjá því í Íslendingabók eða þess eigi getið, að þeir Gissur og Hjalti hafi skipað upp kirkjuviði í Vestmannaeyjum og reist þar kirkju samkvæmt loforði til Ólafs konungs, og tafizt við það tvo daga; heldur er sagt, að þeir Gissur hafi þegar farið til meginlandsins. Svo er jafnvel að sjá eftir þessu, að höfundi Íslendingabókar hafi eigi verið kunnugt um kirkjubygginguna í Vestmannaeyjum, sem virðist eigi geta verið rétt.
Hina skýru frásögn Kristnisögu um ofangreinda atburði hefir samt eigi þótt ástæða til að véfengja, heldur hefir hún verið talin áreiðanleg og sönn í alla staði, og engu síður þótt Ari fróði væri einnig höfundur Kristnisögu eins og haldið hefir verið fram af mörgum, þótt hitt þyki líklegra, að hún sé samin af þeim öðrum hvorum Katli Hermundarsyni ábóta á Helgafelli eða Styrmi príor Kárasyni hinum fróða ⁷).
Eigi verður annað sagt en að mjög geti það orkað tvímælis, hvar þessi fyrsta kirkja Vestmannaeyja var reist í öndverðu, enda þótt fylgt sé orðalagi sjálfrar frásagnarinnar, eins og kemur í ljós við nánari athugun, þótt frásögnin virðist í fljótu bragði allskýr. Flestir, er um þetta mál hafa ritað, hafa fylgt bókstafnum í orðum Kristnisögu „fyrir norðan voginn“, og talið líklegt, að kirkjan hafi verið reist norðan megin hafnarinnar eða skipalægisins, sem er nú nefnt úti á Botni, án þess þó að menn hafi getað verið sammála um staðinn. Þessir staðir hafa verið tilnefndir: Brynjólfur Jónsson á Minna-Núpi ⁸) álítur, að kirkjan hafi verið reist „suður og vestur frá Heimaklettsnefinu, Kleifnaberginu, þar sem nú heitir Litla-Langa“. Fer þetta saman við skoðun Sigurðar hreppstjóra Sigurfinnssonar ⁹). Báðir færa það fram aðallega til stuðnings máli sinu, að fundizt hafi mannabein í sandinum í sjónum undir Litlu-Löngu, er bendi á grafreit þarna.
Séra Brynjólfur Jónsson segir í sóknarlýsingu sinni, að kirkjan muni hafa verið byggð undir Löngu, ef þar hafi verið áður undirlendi, og hlýtur hann þá að eiga við Litlu-Löngu, því að hann tilfærir, að mannabein hafi fundizt þarna undir Löngu. En eigi er kunnugt um, að þau hafi fundizt annars staðar á þessum slóðum en undir Litlu-Löngu. Séra Brynjólfur segir að Langa sé hamar einn í sunnanverðum Heimakletti, sem eigi er rétt, heldur eru Löngurnar, Stóra og Litla, sandtorfur, að nokkru grasivaxnar, undir Heimakletti og niður frá þeim sandvik að sjónum ¹⁰). Séra Jón Austmann segir í sóknarlýsingu sinni, að kirkjan muni hafa verið reist undir Stóru-Löngu ¹¹): „Norðan megin við skipaleguna vestanhallt við Klemuseyri kallast Langa, sem er mjó grasivaxin torfa fram með Heimakletti, og er þar á stundum haft fé um tíma, sem flytjast á í úteyjar — hér undir Löngu (Stóru-Löngu, austan Kleyfnabergsins), norðan megin vogsins — var kirkja allrafyrst reist á Vestmannaeyjum, af Gissuri Hvíta og Hjalta Skeggjasyni.“ Aðrir hafa talið ¹²), að kirkjan hafi verið reist á „eyrinni sunnan undir Heimakletti, er kemur upp um fjöru, og sem á uppdrætti landmælingadeildar herforingjaráðsins danska frá 1905 er nefnd Hörgaeyri.