Sögur og sagnir úr Vestmannaeyjum/Steinsstaðabörnin

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit


Steinsstaðabörnin.


Á Steinsstöðum voru endur fyrir löngu tvö börn, átta og tíu ára að aldri. Einhverju sinni voru þau stödd fyrir neðan Hraun, og fóru þau áleiðis heim til sín, nokkru eftir dagsetur. Þegar þau voru komin upp að Landakirkju, sáu þau tvo menn vera að leika sér að einhverjum munum við hólinn, sem er suðaustur af kirkjunni. Snúa þau til þeirra fyrir forvitni sakir. Sjá þau þá, að þeir eru að leika sér að glerbrotum og skeljum. Annar maðurinn var ungur, en hinn gamall og leizt þeim illa á hann, því að hann leit illilega til þeirra. Eldra barnið herðir þó upp hugann og beinir orðum sínum að yngra manninum og segir við hann: „Gefðu okkur svolítið af gullunum þínum.“ Hann svarar: „Fáðu mér þá vettlingana þína.“ Réttir barnið honum vettlingana og tekur hann við þeim, og fyllti þá af skeljum og glerjum. Börnin þakka fyrir sig, og leiðast af stað heimleiðis, því að þau áttu langt heim. En þegar þau komu heim og hvolfdu úr vettlingunum, kom í ljós, að í þeim voru tómir gull- og silfurpeningar. Voru þau spurð, hvar þau hefði tekið þetta, og sögðu þau frá öllu, sem fyrir þau hafði borið. Héldu menn, að þetta hefði verið draugar, sem þarna hefði verið að leika sér að fé sínu.
(Sögn Guðríðar Bjarnadóttur).