“ Er nafnið hér tekið upp í þeirri trú, að þetta sé Hörgaeyrin forna í Vestmannaeyjum. En sá gallinn er á, að fjarri er því, að sannanir hafi verið færðar fyrir þessu. Er hitt miklu líkara, að þetta sé eigi Hörgaeyrin. Hefir Hörgaeyrarnafnið aðallega verið notað eftir að téður uppdráttur var gerður ¹³). En á uppdrættinum er einmitt fylgt A.M. Chorographica Islandica ¹⁴). Þar segir svo: „Hörgaeyri meinast að hafa heitið í Vestmannaeyjum eyri sú, er nú kallast Klemuseyri, liggur norðan til við voginn, nokkru innar en þvert yfir frá Skanzinum.“ Hér mun vera um tilgátu eina að ræða út frá Hörgaeyranafninu og frásögninni í Kristnisögu. Brynjólfur á Minna-Núpi kallar eyrina Hörgaeyri og fer þar eftir ofannefndum uppdrætti. Séra Brynjólfur Jónsson segir í sóknarlýsingu sinni, að Hörgaeyri sé ekki framar til, nema ef hún hefði breytt nafni og væri hið sama, sem nú er kallað Klemuseyri. Séra Jón Austmann kallar eyrina Klemuseyri. Klemuseyri er og eyrin nefnd í bréfi 14. febr. 1830 frá hafnsögumönnunum á eyjunum, og virðist það hafa verið algengasta nafnið ¹⁵). Klemusarnafnið halda sumir, að sé dregið af nafni kaupmanns eins, er hér var ¹⁶). Það gæti og verið kennt við Eyjamenn, þá Klemus Jónsson t.d., er hér var nefndarbóndi seint á 17. öld, eða Klemus Guðmundsson bónda hér fyrir miðja 17. öld ¹⁷).
Hér skulu nú athugaðir nánar þeir staðir, sem líklegast þykir að kirkjan hafi verið byggð á. Af þessum stöðum er eyrin sunnan undir Heimakletti, Hörgaeyri, nefnd á uppdrætti herforingjaráðsins 1905, ólíklegust sem kirkjustæði. Hér gat eigi verið reist nein kirkja, sem átti að vera varanleg sóknarkirkja. Kirkjan var hér bæði afskekkt og illa sett, og gildir sama þótt tekið sé fullt tillit til mikilla landeyðinga á þessum slóðum síðan um árið 1000. Frásögnin lýsir því sjálf, að hof og hörgar hafi verið þar áður, er kirkjan var reist. Hefir þá hér eins og venja var til í hinni fyrstu kristni kirkjan einmitt verið reist þar, sem menn höfðu hof sín. Hofin og síðan kirkjan hafa hlotið að vera á þeim slóðum, er voru í samhengi við sjálfa byggðina. Vogurinn aðskildi byggðina og Eyrina og ólíklegt að menn hafi byggt kirkju, er sækja þurfti til yfir voginn, slíkur farartálmi sem það var. Þess má geta, að í daglegu tali var nefnd Eyri eða Norðureyri undir Heimakletti.
Mjög miklar breytingar á staðháttum og landslagi strandlendis við höfnina og Leiðina í Vestmannaeyjum hafa orðið bæði fyrr á öldum og síðar, og eyðing lands af ágangi sjávar, samfara uppblæstri. Þetta hefir gerzt smám saman, enda sést hvergi getið skyndilegra landeyðinga eða skemmda af náttúrunnar völdum á þessum stöðvum fyrr á tímum. Það virðist sem margir hafi viljað miða umrædda landeyðingu við helzt til skamman tíma og fylgt um of bókstafnum í Kristnisögu um kirkjubyggingu á eyjunum fyrir „norðan voginn“ svonefnda.
Það er í þessu efni mikilsvert að geta sýnt fram á það, að fyrir hendi eru góðar heimildir, er geta gefið manni allglöggar hugmyndir um viðhorfið á umræddum slóðum fyrir löngu liðnum tímum, eða fast aftur að 1200 eða lengra. Ályktanir þær, er af þessu verða leiddar, og í sambandi þar við af orðum Kristnisögu sjálfrar, hljóta að mæla eindregið þar á móti, að umrædd kirkja hafi verið reist á eyrinni sunnan undir Heimakletti, sem á korti herforingjaráðsins er nefnd Hörgaeyri. Skal þessi staður nú athugaður hér nánar.
Að kirkjan hafi verið reist á nefndri eyri sunnan Heimakletts, en norðan Leiðar, er og harla ósennilegt, þegar af þeirri ástæðu, að eigi gat þarna verið um óhultan stað að ræða sökum grjóthruns úr Heimakletti, enda líklegt, að eyrin sjálf kunni að vera mynduð af grjóthruni, og að vísu kunnugt um að stór björg hafa fallið þarna nærsvæðis og sum oltið langt fram. Hér svo nálægt fjallinu gat eigi komið til mála að reisa varanlegt guðsþjónustuhús eða sóknarkirkju fyrir Vestmannaeyjar, einnig af öðrum ástæðum, er taldar skulu.
Ef vér bregðum fyrir okkur í huganum mynd af landinu eins og það hefir hlotið að vera á þessum slóðum árið 1000, svo gerlegt hafi þótt að reisa kirkju og kirkjugarð þarna undir Heimakletti, hlýtur landslag að hafa breytzt mjög mikið og orðið stórkostleg landbrot og landeyðing af ágangi sjávar á tiltölulega stuttum tíma, sbr. það, er virðist fært að álykta um landslagið á þessum stöðum allsnemma, svo sem um 1200. Sundið, sem nú aðskilur, hefði þá hlotið að vera mjög stutt, svo að samgróið hafi verið nær sunnan yfir, því ella, ef sundið hefði verið langt og allbreytt í líkingu við það sem nú er, hefðu þeir, er kirkjuna áttu að sækja, orðið að krækja alllanga leið inn fyrir og síðan fara út á eyri. En að sundið hafi einmitt þegar um árið 1000 verið allmikið virðist og mega ráða af frásögninni í Kristnisögu, er nefnir orðið vog, „fyrir norðan voginn“, og getur þar eigi verið átt við annað en innsævið vestur af Heimaklettseyrinni og Leiðinni, sunnan Heimakletts, Neðri-Kleifa og Eiðis, sem að norðan myndar innri höfnina og bátalægi Eyjanna og að sunnan bátainnsiglinguna inn í Læk og vestur á Tanga. Að vísu er eigi með þessu sagt, að Botninn, úti á Botni, eins og þetta svæði er nefnt í daglegu tali, hafi á umræddum tíma náð eins langt inn og seinna gerðist. Á fyrrnefndum stað, Heimaklettseyrinni, var því kirkja mjög illa sett og allfjarri byggðum, eins og þeim alla tíð hefir verið háttað í Vestmannaeyjum. Eigi var heldur hægt að bæta úr þessu t.d. með brúarbyggingu yfir Leiðina eða sundið. Engin brú gat haldizt þar sökum sjávargangs, það hljóta allir að játa, er til þekkja. Hafi hins vegar landið náð saman milli eyranna, Heimaklettseyrar, Hörgaeyrar á korti herforingjaráðsins, og Hafnareyrar og vestur eftir, hljóta stórkostleg og hraðfara náttúruumbrot að hafa verið hér að verki, til að færzt hafi í það horf, eins og hér virðist komið um 1200, eftir fyrirliggjandi heimildum, sbr. og það, er að ofan segir um orðin í Kristnisögu „fyrir norðan voginn“. Nefndar heimildir verða teknar til athugunar hér á eftir, en fyrst vikið nokkuð að frásögninni í Kristnisögu.

Heimildir og umfjöllun neðanmáls í þessum hluta:
1) Islands Kirke dr. J. Helgason, Kh. 1925; Landnáma, V.Á. 1909, 38.
2) A.Chr. Bang: Den norske Kirkes Historie, Kria og Khavn, N. Forlag, 1912.
3) Kristnis. 1905, B. Kahle. Halle.
4) Biskupas. I, 20. Sjá og Ólafs sögu Tryggvasonar, Chria 1895 (M.Þ. Árb. Fornl.fél. 1913).
5) Í Grágás var svo fyrirskipað, að goðar allir skyldu koma til þings fimmta dag viku, er 10 vikur eru af sumri, áður sól gangi af Þingvelli.
6) Biskupasögur I, 20.
7) Árbók 1913.
8) Árbók 1907, bls. 9-11.
9) Árbók 1913.
10 og 11) Sóknarlýsing séra Jóns Austmanns.
12) Matthías Þórðarson, Árbók 1913.
13) Sig. Sigurfinnsson, Árbók 1913.
14) A.M. nr. 213, 8vo, 96.
15) Sýsluskj. V.E., Þjóðskj.s.
16) Sig. Sigurfinnsson, Árbók 1913.
17) Reikn.b. Landak. 1631—1701.


2. hluti


Saga Vestmannaeyja efnisyfirlit